Flanders Belgía,
Flag of Belgium


FLANDERS
BELGÍA

.

.

Utanríkisrnt.

 

Stjórnsýslusvæðið Flanders skiptist í fimm sýslur, Vestur-Flanders, Austur-Flanders, Antwerpen, Limburg og Flæmska Brabant.  Þetta svæði er 13.512 km2 með Frakkland og Norðursjó í vestri, Holland í norðri og austri og belgíska stjórnsýslusvæðið Vallóníu í suðri.  Vesturhluti Flanders nær yfir hinn sögulega hluta þess, sem var miðstöð efnahagsmála og menningar norðvesturhluta Evrópu á miðöldum.

Flanders er láglent og að mestu sléttlent svæði.  Því má skipta í strandsléttu með svæðum, sem hafa verið unnin úr greipum Ægis (polder).  Hæð þessa svæðis nær frá sjávarmáli upp í 200 m.y.s.   Fjöldi vatnsfalla streymir frá hærra liggjandi svæðum í suðri til árinnar Schelde, sem streymir hjá Antwerpen til ósanna í Hollandi og út í Norðursjó.

Í Flanders eru borgirnar Antwerpen, Ghent, Kortrijk (Courtrai) og Brugge.  Höfuðborg Belgíu, Brussel, er sjálfstætt stjórnsýslusvæði innan Flanders en er engu að síður miðstöð stjórnsýslu Flanders.  Íbúar þessa svæðis tala flæmsku, sem er mállýzka tungumáls Hollendinga en opinbert mál þeirra er hollenzka.  Nokkur fjöldi frönskumælandi Belga býr á svæðum í kringum Brussel og við mörkin að Vallóníu.

Landbúnaður er mikilvæg atvinnugrein í Flanders.  Bændur þar rækta aðallega sykurrófur, korn, hör, kartöflur, ávexti, grænmeti og blóm.  Brugge var þegar orðin mikilvæg alþjóðaviðskiptaborg á 13. öld og Antwerpen fór að láta til sín taka á 15. öld.  Á 19. og 20. öld urðu Ghent, Antwerpen og Kortrijk mikilvægar miðstöðvar iðnaðar og kolanám hófst austar á svæðinu.  Þrátt fyrir þessa hagstæðu efnahagsþróun í Flanders, var Vallónía öflugri.  Á síðari hluta 20. aldar streymdi erlent fjármagn til svæðisins milli Antwerpen og Brussel til eflingar verkfræði og tækni og leiddi einnig til fjölgunar starfa í þjónustugeiranum.  Þetta landsvæði er nú miðstöð viðskipta í landinu.  Ferðaþjónustan er mikilvæg fyrir Flanders, einkum meðfram ströndinni og í sögulegum borgum.

Flanders er eitt henna þriggja stjórnsýslusvæða landsins.  Kjörnir þingmenn íbúa Flanders og flæmskumælandi íbúa Brussel sitja í stjórnarráði héraðsins.  Stjórnin hefur víðtækt vald í málum, sem snerta landbúnað, samgöngur, atvinnumál, menntun, erlend viðskipti og náttúruvernd auk þess að hafa takamarkaðan rétt til milliríkjasamninga.

Þegar Belgía fékk sjálfstæði árið 1830 náði nafnið Flanders aðeins yfir Austur- og Vestur-Flanders.  Flæmskumælandi íbúar norðurhluta Belgíu gerðu kröfu til þess, að norðurhlutinn fengi sinn tungumálarétt í heild og færðu nafnið yfir hann allan.  Þessi skipting fékkst þó ekki opinberlega viðurkennd fyrr en 1962, þegar tungumálamörkin voru dregin.  Milli 1970 og 1993 var Belgía gerð að sambandsríki tungumálasvæðanna með stjórnarskrárbreytingum.  Árið 1991 var áætlaður íbúafjöldi Flanders tæplega 6 miljónir.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM