Mandalay (65 km²) er næststærsta borg landsins og óumdeilanleg
menningarmiðstöð þess. Borgin
er á þurrviðrasamasta svæði Mið-Myanmar, 700 km norðan Rangún, á
13 km breiðri spildu á austurbakka Irawadi milli árinnar og Shanhásléttunnar.
Í norðaustri gnæfir Mandalay-hóllinn yfir hana.
Fyrstu 28 árin eftir að borgin var stofnuð (1857) var hún höfuðborg
landsins eða þar til Bretar lögðu hana undir sig. Hún er mikilvægur hlekkur í sögu landsins, því að þar
bjuggu síðustu tveir konungar landsins, Mindon og Thibaw.
Enn
þá er þar að finna fegurstu, útskornu búddalíkneski landsins og
borgin er fræg fyrir bezta byggingarstíl timburmannvirkja.
Auk merkilegra pagóda og hofa er fjöldi minni og skrautlegra
klaustra með einstæðum búddalíkneskjum (Tahat Htaw Kyaung, 35th
Street; u.þ.b. 100 m vestan 84th Street).
Hér sjást enn þá hefðbundin merki um búrmanska menningu og
siðfágun og stéttaskiptingu. Gesturinn verður að njóta aðstoðar innfæddra til að
kynnast hinum félagslegu aðstæðum.
Menningarsögulegar byggingar borgarinnar standa enn þá eftir
tvo stórbruna. Í apríl
1981 geisuðu eldar í suð- og norðvesturhlutum borgarinnar og í marz
árið 1984 geisuðu eldar í norð- og suðausturhlutunum.
Hin
heimsfræga konungshöll varð sprengjuregni Breta í síðari heimsstyrjöldinni
að bráð. Þetta var furðuleg
og stórkostleg timburbygging, yfirhlaðin gullskreytingum og útskurði
með sjö hæða (78m) háum
turni, sem var kallaður „Nafli heimsins”.
Upprunalega var hún umgirt víggirðingu úr timbri, sem var 600
m á kant og var eins og borg í borginni
Aðalhliðið snéri í austur.
Hægra megin í forgarðinum stóð klukkuturninn „Bahosin”,
að hluta úr timbri, þar sem vaktbjöllurnar voru slegnar.
Vinstra megin var musteristurninn „Shwe Daw Zin”, sem byggður
var úr steini utan um tönn úr Búdda.
Núna er lítið að sjá á hallarsvæðinu og lítið annað að
gera þar en að njóta þægilegrar gönguferðar um það.
Sums staðar eru rústir múranna allt að 8 m háar og alls 1,6
km langar umhverfis ferhyrningslagað svæði.
Þar eru enn þá minjar hliða og turna og leifar 80 m breiðs síkis.
Á hallarsvæðinu er lítið safn með líkönum af upprunalegum
byggingum. Rústir
klukkuturns-ins og aðalturnsins eru skammt austan safnsins.
Norðan safnsins eru konunglegu grafhýsin, þar sem merkustu
listsögulegu minjarnar eru frá dögum Mindons konungs.
Grafhýsi hans var upphaflega skreytt gulli og glerflísum.
Það var endurbyggt árið 1898, þannig að ekkert er eftir af
upprunaleg-um skreytingum. Í
grennd við klukkuturninn eru rúmlega 600 áletraðar steintöflur, sem
Bodawpaya konungur safnaði. Þær
voru fluttar hingað frá Amarapura skömmu fyrir síðari heimsstyrjöldina.
Skammt
norðan hallarmúranna er hin 236 m háa
*Mandalayhæð
þakin klaustrum og hofum. Þangað
flykkjast pílagrímar alls staðar að í Myanma (fara úr skóm!). Rísalíkneski af Búdda gnæfir yfir næstum efst á hæðinni.
Hægri hönd þess bendir í átt til hallarsvæðisins fyrir neðan
hana. Þjóð-sagan segir,
að Búdda hafi komið til þessa staðar með lærisveini sínum Ananda
og spáð því, að þar risi borg, sem yrði að mikilli miðstöð
kenninga hans 2400 árum eftir að þær næðu fótfestu þar.
Þetta rættist, þegar Mindon konungur lét reisa nýja höfuðborg
í Mandalay árið 1857. Formleg
vígsla borgarinnar fór fram tveimur árum síðar og árið 1860 var
öll stjórnsýsla flutt þangað. Líklega
réði hjátrú konungsins þeirri ákvörðun, því að hann trúði
á langlífi þeirra, sem færu að Nandavatni.
Við
suðurrætur Mandalayhæðar er 'Kyauk-Taw-Gyi-hofið',
sem Mindon konungur lét byggja í mynd Ananda-hofsins í Pagan. Hið stóra og ríkulega skreytta búddalíkneski inni í því
er höggvið úr einum stórum marmarasteini frá Sagyin, sem nokkrum km
norðar. Sagt er, að
10.000 manns hafi þurft til að draga hann á 13 dögum frá skurðinum
við ána.
Nokkrum
km norðan Kyauk-Taw-Gyi-hofsins er
'*Kutho-Daw-hofið' (þýðir: konungsgjöfin) eða
Maha-Lawka-Marazein-hofið, sem Mindon konungur lét byggja árið 1857
með Shwe-Zigon-hofið að fyrirmynd.
Umhverfis hið 30 m há aðalhof eru 729 lítil, hvítmáluð
musteri og umhverfis er ferhyrndur múr.
Litlu musterin eru opin að framanverðu og innihalda mannhæðarháar,
áletraðar töflur með tilvitnunum í helgirit Búdda með
helgiskrift, sem konungur fól búddamunkaráðinu (2400 munkar) að
gera árið 1872. Þessar töflur
eru í rauninni biblía búddamanna og oft er þeim lýst sem stærstu bók
í heimi.
Sunnan
Kutho-Daw-hofsins eru hinar stórkostlegu rústir hins marglofaða
Atumashi
Kyaung-klausturs (þýðir: Hið einstæða hof). Klaustrið stóð á fimm rétthyrndum stöllum.
Það nýtur helzt hylli vegna silkiklæða konungsins, sem prýða
búddalíkneski. Það var áður lakkað og enni þess búið demanti.
Í ringulreiðinni við hernám Breta árið 1885 var því stolið.
Eitt
fárra varðveittra sýnishorna tréskurðarlistaverka frá 19. öld er
'Shwe-Nandaw-klaustrið',
sem stendur nokkur hundruð metrum sunnan Kutho-Daw-hofsins.
Thibaw konungur lét nota margs konar efnivið úr höll föður
síns, Mindons, og aðaldrottningar hans, Satkyadevi.
Í klaustrinu er eftir-mynd konungshásætis, legubekkur, sem
Thibaw konungur notaði, þegar hann heimsótti klaustrið, nokkur glermósaíkverk
og fallegir, útskornir munir.
Hinn
frægi *Zegyo-basar í Mandalay er meðfram 84. stræti.
Hinn ítalski aðalritari borgarstjórnarinnar, Caldrari greifi,
hannaði hann árið 1903. Þar
er að finna mikið vöruval, þ.á m. eftirsótt silki og handavinnu
heimamanna. Þar eru og
eina lífsmarkið á kvöldin í borginni.
Við norðurenda basarsins rís Demantshátíðarklukkuturninn,
sem var reistur árið 1860 í tilefni af 60 ára stjórnarafmælis
Viktoríu Bretadrottningar.
Í
miðborginni, við 24. stræti, milli 82.- og 83. strætis, er
Shwe-Kyi-Mying-pagódan,
sem Monishinsaw konungur frá Pagan (1114-1167) lét reisa.
Hún er mörgum öldum eldri en borgin og hana prýðir búddalíkneski,
sem er jafngamalt henni. Þar
að auki er þar fjöldinn allur af ómetan-legum styttum skreyttum
gulli og silfri út búum margra konunga.
Þeim var bjargað úr konungs-höllinni í tæka tíð.
Þar er líka gullinn burðarstóll (palankin), sem ein hinna lítilvægari
drottninga notaði. Á svæðinu
umhverfis pagóduna er líka fjöldi annarra búddalíkneskja.
*Maja-Muni-pagódan
eða Arakan-pagódan er
kunnasta musteri borgarinnar. Hún
er u.þ.b. 3 km sunnan basarsins, austan 84. strætis. Upprunalega bygginging eyðilagðist í eldi árið 1884.
Núverandi
bygging með gullskreyttum þakstöllum sínum var reist síðar. Innanhúss er m.a. **gullskreytt búddalíkneski, sem
Bodawpaya konungur kom með sem herfang frá Mrohaung, fyrrum höfuðborg
Arakan. Vegurinn, sem hann
lét gera til að flytja styttuna frá höfuðborg sinni við Amarapura
til musterisins, sést enn þá. Styttan,
sem er í hefðbundinni sitjandi stellingu og 3,8 m há, er einkum dýrkuð
af íbúum Arakan, en pílagrímar koma líka úr öllum heimshornum.
Hún var upprunalega steypt úr messing, en hinir trúuðu hafa
hlaðið svo miklu gulli á hana, að hún er orðin allólöguleg.
Í inngarðinum eru
hundruð áletraðara trúarlegra steintaflna.
Skammt frá vesturinnganginum eru sex bronsstyttur (tveir menn,
þrjú ljón og þríhöfðaður fíll).
Þær eru líka herfang frá Arakan og voru fluttar hingað um
svipað leyti og búddalíkneskið.
Eftir að Bayinnaung konungur hafði komið með þær frá
Ayuthaya í Tælandi árið 1663, rændi Razagyi konungur frá Pegu þeim.
Fólk trúir á lækn-ingarmátt styttnanna af karlmönnunum og
strýkur þá líkamshluta þeirra, sem það þjáist í sjálft.
Því eru margir hlutar þeirra glansandi og sumir jafnvel
horfnir.
Safnið
á pagódusvæðinu ásamt steinsmiðjunum á leiðinni að því er
athyglisvert.
Í
miðborginni gnæfir hin 35 m háa
Eindawya-pagóda.
Prinsinn í Pagan lét reisa hana árið 1847 á rústum
hallarinnar, sem hann bjó í áður en hann tók við krúnunni.
Þetta gyllta og formfagra musteri hýsir búddalíkneski úr
kalsedón, sem er náttúrulega blandaður ópöllum.
Sagt er að Buddha Gaya hafi komið með það frá Indlandi árið
1839.
Í
austurhluta Mandalay er Sanda-Muni-pagóda
á sama stað og bráðabirgðahöll Mindons konungs stóð á meðan nýja
höllin var byggð. Hún gnæfir
yfir gröfum krónprinsins og skyldmennum konungsfjölskyldunnar, sem
voru drepin í hallarbyltingu árið 1866.
Mindon konungur slapp.
Í
suðausturhluta borgarinnar blómstrar framleiðsla blaðgulls.
Þetta er heimilisiðnaður, sem hefur gengið mann fram af manni
í mörgum fjölskyldum. Þarna
situr fólkið og hamrar litla gullmola dögum saman þar til þeir eru
orðnir að næfurþunnum blöðum.
Karlmennirnir halda um hamrana á meðan stúlkurnar og konurnar
festa litlu skeinin saman og gera úr þeim stærri blöð.
Síðan er gullið selt hinum trúuðu í pökkum og það endar
síðan utan á pagódunum og styttunum. |