Vallónía Belgía,
Flag of Belgium


VALLÓNÍA
BELGÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Vallónía er stjórnsýslusvæði í Suður-Belgíu.  Innan þess eru sýslurnar Liege, Luxemburg, Namur, Hainaut og Vallóníu-Brabant.  Svæðið er 16.844 km2 og nær að Frakklandi í suðri og vestri, Þýzkalandi og Luxemburg í austri og belgíska stjórnsýslusvæðinu Flanders í norðri.  Norðurhluti Vallóníu er háslétta (200-350 m.y.s.), aðallega landbúnaðarsvæði, sem árnar Mas og Schelde renna um.  Suðausturhlutinn nær yfir hluta Ardennafjalla í u.þ.b. 400 m.y.s.  Allrasyðst er hæðótt landslag Belgíska-Lótringen.  Ardennafjöllin og Belgíska-Lótringen eru vaxin barrskógum, þar sem hæst ber, og blönduðum barr- og laufskógum neðar.  Helztu ár Vallóníu eru Mas, Sambre, Ourthe og Semois.  Mas fellur til Rínar.

Helztu borgir Vallóníu eru Mons, Charleroi, Liege og Namur.  Namur er höfuðstaður Vallóníu.  Á þessu stjórnsýslusvæði býr aðallega frönskumælandi fólk, vallónar, sem talar ýmsar franskar mállýzkur.  Í austurhlutanum, Eupen, Malmédy og St Vith, býr lítill hópur þýzkumælandi fólks.  Það varð eftir á þýzku landi, sem féll til Belgíu eftir síðari heimsstyrjöldina, og er innan við 1% þjóðarinnar.

Landbúnaðurinn er mikilvæg atvinnugrein, einkum kornrækt, kartöflur og grænmeti.  Efri hluti Ardennafjalla er nýttur til beitar og skógarhöggs.  Iðnbyltingin á meginlandi Evrópu hélt fyrst innreið sína í Sambre-Mas-dalinn í núverandi Vallóníu.  Kolanámurnar, járn- og stálverin, efnaverksmiðjurnar og vefnaðariðnaðurinn voru undirstaða belgísks efnahagslífs síðla á 19. öldinni og snemma á hinni 20.  Kolanámurnar tæmdust og mikill samdráttur varð í iðnaði í Vallóníu síðar á öldinni.  Langvarandi kreppu var afstýrt með sérhæfðum málm- og vélaverksmiðjum en Vallónía stendur í efnahagsskugga Flanders.  Síðustu áratugi 20. aldar fór ferðaþjónustan að vega þyngra í efnahagslífinu, einkum í Ardennafjöllum.

Vallónía er eitt hinna þriggja stjórnsýslusvæða Belgíu, sem urðu til árið 1962, þegar Belgía varð að sambandsríki með stjórnarskrárbreytingum.  Í ríkisráði Vallóníu sitja kjörnir þingmenn þjóðþingsins, sem eru kosnir í Vallóníu.  Ráðir hefur víðtæk völd á sviðum landbúnaðar, samgangna, atvinnulífs, menntunar og erlendra viðskipta og í náttúruverndar- og nýtingarmálum.  Ráðið hefur einnig takmörkuð völd í gerð milliríkjasamninga.

Þegar Belgía fékk sjálfstæði 1830 var nafnið Vallónía ekki til.  Deilur og kröfur þeirra, sem börðust fyrir tungumálaréttindum íbúanna leiddu til tungumálaskiptingar landsins árið 1962.  Á árunum 1970 til 1993 voru gerðar breytingar á stjórnarskránni, sem staðfestu þessa skiptingu.  Áætlaður íbúafjöldi Vallóníu árið 1991 var tæplega 3,3 miljónir.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM