Amsterdam Holland,
Flag of Netherlands

DEMANTABORGIN SKOÐUNARVERT . .

AMSTERDAM
HOLLAND
.

.

Utanríkisrnt.

Miðborgin
Damtorgið er aðalumferðarmiðja miðborgarinnar.  Þar stendur Þjóðarminnismerkið um fallna í síðari heimsstyrjöldinni.

Vestan torgsins , þar sem ráðhúsið stóð fyrrum, er nú konungshöllin, sem hvílir á 13.659 staurum.  Hún er merkasta dæmið um klassískan, hollenzkan byggingarstíl á 17. öld úr höndum arkitektsins Jacob van Campen.  Turninn er 51 m hár með klukkuspili.  *Vistarverur konungsfjölskyldunnar eru skreyttar stórkostlegum marmarastyttum, en Borgarasalurinn ber þó af, enda einhver fegursti hátíðarsalur í Evrópu.  Í hásætissalnum er frægt málverk eftir Ferd. Bol.  Í anddyrinu eru fjórar „karyatiden”-styttur eftir A. Quellinus eldri.

Nýjakirkja
(Nieuwe Kerk) stendur við norðvesturhorn Damtorgsins.  Hún var byggð á 15. öld en hefur oft verið endurnýjuð og lagfærð.  Einvaldar Hollands flytja ávörp sín í kirkjunni og þar er fjöldi grafsteina frægra sæfara, s.s. við háaltarið, þar sem er granítsteinn M.A. de Ruyter (†1676) aðmíráls.  Gráturnar og predikunarstóllinn (1649) eru líka áhugaverð auk minningartöflu um hollenzka skáldið J. van den Vondel, sem var grafinn í kirkjunni.

Damrakbreiðgatan liggur í norðaustur frá Dam til aðalbrautarstöðvarinnar og við hana er kauphöllin (Koopmansbeurs), sem H.P. Berlage byggði úr múrsteini 1899-1903 og varð fyrirmynd nýlegri bygginga í landinu.  Við norðurenda götunnar, við gatnamót Prins-Hendrik-kade og brúna yfir skurðinn „Open Havenfront”, er brottfararstaður skemmtisiglinga um skurðakerfi borgarinnar og hafnirnar.  Handan brúarinnar er Stationsplein og aðalbrautarstöðin, sem var reist á uppfyllingu í ánni IJ árið 1889.

Hafnarmannvirkin voru byggð í tengslum við gerð Norðursjávarskurðarins árið 1872 til að standast samkeppni við Rotterdam, sem hafði meira vægi sem hafnarborg þá  sem nú.  Það er óhætt að mæla með framangreindum skemmtisiglingum, sem eru boðnar óslitið á sumrin og takmarkað á veturna.  Höfnin var gerð í ánni IJ með dælingum og uppfyllingum og meðfram suðurbökkunum er hver viðlegukanturinn á fætur öðrum, hver með sínu nafni.  Vestan Vesturdokkar eru Houthaven, Minervahaven, Coenhaven og Olíuhöfnin, sem er við enda Norðursjávarskurðarins.  Stöðugt er unnið að hafnarbótum til að mæta kröfum tímans.  Á norðurbakka IJ er líka fjöldi minni viðlegukanta og gáttastíflur Norðursjávarskurðarins.  Skammt vestan aðalbrautarstöðvarinnar er hið 13 hæða (60m) háa Hafnarhús með góðu útsýnisveitingahúsi og við Austurdokk er Sjóminjasafnið.

Sunnan skurðarins Open Havenfront og Austurdokkar liggur Prins-Hendrik-Kade, sem hét áður Buitenkant.  Austar, handan innri hafnarinnar, er Nikulásarkirkjan (1885-85; katólsk).  Enn austar er Harmakveinaturninn (1487), sem er sagður heita svo vegna eiginkvenna og barna, sem voru að kveðja eiginmenn og feður, þegar þeir héldu til hafs.  Við horn Buitenkant er Sjóferðahúsið (1913), áhugavert dæmi um hollenzkan júgendstíl og setur skipafélaga.  De Tuyter aðmíráll bjó í húsi nr. 131 við Prins-Hendrik-Kade.

Gatan Zeedijk er alræmdasta gata Amsterdam, þar sem fólk ætti ekki að vera eitt á ferð.  Hún liggur frá Nikulásarkirkju að Nýjamarkaði.  Hús nr. 1 er elzta húsið, sem haldið er við í borginni.  Það er frá 15. öld.  Skammt suðvestar, við hina hrífandi Oudezijds Voorburgwal, er Amstelkringsafnið í húsi nr. 40.  Þar eru fornir kirkjumunir, myndir og koparstungur.  Sunnar er Gamlakirkja (Oude Kerk) frá 13. öld með háum vesturturni frá 15/16. öld (gott útsýni).  Inni í henni eru fögur *glermálverk (hollenzkur háendurreisnarstíll; 1555) og grafsteinar merkra aðmírála.

Borgarhliðið frá 1488, sem heitir St. Anthonieswaag, er á Nýjamarkaði.  Þar er Sögusafn Amsterdam, sem rekur m.a. sögu gyðinga og er með skiptisýningar, bæði í safninu sjálfu og í fyrrum munaðarleysingjahæli.  Hollenzka vínsafnið er í húsi við Koestraat, vestan Nýjamarkaðar.  Austan markaðarins, við Oudeschans, er Montelbaanshlið, sem sýnir leifar borgarmúra frá 15. öld. Það er fagurt að líta yfir Kloveniersburgwal-skurðinn og -götu sunnan markaðarins.  Austan hans er Konunglega vísindaakademían (nr. 29; 1662).  Sunnar er fyrrum Suðurkirkjan (Zuiderkerk; 1603-11), sem H. De Keyser byggði og var síðar grafinn þar.

Milli gatnanna Oudezijds Voorbugwaal og Achterburgwal er Ráðhúsið, áður setur yfirstjórnar sjóhersins og landstjórans.  Sunnan þess er Borgarháskólinn (1632; u.þ.b. 20 þús. stúd.) milli Oudezijds Acterburgwal og Kloveniersburgwal með inngangi gegnum Oudenmanhuisportje.  Húsnæði stúdentanna var fyrrum elliheimili (1754).  Þar sem Oudezijds Voorburgwal, Oudezijds Achterburgwal og Grimburgwal skerast er hið fræga *Þriggjaskurðahús frá 1610.

Fjölfarin Rokingatan liggur á milli Dam og Muntplein.  Það þurfti að fylla hluta af Amstel upp til að byggja þessa götu.  Vestar og samsíða liggur *Kalverstraat líka á milli Dam og Muntplein.  Hún er vinsælasta verzlunargata borgarinnar og er göngugata.  Vestast við hana er fallegur inngangur (1581) fyrrum munaðarleysingjahælis og Lúsíuklausturs.  Sunnar er Beginenhof (14.-17. öld).  Vaxmyndasafnið er við Kalverstraat 156. Við Singelskurð í húsi nr. 423 er Borgarbókasafnið (stækkað 1966) með hátt á þriðju milljón bókatitla auk handrita.

Í vesturhluta miðborgarinnar eru tvær skoðunarverðar kirkjur við Prinsenskurðinn:  Norðurkirkjan (H. de Keyser; 1622) og Vesturkirkjan (H. de Keyser; 1620-31) við Vesturmarkað, þar sem Rembrandt liggur grafinn.  Vesturkirkjan státar af 85 m háum turni, hinum hæsta í borginni (klukkuspil, útsýni). Húsið, sem Rembrandt dó í, stóð við Rozengracht (nr. 184).  Þar stendur nú einungis minningartafla um hann.  Anne-Frankhúsið er nr. 263.  Þar faldi fjölskylda hennar sig á síðari stríðsárunum eins og Anne lýsti svo ljóslega í dagbókum sínum.  Þar er nú safn um hana.

Suðurborgin
Myntturninn
á Mynttorgi (Muntplein) er hluti gamals borgarhliðs frá 15. öld.  Það er óhætt að segja, að hann sé miðpunktur í fallegri borgarmynd.  Austar er líflegt Rembrandtstorgið með styttu af listmálaranum og í næsta nágrenni er Tóbakssafnið Niemeijer (Amstel 57).  Umhverfið við Herengracht minnir á Amsterdam eins og hún var á 17. og 18. öld.  Willet-Holthuysensafnið í húsi nr. 605 geymir húsgögn frá 16.-18. öld,, postulín og glös og úrvalsbókasafn.  Leikhússafnið er í húsi nr. 168.  Sixtíska málverkasafnið er í húsi nr. 218 við Amstel.  Það er merkilegast einkasafn í Hollandi, sem státar m.a. af Rembrandt: **Jan Six, 1654.  Fodorsafnið er í húsi nr. 609 við Keizergracht.  Þetta málverkasafn stofnaði kaupmaðurinn Ch. J. Fodor (†1860).  Mest er af verkum frá miðri 19. öld.

Hið heimsfræga **Ríkissafn er í múrsteinahúsinu Stadhouderskade 42 (P.J.H. Cuypers; 1877-85).  Þar eru frábær og einstök málverk og höggmyndir auk þess sem safnið gefur ítarlega mynd af hollenzkum listiðnaði, miðaldahöggmyndagerð og nútímamálverkum.  Það ætti enginn að láta hjá líða að heimsækja þetta stórmerka safn.  Bezt er að kaupa bækling um safnið til að njóta þess til hins ítrasta.

Suðvestan Ríkissafnsins liggur Paulus Potterstraat.  Þar er Van-Goghsafnið í húsum nr. 7-9, sem voru byggð 1968-73 eftir teikningum Rietveld, Van Dillen og Van Tricht.  Þetta húsnæði er tiltölulega þröngt fyrir 200 málverk, 500 teikningar og 700 bréf málarans auk verka samtímalistamanna, s.s. Gauguin og Toulouse-Lautrec.  *Borgarsafnið er í húsi nr. 13 með úrvali hollenzkra og franskra málverka frá 19. og 20. öld.  Sunnan Ríkissafnsins er Tónlistarhöllin við van-Berle-Straat.  Þar leikur Tónlistarhallarhljómsveitin, sem var stofnuð 1888.

Göturnar sunnan þessara safna eru flestar prýddar frábærum sýnishornum af hollenzkum húsum í júgendstíl og flestum finnst göturnar Apollo- og Churchilllaan bera af.  Ráðstefnuhöllin R.A.I. (1959-65; >45.000 m³) er við Evróputorgið, sunnan Churchilllaan.  Ólympíuleikvangurinn með 60.000 sætum er suðvestan Vondelpark.

Austurborgin
Gyðingahverfið fyrrverandi er á milli Houtkoopersburgwal í norðri og Innri-Amstel í suðri.  Í síðari heimsstyrjöldinni voru rúmlega 70% gyðinga borgarinnar flutt nauðug brott.  Miðja hverfisins er Waterlooplein, þar sem er enn þá stunduð fjörug smáverzlun með fatnað og flóamarkaður er meðal þess, sem áhugavert er að staldra við.  Heimsspekingurinn Baruch Spinoza fæddist líklega í húsi nr. 41 árið 1632.  Aðalgata hverfisins er Jodenbreestraat og við hana er *Rembrandthús (nr. 4; 1606), sem málarinn bjó í á árunum 1639-1658.  Síða 1911 er þar safn teikninga og koparstungna.  Norðan torgsins Meijerplein trónir Portúgalska gyðingakirkjan (1671-75).

Austan gyðingahverfisins og handan Nieuwe Herengracht, þar sem heitir Plantage-hverfið, er Grasagarðurinn með inngangi frá Middenlaan 2.  Austar er Dýragarðurinn (Natura Artis Magistra; inngangur Kerklaan 40) með sædýrasafni og dýrasafni (Midddenlaan 53), stóru bókasafni og veitingahúsum.  Við austurenda Middenlaan liggur brú í átt að Muiderpoort (18. öld) og lengra, yfir Singelgracht að hinu víðkunna *Hitabeltissafni með inngangi frá Linaeusstraat 2a.

Umhverfi Amsterdam
Á sumrin bjóðast ýmsar bátsferðir frá Stationstorgi eða Ruyterkade.  Meðal þeirra er ferð um IJsselmeer eða Nordholland-skurðinn til Monnikendam og Volendam og e.t.v. er skotizt til eyjarinnar Marken.  Frá Ruyterkade er líka farið til Hardervijk.  Frá Sloterkade 162 er siglt um Aalsmeer til Brassemer Meer og fuglagarðsins Avifauna.  Það er einnig vinsælt að sigla frá Stadthouderskade eftir Amstel um garðahverfið Kalfje til þorpsins Ouderkerk, þar sem er fjöldi fallegra grafa portúgölsku gyðinganna.  Einnig borgar sig að sigla til Zaandam í norðvestanverðri borginni.  Iðnaðarbærinn Zaanstadt erá báðum bökkum Zaan.  Þar er miðstöð timburviðskipta í landinu, útisafnið Zaanse Schans (söguleg timburhús og myllur og mjóir skurðir). Við stífluna er minnismerki Péturs mikla, keisara, sem lærði skipasmíðar þarna árið 1967.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM