Salzburg Austurríki,


Getreidegaße

Skoðunarvert      

SALZBURG
AUSTURRÍKI

.

.

Utanríkisrnt.

Salzburg er í 420 m hæð.  Hún er höfuðborg samnefnds sambandsríkis, sem er í norðausturhluta landsins.  Hún er einhver fegursta borg Evrópu, fæðingarborg Mozarts og er meðal fremstu hljómlistarborga heims.  Þar er Mozartmiðstöð og hátíðatónleikar eru haldnir reglulega.  Salzburg er á báðum bökkum Salzach (Saltalækjar), sem fellur hér fram á flatlendi, sem þó er rofið af Untersberg (1.973 m).  Kastalinn Hohensalzburg með kúpulkirkju setur ógleymanlegan svip á borgina.

Milli vinstri árbakkans og Mönchsberg og Festungsberg er gamli borgarhlutinn með miðaldasvip og þröngum götum, bogagöngum og háum, mjóum húsum í rómönskum stíl, en kirkju- og furstahlutinn með glæsilegri barokhöll við stórt torg er á milli Neutor og nýbygginga og skrauthýsa.  Á hægri árbakkanum eru nýju borgarhverfin og Kapuzinerberg gnæfir yfir í austri með klaustur-byggingum sínum.

Á Rainbergfjalli hafa funcizt mannvistarleifar frá frumsteinöld.  Illýrar gáfu staðnum nafnið Juvavum (setur himnaföðurins).  Keltar og Rómverjar lögðu staðinn undir sig síðar.  Á tímum Rómverja (15 f.Kr - 500 e.Kr.)  var Salzburg höfuðborg (Municipium) eins stjórnsvæðisins.  Þýðingarmikill vegur lá um Cucullae (Kuchl) og borgir í Tauern, þar sem mílnasteinarnir standa enn þá, til Virunum við Klagenfurt og áfram til Rómar.  Á þjóðflutningatímanum hnignaði Juvavum.  Við landnám hinna heiðnu bæjara (530) og stofnun St. Peters- og Nonnenberg klaustranna (heilagur Rupert; 690) hófst nýr og merkur kafli í sögu Salzburg.  Virgil biskup (írskur; 745-784) og Arno eftirmaður hans gerðu Salzburg að miðstöð kristinboðs í Alpalöndunum og á svæðunum meðfram Dóná.  Virgil lét reisa hina frumrómönsku dómkirkju, sem kom í ljós við fornleifauppgröft 1956-58  Fransiskusar- og Mikaelskirkjurnar eru frá 8.- og fyrri hluta 9. aldar.  Hin síðarnefnda var sóknar-kirkja borgarinnar.

Telja má tímabil rómanskrar listar (1000-1250) hápunkt þróunar hinnar gömlu Salzburg.  Þá voru reistar margar kirkjur ásamt Hohensalzburg.  Kirkjurnar voru svo traustbyggðar og vandað-ar, að Konrad III, konungur, sagðist hvergi hafa séð jafnvelbyggðar kirkjur og í Salzburgbiskupsdæmi.  Meginhluti St. Peter-klausturkirkjunnar er frá 12. öld.  Dómkirkjan var stærsta rómanska byggingin í „Hinu rómansk-þýzka ríki” með 5 kirkjuskip.  Enn þá eru til minjar um freskur (brjóstmyndir af dýrlingum í Nonnenbergkirkjunni).

Á tímum gotneska byggingarstílsins (1250-1530) minnkaði veraldlegt vald erkibiskupanna í ungversku styrjöldunum, en listir blómstruðu.  borgarastéttinni óx fiskur um hrygg með auknum viðskiptum við Nürnberg, Augsburg, Vín og Feneyjar.  Hinn atkvæðamikli erkibiskup, Leonard af Keutschach (1495-1519), léði Hohensalzburg núverandi útlit.  Blasiuskirkjan var byggð á 14. öld og á 15. öld fylgdu kór fransiskanakirkjunnar (Hans Stekkheimer frá Burghausen), Nonnenberg-klausturkirkjan og Margrétarkapellan í Peterskirkjugarðinum.

Höggmyndalist blómstraði líka.  Rauður marmari frá Adnet var mikið notaður, t.d. í minnismerkið um Leonard von Keutschach við Georgskapelluna við kastalann.

Þriðji kafli listasögu Salzburg byrjaði með wolf Dietrich von Raitenau erkibiskupi (1587-1612; barok).  Hann var af Medici-ættinni á móðurhlið og var uppalinn í Róm.  Hann breytti svip borgarinnar, þótt eftirmenn hans hafi komið flestum áætlunum og hugmyndum hans í verk.

Markus Sittikus von Hohenems (1612-19) byggði dómkirkjuna eins og hún lítur út nú allt upp að þakskeggi, en Parísargreifinn, von Lodron, lauk henni (1619-53) og lét reisa borgarmúra (1620-44), sem vernduðu borgina í 30 ára stríðinu.

Undir stjórn erkibiskupsins Johann Ernst greifa frá Thun (1687-1709), og með aðstoð byggingameistarans Johann Bernhard Fischer frá Erlach, fékk Salzburg þann baroksamhljóm, sem hún er fræg fyrir.  Kollegienkirkjan, sem er eitt tólf verka Fischers í og umhverfis Salzburg, telst meðal merkustu barokbygginga í heimi.

Eftirmaður Thuns, Franz Anton fursti Harrach (1709-27) fékk keppinaut Fischers, Johann Lucas von Hildebrandt, sem byggði Belvedere í Vín, til að taka við.  Honum er að þakka nýr svipur á furstahöllinni og Mirabellhöllinni, þar sem skoðunarverðastur er marmarasalurinn og stigahúsið með hrífandi höggmyndum eftir Raphael Donner.

Leopold Anton Freiherr von Firmian erkibiskup (1727-44) beitt fyrir sig útflytjendareglum, er hann rak 20.000 mótmælendur úr landi.  Örlög þeirra eru grunnurinn að ljóð Goethes "Hermann und Dorothea".  Árið 1756 fæddist Wolfgang Amadeus Mozart í Salzburg.

Að loknum miðöldum var stjórnmálaleg þýðing Salzburg lítil.  Árið 1803 missti borgin fullveldi sitt, en var þó áfram setur erkibiskups, sem hélt titli sínum "Primas Germaniae".  Eftir að Frakkar og bæjarar ákváðu 1816, að Salzburg skyldi alltaf tilheyra Austurríki, hófst nýtt efnahags- legt blómaskeið á síðari hluta 19. aldar.  Salzburg tengdist járnbrautasamgöngum.  Bæði rómantískir og raunsæismálarar höfðu Salzburg í hávegum.

Frá Salzburg er stutt til flottustu skíðasvæða í heimi. Austurríkismenn kunna að búa til skemmtilega stemningu í fjöllunum sem allir skíðamenn hafa gaman að.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM