„Palace of Westminster; Parliament”.
Það er við Parliament Square, SW1.
Brautarstöð:
Westminster.
Opið:
Á þingtíma er hægt að fylgjast með umræðum.
Annars er þingið opið á mánudögum til fimmtudaga frá kl.
14:30, föstudaga frá kl. 10:00. Inngangur
frá St. Stephen's. Boðin
er skoðun með leiðsögumönnum á laugardögum og aðra daga, þegar
leiðsögumenn eru fyrir hendi.
Ljóst
er af fullu nafni þinghússins, að byggingar þess standa á grunni gömlu
konungshallarinnar. Játvarður syndlausi lét reisa Westminsterhöllina og Vilhjálmur
sigurvegari og Vilhjálmur Rufus
stækkuðu hana. Hinn síðastnefndi
lét reisa Westminster Hall á árunum 1097-99.
Mikill
bruni eyddi mestum hluta hallarinnar árið 1512, þannig að eftir stóðu
Westminster Hall, St. Seephan's-kapellan (14.öld) og grafhvelfingin.
Fram
til ársins 1529, þegar Hinrik VIII fékk Whitehall-höllina að gjöf,
var Westminster-höllin setur konunganna, en árið 1547 varð hún þinghús.
Neðri deildin bjó um sig í kapellunni og lávarðadeildin í
sal við suðurenda hallargarðsins.
Árið
1605 leiddi Guy Fawkes uppreisn katólikka, sem höfðu í hyggju að
sprengja þinghúsið í loft upp ('Gunpowder Plot').
Síðan er hefð, að menn í gömlum, sögulegum búningum leiti
í kjallara hússins einu sinni á ári.
Núverandi
byggingar eru verk arkitektsins Charles Barry, en þær voru byggðar á
árunum 1840-88 í nýgotneskum stíl til að raska ekki jafnvæginu við
Westminster Abbey-kirkjunni, sem er þarna í næsta nágrenni.
Þingið var fyrst sett í húsinu árið 1852.
Árin 1948-50 var húsið endurbyggt í sömu mynd eftir miklar
skemmdir í síðari heimsstyrjöldinni.
1.
Konungshliðið er 16 m hátt hlið, sem þjóðhöfðinginn fer
um til hinnar hátíðlegu þingsetningar í nóvember á hverju ári.
2.
Gestainngangurinn er við Viktoríuturninn, sem var byggður
1858, er hæsti og stærsti ferningslagaði turn heims (23 m breiður og
102 m hár). Brezki fáninn
blaktir alltaf á turninum, þegar þingið er að störfum.
3.
Ofan 'Konunglega stigans' (Royal Staircase) er normannska anddyrið
með styttum og freskum af normönnskum konungum.
4.
Búningsherbergi konunganna (Robing Room) er þar inn af (18 m
langt). Þar er gaman að gefa gaum að veggfreskunum, útskornum
veggplötunum með táknum og kennimerkjum brezku konunganna, ofninum úr
ýmsum tegundum marmara og hásætissessunni frá tíma Viktoríu
drottningar.
5.
Í konunglega málverkasalnum (Royal Gallery), 36 m löngum sal
með listilega skreyttu lofti, er skjaldamerkjum enskra og skozkra
konunga komið fyrir á milli veggskreytinganna.
Á veggjunum eru tvær geysistórar freskur eftir Daniel
Maclise, 'Dauði Nelsons' og 'Wellington og Blüchner eftir orrustuna við
Waterloo'.
6.
Næsta herbergi er Prinskamesið (Prince's Chamber) og inn af því
er samkomusalur lávarðadeildarinnar.
Á veggjum þess eru andlitsmyndir af Túdorkonungum og ættingjum
þeirra og lágmyndir frá valdatímum þeirra.
Andspænis innganginum er hvít marmarastytta af Viktoríu
drottningu umkringd táknum réttlætis og náðar.
7.
Lávarðadeildin er fagurlega skreyttur salur.
Þar eru rauðir leðurstólar fyrir þingmennina,
'ullarbagginn', sem nefndur er eftir ullarstöflunum í Westminster á
14. öld, er sæti forseta deildar-innar og ofan við hásæti þjóðhöfðingjans
andspænis honum eru sæti fyrir heiðursgesti.
Yfir norður-innganginum eru sæti fyrir fréttamenn og áhorfendur.
Veggmyndir í skotum bak við sýningarsalina eru athyglisverðar. Í suðurendanum eru myndir úr sögu landsins og í norðurendanum
fjalla þær um réttlætið, trúarbrögðin og riddara-mennsku.
Í gluggaskotunum eru myndir af barónunum, sem þvinguðu Jóhann
landlausa til að undirrita 'Magna Charta' árið 1215.
Fundir lávarðardeildarinnar eru opinberir.
Þeir, sem vilja hlýða á mál þingmanna, verða að koma inn
um St. Stephan-innganginn og fá aðgangskort í St. Stephan-salnum.
Lávarðadeildin er opin almenningi mánudaga til miðvikudaga frá
kl. 14:30, fimmtudaga frá kl. 15:00 og föstudaga frá kl. 11:00.
8.
Setustofa lávarðanna ('Peers' Lobby) er ferningslaga salur með
glerjuðu flísagólfi. Lávarða-gangurinn
liggur að miðsetustofunni.
9.
Miðsetustofan er listavelinnréttaður, átthyrndur salur með
25 m hárri lofthvelfingu, sem er nákvæmlega miðleiðis milli lávarða-
og fulltrúadeildanna.
10. Um vesturhliðið liggur leiðin inn í St. Stephan-salinn, þar
sem kapellan var fyrrum og fulltrúadeildin kom saman (1547-1834). Hann er 31 m langur með hvelfingu og mósaíkmyndum, sem sýna
stofnun kapellunnar fyrir tilstuðlan Stefáns konungs. Þarna eru styttur af konungum og drottningum af
Plantagenets-ættinni og brezkum þingmönnum á 17.-19. öld.
Frá fordyri kapellunnar sést yfir til Westminster-salarins.
11.
Westminster-salurinn slapp í brunanum, sem eyddi Westminster-höllinni. Loftið í salnum er úr útskorinni eik (lok 14. aldar).
Það skemmdist mjög í síðari heimsstyrjöldinni, en var
endurnýjað í upprunalegri mynd.
Þessi salur hefur verið vettvangur einhverra mestu viðburða
enskrar sögu. Hann var hæstiréttur
landsins öldum saman (1224-1882) og þar voru flutt mörg mál og
margir dómar kveðnir upp (Ríkarður II, 1399; Sir Thomas More, 1535;
Karl I, 1649). Oliver
Cromwell var settur í embætti í salnum árið 1653.
Stigi
liggur niður í grafhýsið ('St. Mary Undercroft'), sem var byggt í
tengslum við kapelluna árið1327.
12. Við norðurenda þinghússins er klukkuturninn (Clock Tower),
sem er bezt þekktur undir nafninu 'Big Ben'.
Hann, Trafalgar-torgið og Turnbrúin eru bezt þekktu kennimerki
borgarinnar. Hann er 97,5 m
hár, klukkuskífurnar eru 8 m í þvermál, mínútuvísarnir eru hér
um bil 4 m langir og klukkuverkið vegur 13 tonn.
Upp í klukkuturninn liggja 334 þrep.
Klukknahljómur hennar hefur ævinlega hljómað í Brezka ríkisútvarpinu
(BBC) sem hlémerki.
13.
Fulltrúadeildin skemmdist í loftárás í síðari heimsstyrjöldinni
og var endurbyggð í upprunalegri mynd.
Í
norðurenda salarins stendur hinn upphækkaði, svarti stóll forseta
deildarinnar (Speaker). Nafnið
'Speaker' er komið frá þeim tímum, þegar forseti þingsins hafði
það hlutverk, að ræða við þjóðhöfðingjann, þegar hann vildi
leggja skatta á þjóðina. Forsetinn
flutti þjóðhöfðinjanum skoðan-ir þingsins, sem var ekki alltaf hættulaust.
Þegar forseti hefur verið kosinn, er hann/hún leiddur/leidd
til sætis og alla leiðina þangað skammast hinn/hin útvaldi/útvalda
vegna kjörsins og kveðst ekki hafa minnsta áhuga á starfinu.
Stjórnar-
og stjórnarandstöðuflokkarnir sitja andspænis hverjum öðrum og á
milli þeirra er borð á miðju gólfi með veldissprota forsetans
fyrir framan forsetastólinn. Á teppinu báðum megin borðsins er rauð lína og á milli
þeirra eru að gamalli hefð tvær sverðslengdir.
Þingmenn mega ekki fara yfir þessar línur, sem eiga að koma
í veg fyrir slagsmál. Þess
í stað fleygja þingmenn skrifuð-um orðsendingum hver í annan yfir
gólfið.
Fundir
fulltrúadeildarinnar eru opinberir og almenningur situr í 'Strangers'
Gallery'. Þangað er farin
sama leið og til áhorfendastúkna lávarðadeildar (mánudaga til
fimmtudaga frá kl. 16:15, föstudaga frá kl. 10:00).
Eftir að aðgangskortið er fengið, þarf að bíða merkis frá
kallaranum.
Fundirnir
hefjast alltaf með hrópinu „Mr. Speaker! - Hats off - strangers”.
Þá standa áhorfendur upp og taka ofan, ef þeir eru með höfuðföt,
og skrúðganga fer hjá. Fremstur
gengur maður í pokabuxum með gullinn sprota um öxl ('The
Sergent-at-Arms'). Eftir honum kemur maður í svartri síðhempu með hárkollu,
forseti þingsins. Því næst
kemur hempuberinn, prestur og einkaritari.
Presturinn flytur bæn um innblástur frá Guði með þingmönnunum
áður en fundur er settur. Áhorfendur
eru ekki komnir í sæti sín, þegar þessu fer fram.
Þeir koma í fylgd manns í kjólfötum, skrýddum gullorðu, og
fá hjá honum blað með dagskrá fundarins.
14.
Forsalur fulltrúardeildarinnar er setustofa þingmanna hennar. Hún er ferningslaga í gotneskum stíl, prýdd styttum af
þingmönnum 20. aldar (m.a. bronzstyttur af Sir Winston Churchill og
David Lloyd George).
15.
Fulltrúardeildargangurinn liggur í suðurátt til miðsetustofunnar.
16. Big Ben-klukkuturinn er meðal hinna frægustu í
heimi. Hinn 31. maí 1859 slógu klukkur hans í fyrsta
skipti. Nafnið var notað um stærstu klukkuna, þótt hún
heiti réttu nafni „Great Bell" (2,2 m há, allt að 2,9 m í
þvermál og 13,5 tonn að þyngd). Fyrsta klukkan, sem
var steypt, var 2,5 tonnum þyngri, en hún sprakk, svo að
steypa varð nýja. Turninn er 96 m hár
(Hallgrímskirkjuturinn er 73 m). Þegar stóru klukkunni
var komið á sinn stað, tók það 18 klukkustundir.
Turninn er lyftulaus, svo gestir verða að ganga upp 334
tröppur, ef þeir fá til þess sérstakt leyfi. Margir
telja nafnið „Big Ben" sé dregið af nafni sir Benjamin Hall
baróns og þingmanns, sem var hávaxinn maður. Aðrir
nefna hnefaleikarann Ben Caunt, sem hafði gælunafnið Big
Ben. Hann hætti árið 1845, en birtist aftur á
hnefaleikavettanginum árið 1857 um tíma.
Hnefaleikakappar þessa tíma börðust berhentir. |