Labrador Kanada,
Flag of Canada


LABRADOR
KANADA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Labrador er norðausturhluti kanadíska meginlandsins og nær yfir risavaxinn skaga, sem tilheyrir bæði Quebecfylki og Nýfundnalandi (1.620.000 km²).  Norðan hans er Hudsonsund, að austan er Atlantshafið, St. Lawrenceflói og Eastmaináin að sunnan og Hudsonflói að vestan.

Jarðfræðilega séð er Labrador austasti hluti Kanadaflekans, sem er þarna stórsteinóttur og jökulslípaður.  Þessi háslétta er þakin vötnum, sem hverfa til Atlantshafsins um Churchill-,   Naskaupi-, Eagle- og aðrar ár.  Jarðvegurinn er þunnur og mýrlendur og Labradorstraumurinn kyssir bera og vogskorna strandlengjuna köldum kossi.

Nýfundnalandshlutinn er kenndur við Atlantshafið en Quebechlutinn er kallaður Ungava.  Uppruni nafnsins, Labrador, er óljós.  Sumir halda því fram, að þetta nafn hafi í fyrstu verið notað um Grænland, sem portúgalskir landkönnuðir kölluðu Labradorland, og síðar hafi kortagerðarmenn fært það yfir á norður-ameríska meginlandið.  Yfirráðin yfir þessum risaskaga færðust fram og til baka milli Quebecfylkis og Nýfundnalands, þannig að mörk svæðisins voru óljós þar til landamærin voru ákveðin árið 1927.

Atvinnustarfsemin er aðallega meðfram suðvesturhluta landamæranna að Quebec, í svokölluðu Labradortrogi, sem er mjög auðugt af járngrýti.  Þar er Scheffersville (í Quebec) stærsti bærinn auk Labradorborgar og Wabush (í Nýfundnalandi), sem spruttu upp í kjölfar nýtingar járnnámanna á sjötta áratugnum.  Raforka fæst frá virkjunum við Menihek og Churchillfossa.  Fiskveiðar og skógarhögg eru mikilvægar atvinnugreinar.  Íbúafjöldinn Nýfundnalandsmegin 1991 var 30.375.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM