Þingið fer með æðstu völd í hinu sameinaða konungsríki.
Það starfar í tveimur deildum, lávarðadeild og fulltrúadeild. Þingið og
þjóðhöfðinginn verða að samþykkja lög til að þau öðlist gildi. Þegar á
tímum anglósaxa var komin á samvinna milli konungs og nokkurs konar
þings með fulltrúa frá öllum landshlutum, þótt þeir væru ekki kosnir í
almennum kosningum. Þeir voru nefndir 'Witenagemot', sem þýðir 'Hinir
vitru'. Þessir fyrstu þingmenn voru annaðhvort af aðalsættum eða
kirkjunnar menn. Þeir höfðu vald til að kjósa konunga og setja þá af og
konungarnir gátu aðeins sett lög, tilnefnt menn til valdastarfa og
biskupsembætta, veitt lén, lagt á skatta, lýst yfir stríði eða friði
eða kveðið upp dóma með þeirra samþykki. Þingið var æðsti löggjafi og
dómstóll landsins.
Normannakonungar innleiddu ráðgjafakerfið. Ráðgjafarnir voru
lénsherrar, sem næstir stóðu konungi hverju sinni og gáfu honum holl
ráð við löggjöf. Þetta kerfi þróaðist til þess, að ráðgjafarnir komu
frá öllum landshlutum. Árið 1215 neyddu 25 aðalsmenn Jóhann landlausa
til að undirrita 'Magna Charta', þáverandi og núverandi ígildi
stjórnarskrár landsins. Þar var m.a. kveðið svo á, að konungi bæri
skylda til að leggja tillögur sínar um skatta fyrir fulltrúana.
Þessir fulltrúar voru ýmiss konar prelátar, aðalsmenn og lénsherrar,
sem sýslumenn kusu til þings. Árið 1254 voru sýslumennirnir beðnir um
að kjósa fjóra riddara til þingsins og þar með var fulltrúaþingið
innleitt. Árið 1265 sendu líka borgirnar og greifadæmin fulltrúa til
þings.
Þing Eðvarðs I árið 1295 gengdi veigameira hlutverki. Þar sátu
erkibiskupar, biskupar og ábótar, 7 jarlar og 41 barón. Prelátunum
var uppálagt að taka með sér lægra setta kirkjunnar þjóna og
sýslumennina, tvo riddara frá hverju greifadæmi, tvo borgara frá
hverri borg og tvo borgara úr hverjum hreppi. Þar með var skrefið frá
einokun lénsherranna til fulltrúa allra aðalstétta landsins á þingi
stigið til fulls. Aðalhlutverk þessara þinga voru á sviði dómsvalds
('The High Court of Parliament) og skattlagningar, sem síðan þróaðist
til löggjafarvalds.
Frá miðri 14. öld skiptist þingið síðan í tvær deildir. Í annarri
voru riddararnir og borgarar (The Commons of England) en í hinni voru
andlegir og veraldlegir höfðingjar.
Frá dögum Hinriks VIII var reglan sú, að þingið sendi konungi
bænaskrár, sem hann samþykkti eða hafnaði. Deilurnar, sem leiddu til
aftöku Karls I í Whitehall, snérust um það, hvort konungur væri
einráður eða yrði að lúta ákvörðunum þingsins. Niðurstaðan varð, að
konungur og þing væru bundin órofaböndum.
Karl II og Wilhelm III voru krýndir með þessu skilyrði og þeir urðu
auk þess að veita þegn-um sínum ákveðin réttindi. Í 'Réttindalögunum'
('Bill of Rights') var ítrekuð yfirlýsingin um skyldu konungs að fara
að lögum. Án samþykkis þingsins hafði konungur engan rétt til að
afnema lög eða vera undanskilin þeim. Hann gat ekki aflað fjár með
sköttum á eigin spýtur og ekki haldið her á friðartímum nema fyrir það
fé, sem þingið ákvað til þeirra nota í fjárlögum. Báðar deildir
þingsins voru óbundnar þrýstingi frá konungi samkvæmt lögunum,
þingmenn áttu að geta sagt álit sitt og þjóðin átti að ákveða, hver
sæti í hásætinu. Þar með var öllum kenningum um ótvíræðan rétt
konunga til krúnunnar hrundið. Því hafa allir konungar og drottningar
landsins fram á þennan dag setið á grundvelli réttindalaganna frá 1689
og sáttmálans Act of Settlement frá 1701. Á þennan hátt komst á
þingbundin konungstjórn, samstarf krúnu og þings án gagnkvæmrar
öfundar og árekstra og samkomulag um æðra veldi þingsins.
Í sameinaða konungsríkinu ríkir erfðaeinveldi. Konungstignin gengur
til elzta sonar eða dóttur konungshjónanna. Þjóðhöfðinginn og
fjölskylda hans verður að vera í anglíkönsku kirkjunni og ríkisarfanum
er óheimilt að stofna til katólsks hjónabands. Ríkisarfanum eða
þjóðhöfðingjanum er heimilt að segja af sér, en þá tekur hinn/hin
næsti/næsta að erfðum við.
Frá miðri nítjándu öld hafa völd þjóðhöfðingjans minnkað og hann eða
hún kemur fram sem fulltrúi þjóðar sinnar utanlands og innan.
Stjórnmálaafskipti þjóðhöfðingjans eiga að endur-spegla stefnu hverrar
ríkisstjórnar, s.s. hásætisræðan við þingsetningu. Þátttaka hans við
löggjöf er aðeins að nafninu til. Réttur hans frá upphafi 19. aldar
til að hafa afskipti af öllum ákvörðunum ríkisstjórna hefur rýrnað
mjög, þannig að nú ber ríkisstjórnum einungis að tilkynna honum
ákvarð-anir sínar. Þjóðhöfðinginn verður að vera hlutlaus í
stjórnmálum.
Lávarðadeildin var stofnuð á 16. öld. Hún er að áliti Breta elzta og
stærsta löggjafarsam-koma heims. Hún varð til upp úr ráðgjafa- og
fulltrúaþingunum frá 1265 og 1295. Á 14. öld greindust andlegir og
veraldlegir höfðingjar frá fulltrúaþingunum og eftir urðu tvær deildir.
Eftir að Hinrik VIII hafði leyst upp klaustrin náðu veraldlegir
höfðingjar (Peers) yfirhendinni yfir hinum andlegu í lávarðadeildinni.
Með réttindalögunum árið 1832 missti lávarðadeildin ákvörðunarréttinn
yfir vali fulltrúa í fulltrúadeildina (House of Commons). Árið 1911
voru áhrif lávarðardeildarinnar á löggjöfina minnkuð verulega.
Neitunarvald hennar við fjármálalöggjöf var stytt í einn mánuð og í
tvö ár gagn-vart annarri löggjöf (minnkað í eitt ár árið 1949).
Skipting þingsins í tvær deildir hefur stöðugt valdið minnkandi
áhrifum lávarðadeildarinnar. Ríkisstjórnir eiga fulltrúa í
lávarðadeildinni, en forsætisráðherra og aðrir mikilvægir ráðherrar
eru ætíð í fulltrúadeildinni. Þingmenn lávarðadeildarinnar eru ekki
kjörnir til embættis. Þar sitja aðals-menn, sem hafa erft rétt til
setu þar. Áfrýjunarréttur lávarðadeildarinnar, sem var stofnaður árið
1876, jafngildir hæstarétti annarra landa og í honum sitja líka 26
anglíkanskir biskupar.
Samkvæmt lögum (Life Peerage Act) frá 1958 mega þingmenn
lávarðadeildar sitja ævilangt og konum var jafnframt leyfð seta í
henni í fyrsta skipti. Við endurskoðun þessara laga árið 1963 var
lávörðum heimiluð seta í fulltrúadeild, ef þeir afsöluðu sér rétti til
setu í lávarðadeild. Þetta notfærði m.a. Lord Home (Sir Alec Douglas
Home) sér. Nú sitja u.þ.b. 1080 þingmenn í lávarðadeildinni. Sextán
þeirra eru dómarar hæstaréttar samkvæmt lögum frá 1876, 195 eru
æviþingmenn skv. lögum frá 1958, 2 eru erkibiskupar og 24 biskupar og
þeir, sem ótaldir eru, sitja skv. erfðarétti. Þótt lávarðadeildin hafi
fyrir löngu misst réttinn til að tilnefna ráðherra, fjallar hún nú sem
fyrr um mikilvæg pólitísk mál. Hún fer vandlega yfir öll mál, sem eru
afgreidd frá fulltrúadeildinni og setur oft fram breytingartillögur.
Hún hefur líka oft frumkvæði í umfjöllun um mál, sem eru ekki af
pólitískum toga, þannig að þingmenn skipast ekki í stjórnmálalegar
fylkingar með þeim eða móti. Deildin fjallar um mikilvæg innan- og
utanríkismál. Innan lávarðadeildarinnar er hæstiréttur Englands,
Skotlands og Wales. Í hæstarétti sitja yfirdómarinn, og svonefndir
áfrýjunardómarar, löglærðir lávarðar.
Fulltrúadeildin komst á laggirnar á árunum 1265 og 1295. Þingmenn
hennar kjósa sér forseta úr sínum röðum, Hann er eini fulltrúi
deildarinnar, sem má koma niðurstöðum og skoðun-um henna á framfæri
við konunginn. Núverandi fundarstjórahlutverk forsetans komst fyrst á
árið 1547, þegar samdar voru reglur um málflutning og aðrar athafnir í
deildinni. Fulltrúadeildinni tókst að tryggja sér réttinn til að
afgreiða fjármálalög á 15. öld og á 17. öld fékk hún öll völd til að
ákveða skattalög. Á 18. öld þróaðist ríkisstjórnin í átt að skiptingu
í ráðuneyti og frá kosningunum árið 1784 varð til þingræðisstjórnin,
sem við þekkjum nú, þótt sækja yrði samþykki konungs fyrir útnefningu
ráðherra til árisins 1832. Vegna takmarkaðs kosningaréttar og
hefðbundinnar kjördæmaskiptingar voru þingmenn fulltrúadeildarinnar á
engan hátt fulltrúar almennings. Endurskoðanir og umbætur
kosningarréttarins, sem fóru fram árin 1832, 1867, 1884 og 1885, ollu
fjölgun kosningabærra manna, en almennur kosningaréttur fyrir konur og
karla var ekki lögleiddur fyrr en árið 1918. Nú sitja alls 650
þingmenn í fulltrúadeildinni, þar af 71 frá Skotlandi, 38 frá Wales og
17 frá Norður-Írlandi.
Ríkisstjórnin er skipuð rúmlega 100 manns, flestum úr fulltrúadeild og
nokkrum úr lávarða-deild, og 20 þeirra eru í forsvari hinna ýmsu
málaflokka með forsætisráðherrann í fararbroddi, en hann velur og
útnefnir ráðherra stjórnar sinnar.
Konungurinn útnefnir formann stærsta stjórnmálaflokksins í
fulltrúadeild forsætisráðherra og leggur blessun sína yfir valda
ráðherra. Forsætisráðherrann hefur vald til að rjúfa þing og boða til
kosninga.
Þjóðhöfðinginn setur þingið á hverju ári. Þetta er viðhafnarmikill
atburður, sem fer fram að gömlum hefðum og ýmsir þátttakendur verða að
klæðast tilheyrandi búningum. Þjóðhöfðinginn ekur til athafnarinnar í
þinghúsinu í 'Írska ríkisvagninum' og klæðist þar hátíðarbúningi og
ber kórónu. Síðan heldur hann umkringdur hirð sinni til
lávarðadeildarinnar. Á undan honum er borinn púði, sem á liggur
kórónulöguð flauelshúfa ('Cap of Maintainance'; enginn veit lengur
þýðingu hennar) og ríkissverðið. Allir þingmenn lávarðadeildar bera
slár með kanti úr hreysikattarskinni. Þjóðhöfinginn og maki hans
setjast í hásæti. Því næst er æðsti embættismaður lávarðadeildar,
'The Black Rod', sendur til fulltrúadeildar til að sækja þingmenn
hennar. Þegar hann kemur að dyrum fulltrúadeildarinnar verður hann að
banka þrisvar á hurðina með staf sínum áður en hann opnar og fer inn
og biðurþingmenn að fylgja sér til lávarðadeildar. Þetta táknar, að
þingmennirnir standi ekki og bíði kallsins. Þegar þingmenn beggja
deilda eru saman komnir, flytur þjóðhöfðinginn ræðu sína. |