París,
höfuðborg Frakklands er í 60 m hæð yfir sjó.
Hún
er í Ile de France. Íbúafjöldinn
er í heild nálægt 10 milljónum
(1997).
Í Ville de Paris búa 2,2 milljónir, þar af í gamla bænum hálf
milljón. Séu úthverfi talin með er íbúafjöldinn 8,5 milljónir.
París er langstærsta borg Frakklands.
Hún er efnahagsleg og menningarleg heimsborg og áhrif hennar
hafa lítið minnkað, þótt sýslum landsins hafi verið veitt meiri
sjálfstjórn á seinni árum. París
er eitt þétt- og fjölbýlasta svæði jarðar, þótt íbúum hafi fækkað
frá sjötta áratugnum. Borginni
er skipt í 20 hverfi. Fyrrum
voru miðstéttirnar búsettar á hægri bakka Signu en ríkt fólk og aðallinn
á hinum
vinstri. Hefðbundin
nöfn sumra svæðanna falla ekki endilega saman við hverfaskiptinguna,
enda oft komin af staða- eða byggingaheitum.
Í byrjun 12. aldar voru íbúarnir tæplega 100.000, um 1860 1,5 milljónir
innan borgarmúranna, sem þá stóðu.
Flötur
borgarinnar er 105 km² (Signa 7 km²;
Reykjavík 248
km²).
Elzti hluti Parísar er á 'Ile de la Cité' (Borgareyju), þar
sem stóð gallískt virki á dögum Sesars (Lutetia Parisiorum).
Hann varð miðja hinnar rómversku og franknesku Parísar.
Borgin stækkaði á hægri bakkanum á síðari miðöldum.
Þegar á 12. öld var París orðin miðstöð vestrænnar
menningar með háskóla, sem dró að sér nemendur hvaðanæva að.
Sem aðsetur konunga bauð París upp á meiri og betri vernd en
aðrar borgir og því flykktust fagmenn á ýmsum sviðum þangað,
settust að og borgin þandist út.
Á 15. öld dró 100 ára stríðið úr vextinum.
Aðaluppbygging og þróun borgarinnar hófst á dögum Hinriks
IV eftir trúabragðastyrjaldirnar.
Á meðan á stjórnarbyltingunni og eftirleik hennar stóð varð
Frakkland nafli hins vestræna heims. París var miðja Evrópu á keisaratímanum (1804-1814).
Listmunir og þekking, sem Napóleon kom með úr herferðum sínum
fóru til að skreyta og auka hróður Parísar.
Borgin fór vel út úr báðum heimsstyrjöldunum. |