Chagoseyjar Chagos Islands,
[Flag of the United Kingdom]

British Indian Ocean Territory - flag

DIEGO GARCIA     DIEGO GARCIA

CHAGOS ISLANDS
BREZKU INDLANDSHAFSEYJAR
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

CHAGOS-EYJAKLASINN er hálfhringlaga, opinn til austurs, og stór hluti ítaka Breta í Indlandshafi, 1600 km sunnan syðsta hluta Indlands.  Heildarflatarmál hans er 60 km².  Eyjarnar og smáklasarnir taldir andsólarsinnis eru:  Salómonseyjar, Peros Banhos kóralhringeyjan, Bræðurnir þrír, Arney, Háskaeyjar, Egmonteyjar og Diego Garcia kóralhringeyjan, sem er stærst að flatarmáli.  Bretar og Bandaríkjamenn nýttu sér eyjarnar til hernaðarlegrar uppbyggingar, einkum Diego Garcia, vegna mikilvægrar legu þeirra og vegna þess, að þær liggja utan fellibyljabeltisins.  Þessi uppbygging fór fram á sjöunda og áttunda áratugi 20. aldar í mikilli andstöðu við eyríkin nær ströndum meginlandsins, sem vilja halda þessu svæði óhervæddu í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna.

Fáum er kunnugt um tilveru kóraleyjarinnar Diego Garcia, enda langt frá alfaraleið.  Hún er í kringum 44 ferkílómetrar og er staðsett í miðju Indlandahafi.  Stundum líta bandarísk hernaðaryfirvöld á hana sem einhvern mikilvægasta stað í heimi.  Bretar og Bandaríkjamenn komu þar upp sameiginlegri birgða- og herstöð í kalda stríðinu, þar sem flugvélar þeirra gátu millilent og fengið eldsneyti.  Eyjan liggur utan fellibyljabeltisins og var upplögð til að hafa auga með umferð farartækja Sovétríkjanna úr lofti.

Í Persaflóastríðinu 1991, árás bandamanna á Talibana í Afghanistan 2001 og í innrásinni í Írak 2003 lá hún mjög vel við fyrir flugvélar bandamanna á leið frá BNA.  Þar voru B-52 sprengjuflugvélar og þaðan var skotið næstum 100 langdrægum eldflaugum að Írak 17. desember 1998.  Hinn 7. október 2001 gerðu B-1 og B-52 loftárásir þaðan á Afghanistan vegna þess, að talibanar héldu hlífðarskildi yfir Osama bin Laden, sem var talinn ábyrgur fyrir árásinni á BNA 11. september 2001.  Síðan hefur mörgum al-kaídamönnum verið haldið föngnum á eyjunni til yfirheyrzlu (2003).  Þar var Hambali Riduan Isamuddin, forsprakki asísku hryðjuverkasamtakanna Jemaah Islamiyah, í haldi og yfirheyrzlu eftir sprenjuárásina á Bali.  Árið 2003 var mikil umferð um flugvöll eyjarinnar vegna Íraksstríðsins.

Eyjan er í rúmlega 5600 km fjarlægð frá Írak og svolítið nær Afghanistan en þær vegalegndir drógu ekki úr hernaðarlegu mikilvægi hennar.  B-52 sprengjuflugvélarnar hafa flugþol til rúmlega 16.000 km flugs.  Í Flóabardaga (1991) flugu þær frá Barksdale flugherstöðinni í Louisiana og skutu Cruise-eldflaugum að Írak og komu til baka 35 klst. síðar.  Þetta voru lengstu, óslitnu B-52- árásarflugferðir sögunnar.

Portúgalar könnuðu Diego Garcia á 16. öld og á tímabilinu 1814-1965 var eyjan undir yfirráðum Máritíus.  Eftir það varð hún hluti af Chagoseyjaklasanum, sem varð hluti að nýstofnuðu yfirráðasvæði Breta á Indlandshafi.  Eyjarnar eru enn þá brezkt yfirráðasvæði (2004).

Fyrrum bjó fólk af stofni ilois á eyjunni en það var flutt brott með valdi á árunum 1967-73 til að gera hana að herstöð.  Þessi ráðstöfun olli miklum mótmælum íbúa annarra eyja í Indlandshafi.  Flestir hinna brottfluttu lifðu af landbúnaði og fiskveiðum.  Þeir búa nú við fátækt á Máritíus, tæplega 2000 km fjarri heimahögum.  Nokkrir íbúanna voru fluttir til Seychelleseyja.  Árið 2000 kvað brezkur dómstóll upp þann úrskurð, að skipun um brottflutning fólksins hefði veri ólögleg og þar með ógild, en rétturinn viðurkenndi einnig hernaðarmannvirkin á eyjunni og nauðsyn þess, að þar byggi einugis fólk í þjónustu hersins.  Skrítinn dómur það!  Fyrrum íbúar eyjarinnar stefndu brezkum yfirvöldum til greiðslu skaðabóta og heimflutnings.  Í október 2003 var kveðinn upp dómur, sem viðurkenndi, að íbúarnir hefðu hlotið skammarlega meðferð en ættu ekki bótarétt.  Búizt var við að iloisar áfrýjuðu þessum dómi.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM