Tuvalu
er þingbundið konungsríki í Brezka samveldinu með landstjóra í
æðstu stöðu. Þingið
starfar í einni deild en engir stjórnmálaflokkar eru til í landinu.
Þingið kýs forsætisráðherra.
Landið er aðili að Samtökum Suður-Kyrrahafsins.
Fyrrum hét landið Ellice-eyjar.
Það er í miðhluta Vestur-Kyrrahafsins.
Eyjaklasinn hefur nokkurn veginn norðvestur-suðausturstefnu á
676 km löngu svæði. Eyjarnar
eru litlar og Tuvalu er aðeins 26 km² að flatarmáli.
Höfuðborgin er Fongafale á Fungafuti kórallónseyjunni.
Á nýlendutímanum var Tuvalu hluti Gilberts- og Ellice-eyjanýlendunni.
Eyjaklasinn
nær yfir kóraleyjar, hringlón og kóralrif.
Hringeyjarnar eru Nanumea, Nui, Nukufetau, Funafuti og Nukulaelae
og rifeyjarnar Nanumanga, Niutao, Vaitupu og Niulakita.
Eyjarnar eru lágar og bera hæst 4-5 m yfir sjó.
Þarna eru engar ár eða lækir og íbúarnir verða að safna
regnvatni eða leita að ferskvatni í jörðu.
Í norðurhluta eyjaklasans er meðalúrkoman 2500 mm á ári og
3150 mm í suðurhlutanum. Suðaustan
staðvindarnir eru ríkjandi. Vestanstormar
næða um eyjarnar frá nóvember til febrúar.
Hitastig á daginn er á milli 27°C-29°C.
Ræktun er takmörkuð vegna þess, hve gropinn jarðvegurinn er.
Þarna þrífast kókospálmar, brauðaldintré, pandanus, taro
og bananar. Svína- og hænsnarækt
er stunduð og eyjaskeggjar veiða sjófugl, fisk og skelfisk til matar.
Íbúarnir eru pólýnesar og tunga þeirra er náskyld
samósku. Nui-eyja var þéttsetin
míkronesum frá Gilbertseyjum á forsögulegum tímum. Enska er kennd í skólum og mikið notuð. Langflestir íbúanna eru mótmælendur í söfnuði Kirkju
Tuvalu. Flestir á ytri eyjunum
búa í stórum fjölskylduhúsum, sem mynda þyrpingar.
Þriðjungur íbúanna býr á Funafuti, sem er miðstöð ríkisstjórnar
og verzlunar. Fjölgun
hefur verið hæg vegna áætlana og fjölskyldustefnu og lífslíkur frá
fæðingu eru í kringum 60 ár. Nærri
10% íbúanna búa erlendis vegna náms eða starfa í fosfatnámunum á
Nauru og á kaupskipum.
Efnahagsmál.
Flestir íbúar Tuvalu eru sjálfsþurftarbændur, sem njóta
styrkja frá ættingjum við störf erlendis.
Lítið eitt af þurrkuðum kókoskjörnum er flutt út, sala frímerkja
er nokkur tekjulind og veiðigjöld frá erlendum fiskiskipum hjálpa
til. Landið er mjög háð erlendri fjárhagsaðstoð.
Aðalinnflutningsvörur eru matvæli, eldsneyti og neyzluvörur.
Verzlunin er í höndum kaupfélaga.
Gjaldmiðillinn er ástralskur dollar en ríkið gefur út eigin
mynt að auki. Einn banki
annast fjármálaviðskipti.
Samgöngur.
Tuvalu er í flugsambandi við Kiribati og Fiji-eyjar.
Samgöngur á sjó til annarra landa eru óreglulegar.
Sjóflugvélar hafa verið notaðar í innanlandsflugi en íbúar
ytri eyjanna nota skipaferðir á vegum ríkisins.
Bifhjól eru algeng á Funafuti og þar eru líka nokkrir bílar.
Menntun.
Ríkið sér um frummenntunina í samstarfi við Tuvalukirkjuna.
Framhaldsmenntun stendur útvöldum nemendum til boða.
Nokkrir eru sendir úr landi til náms.
Heilsugæzla er aðallega á Funafuti en aðrar eyjar njóta þjónustu
þjálfaðra heilbrigðisstétta.
Menning.
Lífshættir íbúanna eru orðnir nokkuð vestrænir þrátt
fyrir skort á vestrænum aðbúnaði.
Raforkudreifing er aðeins á Funafuti.
Ríkið gefur út lítið fréttablað og dagblöð eru engin.
Nokkrar kvikmyndir eru sýndar á ári.
Ein útvarpsstöð er í rekstri en engin sjónvarpsstöð. Flestir íbúanna búa í þorpum.
Þar annast þeir garða sína og stunda veiðar á handsmíðuðum
bátum (kanú). Þjóðleg
tónlist og dansar njóta mikilla vinsælda auk vestrænnar tónlistar.
Blak, knattspyrna og krikket eru vinsælar íþróttir.
Þrátt fyrir alla nútímavæðinguna, eru gamlar hefðir í hávegum
hafðar og samhygð er mikil.
Sagan.
Fyrstu landnemarinir komu líklega á 14. öld frá Samóaeyjum.
Færri komu síðan frá Tonga, Rotuma (einni Cook-eyjanna) og
Gilbertseyjum. Niulakita,
sem er minnst og syðst eyjanna, var óbyggð, þegar Evrópumenn komu
til skjalanna. Aðrar eyjar voru byggðar á 18. öld og þá kom upp nafnið
Tuvalu, sem þýðir Áttaeyjaklasinn.
Evrópumenn
uppgötvuðu eyjarnar á 16. öld, fyrst þegar Álvaro de Mendana de
Neira var á ferðinni. Þær
komust þó ekki á landakort fyrr en hvalveiðarar og kaupmenn fóru að
venja komur sínar þangað eftir 1820.
Árið 1863 komu mannaveiðarar frá Perú og rændu u.þ.b. 400
manns, aðallega frá Nukulaelae og Funafuti, til að selja það til
vinnu. Eftir sátu u.þ.b.
2500 íbúar. Nokkrir þeirra,
sem rænt var, var síðar komið í vinnu á plantekrum í Queensland
í Ástralíu, á Fiji-eyjum, Samóaeyjum og Hawaii.
Áhyggjur af þessari þróun ollu hörðum viðbrögðum presta
Lundúnatrúboðsins á Samóaeyjum, sem komu til landsins á sjöunda
áratugi 19. aldar. Þeim tókst
að útbreiða trúna og gera flesta íbúana að mótmælendum fyrir
aldamótin.
Bretar
færðu út kvíarnar og innlimuðu eyjaklasann, sem hét þá
Ellice-eyjar, í verndarsvæði sitt árið 1892 og árið 1916 urðu
þær hluti nýlendunnar Gilberts- og Ellice-eyjar.
Opinber þjónusta jókst hægt og þétt en aðalstöðvar stjórnsýslunnar
voru í höndum eins fulltrúa krúnunnar á Funafuti.
Eyjaskeggjar sóttu menntun og atvinnu í höfuðborg
Gilbertseyja eða í fosfatnámunum á Banaba og Nauru.
Í síðari heimsstyrjöldinni voru herstöðvar á Nanumea,
Nukufetau og Funafuti en ekki var barizt um eyjarnar.
Upp
úr 1960 jókst spenna milli kynþátta Gilbertseyja og Ellice-eyja
vegna atvinnu. Hinir síðarnefndu
kröfðust aðskilnaðar. Þjóðaratkvæðagreiðsla
árið 1974 leiddi til aðskilnaðar á árunum 1975-76 og sjálfstæðis
Tuvalu 1978. Fyrstu verk sjálfstæðrar
ríkisstjórnar voru að tryggja efnahag þessa litla ríkis og leita
erlendrar aðstoðar.
Funafuti
hringeyjan. Fongafale, höfuðborg
Tuvalu, er á Funafuti. Hringeyjan
er samsafn u.þ.b. 30 smáeyja, sem eru alls 2,4 km² að flatarmáli og
liggja í kringum 21,7 km langt og 16,1 breitt lón.
Lónið er gott skipalægi.
Árið 1943 komu Bandaríkjamenn sér upp herstöð á þessum slóðum.
Þrátt fyrir ófrjósaman og sendinn jarðveg, framleiða
eyjaskeggjar talsvert af þurrkuðum kókoskjörnum til útflutnings.
Í Fongafale er hótel, sjúkrahús og flugvöllur.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1985 var rúmlega 2800. |