Landið
Strandlengjan
er vogskorin. Stærstur er
Cardiganflói. Landið er að
mestu hálent nema ræmur með ströndum fram, árdalir og Velsku mýrarnar
við landamæri Englands. Háslétta
Cambrian-fjalla, sem þekur u.þ.b. tvo þriðjunga landsins, liggur að
meðaltali í 610 m hæð yfir sjó og nær yfir miðhlutann til norðurs
og suðurs. Önnur hálendissvæði
eru Brecon Beacons í suðaustri, hrikalegt Snowdon-fjalllendið í norðvestri
og Cader Idris í vestri. Hæstu
tindarnir eru í Snowdonia, s.s. Mt Snowdon (1085m), sem er hæst fjalla
Englands og Vels. Áin Dee rennur úr Balavatni, sem er hið stærsta í Vels,
um norðurhlutann, inn í England og til Írlandshafs.
Önnur helzta á norðurhlutans er Clwyd. Aðrar
meginár eru Wye og Severn, sem báðar spretta upp nærri Aberystwyth
og renna um England til Bristolskurðarins.
Í suðurhlutanum falla margar ár um þrönga og bratta dali,
s.s. Usk, Teifi og Towy.
Auðlindir
Járngrýti
og kol voru aðaltekjulindir Vels í næstum tvær aldir.
Járnnámurnar í norðaustur- og suðausturhlutunum voru
undirstaða iðnvæðingar landsins eftir 1770.
Allt frá upphafi 19. aldar voru auðugar kolanámur, aðallega
í suðurhlutanum en einnig í norðausturhlutanum, grundvöllur
efnahagslífsins. Þegar
eftirspurn eftir kolum dvínaði eftir 1940 og samkeppni á markaðnum jókst,
urðu mörg fyrirtæki í Vels að loka námum sínum.
Allt frá 8. áratugi 20. aldar hafa aðgerðir ríkisstjórna
landsins hraðað lokun námanna, þannig að fáar eru eftir í rekstri. Hágæða antrasít er enn þá unnið en aðaláherzlan er lögð
á tjörurík kol. Steinnám
hefur ætíð verið drjúgur atvinnuvegur, einna helzt í norðvesturhlutanum,
þar sem fæst gott hellugrjót í þakflísar og kalksteinn.
Magnesíum, gull, blý, úraníum, kopar og sink er unnið í norður-
og miðhlutanum auk leirs, sem er notaður í eldfastan múrstein.
Jarðvegur fjalllendisins er fremur ófrjór nema í dölum og með
ströndum fram.
Loftslag
Vels
liggur opið fyrir rökum, vestlægum vindum frá Atlantshafinu.
Loftslagið er því fremur milt og rakt.
Meðalhiti í júlí er 15,6°C og 5,6°C í janúar.
Úrkoman eykst með hæð yfir sjó, allt frá 762 mm með ströndum
fram upp í rúmlega 2540 mm í Snowdonia-fjöllum.
Stundum snjóar hressilega og vetur geta verið kaldir.
Jurta-
og dýralíf
Flóra
og fána landsins er að mestu lík öðrum hlutum Bretlandseyja. Mikið
er af burknum og mosategundum á lægra liggjandi mýrlenissvæðum og
ofar ráða ýmsar grastegundir ríkjum.
Nærri 12% landsins eru skógi vaxin, einkum á svæðum upp að
305 m yfir sjó. Þar ber
mest á eski, eik og ýmsum barrtegundum.
Skógrækt ríkisins og sjálfboðaliðar hafa gróðursett mikið
af hraðsprottnum barrtrjám síðan 1945.
Ofan 305 metranna er lítið annað en lágvaxnir runnar, gróft
gras og Alpaflóra. Meðal
hinna fáu tegunda villtra dýra, sem finnast ekki í Englandi, eru
furumörður og stangarmörður. |