Mílanó Ítalía,
Flag of Italy

Skoðunarvert

MÍLANÓ
ÍTALÍA

.

.

Utanríkisrnt.

 

Mílanó er í 122 m.y.s.  Íb. 1,7 millj.  Höfuðborg Lombardi og önnur stærsta borg Ítalíu.  Veigamikil samgöngumiðstöð, m.a. vegna vega yfir Alpana.  Mílanó er á miðri Lombardisléttunni og er tengd Ticino, Pó, Lago Maggiore og Comovatni með skipaskurðum.  Mílanó er höfuðborg iðnaðar, járnbrautasamgangna, banka- og kauphallarviðskipta á Ítalíu og einn stærstu silkimarkaða Evrópu.  Þar er katólskur háskóli, ríkisháskóli og erkibiskupssetur.  Aðalatvinnugreinar eru:  Vefnaður, bílaiðnaður, vélaiðnaður, efnaiðnaður og pappírsiðnaður.  Neðanjarðarlestir frá 1964.  Mílanó er nýtízkuleg að mestu leyti, jafnvel gamli borgarhlutinn er tengdur breiðgötum, sem geisla út frá borgarmiðjunni.  Eftir s.h. risu allt að 30 hæða hús.  Mörg hús frá fyrri öldum sýna ýmiss konar stílbrigði.  Þau stóðu heil eða voru endurbyggð eftir s.h.

Mílanó var stofnuð um 400 f.Kr. af keltum.  Rómverjar komu  árið 222 f.Kr. og skírðu borgina Mediolanum.  Á 4. öld var hún aðsetur keisaranna.  Síðar varð hún ein höfuðborga langbarða og franka.  Sem höfuðborg ríkis langbarða gekk hún á hönd Staufenættarinnar.  Friðrik Barbarossa olli eyðileggingu í Mílanó 1167 en hann lét endurreisa borgina.  Viscontiættin réði Mílanó og stórum hluta N-Ítalíu frá 1277.  Mussolini stofnaði fasistaflokk sinn í Mílanó árið 1919 og var síðast hengdur upp á fótunum utan á hús við Loretotorg í apríl 1945.

Byggingarstíll frá gamalkristnum tímum hefur aðeins varðveitzt í fáeinum kirkjum, s.s. San Lorenzo og Sant' Ambrogio.  Byggingar frá 13. öld er einkum að finna við Mercantitorg og gotneska stílinn er næstum einungis að finna í dómkirkjunni.  Í kringum 1450 færðu Flórensbúarnir Filarete og Michelozzo Mílanó frumendurreisnarstílinn.  Með tilkomu Bramante von Urbino og Leonardo da Vinci, sem skóp sín mestu listaverk í Mílanó á árunum 1485-1500, hófst blómaskeið Mílanólista.  Málarar næstu kynslóða, Andrea Solario, Bramantion Luini, sódoma, Gaudenzio Ferrari, voru undir áhrifum þeirra.  Útlit borgarmiðjunnar skópu byggingameistarar síðendurreisnar og baroktímans.  Þar komu helzt við sögu Galeazzo Alessi og Pellegrino Tibaldi, en líka Giuseppe Piermarini og arkitektarnir Luigi Canonica og Luigi Cagnola.  Andrea Appiani var hæfur klassískur málari.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM