Ródosborg Grikkland,
Greece Flag

Umhverfi Ródosborgar

RÓDOS
GRIKKLAND

.

.

Utanríkisrnt.

 

Borgin Ródos er í fögru umhverfi á norðurenda samnefndrar eyjar.  Hún var setur stórmeistara Jóhannesarriddaranna 1309-1522 og skiptist í Riddaraborgina, gamla og  nýja borgarhlutann.  Sunnan- og vestantil eru úthverfi.

Skoðunarverðir staðir
**Borgarmúrarnir (15.-16.öld) umhverfis gamla borgarhlutann, aðallega byggðir á tímum Tyrkja, eru einhverfir hinir beztu frá þessu skeiði.  Á þeim tímum mátti enginn kristinn maður búa í borginni.  *Amboisehliðið er sérstaklega fallegt, en það lét stórmeistari Jóhannesarriddaranna, Aimerie d’Amboise, byggja árið 1512.  Við hliðina á því er almenningsgarður með dádýragirðingu.  *Hafnarhliðið með Maríulágmyndinni var byggt 1468 við verzlunarhöfnina.  Mælt er með hringgöngu á borgarmúrunum frá torgi stórmeistarahallarinnar að Koskinuhliðinu (aðgangur við fallbyssuhliðið; leiðsaga ef óskað).  Ganga meðfram múrunum utanverðum er líka mjög áhugaverð.

Verzlunarhöfnin.  Þar leggja ferjurnar frá Píreus að.  Norðan hennar er Mandrakihöfnin, sem var byggð við stofnun borgarinnar árið 408 f.Kr. og er nú notuð fyrir snekkjur.  Báðar hafnirnar eru í skjóli stórra hafnargarða.  Á Mandrakigarðinum eru þrjár vindmyllur, viti og Nikolaosvirkið (14.-15.öld).  Beggja vegna innsiglingarinnar í Mandrakihöfnina standa styttur af hirti og hjartarkú, sem prýða líka skjaldarmerki borgarinnar (hirtir og dádýr eru friðuð á eyjunni).  Austan gamla borgarhlutans er Akandiahöfnin með skipasmíðastöð.

Gamla borgin.  Aðalleiðin inn í gömlu borgina er um Frelsishliðið.  Þar eru þröngar götur, kúplar og mínarettur, hlynir og pálmatré.  Við Symitorg eru rústir Afródítuhofs (3.öld f.Kr.) og borgarlistasafnið með nútímalist.  Aðeins sunnar er fallega Argiokastrontorgið með litlum brunni, sem var byggður úr hlutum býzansks skírnarfonts.  Vestan þess er fyrrum vopnabúr borgarinnar (14.öld), sem hýsir nú fornminjasafn og skreytilistarsafn.  Hægt er að komast að gömlu riddarakirkjunni gegnum húsagöng.  Þar er nú safn með snemmkristilegum og býzantískum listmunum.  Skáhallt á móti kirkjunni er reglusjúkrahúsið (15.öld; endurbyggt), sem hýsir nú forngripasafn.

*Riddaragatan (Odós Ippotón)byrjar norðan spítalans.  Hún er prýdd velvarðveittum húsum frá 15. og 16. öld, þar sem hinar ýmsu regludeildir héldu fundi.  Eitt hinna fegurstu er Franska regluhúsið (1492-1503).  Við vesturenda götunnar, á hæsta stað borgarinnar, stendur *Stórmeistarahöllin, fyrrum kastali með þremur virkismúrum.  Þetta mannvirki varð fyrir miklum sköðum, þegar Tyrkir réðust á borgina og stórsprenging árið 1856 fullkomnaði næstum eyðilegginguna.  Ítalar réðu Ródos á árunum 1912-43 og létu endurbyggja höllina og önnur mannvirki hennar eftir gömlum teikningum, sbr. minningartöflu við innganginn.  Innanhúss er höllin frábrugðin upprunalegu útliti en *kísmósaíkgólfin frá eyjunni Kos eru athyglisverð.  Norðaustan hallarinnar er fallegur garður með inngangi frá Papagosgötu.  Fallbyssuhliðið (Antoniushliðið) er við suðvesturhorn hallarinnar.  Þaðan er hægt að komast upp á borgarmúrana.

Klukkuturninn (19.öld) er sunnan hallarinnar og enn sunnar er Súleimanmoskan (fallegar endurreisnardyr), stærsta moska eyjarinnar.  Beint á móti henni er Tyrkneska bókasafnið (1794), sem hýsir verðmæt kóranhandrit.  Þaðan liggur Sokratesgata (Odós Sokrátus) með fjölda basara til austurs og gegnum borgarmiðjuna í átt að verzlunarhöfninni.

Suðaustan Hafnarhliðsins er Verzlunardómstóllinn (1507) og erkibiskupshöllin (15.öld) og fallegur sæhestabrunnur.  Sunnan Sókratesgötu er áhugverður bæjarhluti með fjölda smágatna, s.s. Phanuriosgata og Hómergata (Odós Omiru), báðar með bogahvelfingum, og Pýþagórasargata með fjölda moska, s.s. Ibrahim-Paschamoskan, sem er hin elzta í borginni, frá 1531.  Beint á móti henni er Súleimanmoskan með mörgum kúplum (heimsóknir leyfðar) og Sultan-Mustafamoskan (1765).  Phanurioskirkjan (stofnuð 1335) er við Phanuriosgötu.  Hún er rétttrúarkirkja, að hluta til neðanjarðar og undir moskunum.  Í vesturhluta gömlu borgarinnar, nærri St. Georgturninum, er fyrrum býzönsk kirkja, Humale-Medrese með fallegum inngarði.

Nýja borgin með stjórnsýslubyggingum og fjölda hótela og veitingahúsa nær næstum út á norðurodda eyjarinnar.  Við Mandrakihöfnina er nýja markaðshöllin með stórum inngarði.  Sé haldið þaðan í norðurátt eftir Frelsisgötu (Eleftherias) er farið framhjá Dómshúsinu og aðalpósthúsinu að Evangelismoskirkjunni (upprunal. katólsk, nú rétttrúarkirkja).  Hún var byggð árið 1925 með gömlu klausturkirkjuna St. Johannes riddara sem fyrirmynd, en hún stóð við Stórmeistarahöllina þar til sprengingin varð 1856.  Norðar eru opinberar stofnanir (Nomarchia) í feneyskum stíl, bæði ráðhúsið og leikhúsið.  Enn norðar er hin fagra Murat-Reismoska umkringd gamla, tyrkneska kirkjugarðinum.  Á norðuroddanum er sædýrasafn með litlu náttúrugripasafni.  Aðeins 500 m sunnar er Grand Hôtel Astir Palace og spilavíti.


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM