Náttúrufar. Mestur hluti Barbados er allt að 90 m há kóralslétta, sem
hækkar smám saman til norðausturs og nær mestri hæð í Mt.
Hillaby, 340 m.
Sykurreyrsekrurnar teygjast vítt og breitt og grózkumikill
hitabeltisgróður prýðir landslag.
Á
norðausturhlutanum skiptir um landslag við Hackleton's Cliff, þar sem
Scotland-héraðið tekur við. Þar
eru tertíeru setlögin sundurskorin af árfarvegum.
Strandlengjan er mikilfengleg, þar sem öldur Atlantshafsins
hafa mótað furðuskapnaði úr klettóttri ströndinni.
Vesturströndin, sem snýr að Karíbahafinu, er alger andstæða
með sléttum sandi. Þar
hefur verið búið í haginn fyrir ferðamenn, sem vilja flatmaga og
sleikja sólskinið.
Stjórnarfar. Stjórnarskrá og ríkisstjórn Barbados eru sniðnar að
enskri fyrirmynd. Þjóðhöfðinginn
er drottning Englands, sem skipar landstjóra.
Hann skipar forsætisráðherra og aðra ráðherra eftir tillögum
hans. Þingið hefur öldunga- og fulltrúadeildir.
Íbúarnir. Mikill meirihluti íbúanna eru þeldökkir afkomendur þrælanna,
indíána, Evrópumanna, gyðinga og fyrrum indverskra verkamanna.
Hvíti minnihlutinn er að mestu kominn af innflytjendum frá
Englandi.
Trúarbrögð. Á áttunda tug trúarfélaga er starfandi á eyjunni.
Anglikanska kirkjufélagið er stærst þeirra en næst koma meþódistar,
mæríska bræðrafélagið, katólska kirkjan og gyðingar.
Atvinnulífið. Hin hefðbundna ræktun sykurreyrs er þýðingarmesta
atvinnugreinin, 60% ræktaðs lands er nýtt til hennar.
Sykur, síróp, melassi og romm eru aðalútflutningsvörurnar,
sem framleiddar eru í nokkrum stórum verksmiðjum.
Óteljandi smábændur
rækta ávexti og grænmeti að mestu fyrir innanlandsmarkað.
Fiskveiðar
borga sig vegna góðra miða. Krabbi
og skelfiskur er fluttur út.
Á átta iðnaðarsvæðum
er eru framleiddar mat- og neyzluvörur, vefnaðarvörur, heimilistæki,
efnavörur, s.s. olíuvörur o.fl.
Olíu
hefur verið leitað fyrir ströndum Barbados um skeið. Jarðgas fannst fyrir nokkrum árum í setlögum fyrir norðausturströndinni
og hefur verið notað til orkuframleiðslu.
Ferðaþjónusta
er gróin atvinnugrein á Barbados.
Þegar á 19.öld voru ferðamenn farnir að venja komur sínar
þangað. Árið 1932 var
stofnað kynningarráð Barbados. Síðustu tvo áratugi hefur ferðamönnum fjölgað gífurlega
og nú er ferðaþjónustan orðin að veigamiklum þætti í efnahagslífinu.
Árið 1965 komu 61.600 ferðamenn til landsins.
Árið 1979 voru þeir orðnir 373.000 (farþegar skemmtiferðaskipa
ekki meðtaldir). Í upphafi níunda áratugarins stóðu 12.500 gistirými til
boða. Þá höfðu 10.000
manns beina afkomu af ferðaþjónustunni en 20.000 óbeina.
Sagan.
Líklega
byggðu arawakar eyjuna á forkólumbískum tíma en einnig eru merki um
búsetu karíba, sem komu að sunnan og ráku arawaka af höndum sér.
Árið 1511 kom fyrst fram nafnið Isla de los Barbados (eyja
hinna skeggjuðu). Í öðrum heimildum snemma á 16.öld heitir eyjan Bernados,
San Bernados eða Barbudosa.
Portúgalski
sæfarinn Pedro a Campos, sem náði til Brasilíu, dvaldi á Barbados
árið 1536.
Í
kringum 1625 komu fyrstu Englendingarnir að vesturströndinni.
Árið 1627 stofnaði einn leiðangra William Courteen fyrsta
ensku byggðina Jamestown í grennd við núverandi Holetown.
Ári síðar hófu keppinautar hans uppbyggingu Bridgetown.
Englendingarnir fluttu inn tóbaks-, baðmullar- og sykurreyrsplöntur
frá Guyana og uppskáru vel.
Þegar
á fyrri hluta 17.aldar var lagður grundvöllur að viðskiptalífi
eyjarinnar. Sykurreyrsræktin
var stunduð með hjálp þúsunda þræla, sem fluttir voru inn frá
V.-Afríku. Árið 1639 var fyrsta þing eyjarinnar stofnað.
Nokkrum árum síðar settust gyðingar frá Pernambuco að á
Barbados. Þrátt fyrir
hamfarir fellibylja árin 1675 og 1780 og farsóttir blómstraði nýlendan
og varð að mikilvægri verzlunarmiðstöð sæfara, sem laðaði að sér
fjölda innflytjenda frá Englandi.
Þrælahald var afnumið árið 1834.
Eftir langt og erfitt undirbúningsstarf fékk Barbados sjálfstæði
frá Bretum 30. nóv. 1966 og varð aðili að Sameinuðu þjóðunum árið
eftir. |