Japan afþreying uppákomur,
Flag of Japan

HÁTÍÐAALMANAK HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR

JAPAN
AFÞREYING og UPPÁKOMUR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Næturlífið er svo fjölskrúðugt, að erfitt er að velja.  Það er dýrt að fara á næturklúbba.  Samt er hægt að komast frá því án þess að setja fjárhaginn alvarlega úr skorðum, jafnvel þótt þeginn sé félagsskapur einhverra lagskvennanna á andlegum nótum.

Mikið er um gufuböð.  Þau er líka að finna í stóru hótelunum en það borgar sig að panta tíma fyrirfram.  Tyrknesk böð eru tíðast ekki það, sem búist er við.  Flest þeirra hófu starfsemi eftir að lögin gegn vændi voru sett árið 1956.  Tyrki, sem ætlaði sér að njóta slíks baðs, yrði altjent hissa.

Vilji fólk njóta góðra drykkja á skikkanlegu verði, er bezt að fara í bjórgarðana á þökum stórverzlananna.  Einnig eru standbarir út um allt.  Þeir eru opnir á öllum tímum.  Barir, sem bjóða upp á lagskonur, eru dýrir, en verðlagið er mjög mismun-andi.

Japanskar lagskonur eru kunnar fyrir fegurð sína, háttprýði og töfra.  Hyggi menn á frekari landvinninga en samræður, er mun ódýrara að fljúga til Tapei (á Taiwan), þótt kaupa verði farseðil.

Leikhús  Leikhúslíf er í hávegum haft í Japan, hvort sem um er að ræða hefðbundnar Kabuki- og Noh-uppfærslur eða nútímaútgáfur.  Kabuki höfðar mest til vestræns fólks.  Kjarni Kabuki er fenginn úr heimi ævintýra og sagna og mikil vinna og kostnaður er samfara uppfærslu.  Merkustu Kabuki'-leikhúsin eru í Tókíó (Kabukiza í austurhluta Ginzahverfisins og Þjóðleikhúsið, sunnan keisarahallarinnar).

Noh er gjörólíkt og mjög stílfært leiklistarform, sem var upprunalega einungis ætlað hástéttafólki og hefur aðeins breytzt lítillega á síðustu þremur öldum.  Það er miklu 
hátíðlegra og virðulegra en 'Kabuki'.  Þeim, sem hafa lítinn áhuga á leikhúsi, leiðist að
 horfa á Noh-uppfærslu.  Aðalleikendur bera táknrænar grímur og koma fram undir flautu- 
og trommuleik.  Í Tókíó, Ósaka og Kíótó eru mörg Noh-leikhús.  Óski einhver eftir að kaupa miða í leikhúsin, annast hótelin, JNTO og JTB milligöngu.

Þriðja tegund japanskrar leiklistar er Bunraku, sem er brúðuleikhús með stórum brúðum.  Þrjá menn þar til að stjórna hinum stærstu þeirra.  Inntak 'Bunraku' er gamlar sögur og sagnir.  Leikið er undir á Samisen (þriggja strengja slagverk, sem líkist lútu) og gömul sögukvæði kyrjuð með.  Osaka er miðstöð brúðuleikhúsanna.

Undanfarið hafa tónlistarrevíur notið aukinna vinsælda.  Inntakið er oft tileinkað árstíðunum
og bara flutt á viðeigandi tímum árs, t.d. blómatíma kirsuberjatrjánna, en venjulegast eru einhvers konar sýningar allt árið.


Tónleikar.  Sígild, vestræn tónlist er flutt í öllum stórborgum Japans og innfæddir tónlistarmenn eru meistarar á sínu sviði.  Oft er boðið upp á erlenda hljóðfæraleikara, bæði einleikara og heilu hljómsveitirnar.  Einnig er hægt að njóta vestræns ballets.  Ár hvert er haldin tónlistarhátíð í Tókíó (Tokyo Summer Festival).

Kvikmyndir.  Mikið úrval vestrænna og japanskra kvikmynda býðst við Imperial hótelið í 
Tókíó, milli Hibiyagarðsins og Ginzahverfisins og í hverfunum Shinjuku og Shibuya.  Hægt er að sjá hverju sinni hvað er í boði í kverinu Tokyo Journal, sem fæst í stóru hótelunum og bókabúðum, sem selja bækur á erlendum málum.

Íþróttir Framboð tækifæra til að stunda afþreyingaríþróttir er geysimikið.  Þar má nefna sund, fjallgöngur, skíðaferðir, skautasvell, alls konar veiðiskap, siglingar, útreiðar og golf.  Skíðastaðirnir og golfvellirnir eru þétt setnir um helgar.  Vestur-landabúar hafa líka gaman 
af að horfa á þjóðaríþróttirnar Sumo, Judo, Kendo, Karate og Aikido.

Meðfram vogskornum ströndunum er fjöldi víkna, einkum á suðurhluta aðaleyjarinnar Honshu, vestan Tókíó.  Strendur þeirra eru mjög fjölsóttar á sumrin, því að víða annars staðar eru þær mjög mengaðar vegna afrennslis frá verksmiðjum og fólk nýtur þess að baða sig í hreinum sjó.  Einhverjar hreinustu strendurnar eru á Izuskaga, talsvert sunnan Tokyo.

Fjallgöngur eru helzt stundaðar á sumrin og þá hefur Fuji mesta aðdráttaraflið.  Vetraríþróttir eru helzt stundaðar á Chubu-Shangaku-svæðunum (Japönsku Alparnari) og í öðrum fjallahéruðum Honshu og Hokkaido.  Hægt er að nefna skíða-  svæðin, Sapporo, sem heimurinn kynntist, þegar elleftu vetrarólympíuleikarnir voru haldnir þar árið 1972  
(Í grennd við Sapporo er fjallið Teine); Shiga-kogen á Mið-Honshu og 'Zao-san í norðurhlutanum (þekkt fyrir „snjóskrímslin", sem eru furðulega vaxin tré).  Í Tokyo (Sayamahverfinu) er 400 m löng gerviskíðabrekka undir þaki með skíðalyftum.  
Skíðabúnaður fæst leigður á flestum skíðasvæðum.  Skíðalyftur eru víðast góðar og sums staðar eru brekkurnar flóðlýstar á kvöldin.  Í „Japönsku Ölpunum" er skíðatímabilið frá desemberlokum til miðs aprílmánaðar.  Sums staðar á Hokkaido er það frá nóvember til maí.  Skautaiðkun er víða stunduð á ís á veturna og allt árið á tilbúnum skautasvellum.


Stangveiði verður stöðugt vinsælli í Japan.  Fiski er sleppt í mörg vatna landsins ár hvert og veiðitíminn byrjar í marz og lýkur í september.  Veiðileyfi þarf að kaupa.

Golfíþróttin er orðin að stöðutákni í Japan og um allt land eru rúmlega 600 golfvellir.  Á sumarleyfistímanum standa opinberir golvellir gestum til boða.  Erfitt er um vik að fá að bregða á leik í stórborgunum, nema að vera gestur einhvers klúbbmeðlims.  Það er óvenjulegt fyrir vestræna golfleikara að leika á afgirtum völlum, þar sem tugir manna og kvenna slá kúlurnar sínar að sömu holunni á sama tíma.

Sumoglíman er mjög vinsæl meðal áhorfenda.  Keppendur vega ekki minna en 110-160 kg hver.  Tveggja vikna keppnir eru skipulagðar um allt land.  Í Tókíó fara þær fram í janúar, maí og september, í júlí í Nagoya og í nóvember í Fukuoka.  Flestar keppnirnar eru sýndar í sjónvarpinu.  Þær byrja um níuleytið og ná langt fram á síðdegið.

Einnig er víða hægt að fylgjast með keppnum í Judo, Kendo, Karate og Aikido í borgum og bæjum.


Hafnarbolti er líka leikinn víða.  Beztu liðin eru Kyrrahafsliðið og Miðlendingar.  
Landsleikir fara fram ár hvert um miðjan oktober og eru sýndir í sjónvarpi.


Skotveiði er takmörkuð í Japan.  Aðalveiðidýrin eru fuglar og hjartardýr.

Japanskt heimili heimsótt
Margar fjölskyldur gefa erlendum gestum tækifæri til að koma í heimsókn og kynnast hversdagslegum heimilissiðum landsins.  Slíkar heimsóknir eru skipulagðar í Tókíó, Kíótó, Ósaka, Yokohama, Nagoya, Kobe, Kurashiki, Otsu, Kagoshima og Sapporo.  Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna annast milligöngu.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM