Shatt
al-Arab er nafnið á ánum Efrat og Tígris eftir að
þær sameinast á landamærum Íraks og Írans.
Áin er 170 km löng og hverfur í Persaflóann rétt við Kúveit.
Áin Karun rennur um Íran til Shatt Al-Arab áður en hún hverfur í
flóann. Svæðið meðfram
Shatt Al-Arab er að mestu árframburður og mýrlendi.
Þar býr fólk, sem hefur lifað einangruðu lífi og þróað með sér
sérstaka menningu.
Framburður árinnar bætir stöðugt við þurrlendið.
Íranska borgin Abadan, sem var við Persaflóa fyrir 1000 árum er
nú 50 km inni í landi.
Vegna mikils framburðar verður að dýpka ána reglulega til að halda
henni skipgengri. Olíu er
dælt upp, hún sett í tanka og síðan skipað út á þessum slóðum.
Þarna er líka mesta ræktunarsvæði daðlna í heiminum.
Abadan og írakska borgin Al Basrah eru miklar verzlunarborgir og
stærstu þéttbýlin við ána.
Shatt Al-Arab er mikilvæg samgönguæð og eina leið Íraka til sjávar.
Um hana fer útflutningur olíu og innflutningur neyzluvöru fyrir
bæði löndin. Oft var og
er deilt um yfirráðin á ánni og þessar deilur ollu stríðinu milli
landanna, sem hófst 1980.
Fyrstu deilurnar, sem heimildir eru fyrir, voru leystar með samningum
í Zohab árið 1639. Þessi
samningur kvað á um landamærin milli Persíu og Ottómanaveldisins.
Orðalag hans var óglöggt, þannig að hann kom ekki í veg fyrir
frekari deilur, sem oft var samið um síðar.
Erlend ríki drógust inn í deilurnar á 19. öld.
Rússar studdu kröfur Persa um yfirráð á austurbakkanum og Bretar
studdu kröfur Ottómana um yfirráð á báðum bökkunum.
Annar veigamikill samningur um þessi ágreiningsatriði var gerður
1847 og í honum var í aðalatriðum fallizt á kröfur Persa.
Orðalag hans var líka svo óglöggt, að Ottómanar héldu fram rétti
sínum á báðum bökkum en heimiluðu Persum aðgang að ánni.
Samningur, sem var undirritaður rétt fyrir fyrri
heimsstyrjöldina, kvað á um skiptingu um miðlínu í ánni milli fjölda
hafna Persíumegin árinnar en að öðru leyti voru landamærin við
austurbakkann.
Deilunum linnti ekki eftir að veldi Persa og Ottómana liðu undir
lok og standa enn þá.
Auking olíuframleiðslu í þessum heimshluta á sjöunda og áttunda
áratugnum magnaði ágreininginn og bæði ríkin neyddust til að flytja
olíuna til annarra hafna til útflutnings. Eftir 10 ára stríðið var komizt að samkomulagi, sem gerir
báðum löndum kleift að nota þessa samgönguleið, þótt Írak geri það í
sáralitlum mæli meðan viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna er í gildi.
Banninu var aflétt árið 2004 eftir að Bandaríkjamenn og bandamenn
þeirra lögðu landið undir sig í apríl 2003. |