Helsinki, höfuðborg
Finnlands og héraðsins Uusimaa (Nýjaland), stendur að hluta til á
mjög giljóttum granítskaga á norðurströnd Finnskaflóa með fjölda
kletta og úthverfa. Borgin
er andleg og veraldleg miðstöð landsins með fjölda mennta- og
menningarstofnana og miðstöð iðnaðar, verzlunar og þjónustu.
Þar eru m.a. háskóli, tækniháskóli, tveir verzlunarháskólar
og margar vísinda- og menningarstofnanir.
Hún er miðstöð iðnaðar (skipssmíði, vélaframleiðslu,
postulínsgerðar og vefnaðar) og stjórnsýslu.
Höfnin í Helsinki er mikilvægasta inn- og útflutningshöfn
landsins og í borginni eru stjórnstöðvar flestra stórra fyrirtækja í landinu. Þar eru
haldnar margar tæknisýningar. Núverandi
miðborg var reist á fyrri hluta 19. aldar eftir hugmyndum Johan
Albrekt Ehrenström og teikningum berlínska arkitektsins Carl Ludwig
Engel (1778-1840) í klassískum keisarastíl.
Stórar og breiðar götur gefa borginni yfirbragð mikils rýmis
og ljósar forhliðar húsanna hafa áunnið borginni nafnið „hin hvíta
borg norðursins”. Úthverfi, s.s. görðum prýtt Tapiola, eru til fyrirmyndar.
Fyrstu neðanjarðarbrautir voru teknar í notkun í kringum
1982.
Gustav I Vasa stofnaði
borgina 1550 lítið eitt norðaustan núverandi miðborgar við mynni
árinnar Vantaanjoki, þar sem hún hverfur í Finnskaflóa.
Tilgangurinn var að keppa við verzlunarborgina Reval (núverandi
Tallin). Kristín drottning
lét flytja hana út á skagann Vironniemi árið 1639, þar sem aðstæður
voru hagstæðari. Árið
1748 var bygging varnarmannvirkja hafin á nærliggjandi eyju,
Suomenlinna. Borgarbúar stóðust
rússnesku árásarliði ekki snúning árið 1808 og Helsinki var
innlimuð í stórfurstadæmið Finnland.
Alexander I, keisari, gerði hana að höfuðborg árið 1812.
C.L. Engel var falið að endurbyggja borgina árið 1916, en þriðjungur
hennar hafði brunnið í árásinni 1808.
Árið 1828 var háskólinn fluttur frá Turku (Äbo) til
Helsinki.
Eftir að rússneska
keisaradæmið hrundi var lýðveldið Finnland stofnað í Helsinki 6.
des. 1917. Þýzkar
hersveitir hjálpuðu til við frelsun borgarinnar undan bolsevíkum
1918 og þá varð hún höfuðborg landsins.
Í síðari heimsstyrjöldinni var Helsinki ein fárra höfuðborga
Evrópu, sem var ekki hersetin. Sumarólympíuleikarnir
fóru þar fram 1952 og árið 1975 var haldin ráðstefna um öryggi og
samvinnu í Evrópu. |