Norðurhéraðið í
Norður-Ástralíu liggur að Tímorhafi í norðvestri, Arafurahafi og
Carpentiariaflóa í norðri og norðaustri, Queensland í austri,
Vestur-Ástralíu í vestri og Suður-Ástralíu í suðri.
Norðurhéraðið er næststærsta fylki álfunnar, 1.346.200 km²,
og nær yfir 17,5% Ástralíu. Strandlengjan
er 6200 km löng og nær yfir eyjarnar á milli 129°-138°A. Höfuðborgin er Darvin á norðvesturströndinni.
Landslagið hækkar í stöllum frá ströndinni upp í 700 m
yfir sjó. Arnhemland, Flóasvæðið,
eyjarnar og Norður-Barkly sléttan eru láglendissvæðin nyrzt með
ströndum fram.
Sunnar taka
við hálfeyðimerkur, Barkly sléttan, miðhálendið og Tanamieyðimörkin.
Þessi svæði eru víða vel fallin til beitar.
Helztu svæðin syðst eru Olgas, Uluru (fyrrum Ayersklettur),
Macdonnellfjöll og hluti Simpsoneyðimerkurinnar.
Þar er úrkoma lítil og jarðvegur sendinn og neyzluvatns er
aflað með borholum. Zeilfjall
(1510m) rís hæst í Macdonnellfjöllum og er hæsti tindur Norðurhéraðsins.
Svæðið í kringum Alice Springs, „Red Centre”, og „Top
End” nærri ströndinni, eru mjög sérstæð og skoðunarverð.
Þar er mikið um pokadýr (kengúrur, pokarottur og leðurblökur),
krókódíla, snáka, vatnabuffala og hitabeltisfugla. Þessi landssvæði eru aðallega vaxin grasi, fenjatrjám og
eucalyptus.
Loftslagið er ráðandi þáttur í lífsskilyrðum fólks vegna
mikilla sveiflna. Við
ströndina ríkir hitabeltis- og monsúnloftslag (meðalársúrkoma
>1600 mm). Þurrkur
eykst er fjær dregur ströndinni og meðalúrkoman fer niður í 254 mm
á ári. Regntíminn er
frá nóvember til apríl.
Íbúarnir.
Frumbyggjar Ástralíu eru hvergi fjölmennari en í
Norðurhéraðinu. Þar er líka stærsta byggð Asíumanna, sem gefur til kynna
nálægð Suðaustur-Asíu. Íbúafjöldinn
árið 1991 var u.þ.b. 175.252, þar af voru frumbyggjar 37.698 (rúmlega
20% heildarfjöldans). Norðvesturhéraðið
er næstum eini hluti Ástralíu, þar sem þeir geta búið saman og
iðkað siði sína og venjur.
Helztu borgir: Darwin
og Alice Springs eru stærstar. Darwin
er aðalhafnarborgin, minnsta höfuðborg álfunnar og státar af mestri
grózku. Fellibyljir hafa
lagt hana fimm sinnum í rúst (1878, 1882, 1897, 1937 og 1974). Fellibylurinn Tracy gerði það að verkum, að borgin var
byggð upp á nýtt í nútímastíl, en samt hefur hún ekki með öllu
tapað landnemablænum. Aðrar
mikilvægar borgir eru námubærinn Tennant Creek og Nhulunbuy,
Palmerston (útborg Darwin), Yulara í nágrenni Uluruþjóðgarðsins
og Katherine.
Efnahagsmál:
Uppgötvun verðmætra jarðefna í Norðurhéraðinu olli gífurlegri
uppbyggingu og hröðustu fólksfjölgun í álfunni á síðari árum.
Þar fannst úraníum, gull, magnesíum, báxít, blý, silfur,
kopar og sínk. Þessi jarðefni
voru aðalundirstaða framleiðslu héraðsins snemma á níunda áratugnum. Vegna þess, hve auðvelt er að komast að úraníumbirgðum
í jörðu, er verð þess með því, sem lægst gerist.
Groote Eyland-náman er fjórða stærsta hágæðamanganese-náma
heims. Á Coronation Hill-svæðinu
eru miklar birgðir af platínu og palladium og mestu ónýttu birgðir
heims af blýi, silfri og sínki eru við McArthur-ána.
Einnig eru verulegar gasbirgðir í jörðu í Joseph Bonaparte-flóa,
undir botni Tímorhafs og undir Amadeus-lægðinni á meginlandinu.
Snemma á tíunda áratugi 20. aldar nam olíuframleiðsla Norðurhéraðs
73.000 tunnum á dag.
Landbúnaðurinn
byggist aðallega á ræktun nautgripa og buffala. Rúmlega 240 stórir búgarðar rækta nautgripi fyrir innan-
og utanlandsmarkaði. Stærð
þessara búgarða er á milli 198 km² og 12.254 km².
Áður en lögin um landréttindi
frumbyggjanna voru samþykkt á sambandsþinginu 1993 áttu
frumbyggjarnir og Torres-eyjaskeggjar í Norðurhéraði 34% lands þar.
Þessi lög voru sett í kjölfar niðurstöðu hæstaréttar um
að Ástralía hafi ekki verið óbyggt land, þegar Evrópumenn komu
til skjalanna, og því væri ekki hægt að ganga á rétt
frumbyggjanna lengur.
Ferðaþjónustu vex stöðugt fiskur um hrygg í
Alice Springs, Uluru-þjóðgarðinum og í Darwin.
Stjórnsýsla. Norðurhérað
er mjög háð styrkjum frá sambandsstjórninni, þannig að tilraunir
til stofnunar sjálfstæðs fylkis hafa runnið út í sandinn af þeim
sökum. Norðurhéraðið
þróaðist að mestu við stofnanir fylkja allt um kring, þar eð íbúa
þeirra kærðu sig ekki um að innlima þetta landsvæði.
Árið 1863 tóku Suður-Ástralar að sér yfirumsjón með Norðurhéraði
en fólu síðan sambandsstjórninni hana árið 1911.
Árið 1974 kusu íbúar Norðurhéraðs fulltrúa á eigin þing
og árið 1978 fengu þeir sjálfstjórn með einnar deildar þingi.
Norðurhérað á einn fulltrúa í fulltrúadeild sambandsþingsins
og tvo í öldungadeild þess.
Sagan. Þegar
Evrópumenn komu til skjalanna í Norðurhéraði, bjuggu þar í
kringum 35.000 frumbyggjar. Menning
þeirra og uppruni var fjölbreyttari en meðal frumbyggjanna í
suðurhluta álfunnar. Landnám
Evrópumanna í þessum landshluta tafðist verulega á 19. öld vegna
mikillar andspyrnu þeirra og sveiflukennds loftslags.
Palmerston (Darwin frá 1911) var fyrsta evrópska byggðin, sem
þróaðist á svæðinu. Þangað fluttust smábændur frá Suður-Ástralíu og
talsverður fjöldi kínverja settist smám saman þar að.
Stórir búgarðar voru grundvöllur efnahagslífsins þar til
námugröftur og ferðaþjónusta urðu mikilvægari á síðustu
tveimur áratugum 20. aldar. |