Rajasthan Indland,
Indian flag of India


RAJASTHAN
INDLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Rajasthan er stórt ríki í norðvesturhluta Indlands.  Þar búa hinir herskáu Radschputar.  Í norðaustanverðu fylkinu er fyrrum furstaríkið Alwar við jaðar þurrkasamrar lægðar.  Virkið í borginni er mest áberandi, þar sem það gnæfir 300 m ofan við miðborgina.  Inni í því eru fallegar hallir, hof og grafhýsi.  U.þ.b. 35 km frá Alwar er skoðunarvert uppeldissvæði fyrir villt dýr og þar er hótelið Sariks Palace, veitingahús og smáhýsi til leigu.  Rúmum 100 suðaustan Alwar, við Bharatpur, er 30 km² fuglaverndarsvæði.

Jaipur, Rósrauða borgin, er 260 km suðvestan Delí.  Hún er höfuðborg Rajasthan.  Stofnandi hennar var herstjórinn, stjórnmálamaðurinn, löggjafinn og lærdómsmaðurinn Maharadscha Jai Singh II (1699-1743).  Fyrstu húsin voru byggð þar árið 1728 og það er áberandi, hve skipulag borg-arinnar hefur verið gott frá upphafi.  Allt er reglulega uppbyggt og rými er mun meira í henni en í öðrum miðaldaborgum.  Aðalgatan í gegnum hana frá austri til vesturs er 34 m breið og þvergöturnar 17 m breiðar skipta borginni í átta rétthyrnd hverfi.  Á gatnamótum aðalgatnanna eru stór ferhyrnd torg.  Íbúðarhúsin eru rósrauð með hvítum skreytingum og oft marglitum, kynjamyndum.  Efri hæðir húsanna eru eru prýdd járngrindagluggum, útskotum og gangsvölum.  Við sólsetur bregður sérstökum blæ á rósrauð húsin.  Gamli borgarhlutinn er umgirtur 6 m háum borgarmúrum með sjö hliðum og brött fjöll eru hluti skjólsins.  Íbúar Jaipur bera áberandi litskrúðugan klæðnað.  Konurnar eru í víðum kjólum.

Fyrrum bústaður Maharadscha, sem er að mestu girtur múrum, nær yfir heilt borgarhverfi með öllum sínum íbúðar- og stjórnarbyggingum.  Í suð-austurhorni þess er hin fimm hæð 'Höll vindanna', **Hawa Mahal' og skammt þaðan stendur *stjörnuskoðunarturninn Yantra með geysimiklum tækjum úr steini, sem Jai Singh II smíðaði sjálfur á árunum 1728-1734.  Þau eru mikilfenglegri en tækin í Delí og Varanasi, sem eru líka verk hans.

Amber, gamla höfuðborgin í Rajasthan, er rúmlega 10 km norðaustan Jaipur við veginn til Delí.  *Kalstalinn, sem Man Singh (1590-1614) lét reisa  árið 1600 og Jai Singh I (†1668) lét stækka, var endurnýjaður af Jai Singh II áður en hann fluttist til Jaipur.  Hann er, ásamt virkinu í Gwalion, veigamesta afrek byggingarlistar Radschputanna.

Ajmer, 140 km suðvestan Jaipur, í grennd við uppistöðulónið Ana Sagar (12.öld), er elzta höfuðborg Radschputanna.  Þar er Jainahof, sem var að hluta breytt í mosku.

Í bænum Pushkar, nokkrum km norðvestan Ajmer, er haldin *hátíð fulls tungls í nóvember/desember ár hvert.  Það er gleðilegasta og litríkasta hátíð, sem er haldin í Indlandi.

Udaipur, „borg sólaruppkomunnar”, er 240 km suðvestan Ajmer við rætur hæðadraga.  Hátt uppi yfir borginni trónir fagurlega Maharadscha-höllin með fallegum mósaíkverkum á veggjum (páfuglamunstur), leirflísagólfum og þakgörðum.  Í lægsta hluta borgarinnar er uppistöðulón frá 14. öld, Pichola-atn.  Á báðum eyjum þess standa hallir frá 17. og 18. öld.  Önnur þeirra er orðin að hóteli.

Þremur km frá Udaipur er þorpið Ahar með heiðursgröf Maharadschans og satisteinar minna á sjálfsfórnir ekkna Radschputanna.

Járnbrautarstöðin 'Abu Road' í Suður-Rajasthan, rétt við landamærin að Gujarat, er brottfararstaður mjög áhugaverðrar skoðunarferðar til *Mount Abu (Ar-budha = Fjall vizkunnar; 1220m), sem er stakur granítgúll upp úr Marwaresléttunni, 27 km norðvestar.  Hæðirnar og sléttan umhverfið fjallið eru þaktar graníthellum og fíngerðum helgiskrínum, hofum og gröfum.  Uppi á fjallinu er ein graníthella með fóta- og handaförum Data Bhrigu, einum holdgervinga vishnu.

Bærinn Mount Abu og umhverfi er vinsæll sumardvalarstaður meðal Indverja vegna náttúrufegurðar og svalandi loftslags.  Austan hans er fallegt stöðuvatn, Nakhi Talao (1149m.y.s.), með klettabökkum og runnum vöxnum smáeyjum.

Aðalhelgidómar Mount Abu eru Dilwarahofin tvö úr ljósum marmara í nálægu dalverpi.  Hið eldra og íburðarminna lét staðarhöfðingi reisa í kringum 1032 og helgaði það Adinath.  Það er álitið elzta og bezt varðveitta dæmið um Jainabyggingarlistina.  Tveir ríkir kaupmannsbræður létu reisa hið yngra árunum milli 1197 og 1247 og helguðu það Nemnath.  Höggmyndaskreyting þess og samræmi er yfirþyrmandi.  Gerð beggja hofanna er hin sama.  Þegar farið er í gegnum forsali þeirra, tekur við inngarður og súlusalir með 52 klefum, girtum messinggrindum.  Í hverjum klefa er mynd af guðnum Parswanath.  Í hvoru hofinu um sig er forsalur með hvelfingu og aðal-helgidómur, sem er aðeins opinn að framan og hýsir höggmynd af guði hofsins  í sitjandi stellingu.

Við austurjaðar Tharreyðimerkurinnar, 365 km suðvestan Jaipur, er borgin Jodhpur, sem var stofnuð árið 1459.  Hún er girt múrum og þar er virki, hallir aðalsmanna og hof.  Þaðan er ekki langt (8 km) að rústum Mandor, höfuðborg Parihar-furstanna af Marwar (Jodhpur) áður en þeir biðu ósigur fyrir Radputschum á 13. öld.

Jaisalmer, ævintýraborgin vestast í Rajasthan, er á hæðum í eyðimörkinni og virðist gerð af gulli, þegar gul hús hennar blasa við úr fjarska.  Hún var stofnuð árið 1156 en að mestu yfirgefin vegna nálægðar við landa-mæri Pakistan og skorts á vatni en það fæst einungis úr einni vatnsþró í miðbænum.  Þangað koma hinar fögru konur borgarinnar oft á dag með glansandi messingílát á höfðum sínum til að sækja vatn.

Yfir borginni trónir stórt *virki (12.öld), hið næstelzta í Rajasthan. Grundvöllur þess eru 4,5 m háar steinblokkir.  Inni í því eru mörg hof, prýdd fögrum höggmyndum, og gamla höllin.  Mörg Jaina-hof varðveita gömul handrit og málverk, sem skrifuð og máluð voru á pálmablöð og pappír (allt frá 12.öld).  Í höll Maharawal, sem er krýnd breiðum málmskildi (Chatri), eru enn þá nokkrar fallbyssukúlur úr steini, sem nota átti til varnar.

Borgin sjálf er fagurt völundarhús þröngra gatna og markaða með fíngerðu svalaskrauti, bogahliðum og grindum, sem eru höggnar í sandstein úr námum í nágrenninu.  Jaisalmer er þekkt fyrir þriggja daga *Tunglhátíð (fullt tungl) með þjóðlegri tónlist, dansi og kamelveðreiðum, sem haldin er í janúar eða febrúar ár hvert.  Jaisalmer er viðurkennd fyrir beztu kameldýrin vegna ræktunar, sem þeir stunda (Jaisalm Risala).

Borgin Bikaner, 320 km norðvestan Jaipur við jaðar Tharr-eyðimerkurinnar, er umkringd 5,5 km löngum borgarmúr.  Þar er virki og sandsteinshús með höggmyndum.  Tiltölulega góður efnahagur íbúanna byggist helzt á legu borgarinnar við þjóðbraut viðskiptaleiða.  Þarna búa afkomendur hinna slungnu Marwankaupmanna.


.

Ferðaheimur - Hverafold 48 - 112 Reykjavik - 567-6242 - info@nat.is - Heimildir