Karíbahaf St Lucia meira,
Flag of Saint Lucia

Booking.com

 CASTRIES . .  TÖLFRÆÐI

St LUCIA
NÁTTÚRAN - SAGAN - ÍBÚARNIR - ATVINNULÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

lcmap.jpg (19879 bytes)St Lucia er 44 km löng og 22 km breið.  Hún hefur, líkt og Martinique, sem er 30 km norðar, og St. Vincent 45 km sunnar, hlaðist upp í eldgosum.  Eins og sést á suðurmiðhluta eyjarinnar er gosbeltið, sem hún er á, yngra en hið nyrðra.  Þessi munur sést bezt á mismunandi veðrun.  Nyrðra gosbeltið er frá tertíer og er því meira veðrað en hið syðra.  Eldvirknin á St. Lucia hefur skapað keilulaga fjöll, sem eru víða sundurskorin af lækjar- og árfarvegum.  Hæsta fjallið, Mount Gimie (950 m), er austan bæjarins Soufrière og sunnan hans eru tvö í viðbót, Grand Piton (798 m) og Petit Piton (736 m), hverra vesturhlíðar stinga sér brattar í hafið.  Þessi tvö síðarnefndu fjöll eru orðin heimsþekkt vegna lögunarsinnar og minna helzt á tvíbura.  Þau eru einkennismerki St. Lucia og teljast meðal helztu náttúrufyrirbæra karíbahafsins.

Suðuroddi eyjarinnar er gjörólíkur landslaginu norðan við, því að suðurtanginn er næstum marflatur og láglendur en upp úr honum rísa nokkrir hólar, sem urðu til við framburð ánna á þessum slóðum.  Strandlengja eyjarinnar er mjög vogskorin, fjöllin sæbrött og á milli þeirra hafa árnar hlaðið upp löngum sandströndum.

Lega og náttúrufar.  St Lucia heitir á indíánamáli Hewanorrah.  Hún er á 61°V og 14°N og er ein fegursta eyjan á Austur-Karíbasvæðinu.  Þar eru frábærar baðstrendur, nýtízkuhótel, afskekktar víkur, góðar samgöngur og mjög þolanlegt loftslag fyrir Evrópubúa, þar sem eyjan er í staðvindabeltinu.  Allt gerir þetta St. Lucia að vinsælli ferðamannaeyju.

Loftslagið.  Árið um kring ríkja norðaustlægir vindar.  Því er lítill munur á árstíðum.  Meðahiti reikar á milli 24°C og 27°C og úrkoma er alljöfn allt árið.  Landslag eyjarinnar veldur mestum mun á loftslaginu milli staða.  Hitastig er merkjanlega lægra á hærri svæðum en með ströndum fram en því er öfugt farið með úrkomuna.  Í fjalllendinu er meðalúrkoman 3.800 mm á ári en á suðurströndinni u.þ.b. 1.200 mm.  Meðalhófið milli þessara talna ræðst af hæð staða og skjóli fjallanna.  Helztu ferðamannastaðirnir eru á úrkomuminnstu svæðunum.  Bezti heimsóknartíminn er milli desember og júní, því að þá er svalast, minnst úrkoma og minnst hætta á fellibyljum.

Gróður.  Lítið er eftir af upprunalegum gróðri á eyjunni.  Hinir horfnu frumskógar voru miskunnarlaust felldir til öflunar byggingarefnis og í þeirra stað uxu óeðlari skógar, sem þekja nú u.þ.b. helming flatarmáls eyjarinnar.  Síðustu leifar upprunalegra regnskóga er að finna á ill- eða óaðgengilegum slóðum uppi til fjalla. 

Sagan.  Engar skriflegar heimildir eru til um uppgötvun St. Lucia.  Líklega kom Kólumbus auga á hana á degi heilagrar Lúsíu í fjórðu ferð sinni (18. júní) árið 1502 án þess að fara þar í land.  Þótt misstórir flotar skipa frá Evrópu vörpuðu akkerum fyrir ströndum eyjarinnar fyrstu áratugi landnáms Karíbaeyjanna, komu hinir herskáu karíbar í veg fyrir landnám Evrópubúa þar um langt skeið.  Spænskir könnunarleiðangrar komu þar við í leit að þrælum, sem notaðir voru við námugröft á öðrum eyjum.  Franskir sjóræningjar komu sér fyrir á nokkrum stöðum og ensk skip lögðust við akkeri til að endurnýja vatnsbirgðir sínar.

Árið 1605 gerðu 67 Englendingar fyrstu tilraun til landnáms.  Þeir voru á leið til Guyana í Suður-Ameríku en villtust og voru orðnir vistalitlir, þegar þeir ákváðu líklega að koma sér fyrir þar sem nú stendur Gamlavirki (Vieux Fort).  Tilraunin mistókst vegna innbyrðis ósamlyndis og bardaga við karíbana.

Eftir þessar ófarir lýstu Frakkar eignarhaldi sínu yfir eyjunni og árið 1535 fékk franski konungurinn undirsátum sínum yfirráð yfir landspildum þar.  Þrátt fyrir þessar ráðstafanir Frakka, voru það Englendingar, sem héldu áfram tilraunum til að nema land.  Lítill hópur, sem tók sér búsetu á St. Lucia árið 1638, varð að flýja undan karíbum tveimur árum síðar.  Árið 1642 fékk franski konungurinn, Lúðvík VIII, Vestur-Indíafélaginu yfirráðin yfir eyjunni, en margir landstjóra félagsins féllu fyrir karíbunum.  Ástandið batnaði ekki fyrr en friðarsamningar voru gerðir milli Englendinga, Frakka og karíba árið 1660.  Ekki leið þó á löngu þar til skarst í odda milli Frakka og Englendinga á ný.  Á þessu tímabili skiptu þeir 14 sinnum um völdin á eyjunni.  Það var ekki fyrr en árið 1803, að yfirráð Englendinga urðu ótvíræð og við friðarsamningana í París árið 1814 var staðfest að St. Lucia væri brezk krúnunýlenda.  Hún gekk í bandalag Áveðurseyja árið 1971.

Báðar heimsstyrjaldirnar höfðu mikil áhrif á St. Lucia, þótt eyjan væri fjarri átakasvæðunum.  Skipaferðir urðu strjálli, þannig að mörg aðföng skorti.  Þar sem eyjan var brezk nýlenda, varð að senda hermenn þaðan til að berjast undir samveldisfánanum og Bandaríkjamönnum var veitt leyfi til að byggja flugvöll fyrir flugherinn og hafnaraðstöðu fyrir sjóherinn.  Flugvöllurinn var nefndur Beane Airfield, en þar er nú Hewanorra-flugvöllurinn.  Hinn 9. marz 1942 urðu tvö skip í höfninni í Castries fyrir tundurskeytum þýzks kafbáts.

Í febrúar 1967 fékk eyjan heimastjórn og árið 1972 fékkst fullt sjálfstæði.  Þjóðhöfðinginn er Elísabet II drottning og fulltrúi hennar á eyjunni er landstjóri.

Íbúarnir.  U.þ.b. 80% íbúanna 140.000 búa í höfuðborginni (50.000), umhverfis hana í dal Castries árinnar og á suðurströndinni í grennd við Gamlavirki.  Afgangurinn býr í bænum Soufrière og nokkrum öðrum strandbæjum.  Láglendustu svæði miðeyjarinnar eru einnig byggð, einkum frjósamir dalir.

Tveir þriðju hlutar íbúanna eru svartir og nærri þriðjungur múlattar.  Þessir þeldökku íbúar eru afkomendur 13.000 þræla, sem fluttir voru til eyjarinnar og fengu frelsi árið 1840.  Tiltölulega fáir eru afkomendur indverskra verkamanna.  Evrópumenn eru innan við 1%.

Fólksfjölgun er allmikil eins og á öðrum Karíbaeyjum, 2,7%.  Glögg merki hennar er fjöldi kofa úr timbri og bárujárni í íbúðarhverfum höfuðborgarinnar.  Fátækt íbúanna hefur á seinni tímum valdið ófriði og óeirðum.

Atvinnulífið.  Þrátt fyrir alla viðleitni stjórnvalda er St. Lucia enn þá dæmigert landbúnaðarland, því að 80% alls útflutnings eru landbúnaðarafurðir og 40% mannaflans eru bundinn við undirstöðuatvinnu-greinina.  Auk þessa eru 10.000 sjálfsþarfafyrirtæki í landbúnaði.

St. Lucia var mikilvægur framleiðandi sykurs í meira en tvær aldir en þeirri grein hefur hrakað stöðugt síðan á sjötta áratugnum.  Í stað hennar var hafin óarðbærari ræktun banana á fyrrum sykurplantekrum í hinum stærri dölum, s.s.Roseau, Cul de Sac og Dennery.  Sníkjudýrum og jurtum er eytt af bananaplantekrunum með eiturúðun úr flugvélum.  Árið 1963 var síðustu sykurverksmiðjunni á eyjunni lokað.  Auk banana, sem eru rúmlega 80% útflutningsins, er ræktun kókospálma og kaffiplantna orðin mikilvæg.  Múskat og sítrusávextir eru líka ræktaðir í auknum mæli.  Í Soufrière er unnin olía úr kókoskjörnum og framleidd sápa.  Stjórnvöld styrkja kvikfjárrækt til þess að landið verði með tímanum sjálfu sér nægt með kjöt og mjólkurafurðir og geti hætt innflutningi þeirra vara.

Útflutningur landbúnaðarafurða er tiltölulega mikill, þrátt fyrir að einungis þriðjungur lands sé ræktaður.  Framleiðni er mikil og lögð áherzla á að auka hana enn með nútímatækni.  Helmingi ræktaðs lands er skipt niður í u.þ.b. 20 ha stórar spildur fyrir smábændur og aðeins 40% lands liggur undir stórbúum.

Störf, sem ekki tengjast landbúnaði, er tæpast annars staðar að hafa en í höfuðborginni, Castries og í litlum mæli í Soufrière, Vieux Fort (Gamlavirki) og Gros Islet.  Lítil iðnfyrirtæki framleiða vefnaðarvörur, pappírsvörur og gerviefni.  Margir vinna við ýmiss konar verkamannavinnu, verzlun og viðskipti og þjónustustörf. 

Ferðaþjónustan
hefur þróast ört vegna aðdráttarafls þessarar fögru eyju.  Þessi atvinnugrein er bæði gjaldeyrisskapandi og krefst mikils vinnuafls.  Árið 1985 voru rúmlega 3000 gistirými í landinu og 1990 hafði sú tala tvöfaldast.

Hátt á þriðja hundrað þúsund dvalargesta og farþega skemmtiferðaskipa á ári hafa séð til þess, að ferðaþjónustan er orðin að öðrum mikilvægasta atvinnuvegi landsins.  Samt veldur skipulagsleysi því, að upp undir 60% af tekjum greinarinnar hverfa úr landi.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM