Japan hagnýtar upplýsingar,
Flag of Japan

Aðalsíða landsins AFÞREYING og UPPÁKOMUR HÁTÍÐAALMANAK  

JAPAN
HAGNÝTAR  UPPLÝSINGAR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heimilisfang utan Japans.  Japan National TOURIST ORGANIZATION  (JNTO), Biebergaße 6-10, D-6000 Frankfurt am Main, Sími 20353.

Heimilisföng í Japan Japan National Tourist Organization (JNTO), 10-1 Yurokucho 2-chome, Chiyoda-ku, Tokyo (Central).

Hinn svonefndi ferðamannasími er mjög þarft þing fyrir marga ferðamenn í Japan, s.s. þegar um tungumálaerfiðleika er að ræða eða þegar afla þarf upplýsinga um ýmsa hluti eða staði.  Það er hægt að hringja frítt í þetta númer (106) alls staðar að nema frá Tókíó og Kíótó.  Nota verður mynt í símasjálfsala til að komast í samband en síminn skilar henni aftur að símtali loknu.  Þegar svarað er, segir sá, sem hringir: „Collect call, T.I.C." og þá verður hringjandinn tengdur grænni línu.  Langlínusímtöl eru afgreidd um bláa- og einkasíma (ekki um rauða).  Í Tókíó er númerið 502-1461 og í Kíótó 371-5649 og í báðum borgum verður ferðamaðurinn að greiða símtölin.

Einnig veitir Teletourist Service upplýsingar um hvers konar afþreyingarmöguleika (íþróttir, leikhús o.þ.h.).  Síminn í Tokyo er 503-291, í Kyoto 361-2911 og í öðrum landshlutum (075) 361-2911.

Formsatriði. Allir ferðamenn verða að hafa gilt vegabréf.  Íslendingar þurfa ekki vegabréfs-áritun til allt að þriggja mánaða dvalar í landinu.  Hyggist fólk dvelja þar lengur, þarf það að láta skrá sig innan þessara 90 daga hjá viðkomandi sveitar- eða borgarstjórn.

Bólusetningar eru ekki nauðsynlegar nema fólk komi frá heimshlutum, þar sem hættulegir smitsjúkdómar eru landlægir.  Því er bezt að huga vel að þessum þætti, sé t.d. ferðast um Sa-Asíu áður en komið er til Japan.

Ferðamenn verða að greiða flugvallarskatt á Narita-flugvelli í Tókíó (ekki millilendingarfarþegar).  Við brottför verða erlendir gestir að fylla út brottfarareyðublað.

Hafi fólk í hyggju að leigja sér bíl og aka sjálft, verður það að verða sér úti um japanskt ökuskírteini, því að Japanar hafa ekki samþykkt alþjóðleg ökuskírteini.  Í Japan er ekið á vinstri vegarhelmingi.  Til að fá ökuskírteini verður fólk að ganga undir sjón- og heyrnarpróf og smápappírsvinnu.

Leyfilegt er að flytja inn tollfrjálst:  400 vindlinga eða 500 gr af öðru tóbaki, þrjár flöskur (0,76 l) af áfengi, tvö úr og aðrar vörur að verðmæti allt að 100.000 jen.  Auk þess alla persónulega muni og annað, sem nauðsynlegt er til ferðalaga.  Fylla verður út komuskýrslu.

Gjaldmiðill landsins heitir jen.  Eitt jen er 100 sen (óalgeng í almennum viðskiptum). Seðlar eru:  500, 1000, 5.000 og 10.000 jen.  Mynt er:  1, 5, 10, 50 (allar með gati), 100 og 500 jen.

Leyfilegt er að flytja inn ótakmarkaðar upphæðir í erlendum gjaldeyri en bezt er að gefa upp upphæðir við komu til landsins vegna takmarkana á útflutningi hans.  Hafi fólk með sér erlendar gjaldeyri, er bezt að skipta Bandaríkjadölum, bæði reiðufé og ferðatékkum.

Algengustur krítarkort:  American Express, Visa, Carte Blanche, Diners Club og MasterCard (Eurocard).

Í Japan er vinstri handar umferð og hámarkshraði er:  Hraðbrautir 80 km, þjóðvegir 60 km og 40 km í þéttbýli.

Tungumálið er japanska (með eigin skriftáknum, sem leidd eru af kínverska stafrófinu). Enska er kennd í skólum og flest ungt fólk skilur hana.  Bezt er fyrir gestina að tjá sig á einfaldan og skýran hátt.

Fólk, sem heimsækir Japan í viðskiptaerindum, ætti að gæta þess að hafa nóg af nafnspjöldum með latnesku og japönsku letri í farteskinu.  Það er mjög víða hægt að fá þau prentuð í Japan.  Nafnspjöld eru mun meira notuð í Japan en í Evrópu.

Klukkan.  Í Japan er klukkunni ekki breytt vor og haust.  Klukkan þar er alltaf 9 klst. lengra komin en hérlendis.

Mál og vog:  Metrakerfið.

Rafmagn.  Rafkerfið byggist á 100-110 Volta riðstraumi, 50 Hertz í A-Japan og Tokyo) en 60 Hertz í vestan megin.  Í stórum hótelum eru innstungur fyrir 110 og 220 Volt.  Víðast er ekki hægt að nota evrópskar klær.

Póstur og sími.  Burðargjald fyrir flugpóstbréf (að 10 gr) til Evrópu er 110 jen. 
Póstkassar eru rauðir.

Rauðir símar eru notaðir til innan- og utanlandssímtala og taka við allt að sex 10 jena myntum í einu.  Bláir símar eru til innan- og utanlandssímtala og taka við allt að tíu 10 jena myntum í einu.  Gulir símar eru einungis fyrir utanlandssamband og þeir taka við allt að
tíu 10 jena myntum í einu eða níu 100 jena myntum.  Símarnir gefa ónotaða tíu jena peninga til baka.  Þriggja mínútna símtal við Evrópu kostar u.þ.b. 2.500.- jen.

Lögboðnir frídagar (sjá líka hátíðaalmanak):  1. janúar, 15. janúar, 11 febrúar, 20. eða 21 marz, 29 apríl, 3 maí, 5 maí, 15. september, 23. eða 24. september, 10. oktober, 3. nóvember, 23. nóvember.

Viðskiptatími.  Opinberar stofnanir:  Mánudaga - föstudaga kl. 09:00 - 17:00 og 
laugardaga kl. 09:00 - 12:00.  Fyrirtæki og skrifstofur:  Mánudaga - föstudaga kl. 09:00/09:30 - 17:00 og laugardaga kl. 09:00 - 12:00 (mörg fyrirtæki lokuð á laugard.). Bankar:  Mánudaga - föstudaga kl. 09:00 - 15:00 og laugardaga kl. 09:00 - 12:00 (lokað sérhvern annan laugardag í mánuði).  Pósthús:  Mánudaga - föstudaga kl. 09:00 - 17:00 og laugardaga kl. 09:00 - 12:30.  Aðalpósthús:  Mánudaga - föstudaga kl. 08:00 - 20:00, á laugardögum og frídögum kl. 09:00 - 12:00.  Stórverzlanir:   Sex daga í viku kl. 10:00 - 18:00 (venjulega lokað einn dag í viku).  Verzlanir:  daglega kl. 10:00 - 20:00 (engir sérstakir lokunardagar).  Veitingahús:  venjulega opin til kl. 22:00 en hefðbundin japönsk veitingahús til kl. 21:00.

Fatnaður.  Á Kyrrahafsströnd Honshu er venjulega rakur hiti á sumrin, þannig að léttur klæðnaður er beztur.  Á vorin og haustin verður oft svalt og bezt að klæða sig vel á kvöldin.  Uppi í fjöllum er mun svalara.  Veturnir eru kaldir og þá snjóar á Honshu og nyrztu eyjunni, Hokkaido.  Vænzt er rétts klæðnaðar á viðskiptafundum og betri hótelum (jakkaföt og bindi).  Hægt er að kaupa góð, vestræn föt í Japan en þau eru dýr og erfitt er að finna nógu stór númer af tilbúnum klæðnaði.

Verzlun Meðal þess, sem gaman er að gera í Japan, er að fara í verzlanir.  Vöruúrval er mikið og gæði mikil, enda er dýrt að verzla.  Stórverzlanir stórborganna eru þess virði að skoða nánar, þótt ekkert sé keypt.  Þær gefa hugmyndir um Japan nútímans.  Aðalstórverzlanir Tokyo eru í hverfunum Ginza, Nihonbashi og Shinjuku  Auk þeirra er fjöldi stórra og smárra sérverzlana.

Bókabúðin Maruzen í samnefndri stórverzlun (6, Tori-Nichome, Nihonbashi, Tokyo) býður mikið úrval bóka um Japan.  Sama er að segja um bókabúðirnar Kinokuniya í Shinjuku og Jena í Ginza.

Útlendingum býðst mikið úrval vara án virðisaukaskatts.  Helzt er mælt með skartgripum (perlur, eðalmálmar, skjaldbökuskeljar, kórallar, bernstein, fílabein, Cloisonné-gripir), pelsum, veiðivopnum, tölvuleikjum, ljósmyndavörum (verðlag líkt og í Hongkong) og úrum.  Þegar keyptir eru elektrónísk tæki, er nauðsynlegt að ganga úr skugga um, að hægt sé að fá þjónustu tengda þeim í Evrópu.  Til þess að fá endurgreiðslueyðublað vegna virðisaukaskatts þarf að framvísa vegabréfi í verzlunum og sýna það ásamt vörunum við brottför, t.d. á flugvelli, þar sem endurgreiðslan fer fram.  Skatturinn nemur milli 5% og 40%.

Mælt er með kaupum á japönskum listmunum, þótt þeir séu dýrir.  Þá er einkum um að ræða keramíkvörur, muni úr tré (líka lakkaðir), dúkkur, batík o.fl.  Í slíkum viðskiptum er algengt að prútta um verð.  Silkivörur eru í hágæðaflokki.  Gott dæmi um fatnað úr silki er lindi fyrir kvenmorgunsloppa, sem kemur e.t.v. ekki að gagni sem slíkur, heldur sem fallegt veggskraut.

Talið er, að beztu kjörin við listmunainnkaup fáist í Kíótó.  Gamlar hefðir við gerð listmuna eru í hávegum hafðar í þessari fyrrum höfuðborg landsins, s.s. silkigerð og vinnsla lakkaðra trémuna, einkum svartgylltra og rauðgylltra í stíl Tokugawatímans.  Einnig eru framleiddar dúkkur og keramíkvörur.  Flestar verzlanir með listmuni er að finna við gatnamót Kawaramachi-dori og Shijo-dori og götuna Shimonzen-dori.  Keramíkvörur fást við Gojo-dori.  Auk þessa fást alls konar málverk, tréprentanir, lampar o.fl.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM