fíladelfía pennsylvanía,
Flag of United States


PHILADELPHIA
PENNSYLVANIA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fíladelfía er fimmta stærsta borg BNA í suðausturhorni Pennsylvaníu við ármót Delaware- og Schuylkill-ánna.  Hún er aðalhafnarborg fylkisins, u.þ.b. miðleiðis milli New York og Washington D.C.  Bæði sjálfstæðisyfirlýsing BNA og stjórnarskrá landsins voru ritaðar í Fíladelfíu, þannig að borgarbúar geta staðið á því, að borgin sé fæðingarstaður BNA, eins og þeir hafa gert og gera mikið í auglýsingum.  Efnahagur borgarinnar er flókið kerfi iðnaðar, viðskipta, þjónustu og rannsókna- og þróunarstarfsemi.  Höfn borgarinnar við Delaware-ána er meðal líflegustu innhafna í heimi.  Þar eru afgreidd a.m.k. 5000 flutningaskip á ári.

Meðfram höfninni og ánni eru verksmiðjur, sem hreinsa sykur og olíu, orkuver, matvælaframleiðsla og málmvinnsla.  Þarna er einnig gríðarstórt matvörudreifingarfyrirtæki.  Mörg stórfyrirtæki eiga aðalstöðvar í borginni og þar eru rannsókna- og þróunarstofnanir margra stærstu lyfja-, tölvu- og tæknifyrirtækja landsins.  Iðnaðurinn byggir líka á framleiðslu flutningatækja, gáma, prentaðs efnis og plötumálma, bökunarvöru og mikils úrvals matvöru.  Þarna starfa sex læknaskólar og fjöldi háskóla, sem njóta góðs af nærveru einkarekinna rannsókna- og þróunarstofnana á sviðum vísinda, tækni, lækninga, efnahagsmála, samgöngumála og byggingarlistar.

Þéttriðið kerfi vega og gatna á mörgum hæðum og neðanjarðarlesta, strætisvagnar og sporvagnar og farþegalestir standa undir flutningaþörfinni.  Nokkrir aðalþjóðvega og járnbrautaleiða landsins liggja nærri borginni.  Hafnarmálastjóri situr í skrifstofubyggingu sinni niðri við höfn og lítið eitt sunnan borgar er millilandaflugvöllurinn.

Borgarstæðið er tiltölulega flatlent og skipulagt með ferhyrningsaðferðinni, reyndar var borgin hin fyrsta í BNA, sem var skipulögð þannig.  Kjarni borgarinnar eða miðborgin liggur á milli Breiðgötu og Markaðsgötu, sem eru aðalumferðaræðarnar.  Ráðhúsið, í þungum, frönskum endurreisnarstíl, er við mót þessara gatna.  Benjamín Franklín-gatan er á skjön við ferhyrningsskipulagið, því hún liggur á ská frá ráðhúsinu að Listasafninu, sem stendur hærra en umhverfið.

Miðborgin hefur breytzt verulega allt frá sjötta áratugi 20. aldar vegna endurskipulagningar og endurreisnarverkefna.  Í austurhlutanum var Society Hill-hverfinu breytt úr hrörnandi ástandi í glæsilegt íbúðahverfi með fjölda endurbyggðra 18. og 19. aldar húsa.  Frelsiskringlan og Þjóðarsögugarðurinn eru á þessu svæði og þar eru hús, sem voru áberandi á fyrstu stigum bandarískrar sögu.  Penn Center, andspænis ráðhúsinu, var fyrsta viðskiptaháhýsið, sem var reist.  Þar til 1986 ríkti þegjandi samkomulag um að hæð nýbygginga við Liberty Place yrði ekki meiri en ráðhússins.  Fíladelfía nútímans gefur mynd af varðveizlu hins gamla og þátttöku í hinu nýja, þannig að endurbyggt 18. aldar hús stendur stundum í skugga nýtízku stál- og glerháhýsa.  Ráðstefnumiðstöð Pennsylvaníu, sem var fullbyggð 1993 er á milli Arch- og Race-gatna.

Hluti af varanlegri arfleifð borgarinnar eru nöfn gömlu hverfanna, Germantown, Manayunk, East Falls og Queen Village.  Mörg þeirra bera enn þá merki upprunalegu íbúanna.  Helztu nútímahverfin eru Suður-Fíladelfía, þar sem fólk af ítölsku bergi brotið býr og Vestur- og Norður-Fíladelfía, þar sem negrar eru í meirihluta.

Víða um borgina eru græn svæði og almenningsgarðar (alls 3200 hektarar).  Fairmount-garðurinn er stærsti manngerði almenningsgarður í stórborg í BNA, u.þ.b. helmingur flatarmáls allra garða í borginni.  Þar er hægt að hjóla og hlaupa kílómetrum saman á stígum, njóta grasagarðsins og afþreyingarmöguleika auk varðveittra nýlenduhúsa og gamalla opinberra bygginga í fegurstu mynd.  Aldarsýning BNA 1876 var haldin í Fairmount-garðinum og hvlefing Minningarhallarinnar stendur þar enn þá eins áberandi og þegar hún var nýbyggð.  Hinir garðarnir eru líklega í kringum 150 talsins, þannig að íbúarnir og gestir borgarinnar geta notið útiveru í þeim, hvar sem er í borginni.

Meðal mikils fjölda áberandi sögulegra kennileita má nefna Sjálfstæðishöllina, Trésmiðahöllina (fyrsta þing BNA), Fyrsti og Annar banki BNA, Frelsisbjallan, Betsy Rose-húsið (fyrsta flagg BNA saumað 1777) og Kristskirkju (Benjamín Franklín grafinn), sem eru öll innan seilingar í sögulega hverfinu.  Veteran’s-leikvangurinn er notaður fyrir úrslitaleiki úrvaldeildar ruðnings- og hafnarboltaliða.  Pennsylvaníuháskóli og háskólasjúkrahúsið og aðrir skólar, s.s. Drexel-háskólinn (1891), mynda háskólahverfið.  Temple-háskólinn er einn rúmlega tylftar annarra háskóla og æðri menntastofnana, þ.m.t. La Salle-háskóli (1863), Thomas Jefferson-háskólinn (1824), Curtis-tónlistarskólinn (1924), Listaháskólinn (1876) og Moore-hönnunar- og listaskólinn (1844).  Leikhúsið við Vahnetustræti var opnað 1809.  Það er elzta leikhús, sem er enn þá í rekstri í BNA.  Hin fagra Tónistarakademía (1857) er samastaður Fílharmóníuhljómsveitarinnar, sem er í röð hinna beztu í heimi.  Safnaflóra borgarinnar er yfirgripsmikil, s.s. Listasafnið, Rodin-safnið og Listaakademía Pennsylvaníu (listaskóli og elzta listasafn BNA frá 1805).  Þá má nefna Náttúruvísindaakademíuna (1812), sem er elzt sinnar tegundar í BNA, Franklínstofnunina (1824), elzta vísinda- og tæknisafn BNA.

Svíar settust að á Fíladelfíusvæðinu skömmu eftir 1640.  Árið 1681 ánafnaði Karl II framámanni kvekara, William Penn, landið.  Hann átti þá ósk heitasta að geta stofnað nýlendu, þar sem trúfrelsi væri tryggt.  Hann kom á þessar slóðir með landmælingamanninum Thomss Holme árið 1682 og aðstoðaði við mælingarnar á borginni, sem hann kallaði Fíladelfíu (gríska = bróðurást).  Árið 1683 varð hún höfuðborg nýlendunnar nýstofnaðrar nýlendunnar Pennsylvaníu og hélt því hlutverki til 1799.  Byggðin óx og dafnaði allt frá upphafi.

Flestir hinna fyrstu landnema voru kvekarar eða Vinir, en þegar borgin þróaðist í blómlega mistöð viðskipta og iðanaðar, kom aukinn fjöldi Þjóðverja, Hollendinga, Skota og Íra til búsetu.  Árið 1720 var Íbúafjöldinn kominn í 10.000.  Benjamín Franklín fluttist frá Boston til Fíladelfíu 1723 og sex árum síðar hóf hann útgáfu dagblaðsins Pennsylvanía Gazette.  Hann varð því einn máttarstólpa menningarlífsins og stuðlaði að þróun hennar sem menningarmiðstöð brezku nýlendnanna í Ameríku.  Hann var í hópi þeirra, sem stofnuðu fyrsta fría bókasafnið, sjúkrahúsið og þekkingarfélagið.  Á þessum tímum varð borgin að leiðandi miðstöð iðnaðar og viðskipta.

Fíladelfía var fjölmennasta borgin í brezku nýlendunum og var því í fararbroddi atvika og athafna, sem leiddu til frelsisstríðsins og sjálfstæðisyfirlýsingarinnar, en hún var undirrituð í borginni 1776.  Í lok stríðsins var stjórnarskrá BNA samin í borginni árið 1787.

Verzlun og iðnaður, einkum framleiðsla járns og vefnaðarvöru, uxu hratt og árið 1860 var Íbúafjöldinn orðinn hálf miljón.  Hreyfingin gegn þrælahaldi skaut snemma rótum í borginni og að þrælastríðinu loknu hélt hagsældin áfram í borginni með auknum hraða og laðaði að sér innflytjendur frá Þýzkalandi, Ítalíu, Póllandi, Rússlandi og öðrum Evrópulöndum.  Árið 1876 varð borgin fyrir valinu til hátíðarhalda í aldarminningu sjálfstæðis BNA, sem voru fyrsta alþjóðlega sýningin í BNA.

Eftir fyrri heimsstyrjöldina fluttust margir borgarbúar út fyrir borgarmörkin.  Margar smáborgir þróuðust hratt vestan og norðan Fíladelfíu í takt við framlengingu járnbrautanna.  Í síðari heimsstyrjöldinni og eftir hana komu margir þeldökkir innflytjendur frá Suðurríkjunum.  Árið 1950 var Íbúafjöldinn orðinn 2,1 miljón og bætt vega- og gatnakerfi gerði uppbyggingu nýrra úthverfa mögulega.

Á sjötta áratugi 20. aldar hvarf margt fólk og fyrirtæki brott úr borginni og þúsundir manna og kvenna urðu atvinnulaus.  Síðast á áratugnum var reynt að grípa í taumana með ýmsum ráðum til að blása nýju lífi í atvinnulífið en allt fram á áttunda áratuginn hélt hrörnunin áfram.  Á níunda áratugnum fór efnahagurinn batnandi á ný og hagvöxturinn varð meiri en annars staðar í BNA.  Nú nær stórborgarsvæði Fíladelfíu yfir suðausturhluta Pennsylvaníu og inn í New Jersey og Delaware.  Áætlaður íbúafjöldi 1990 var tæplega 1,6 miljónir.


Frelsisbjallan er sögulegur gripur, sem er í Sjálfstæðissögugarðinum í Fíladelfíu.  Henni var hringt 8. júlí 1776 eftir fyrsta opinbera lestur sjálfstæðisyfirlýsingarinnar.  Bjallan vegur 943,5 kg og ummál hennar er mest 3,7 m.  Á hana var ritað:  „Lýstu frelsi um allt landið, þannig að allir megi heyra.”  Bjallan var pöntuð árið 1751 og var steypt í London.  Hún kom til Fíladelfíu í ágúst 1752 og sprakk í tilraunahringingunni.  Hún var brædd og steypt í annað skiptið í apríl 1753 en aftur komu gallar í ljós.  Hún var brædd á ný í júní sama ár (Pass og Stowe).  Hinn 7. júní 1753 var þriðja bjallan hengd upp í turn Frelsishallarinnar.  Árið 1777 hernámu Bretar Fíladelfíu.  Bjallan var tekin niður og falin en sett upp á ný árið eftir.  Síðan hefur bjallan hljómað 4. júlí ár hvert og fram til 1935 var henni líka hringt á hátíðisdögum fylkisins, þar til hún sprakk á ný, þegar henni var hringt til heiðurs hæstaréttardómaranum John Marshall látnum.  Bjallan var flutt á núverandi stað í glerhýsi við Frelsishöllina árið 1976.

PENNSYLVANIA

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM