Quebec
er hafnar- og höfuðborg Quebecfylkis í Kanada við ármót St.
Lawrence- og Saint-Charlesánna, u.þ.b. 240 km norðaustan Montreal.
Fyrstur Evrópumanna til að heimsækja þessar slóðir var
Jacques Cartier, landkönnuður, sem fann þorp huronindíána þar
1535. Árið
1608 hóf Samuel de Champlain fyrstu varanlegu búsetu í Quebec, sem óx
upp úr skinnaverzlunarstað.
Árið
1629 tóku Bretar yfirráðin og héldu þeim þar til Frakkar fengu
hann aftur með Saint-Germain-en-Lavesamningnum.
Upp frá því óx staðurinn og dafnaði.
Árið
1690 reyndi Sir William Phipps, ríkisstjóri Massachusetts að leggja
Quebec undir sig með flota sínum en de Frontenac, greifa og ríkisstjóra,
tókst að verjast.
Brezkur floti strandaði á sandeyrum í St. Lawrencefljóti, þegar
hann var á leið til að ná bænum á sitt vald árið 1711.
Engu að síður tókst þeim loks árið 1759 að ná honum á
sitt vald og Frakkar urðu að láta hann af hendi með samningunum í
París 1763.
Í sjálfstæðisstríði BNA reyndu Bandaríkjamenn að leggja
Quebec undir sig án árangurs.
Árið
1791 var Quebec gerð að höfuðborg Neðra-Kanada, sem varð síðar
Quebecfylki.
Nágrannabæir voru sameinaðir bænum og hann fékk borgarréttindi
1840. Árið
1864 var haldin ráðstefna Brezku Norður-Ameríku í Quebec til að
skipuleggja sameiningu Kanada.
Í síðari heimsstyrjöldinni hittust Franklin D. Roosevelt,
Bandaríkjaforseti, og Winston Churchill, forsætisráðherra Breta,
tvisvar í borginni til að skipuleggja innrásina í Evrópu.
Þjónustu-
og stjórnsýslugeirarnir eru stærstu atvinnuveitendur borgarinnar,
þótt hún sé engu að síður meðal mikilvægustu hafnarborga
Kanada.
Helztu iðnfyrirtækin stunda prentun, kornmölun, framleiðslu
vindlinga og fatnaðar.
Skipasmíðar og ferðaþjónusta eru líka mikilvægar greinar.
Flestir
íbúa borgarinnar eru katólskir og frönskumælandi.
Borgin hefur tvöfalt skólakerfi, annað fyrir katólska og hitt
fyrir mótmælendur, og kennt er á ensku og frönsku.
Mennta-
og menningarlíf borgarinnar byggist á Lavalháskólanum og
menntastofnunum tengdum honum, hljómleikahöllinni, Grandleikhúsinu,
fjölda safna og bókasafna um alla borg.
Helztu
sögulegar byggingarnar eru trúalegs eðlis og margar þeirra eru frá
17. öld.
Notre-Dame des Victoires (1688) er við Royaletorgið.
Ursuline-munkaklaustrið, prestaskólinn, Anglicankirkjan (hin
fyrsta í Kanada) og katólska basilíkan, þar sem margir biskupar
Quebec eru grafnir, eru meðal merkustu bygginga borgarinnar.
Íþróttir
eru vinsælar, einkum ísknattleikur, körfubolti, ruðningur, golf og
skíðaferðir í Laurentiafjöllum, sem eru aðeins nokkra kílómetra
frá borginni.
Mont Sainte-Anne miðstöðin hefur verið vettvangur
heimsmeistarakeppna í skíðaíþróttum.
Árlega er haldin þriggja vikna skíðahátíð og fylkissýnig
í lok ágúst.
Íbúafjöldinn 1991 var 167.517 í borginni sjálfri en árið 1986
bjuggu 603.267 í Stór-Quebec. |