fallegustu fegurstu fossar heims í heimi
Flag of Venezuela

Flag of United States

Flag of Canada

Flag of Iceland

Flag of New Zealand

Flag of Zimbabwe

Flag of Zambia

Flag of Vietnam

Flag of China

Flag of Switzerland

Flag of Venezuela

Flag of Australia

Flag of Guyana


FEGURSTU FOSSAR HEIMS
.

.

Utanríkisrnt.

Niagarafossar eru í Niagaraánni á mörkum New York-fylkis í BNA og Suðaustur-Ontaríófylkis í Kanada. Þeir eru taldir með áhrifamestu sjónarspilum náttúrunnar þar sem þeir steypast í tveimur hlutum fram af brúninni. Hinn nyrðri er kallaður Kanada- eða Skeifufoss (51m). Geitey er milli fossanna og tilheyrir New York-fylki. Brún Skeifufossins er 790 m löng og syðri fossbrúnin, Bandaríkjamegin, er

305 m löng. Meðalrennsli Skeifufoss er níu sinnum meira en hins syðri. Smáhluti hins syðri, næst Geitey, er þekktur undir nafninu Brúðarslæðan.

Fossarnir mynduðust fyrir u.þ.b. 12.000 árum, þegar jöklar ísaldar hörfuðu til norðurs og opnuðu fyrir afrennsli frá Erie-vatni yfir Niagarabrúnina, sem nær frá Suður-Ontaríó til Rochester, New York. Veðrunin, sem kom í kjölfarið, hefur fært fossbrúnirnar 11 km upp eftir ánni og myndað Niagaragljúfrið. Brún Skeifufoss veðrast um 1½ m á ári en syðri fossbrúnin um 15 sm. Ástæðan fyrir þessum mismun er aðallega meira vatnsmagn Skeifufoss. Árið 1954 hrundi stór fylla úr syðri hlutanum og myndaði stóra grjóthrúgu undir fossinum. Þá var byggð stífla frá bandaríska bakkanum út í Geitey árið 1969 til að beina vatninu í Skeifufoss í nokkra mánuði til að fjarlægja hluta þessarar hrúgu.

Niagarafossarnir laða að gífurlegan fjölda ferðamanna ár hvert. Útsýni til þeirra er gott frá útsýnisturnum í skemmtigörðum beggja vegna fljótsins, frá bátum, frá Geitey og frá Regnbogabrúnni, sem er aðeins neðan fossanna. Margir fara líka í bátsferð inn í Helli vindanna á bak við syðri fossinn.

Franski landkönnuðurinn Samuel de Champlain kom líklega að fossunum árið 1613. Séra Louis Hennepin, flæmskur munkur, sá fossana árið 1678 og skrifaði síðar lýsingu á þeim.

Meðalstreymi vatns Niagarafljótsins er 456 rúmmetrar á sekúndu. Daniel Chabert Joncaire varð líklega fyrstur til að nýta hluta fallorkunnar fyrir sögunarmylluna, sem hann byggði við fossana ári 1757. Árið 1853 hófst gröftur skurðar fyrir aðrennslisvatn að fyrirhuguðu orkuveri neðan fossana. Árið 1875 tengdist fyrsta hveitimyllan þessu vatnsrennsli og árið 1881 var fyrsta rafalnum komið fyrir við ána. Edward Dean Adams-orkuverið var tekið í notkun Bandaríkjamegin árið 1896.

Árið 1950 sömdu BNA og Kanadamenn um vatnsmagnið, sem mætti leiða frá fossunum til orkuframleiðslu og skömmu síðar voru tvö stór orkuver byggð. Kanadamenn byggðu Sir Adam Beck-Niagaraverið (182 mW; 1958) við Queenston í Ontaríó. Bandaríkjamenn byggðu Robert Moses-Niagaraverið (240 mW; 1963) í grennd við Lewiston, New York. Bæði orkuverin eru u.þ.b. 6 km neðan fossanna. Raforkan er að mestu nýtt í iðnaði í nærliggjandi borgum.

Sutherlandfoss er á Suðureyju Nýja-Sjálands nærri Milfordsundi, en þaðan er gott útsýni til hans.  Hann er 580 m hár (1904 fet) og var löngum talinn hæsti foss landsins, en Browne fossar eru 843 m háir (2766 fet).
Sutherlandfoss fellur í þremur þrepum, 229m efst, 248m í miðju og 103m neðst.  Gangan að fossunum frá Quintin Public Shelter á Milford stígnum tekur hálfan annan tíma.

Gæta verður þess, að það er mjög úrkomusamt á Nýja-Sjálandi.

Viktoríufossar eru meðal fegurstu fossa heims í Sambesiánni á landamærum Sambíu og Simbabve.  Þeir eru 1,7 km breiðir og 128 m háir.
Skozki landkönnuðurinn og trúboðinn David Livingstone kom að fossunum árið 1855 og gaf þeim nafnið.  Á máli innfæddra heita þeir Mosi-oa_Tunya, sem þýðir „Þrumandi reykur”. 
Viktoríufossar eru í þjóðgörðunum Mosi-oa-Tunya í Sambíu.  Í Simbabve heitir hann Viktoríufossaþjóðgarður.  Fossarnir eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Iguaçu-áin er þverá Paraná-árinnar og rennur um Brasilíu og Argentínu. Hún er u.þ.b. 1210 km löng og kemur upp nærri strönd Atlantshafsins í Suðaustur-Brasilíu, þaðan sem hún rennur nokkurn veginn til vesturs til Paraná-árinnar. Hún myndar hluta landamæra landanna. Iguaçufossarnir eru u.þ.b. 24 km frá ármótum hennar og Paraná-árinnar. Þeir eru stærri en Niagarafossarnir og eru meðal mestu náttúruundra Suður-Ameríku, rúmlega 60 m háir, sums staðar í tveimur stöllum, annars staðar fleiri og sumpart í flúðum. Á þurrkatímanum skiptast fossarnir í tvennt, hvor hluti u.þ.b. 730 m breiður, en á regntímanum sameinast þeir í u.þ.b. 4 km breiðan foss.

Gullfoss er í Hvítá, þar sem hann fellur í tveimur þrepum niður í Hvítárgljúfur, sem eru allt að 70 m djúp. Efri fossinn er u.þ.b. 11 m hár en hinn neðri 21 m. Gljúfrið er u.þ.b. 2½ km langt og hefur myndast á síðustu 10.000 árum (25 sm á ári). Hvammur í gljúfrinu, nokkru neðan Gullfoss, heitir Pjaxi. Ofan Gullfoss eru straumharðar flúðir í ánni. Samkvæmt sögnum óðu menn ána þar, þótt ólíklegt sé. Sagt er að Þórður Guðbrandsson frá Brattholti hafi beðir sér konu á þeim slóðum yfir ána. Hún tók vel í það og sagðist mundu taka honum, ef hann kæmi strax til sín yfir ána, sem hann gerði.

Árin 1930 og 1948 komu svo stór flóð í ána, að neðri foss Gullfoss hvarf og gljúfrið fylltist af vatni. Fossinn var í eigu Brattholtsbænda, þegar hann komst í hendur erlends fyrirtækis, sem hugðist virkja ána í gljúfrinu. Sigríður Tómasdóttir, eigandi og ábúandi Brattholts fyrr á 19. öldinni undi því ekki, að bezti vinur hennar, fossinn, væri í eigu útlendinga og hyrfi líklega. Hún höfðaði mál gegn fyrirtækinu og fékk Svein Björnsson til aðstoðar. Hún tapaði miklu fé á þessu máli en fossinn komst aftur í eigu Íslendinga og hefur verið í eigu ríkisins síðan

Minnisvarði um Sigríði var reistur í gljúfrinu við neðri bílastæðin árið 1978. Hann gerði Ríkharður Jónsson.

Pjaxi er kjarrhvammur í vestanverðu gljúfrinu neðan Gullfoss. Þar er friðsælt og gróður fjölskrúðugur. Einstigið niður í hvamminn krefst varkárni og er ekki fyrir lofthrædda. Ein kennina um nafngiftina er latneska orðið „pax”.

Ban Gioc - Detian-fossar eru tveir fossar í Quây Son-á, landamærunum Kína og Víetnam.  Þeir eru í karst-hæðum Daxin-hrepps í Chongzuo-sýslu í Kína, og Trung Khanh-sýslu í Cao Bang héraði í Víetnam, 272 km norðan Hanoi.
Fossarnir falla 30 m.  Þeir eru þrír og aðskildir klettum og trjám og drunur þeirra berast langt.  Þeir eru nú fjórðu stærstu fossar á landamærum ríkja heimsins á eftir Iguazu-fossum, Viktoríufossum og Niagarafossum.  Nærri Detian-fossum er Tongling-gljúfrið, sem er einungis aðgengilegt um hellagöng frá samhliða gljúfri.  Þetta gljúfur fannst á ný fyrir skömmu og þar vaxa margar plöntur, sem finnast ekki annars staðar.  Fyrrum notuðu ræningjar gljúfrið sem felustað og enn þá finnast dýrgripir, sem þeir földu þar í hellum.
Vegur meðfram fossunum liggur að vörðu, sem merkir landamæri Kína og Víetnam (kínverska og franska).  Enn þá eru uppi deilur um legu þeirra  á þessum slóðum.

Reichenbach-fossar eru í ánni Aare í grennd við Meiringen í kantónunni Bern í Mið-Sviss.  Heildarfallhæð þeirra er 250 m.  Efri-Rechenbach-foss er er meðal hæstu stórfossa í Ölpunum.  Aðgangur að fossunum er auðveldur með samnefndri togbraut.

Mikið dregur úr vatnsrennsli fossanna, þegar vatnið er virkjað til framleiðslu rafmagns.

Fossarnir eru þekktir úr skáldsögu Sir Arthur Conan Doyle um Sherlock Holmes, sem barðist við erkióvin sinn, Moriarty við fossana og lét þar lífið.

 

Jim Jim foss í Kakadu þjóðgarðinum í Norðurhéruðunum í Ástralíu er 200 m hár.  Jarðvísindamenn álíta, að mestur hluti þjóðgarðsins hafi verið sjávarbot fyrir 140 milljónum ára.  Áberandi brúnir og þverhnípi urðu til við sjávarrof og sléttan ofan þeirra var þurrlendi.
Nú rísa klettabelti 330 m yfir slétturnar allt að 500 km langa leið meðfram austurhluta þjóðgarðsins inn í Arnhem Land.

Á þurrkatímanum er hægt að aka að fossinum, 60 km leið, en síðustu 11 km eru færir fjórhjóladrifnum bílum.  Á þessum tíma eru fossarnir á svæðinu ekki áhugaverðir, en þegar þeir eru upp á sitt besta, er vegurinn ófær.

Kaieteur-foss í Potaro-ánni í Mið-Guiana er vatnsmikill.  Hann er í samnefndum þjóðgarði, 226 m hár, ef neðstu stallarnir eru ekki taldir með, en 251 m með þeim, og meðal aflmestu fossa heims.
Kaieteur foss er næstum fimm sinnum hærri en Niagara-fossarnir og tvöfalt hærri en Viktoríufossar.  Meðalrennslið er 663 rúmmetrar á sekúndu.
Ofan fossins teygist Potaro-sléttan að fjarlægum hlíðum Pakaraima-fjalla.  Potaro-áin er þverá Essequibo-árinnar, sem er meðal lengstu og breiðustu fljóta Suður-Ameríku.

Hinn 24. apríl 1870 varð brezki jarðfræðingurinn Charles Barrington Brown fyrstur Evrópumanna til að sjá fossinn.  Hann var að störfum í Brezku-Guiana fyrir ríkisstjórn Breta.  Starfsbróðir hans, James Sawkins, sem starfaði einnig fyrir ríkið, kom næstur.
Þeir komu báðir til Georgetown 1867.

Angel-fossar eru í suðausturhluta Venesúela í ánni Río Churún. Þeir eru hæstir fossa heims, 979 m háir, þar sem vatnið fellur fram af hásléttunni Auvántepui, sem er hluti af regnskógavöxnu Guiana-hálendinu. Bandarískur flugmaður og ævintýramaður, James C. Angel, fann þá árið 1935.


Fossar á Íslandi

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM