Weerdt, var skráður sem landafundamaður í
kringum 1600.
Franski sæfarinn Louis-Antoine de Bougainville stofnaði til
fyrsta landnáms á Austur-Falklandi árið 1764.
Bretar urðu fyrstir til að setjast að á Vestur-Falklandi
1765, en Spánverjar, sem keyptu búseturéttinn af Frökkum á
austureynni, hröktu þá á brott 1767.
Bretar snéru aftur 1771 eftir að hafa hótað stríði við Spánverja
en hurfu aftur á braut 1774 af efnahagsástæðum án þess að aflýsa
kröfu sinni til eyjanna.
Spánverjar voru um kyrrt á austureynni til 1811 (þá var hún
kölluð „Soledadeyja”).
Árið
1820 lýsti Argentína yfir sjálfstæði sínu frá Spáni og gerði kröfur
til eyjanna.
Ellefu árum síðar eyddi bandaríska herskipið „USS
Lexington” spænsku byggðinni á austureynni í refsingarskyni fyrir
töku þriggja bandarískra selveiðara við eyjarnar.
Snemma árs 1833 hröktu Bretar síðustu argentínsku embættismennina
frá eyjunni án blóðsúthellinga.
Árið 1841 skipuðu Bretar landstjóra á eyjunum og árið 1885
var tala brezkra íbúa orðin 1800.
Árið 1892 urðu eyjarnar opinber nýlenda Breta.
Argentínumenn mótmæltu setu Breta á eyjunum reglulega í kjölfarið.
Eftir
síðari heimsstyrjöldina var deilunni um yfirráð eyjanna vísað til
Sameinuðu þjóðanna og árið 1962 var staða þeirra rædd í nefnd,
sem fjallaði um frelsi nýlendnanna.
Argentínumenn byggðu kröfur sínar á páfabréfi frá 1493,
sem var breytt við samningana í Tordesillas (1494).
Þar kom fram skipting Nýja heimsins milli Spánverja og Portúgala.
Argentínumenn héldu því fram og gera enn þá, að eyjarnar
hafi tilheyrt Spáni, þegar þeir lýstu yfir sjálfstæði sínu og væru
því hluti Argentínu enn þá.
Þeir byggja líka á nálægð eyjanna við Suður-Ameríku og að
nýlendutímanum sé lokið.
Bretar byggðu kröfur sínar á samfelldri eign sinni og stjórn
eyjanna síðan 1833 og sjálfsákvörðunarrétti eyjaskeggja samkvæmt
sáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Þeir bentu líka á, að eyjarnar yrðu áfram nýlenda í höndum
Argentínumanna, þar sem þeir yrðu stjórnendur án samþykkis íbúa
þeirra.
Árið
1965 samþykkti alsherjarþing SÞ ályktun, sem fól í sér að bjóða
Bretum og Argentínumönnum að leysa málið á friðsamlegan hátt.
Þessar viðræður voru enn þá í gangi árið 1982, þegar
herstjórn Argentínu gerði innrás á eyjunum (2. apríl).
Þar með hófst Falklandseyjastríðið, sem lauk 10 vikum síðar
með uppgjöf
argentíska hersins í Stanley eftir að Bretar höfðu gert árangursríka
gagninnrás.
Bretar reka herstöð á eyjunum og gæta efnahaga- og fiskveiðilögsögu
þeirra.
Áætlaður íbúafjöldi eyjanna árið 2001 var
2379. Samtímis
var fjöldi fólks í herstöðinni Mount Pleasant 2913.
Stjórnmálasamband komst aftur
á milli Breta og Argentínumanna árið 1990, þótt enn þá séu
samskiptin ekki slétt og felld. Argentínumenn gera enn
þá friðsamlegt tilkall til Malvinas-eyja en Bretar segja
slík mál ekki til umræðu. Herafli Breta á
Falklandseyjum er í kringum 1000 manns árið 2007.
Þessir hermenn hjálpa til við vegagerð og hreinsun
jarðsprengjusvæða.
Eyjaskeggjar eru sjálfum sér nægir efnahagslega. Þeir
lifa af sölu veiðiheimilda í fiskveiðilögsögunni,
sauðfjárbúskap og sívaxandi ferðaþjónustu. Eyjarnar
verða æ vinsælli viðkomustaður skemmtiferðaskipa.
Fjölskrúðugt dýralíf laðar marga ferðamenn til eyjanna.
Þar er m.a. geysistórt varpsvæði mörgæsa. |