Helsinki Finnland borgarlýsing,
Finland Flag

SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR

HELSINKI
BORGARLÝSING

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Markaðstorgið er miðpunktur Helsinki.  Hann er opinn mánudaga til laugardaga kl. 07:00-14:00 árið um kring og ekki síður gaman að heimsækja hann á veturna.  Markaðurinn er norðan suðurhafnarinnar:  Einsteinungur minnir á heimsókn keisaraynjunnar Alexandra Feódorowna til Helsinki árið 1833.  Héðan sigla bátarnir til Suomenlinnaeyju og skerjanna.  Beggja vegna suðurhafnarinnar leggjast Svíþjóðarferjurnar að bryggju.  Norðan torgsins er ráðhúsið frá 1833, sem Engel byggði, með ljósblárri forhlið.  Austan norðausturhorns torgsins er forsetahöllin og bak við hana eru aðalstöðvar lífvarðarins.  Vestan torgsins, milli akreina Esplanade, er fallegur skrautbrunnur, sem heitir Havis Amanda og er verk V. Vallgren (1908). 

Við hann er hið vinsæla veitingahús Esplanadikappeli með sviði fyrir sumartónleika.  Skammt sunnar er skrautleg markaðshöllin (1891; Kauppahalli).  Austan markaðarins er brú, sem liggur yfir í eyjuna Katajanokka.  Strax þar til hægri, uppi á hól, er *Uspenski dómkirkjan (1868) með gylltum kúpli og innanstokks er fjöldi málverka og helgimynda.

Aðalverzlunarhverfi Helsinki er við og í kringum Aleksanterinkatu, sem liggur samhliða Esplanade.  Um miðja götu er hið fagra Öldungatorg (Senaatintori) með brosstyttu Alexanders II keisara eftir W. Runeberg (1894).  Norðan torgsins leiðr breiðar tröppur upp að Tumiokirkjunni, lútersku dómkirkjunni, sem hvílir á granítkletti.  Bygging hennar hófst 1830 og lauk í breyttum stíl frá upphaflegum teikningum 1852.  Inni í henni eru styttur Lúters, Melanchthons og finnska siðabótamannsins M. Agricola auk fallegs orgels.

Við vestanvert torgið er háskólinn (Yliopisto), sem Engel byggði á árunum 1828-32 og var síðan stækkaður í átt að Fabianinkatu árið 1936.  Norðan hans er háskólabókasafnið (Yliopiston Kirjasto; 1836-45; Engel).  Þar eru a.m.k. 1,5 milljónir titla auk 2000 handrita og stærsta safni slavneskra verka í Vesturheimi.  Þessi bygging er talin vera fegursta bygging, sem Engel bar ábyrgð á.  Beint á móti háskólanum er ríkisstjórnarhöllin (Valtionenvoston linna), sem hýsti öldungadeild stórfurstadæmisins til 1918.  Þar er nú m.a. utanríkisráðuneytið.  Árið 1904 skaut Eugen Schauman rússneska ríkisstjórann í tröppuhúsi hallarinnar.  Elzta steinhús borgarinnar, Sederholmhúsið, er hinum megin við Aleksanterinkatu.  Bak við ríkisstjórnarhöllina.er Riddarahúsið (Ritarihuone; 1858-61), þar sem riddarar og aðalsmenn hittust en er nú lítið notað og að hluta til leigt út.  Á annari hæð þess eru skjaldarmerki finnska aðalsins.  Á móti Riddarahúsinu, hinum megin við Hallituskatu, er hús Finnska bókmenntafélagsins (Suomen Kirjallisuuden Seura), sem var stofnað 1831.

Snellmaninkatu liggur til norðurs frá Öldungatorginu.  Þegar komið er fram hjá Kirkkokatu, blasir Stéttahúsið (1891) við til hægri með styttum eftir Vikström (1903), sem sýna Alexander I keisara á þinginu í Gorgå 1809.  Finnlandsbanki er beint á móti.  Stytta þingmannsins og heimspekingsins J.V. Snellman (1806-81, sem knúði í gegn jafnræði milli finnskrar tungu og sænsku, stendur fyrir framan bankann.  Lítið eitt norðar, hinum megin við götuna á horni Rauhankatu, er skjalasafn ríkisins.  Norðaustar, við Maurinkatu 3, er Finnska stríðssafnið.

Lengra frá Öldungatorginu, við Alkeksandterinkatu í vestuátt, þar sem hún sker Mannerheimintie, er styttan „Þrír smiðir” (1932) eftir Fr. Nyland.  Það kvarnaðist úr þeim í rússneskum loftárásum í síðari heimsstyrjöldinni.  Til vinstri er verzlunarmiðstöðin Stockmann.  Stofnandinn, G.F. Stockmann frá Lübeck, haslaði sér völl í viðskiptalífi borgarinnar 1862.

Engel sá um byggingu Sænska leikhússins (1863-66) milli akreinanna á Esplanade.  Þar eru styttur nokkurra andans manna, s.s. sænsk-finnska skáldsins Zachris Topelius eftir  G. Finne (1932), finnska skáldsins Eino Leino (1878-1926) eftir Lauri Leppänen, skáldsins J.L. Runeberg eftir son hans, W. Runeberg (1885) o.fl.  Við norðanverðt breiðstrætið, á horni Kluuvikatu, er hús, sem var fjarlægt stein fyrir stein svo að hægt væri að endurnýja undirstöður þess.  Svo var þar endurbyggt með óbreyttri forhlið.  Í þessu húsi, sem var hótel, var lýst yfir uppgjöf Finna í vetrarstríðinu árið 1940.  Árið 1918 var aðalbækistöð hermanna í húsinu.  Skáhallt á móti því, ár horni Etelä Esplanaadikatu/Fabianinkatu er lítil höll (1824), sem Engel sá um að byggja.  Hún var heimili rússnesku landstjóranna 1832-1917.  Núna er þar hátíðaíbúð ríkisstjórnarinnar, sem er enn þá almennt kölluð Smolna, vegna þess að  bráðabirðga og ráðgefandi ríkisstjórn landsins sat þar líkt og eins og Smolny í Petrograd.

Framhald Esplanade til suðvesturs er Bulevardi.  Til hægri, handan Yrjönkatu er kirkjugarður, sem var notaður til 1929 og Gamla kirkja (Engel) úr timbri til bráðabirgða þar til byggingu dómkirkjunnar var lokið.  Þar eru þrjú minnismerki um fallna Finna og Þjóðverja í frelsisstríðinu 1918.  Á horni Yrjönkatu/Lönnrotinkatu er grafhýsi húsameistara borgarinnar J. Sederholm.  Þarna voru líka mörg fórnarlömb plágunnar grafin.  Á móti kirkjunni stendur minnismerki (Emil Wickström; 1902) læknisins og málvísindamannsins Elias Lönnrot (1802-84), sem safnaði þjóðsöguljóðunum Kalevala, orti sum sjálfur og gaf út.  Hjá honum standa Kalevalastyttan og „Suomen neito”.  Við Yrjönkatu 27 er Amos Anderson listasafnið.  Lengra, hægra megin breiðgötunnar, við Albertinkatu, er Þjóðaróperan og við enda götunnar Listasafn Sinebrychoff (málverk 17. og 18. aldar, húsgögn og önnur listaverk).

Gamla stúdentahúsið (1870; brann 1978) er við gatnamót Mannerheimintie/Aleksanterinkatu með tveimur styttum úr Kalevalaljóðunum, Väinämöinen og Iimarinen.  Bak við það er Nýja stúdentahúsið (1911) og lengra, eftir Kaivokatu til vinstri, er umferðarmiðstöðin og aðalpósthúsið (1940).  Framan við pósthúsið stendur riddarastytta marskálksins Mannerheim eftir A. Tukiainen (1960).  Aðalbrautarstöðin (1919; Rautatieasema) er hægra megin pósthússins mer 48 m háum  klukkuturni, sem er merkasta mannvirki E Saarinens í Finnlandi.  Í austurálmunni er lítið járnbrautasafn. 

Norðan Brautarstöðvartorgsins er Finnska þjóðleikhúsið (Kansallisteatteri; 1901) og framan við það minnismerki um þjóðskáldið Aleksis Kivi (Wäinö Aaltonen, 1934).  Handan torgsins er *Ateneum, háskóli fyrir myndandi list og safn (Theodor Höijer, 1884-87), sem hýsir merkustu listaverk þjóðarinnar.  Í finnsku deildinni eru m.a. verk eftir A. Edelfelt (1854-1905), E. Järnefelt (1863-1937), P. Halonen (1865-1933) og A Gallén-Kallela (1865-1935).  Auk þeirra eru verk ýmissa erlendra meistara, Rembrandt, Watteaus, Frans Hals auk evrópskrar nútímalistar.  Í höggmyndasalnum eru verk eftir finnana V. Vallgren, W. Aalthonen, W. Runeberg og S. Hildén.  Við innganginn er bronsstytta Alberts Edenfelts eftir V. Vallgren (1929).  Grasagarðurinn er bak við Þjóðleikhúsið.

Norðvestan pósthússins, við Mannerheimintie, er Þinghúsið (Eduskuntatalo), stórkostleg bygging eftir J.S. Sirén (1930).  Á móti því til hægri eru styttur fyrrum forseta landsins, P.E. Svinhufvud (1861-1944), K.J. Ståhlberg (1865-1952) og til hliðar í garðinum K. Kallio (1873-1940)

Þjóðminjasafnið (Kansallismuseo; 1912)) er aðeins lengra við Mannerheimintie með oddmjóum turni.  Merkustu munir þess varpa ljósi á menningarsögu og þjóðfræði landsins.  Óhætt er að benda á mannfræðisafnið, sem sýnir m.a. þjóðbúninga finnsk-úrgísku þjóðflokkanna.

Í garðinum, skáhallt á mót Þjóðminjasafninu,  er Borgarsafnið og Finlandíabyggingin (Alvar Aalto, 1971), sem er tónleika- og ráðstefnuhöll, er norðar.  Við gatnamót Helsinginkatu og Mannerheiintie er gamla sýningarhöllin og Ólympíuleikvangurinn (1938).  Úr 72 m háum turninum er gott útsýni yfir borgina (lyfta).  Finnska íþróttasafnið er á leikvanginum.  Þar er stytta af finnska hlauparanum Paavo Nurmi (1897-1973) eftir Aaltonen (1952).  Austar er sundlaugin og norðan hennar skautahöllin.  Handan járnbrautarinnar, autan íþróttasvæðisins, er skemmtigarðurinn Linnanmäki með vatnsturninum.  Við hliðina er Menningarhúsið (Alvar Aalto).  Borgarleikhúsið (1968) er aðeins sunnar og svo kemur stjórnsýsluhús borgarinnar.  Mannerheim barnasjúkrahúsið, sem er við enda Linnankoskenkatu.  Þar er annast um andlega og líkamlega fötluð börn.

Sibeliusgarðurinn er við Merkannontie.  Þar er minnismerkið um Sibelius eftir Eila Hiltunen (1967).  Vegna mikillar gagnrýni íhaldssams fólks bætti listamaðurinn bjróstmynd af tónskáldinu við, þó vel til hliðar við minnismerkið.  Sé gengið áfram meðfram vatninu og fram hjá róðrarsvæðinu, kemur sandströndin í Hietaniemi í ljós og lengra er Hietaniemi-kirkjugarðurinn.  Þar rís hæst minningarkross um fólk, sem féll í styrjöldum.  Í þjóðargrafreitunum hvíla m.a. Mannerheim marskálkur (1867-1951), 122 Þjóðverjar, sem féllu á finnskri grund, stjórnmálamennirnir Risto Ryti, Väinö Tanner, T.M. Kivimäki og E. Linkomies.  Þessir stjórnmálamenn létu ekki sitt eftir liggja í frelsisbaráttu Finna og Rússar dæmdu þá í fangelsi.  Þessi málatilbúnaður var meðal skilyrða vopnahléssamnings þjóðanna.

Líkbrennslan fer fram í húsi frá 1927 við Hietaniemenkatu og duftkerjagarðurinn er bak við það. Finnsku og sænsku viðskiptaháskólarnir eru við Arkadiankatu og framan við hinn finnska er brrunnurinn „Akkur” (A. Tukainen, 1954).  *Klettakirkjan (Taivalahdenkirkko) frá 1968-69 eftir T. og T. Suomalainen er að mestu neðanjarðar við Fredrikinkatu.  Sögnlistarskólinn eða Sibelíus akademían er á gatnamótum Arkadiankatu og Pohjoinen Rautaatiekatu og á móti honum er Dýrafræðisafnið. 

Í borgarhlutanum sunnan markaðarins, við enda Unioninkatu, er Þýzka kirkjan og bak við hana er stjörnuathugunarstöðin (38m; Engel, 1833).  Austan á hæðinni er útsýnispallur með styttunni „Skipbrotsmennirnir” eftir Robert Stigell, 1897.  Vestan hæðarinnar er hin nýgotneska Jóhanneskirkja (1893) með tveimur 74 m háum turnum.  Milli hennar og hæðarinnar er Kasarmikatu með Hönnunarmiðstöðinni (nr. 19).  Agricolakirkjan (1934) er aðeins suðvestar og hún þekkist á mjög uppmjóum turni.  Mannheim marskálkur bjó í húsi nr. 14 við Kalliolinnantie, þar sem er nú safn helgað honum.  Brunnagarðurinn (Kaivopuisto) er lítið eitt lengra.

Í norðausturhluta borgarinnar er postulínsverksmiðjan Arabía (safn og leiðsaga) við Hämeentie.  Skammt norðaustar er „Vanhankaupunki”, torgið, þar sem borgin var stofnuð árið 1550.  Við Vanhankaupunkintie er steinplata, sem minnir á fyrstu kirkjuna og kirkjugarðinn í borginni.  Aðeins lengra og til hægri er svartur granítveggur með lágmynd af Gustav Vasa og á jörðinni liggur plata með gamla borgarkortinu.

UMHVERFI HELSINKI
Eyjarnar Suomenlinna  eru suðaustan borgarinnar og bátar sigla þangað frá markaðnum.  Þar eru rústir virkis frá 18. öld með safni og veitingahús í einu jarðhúsinu.  Útivistareyjan Pihlajasaari  býður gestum sínum góða sandströnd og skóglendi.  Þangað er farið með bátum frá Merisatamaranta, vestan Brunnagarðsins.

Aðeins 7½ km austan borgarinnar er Hertoniemie með Topeliussafninu, sem var reist til minningar um skáldið Zachris Topelius (1818-98).  Á eyjunni Korkeasaari er dýragarðurinn og sumarveitingahús.  Þangað er siglt frá norðurhöfninni á 10 mínútum eða gengið um göngubrúna frá Mustikkamaa-útivistarsvæðinu.

Vestan borgarinnar er eyjan Seurasaari, sem er landtengd með göngubrú.  Þar er útisafn með gömlum bændabýlum og kirkju frá Karuna (1686).  Handan fjarðarins er Tapiola, garðabærinn, sem byrjaði að byggjast milli 1950 og 1960 og er þekktur fyrir gott skipulag og búsetumenningu.  Tækniháskóli Helsinki er á nesinu Otaniemi, þar sem stendur líka félagsstofnun stúdenta í mjög sérstökum byggingarstíl.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM