JAMAICA
MEIRA

Map of Jamaica

Karíbahaf Jamaica meira,
Flag of Jamaica

Booking.com

SAGAN

.

Utanríkisrnt.

RÆÐISMENN

Tveir þriðju hlutar eyjarinnar eru kalkslétta og þar finnst mikið báxít, sem er grafið upp og flutt út.  Sandstrendur er að finna allan hringinn en þær eru mjóar á norðanverðri eyjunni.  Þar sem úrkoma er næg, vaxa regnskógar, einkum í Bláfjöllum og á miðhálendinu.

Þyrnirunnar og grassléttur er að finna á þurrari svæðum.  Með ströndum fram eru mangrovetré og dalir eru vaxnir skógi upp eftir hlíðum.  Náttúrulegur gróður hefur vikið fyrir landnýtingu á láglendissvæðum, enda hafa þau verið nýtt fyrir plantekrur allt frá upphafi nýlendutímans.

Hæðir og hálendi hafa að hluta verið nýttar af smábændum.  Nýir atvinnuvegir hafa rutt sér til rúms á þessum svæðum síðustu áratugi.  Þar má nefna báxítnámavinnslu á kalksléttunum og kalkleirsnám á sömu slóðum, á láglendinu hefur fullvinnsluiðnaður þrengt að plantekrunum, þar sem ræktaður er sykurreyr og kókospálmar og með ströndum fram ríkir ferðaþjónustan í öllum sínum myndum.  Vegna þessarar þróunar hefur efnahagslegt mikilvægi sykurreyrsins minnkað mjög.

Loftslagið.
  Vegna sunnlægrar breiddar er hitabeltisloftslag allt árið á Jamaica.  Hitastig breytist lítið, á veturna 28°C og 30°C og á nóttunni fer hitinn ekki undir 22°C.  Hitastig sjávar við strendur eyjarinnar er 24°C á veturna og 27°C á sumrin.  Passatvindurinn á norður- og austurhlutunum og stöðug skipti milli hafs- og landgolu á suðurhlutanum gerir íbúum norðlægari slóða hitann bærilegan.  Regntíminn byrjar í ágúst og mest rignir í oktober.  Oft rignir líka í maí.  Hiti er lægstur og minnstar líkur á regni á tímabilinu nóvember til apríl.  Mismikið rignir á Jamaica eftir landshlutum.  Í Bláfjöllum á austurhlutanum er meðalársúrkoma 5000 mm en á suðurströndinni, sem er í regnskugga fjallanna, er meðaltalið 1000 mm. Þegar svo ber undir, geisa hvirfilvindar, sem skilja eftir sig slóð eyðileggingar og dauða.

Ríkið og stjórnsýslan.  Jamaica hefur verið sjálfstætt, þingbundið konungsríki innan Brezka samveldisins síðan 1952.  Bretadrottning er þjóðhöfðinginn, sem felur ríkisstjóra að annast stjórnina fyrir sig.  Forsætisráðherra er í fararbroddi ríkisstjórnarinnar.  Þingið starfar í tveimur deildum.  Í neðri deild sitja 60 þjóðkjörnir þingmenn til fimm ára en í öldungadeild sitja 21 tilnefndir þingmenn.  Ríkinu er skipt niður í sýslur,  Jamaica er í Sameinuðu þjóðunum, CCM (Karíbamarkaðurinn), OAS (Samb. Ameríkuþjóða), SELA (Samb. latn. Ameríkuþjóða) og er tengd evrópska efnahagsbandalaginu.

Atvinnulífið.  Landbúnaður:  2.690 km2 af 11.424 km2 eru nýttir sem akurlendi og til stöðugrar ræktunar.  Fimmtungur eyjarinnar er ónýtilegur til ræktunar.  Tæp 9% eyjarinnar eru vaxin náttúrulegum skógum.  U.þ.b. 25% lands eru vaxin runna- og kjarrgróðri eða eru fenjasvæði, sem ekki eru nýtileg.  Þessi skipting skapast af mismunandi jarðvegsgæðum og úrkomumagni.  Auk sykur- og bananaræktunar (>30%) stunda menn ræktun sítrusávaxta, kókoshneta, kaffis, kakós, negulnagla og tóbaks í talsverðu magni.  Auk hinnar miklu útflutningsframleiðslu plantekranna þrífast einhvern veginn óarðbær smábýli samhliða þeim.  Af 179.000 landbúnaðarfyrirtækjum eru 59.000 minni en einn hektari (að meðaltali 0,6 ha), þannig að smábýlin eru einungis rekin til að fæða bændurna sjálfa og afla þeim örlítilla tekna.  Þrátt fyrir að landbúnaðarsvæði hafi minnkað úr 810.000 ha í 500.000 á árunum 1964 - 1989, hefur smábændum fjölgað.  Flest smábýlanna eru á miðhálendinu, þar sem jarðvegseyðing vofir stöðugt yfir á mörkum hins ræktanlega lands vegna hæðar yfir sjó.  Helztu einkenni smábændasamfélagsins er offramboð vinnuafls, skortur á véltækni, litlar framfarir í vinnubrögðum og erfið markaðssetning.  Landbúnaðurinn er ekki lengur eins öruggur atvinnuvegur vegna stöðugs flótta fólks úr sveitunum í þéttbýlið, þótt allt að 32% vinnuaflsins væru bundin í honum árið 1984.

Sykurræktunin er enn þá mikilvæg á Jamaica, þótt dregið hafi úr henni allt frá 19. öld.  Nú eru aðeins eftir 8 svæði, þar sem ræktaður er sykurreyr (1989).  Helztu afurðir hans er sykur, romm og melassi.  Meira en helmingur uppskerunnar kemur frá plantekrunum en restin frá u.þ.b. 25.000 minni framleiðendum, sem skera upp á milli 3 - 100 tonna á ári.  Árið 1985 nam sykurreyrsuppskeran 2,4 milljónum tonna.  Efnahagsbandalag Evrópu tryggir Jamaica sölu á 125.000 tonnum af sykri á ári og USA 25.000 kaupir 25.000 tonn.  Nálægt 7% (9% á uppskerutímanum) vinnuaflsins fær tekjur sínar  af hefðbundinni sykurframleiðslu.  

Þeir, sem hafa flúið land í leit að betra lífi, líta á vinnuna á plantekrunum sem argasta þrælahald, einkum vegna síaukins launamunar milli landbúnaðarverkamanna og námamanna í báxít- og kalkleirsnámunum.  Ekki er að búast við því að hlutfallið verði landbúnaðarverkamönnum hagstæðara, þar sem laun á plantekrunum eru 50% af heildarkostnaði en aðeins 3% í námunum.  Af efnahagsástæðum hefur 5 af 20 sykurverksmiðjum verið lokað frá 1965.  Fjórar þeirra, sem enn þá eru í gangi, gætu ekki þrifist án niðurgreiðslna frá ríkinu.  Vegna takmarkaðrar vélvæðingar er framleiðni í sykurframleiðslu minni á Jamaica en í öðrum löndum, sem keppa á markaðnum.  Þar sem tæknin er nýtt, fæst 1 tonn af sykri úr 7 tonnum af sykurreyr.  Stjórnvöld á Jamaica bönnuðu notkun uppskeruvéla vegna mikils atvinnuleysis. A.m.k. er ekki um vélvæðingu að ræða annars staðar en á stórbúum.

Bananaræktun er mikilvægur og hefðbundinn liður í landbúnaðnum.  Mestur hluti uppskerunnar er fluttur út.  Því miður verður oft uppskerubrestur vegna vondra veðra og hvirfilvinda.  Árið 1980 eyðilagði hvirfilbylurinn Allen mestan hluta uppskerunnar.  Árið 1984 nam uppskeran 185.000 tonnum.

Námuvinnsla:
  Báxítvinnslan hófst í kringum 1959.  Hún breytti bændasamfélaginu og viðskiptamunstri nýlendutímans og enn þá verða þjóðfélagsbreytingar af þessum völdum.  Nú þarf hin vinnuaflsfreka sykurreyrsræktun að keppa við fjár- og vinnuaflsfreka námavinnslu.  Fullvinnsluiðnaður, sem enn þá er ungur, og ferðaþjónustan draga líka fólk úr sveitunum.  Árið 1860 var vitað um gildi járn- og kalkleirsnámanna, en því var ekki sinnt að marki fyrr en eftir 1942.  Fyrsta sending báxíts fór til Kanada árið 1943 og 10 árum síðar hóf Reynolds báxítútflutning frá Ocho Rios;  ári síðar hóf Kaiser útflutning frá Port Kaiser.  Báxít- og kalkleirsvinnsla urðu á stuttum tíma mikilvægustu atvinnugreinar Jamaica.  Árið 1983 stóðu báxít og kalkleir undir 60% af útflutningsbatanum.  Jamaica er orðin einn mesti útflytjandi báxíts í heiminum núna.  Eyjan sér u.þ.b. 40% allra álvera í Norður-Ameríku fyrir hráefnum og þau framleiða meira en helming alls áls í heiminum.  Jamaica hefur tvo kosti fram yfir aðra útflytjendur báxíts í heiminum:  Báxítlögin eru stutt undir yfirborðinu og nærri ströndinni og eyjan er tiltölulega skammt frá markaðnum í Norður-Ameríku.  Undanfarin ár (1985- ) hefur samkeppni á þessum markaði og offramboð  valdið erfiðleikum á Jamaica.

Námuvinnslan er rekin af bandarískum og kanadískum fyrirtækjum en meirihluti hlutabréfa er í eigu landsmanna sjálfra.  Álframleiðslan hefur að mestu farið fram í N.-Ameríku, þar er skortur er á orku á Jamaica.  Áhrif báxítvinnslunnar á vinnumarkaðinn eru lítil.  Nú (1989) starfa u.þ.b. 20.000 manns við báxítnám. Laun fyrir námavinnslu eru þrisvar til fjórum sinnum hærri en í öðrum starfsgreinum, þannig að störf eru mjög eftirsótt og það hefur haft áhrif á hinar atvinnugreinarnar.  Lágmarkslaun í báxítnámunum voru lengi hin sömu og saumakonur fengu minnst í fataverksmiðjunum.

Söguleg þróun iðnaðar. 
Fyrstu merki um iðnvæðingu eru frá byrjun 19. aldar, þegar farið var að byggja sykurmyllur, sem enn þá sjást merki um.  Þá urðu þær allt að 600 talsins en skömmu eftir síðustu aldamót (1900) voru þær 130 og sykurvinnslan fór fram hjá litlum fyrirtækjum, sem stunduðu matvælaframleiðslu.  Hvert þessara fyrirtækja sá sér sjálft fyrir orku til iðnaðarins.  Þungamiðja framleiðslunnar var sykurinn.  Árið 1938 nam hún tæpum helmingi framleiðslu iðnaðarvara á Jamaica.  Þar að auki var framleitt romm, bjór, maísmjöl, kopra (þurrkaðir kókoskjarnar), matarolía og tóbak.  Rafvæðingin, sem hófst 1923, varð iðnaðinum ekki lyftistöng.  Hann efldist fyrst í síðar heimstyrjöldinni, þegar innflutningshöft ollu því, að eyjaskeggjar urðu að vera sjálfum sér sem nægastir um flesta hluti.  Þá urðu til iðnfyrirtæki á ýmsum sviðum, sem framleiddu áður innfluttar vörur, s.s. skó- og þurrmjólkurverksmiðjur.  Árið 1947 voru sett lög, sem hvöttu til framleiðslu vefnaðarvöru og voru hvetjandi fyrir innlenda og erlenda fjárfesta.  Strax í lok fimmta áratugarins voru risnar vefnaðar-, leður- og umbúðaverksmiðjur auk ávaxtaniðursuðu.  Í lok ársins 1980 störfuðu u.þ.b. 44.000 manns í 1200 skrásettum smáiðnfyrirtækjum.  Aðeins 500 þessara fyrirtækja veittu 10 eða fleirum atvinnu.  Alls störfuðu 93.000 manns við framleiðslustörf þetta ár.

Skipting eftir iðngreinum kemur bezt í ljós í mannfrekum iðnaði í og við Kingston.  Þar vinna flestir við vefnaðariðnað, matvæla- og neyzluvöruiðnað og járn- og elektrónískan iðnað, sem er rekinn af miklum fjölda smáfyrirtækja.  Í sveitunum ber hæst matvæla- og neyzluvöruiðnað.  80% starfa í iðnaði eru hjá litlum handiðnaðarfyrirtækjum, sem skýrir hina lágu framleiðni.  U.þ.b. helmingur þeirra, sem starfa við iðnað eru sjálfstæðir atvinnurekendur og þar af eru tveir þriðju konur, sem verða að teljast til þjónustugeirans vegna starfa sinna.

Vegna hins mikla atvinnuleysis hefur ríkisstjórnin lagt sig fram um að laða að erlent fjármagn til uppbyggingar.  Megináherzlan er lögð á útflutningsiðnað, sem er tiltölulega ódýr vegna lágra launa.  Enn þá hefur ekki tekizt að kveða atvinnuleysisdrauginn niður.  Búizt er við, að betri tímar séu framundan vegna samnings við USA um tollfrjálsan innflutning á elektrónískum hlutum.

Iðnþróunin hefur til þessa ekki tengzt landbúnaðinum að neinu marki.  Uppbygging iðnaðar í sveitum hófst ekki fyrr en eftir 1970, þegar farið var að beita skattaívilnunum til hvatningar.  Áður var einungis hægt að byggja þar upp iðnað á mjög takmörkuðum sviðum, einkum þeim, sem tengdust vinnslu landbúnaðarafurða.  Aðrar iðngreinar náðu ekki fótfestu í sveitunum og stundum urðu afleiðingarnar óæskilegar og leiddu til aukinna launakrafna í landbúnaði.  Við núverandi aðstæður er tæpast annars að vænta en að flótti fólks úr sveitunum haldi áfram um sinn eða þar til tekst að koma annars konar skipulagi á hlutina.  Framtíð iðnþróunar á Jamaica og öðrum Karíbaeyjum liggur í aukinni iðnvæðingu landbúnaðarins og aukinni framleiðni.

Merki um þróun í þessa átt er áætlun um fjölda tóbaksframleiðenda (meðalstærð 9 ha), sem gætu framleitt gæðatóbak fyrir verksmiðjurnar í landinu.  Auk þess er áætlað að efla niðursuðu ávaxta og kjötvinnslu.  Þannig tengist landbúnaður og iðnaður á arðvænlegan hátt.

Utanríkisviðskipti:
  Mikilvægasta viðskiptaland Jamaica er USA.  Heildarverðmæti vöruviðskipta milli landanna árið 1984 nam 907 milljónum US$, sem voru 48% utanríkisviðskipta Jamaica.  Innflutningur:  40% frá USA, 14% frá Hollenzku Antilleyjum, 10% frá Efnahags-bandalagslöndum (helmingur frá Bretlandi og Norður Írlandi), 10% frá Venezúela, Mexíkó og Brasilíu.  Miklar vonir voru bundnar við fríverzlunarsamning fyrrum brezkra nýlendna í Vestur-Indíum, sem fyrst (1968) var nefndur CARIFTA en CARICOM eftir 1973.  Samkvæmt þessum samningi má flytja allt að 90% vara tollfrjálst innan frísvæðisins.  Hingað til hefur fremur dregið úr mikilvægi þessa samnings fyrir Jamaica.

Ferðaþjónustan gegnir æ mikilvægara hlutverki.  Fjöldi ferðamanna eykst, var 600 þús. árið 1989.  Þá var Jamaica í fjórða sæti sem ferðaþjónustuland í Karíbahafi á eftir Puerto Rico, Bahamaeyjum og Dóminikanska lýðveldinu.  Meginþungi aðsóknar ferðamanna liggur á norðurströndinni; aðeins fjórðungur ferðamannanna heimsækir Kingston.  Meira en þrír fjórðu hlutar ferðamannanna, sem heimsóttu Jamaica árið 1985 (skemmtiferðaskip ekki meðtalin), komu frá USA, 15% frá Kanada og rúmlega 5% frá Evrópu, þrátt fyrir mikla auglýsinga- og kynningarstarfsemi þar á undangengnum árum.
Ríkisstjórnin hefur gert uppbyggingu ferðaþjónustunnar auðveldari með því að fella niður tolla á efnisvörum til ný-, endur- og viðbygginga hótela og þar að auki lækkað skatta á ýmsa þætti greinarinnar.  Ferðamálaráð eyjarinnar annast milligöngu um efniskaup til hótelbygginga og útvegun vinnuafls.  Samkvæmt áætlunum ríkistjórnarinnar verða stærri svæði við Montegoflóa byggð fyrir ferðaþjónustuna í framtíðinni (1989).  Þar verður byggð aðstaða fyrir 1500 manna ráðstefnur.  Heildarkostnaður er áætlaður 550 millj. Jamaica $.  Gistirými i landinu er nú (1989) fyrir 22.000 gesti, þar af eru þrír fjórðu hlutar í tæplega 100 hótelum og fjórðungur í sumarhúsum.  Pólitísk spenna í landinu hefur tíðum gert erlendum ferðamönnum erfitt að komast leiðar sinnar og síðan Bandaríkjamenn fóru að taka aukinn þátt í báxítvinnslunni, hefur andúð gegn ferðamönnum frá USA aukizt verulega.  "Black Power" hreyfingin beitti sér gegn og fræddi fólk um arðrán Bandaríkjamanna á eyjunni og kynti undir hatri á hvítu fólki.  Eftir að ríkisstjórn Seaga tók við árið 1980 hefur dregið úr þessari þróun.

Vinnsla báxíts og einkum kalkleirs hefur víða komið í veg fyrir frekari þróun ferðaþjónustu á eyjunni.  Ocho Rios á norðurströndinni er glöggt dæmi um það.  Þar var byggð útskipunarhöfn fyrir báxít með öllu, sem slíku fylgir, báxítryki og risaflutningaskipum, sem eru sjónmengun við fallega baðströnd.

Íbúar voru 2,4 milljónir 1985, 216 manns á km2.  Á Puerto Rico búa fleiri á km2, eða 370.  Íbúafjölgun á Jamaica er tiltölulega nýtilkomin.  Hún kom í kjölfar fjölgunar fæðinga og mjög ört minnkandi barnadauða.  Frá 1891 (640 þús. íb) þrefaldaðist íbúafjöldin þrátt fyrir mikinn brottflutning fólks um aldamótin og frá 1965 til 1975 nam fjölgunin 25%.  Frá 1970 er fjöldi í yngri árgöngunum mestur, árið 1985 voru 49,2% íbúanna yngri en tvítugir. 

Fjöldi eyjaskeggja af afrísku bergi brotnir fengu vinnu við gröft Panamaskurðarins og aðrir fluttu til annarra staða í Mið-Ameríku (einkum Costa Rica) og fengu þar vinnu á bananaekrunum eða við járnbrauta-lagningu og á Kúbu fengu menn vinnu við sykuruppskeruna.  Margir fluttu til USA.  Á ára-bilinu 1981 - 1921 fluttu 146 þús. úr landi.  Það samsvarar 7000 á ári.  Önnur bylgja útflytj-enda reis að lokinni seinni heimstryjöldinni.  Þá fluttu 10% þjóðarinnar til Bretlands.  Á árunum 1965 til 1970 fluttu 26 þús. manns af landi brott á ári.  Nú er ekki lengur mögulegt að setjast að í Bretlandi, svo að stefnan er tekin á USA og Kanada.  Árið 1984 fluttu u.þ.b. 20 þús. til USA og 2500 til Kanada.  Þessi þróun er Jamaica mjög óhagstæð, því að flestir hinna brottfluttu voru vinnandi, u.þ.b 60% höfðu lært til starfa á undanförnum 15 árum þar á undan.  Tveir þriðju hlutar hinna brottfluttu voru á aldrinum 10 - 39 ára.

Jaimaicabúar, sem vinna í USA, senda árlega heim sem svarar 400 millj. ikr. og það hefur sitt að segja fyrir efnahagslífið á eyjunni.

Þrátt fyrir þennan mikla brottflutning fólks, hefur stjórnvöldum ekki tekizt að ná tökum á atvinnuleysisvandanum.  Í kjölfar fjölgunar fæðinga á sjötta og sjöunda áratugnum kom fleira fólk inn á vinnumarkaðinn en áður.  Atvinnuleysi jókst í borgum og bæjum og árið 1984 var að 25,4%, sem var langt umfram meðaltalið á allri eyjunni.  Mest ber á atvinnuleysi meðal ungra kvenna, einkum í Kingston, þar sem landflóttinn er mest áberandi.  Meira en þriðjungur allra atvinnulausra býr í Stór-Kingston.

Kynþáttaskipting.
  U.þ.b. 80% íbúanna eru svartir, 17% eru kynblendingar (múlattar).  Þessi mikli fjöldi þeldökks fólks á uppruna sinn í miklum innflutningi svertingja frá Afríku til að vinna á plantekrunum sem þrælar.  Á þeim tíma var Jamaica meginmiðstöð þrælasölunnar í Vestur-Indíum.  Eftir afnám þrælahaldsins árið 1833 fóru indverskir verkamenn að vinna á sykurekrunum í auknum mæli.  Indverjar á Jamaica eru tiltölulega fáir í samanburði við fjölda þeirra á Trinidad og í Guayana.  Verzlun og viðskipti, einkum smærri fyrirtækin eru í höndum Kínverja.  Líbanonbúar, sem fluttust til Jamaica eftir seinni heimstyrjöldina, hafa komið sér fyrir í verzlun og iðnaði.  Kínverjar og Líbanar ná samt ekki fullu 1% íbúafjöldans.  Herrastétt hinna hvítu er líka undir 1% af heildarfjöldanum.  Hin mikla kynblöndun kemur greinilega fram í mismunandi hörundslit íbúanna (líkt og mjög víða á Karíbaeyjum).  Móðurmál Jamaicabúa er enska en oft heyrist "Patios" á markaðstorgunum.  það er mállýzka innfæddra, sem er mjög torskilin útlendingum.

Trúarbrögð.  Mótmælendameirihlutinn skiptist í fjölda sértrúarsöfnuða.  Auk angilkana, baptista og katólskra eru þar hindúar, múslimar og gyðingar.  Margir trúflokkar byggja á afrískri náttúrutrú.  Meðal trúflokkanna eru rastafarar mest áberandi.  Útlitseinkenni þeirra eru sítt margfléttað hár og ullarhúfur í einkennislitunum svörtu, rauðu, gullnu og grænu.  Nafnið „Rastafari" er leitt af orðunum „Ras Tafari".  Svo hét einn keisara Eþíópíu, Haile Selassie, áður en hann var krýndur árið 1930.  Það ár hefur sömu þýðingu fyrir rastafara og fæðingarár Krists fyrir hina kristnu.  Haile Selassie varð þá herra þeirra og meistari, hinn útvaldi, og Eþíópía fyrirheitna landið, sem rastafarar vilja hverfa til aftur.  Heilunarkenningar stofnanda sértrúarflokksins, Markúsar Garvey, eru andstæðar því, sem hvítir menn kenna og skólauppeldi.

Reggae:  Þetta tónlistarlega tjáningarform er upprunnið á Jamaica og hefur breiðzt út til USA og Vestur-Evrópu.  Það er blanda af tónlist indíána, Evrópubúa og Afríkubúa.  Reggae þýddi áður hátíð á Jamaica.  Það þróaðist upp úr Mento (spænska: mentar = nefna, minnast á), sem er einhver elzta þjóðlagatónlist Jamaica.  Á eyjunni eru náin tengsl milli Reggae og rastafaritrúarinnar.  Ljóðin eru trúarlegs- og stjórnmálalegs eðlis.  Baráttan gegn yfirráðum hvítra og efling sjálfsvitundar hinna þeldökku eru vinsælt yrkisefni í ljóðum við reggae-lögin.  Frægustu flytjendur reggae voru og eru Bob Marley (1945-1981), Peter Tosh (1944-1987), Max Romeo og hljómsveitirnar The Wailers og Third world.  Þekktasta lag og ljóð í reggaeútgáfu er þjóðfélagsádeila rastafaranna, sem Bob Marley söng, "Get Up - Stand Up".

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM