Argentína sagan 3,
Flag of Argentina

SAGAN 4      

ARGENTÍNA
SAGAN 3

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Efnahagsþróunin 1820-50.  Á þessu þrjátíu ára tímabili breyttist samfélagið og efnahagsmálin talsvert.  Höfuðborgarsvæðið var bezt í stakk búið til að aðlagast frjálsari verzlunarháttum.  Þaðan var mikið flutt út af unnum nautgripaafurðum og innflutningurinn byggðist að mestu á neyzluvörum frá Evrópu.  Héruðin innanlands aðlöguðust smám saman breyttum aðstæðum, s.s. nýjum mörkuðum í Síle, þar sem námugröftur færðist í aukana, í stað hinna hefðbundnu í Efra-Perú.  Strandhéruðin voru fljótari til, þótt kvikfjárræktin hafi orðið fyrir áföllum í borgarastríðinu.  Hægur uppgangur hófst í Santa Fe á fjórða áratugnum og svipað gerðist í Entre Ríos og Corriente á hinum fimmta.

Sameining þjóðarinnar 1852-80.  Urguiza hershöfðingi efndi til ráðstefnu um stjórnarskrá í Santa Fe 1852 án þátttöku Buenos Aires.  Afrakstur þessarar ráðstefnu var uppkast að stjórnarskrá fyrir allt landið, sem tók gildi 25. maí 1953.  Buenos Aires dró sig út úr fylkjasambandinu, sem kaus Urguiza sem forseta og gerði Paraná að höfuðborg.  Ágreiningurinn við Buenos Aires var nýja sambandinu fjárhagslega erfiður, því að borgin tók til sín alla inn- og útflutningstolla.  Árið 1859 lagði Urguiza borgina undir sig með hervaldi en samþykkti jafnframt breytingu á stjórnarskránni , sem dró úr réttindum annarra héraða.

Santiago Derqui settist í forsetastól áður en sameining héraðanna tók gildi.  Önnur borgarastryjöld brauzt út og Buenos Aires sigraði heri Urquiza.  Hann og Bartolomé Mitre, landstjóri Buenos Aires, komust að samkomulagi um að Mitre yrði æðsti maður landsins en Urquiza réði héruðunum Entre Ríos og Corrientes.  Derzui sagði af sér og Mitre var kosinn forseti 1862 með aðsetur í Buenos Aires.

Völd nýja forsetans skertust stöðugt vegna andstöðu í röðum stuðningsmanna hans í Buenos Aires.  Þessi þróun neyddi hann til að hafa afskipti af stjórnmálaátökum í Úrúgvæ og berjast við Paragvæ í svokölluðu þríeyisstríði.  Á tímabilinu olli hernaður Argentínu, Brasilíu og Úrúgvæ gegn Paragvæ gífurlegum skaða, endar var nýjustu hernaðartækni og tugþúsundum hermanna beitt.  Þetta stríð olli ekki röskun í viðskiptalífi Argentínu.  Á sjöunda og áttunda áratugnum var mikið um erlendar fjárfestingar og innflytjendur flæddu inn í landið.  Nýjar járnbrautir voru lagðar, ræktun alfalfa hófst, nýir stofnar nautgripa voru fluttir inn, og frysting kjöts hófst.

Her landsins varð hornsteinn hins nýja, miðstýrða ríkis, þótt hann vildi ekki fylgja stefnu forsetans.  Einn frænda Rosas forseta hvatti herinn til stuðnings við forsetaframbjóðandann Domingo Faustino Sarmiento frá San Juan.  Herinn og frjálslyndir í Buenos Aires tryggði sigur hans í kosningum.  Þessi forseti var við völd frá 1868 til 1874 án eigin stjórnmálaflokks.  Erlend lán efldu efnahaginn og gerðu Sarmiento kleift að bæla niður uppreisn í Entre Ríos
.

Næsti forseti, Nicolás Avellaneda (1874-80) var frá San Miguel de Tucumán.  Hann var dómsmála-, menntamála- og kirkjumálaráðherra í stjórn Sarmiento.  Stjórn hans glímdi við erfitt efnahagsástand vegna kreppunnar í Evrópu 1873.  Afborganir erlendra lána féllu niður og mikið dró úr opinberum umsvifum.  Stjórnin hvatti útlendinga til að setjast að í Argentínu og studdi baráttuna gegn indíánum af öllum mætti.

Julio Argentino Roca, hershöfðingi, sem var líka frá San Miguel de Tucumán og átti ítök í Córdoba, varð næsti forseti (1880-86).  Hann átti glæstan feril í hernum að baki, s.s. yfirtöku eyðimerkurinnar og þar með endi indíánastríðsins árið 1879.  Þessi sigur opnaði landnemum leiðina til suður- og vesturhluta Pampas og Norður-Patagóníu og gerði Roca að þjóðhetju.  Framboð hans olli nýrri byltingu í Buenos Aires, sem var fljótlega bæld niður.  Ágreiningurinn um stöðu borgarinnar í bandalaginu var leystur með því að gera hana að höfuðborg landsins og La Plata varð höfuðborg Buenos Aires-fylkis.

Íhaldsstjórnin 1880-1916
.  Heimastjórnarflokkurinn stjórnaði öllu landinu.  Þessi flokkur hafði staðið að baki Avelleneda í forsetakosningunum en hafði skipaði sér síðan í raðir ýmissa flokka og hópa, sem studdu Roca.  Meðal þeirra voru margir stórbændur og viðskiptajöfrar, sem voru ánægðir með grunnboðskap Roca um frið og öfluga stjórn.  Hagur landsins vænkaðist verulega á stjórnarárum hans, einkum vegna frárstreymis frá Brelandseyjum, sem gerði kleift að leggja járnbrautir upp með ánum frá Buenos Aires.  Þetta nýja járnbrautanet auðveldaði flutning útflutningsafurða og efldi landbúnaðinn.  Fleiri erlendar fjárfestingar hleyptu lífi í aðra atvinnustarfsemi og íbúum fjölgaði mikið.  Árið 1869 voru þeir í kringum 2 milljónir en 1914 u.þ.b. 8 milljónir.  Árið 1881 komust Argentína og Síle að samkomulagi um landamærin milli ríkjanna og skiptingur Eldlands.  Samkvæmt þessum samningi átti Argentína ein aðgang að Atlantshafi og Síle að Kyrrahafi.

Kreppan 1890.  Þenslan í efnahagslífinu leiddi að lokum til verðbólgu, aukinnar seðlaútgáfu og fjármála- og stjórnmálakreppu.  Stjórn Miguel Juárez Celman (1886-90), eftirmanns Roca, veigraði sér við að aðgerða gegn verðbólgunni og var gagnrýnd innanflokks sem utan.  Bylting var gerð í júlí 1890 með stuðningi hersins en tryggum fylgismönnum stjórnarinnar tókst að bæla hana niður.  Engu að síður varð Celman að segja af sér og fela varaforsetanum, Carlos Pellegrini (1890-92) völdin.  Hann var dyggur stuðningsmaður Roca.

Róttækir eflast.  Róttæki borgaraflokkurinn var stofnaður til höfuðs erfiðleikum síðasta áratugar aldarinnar.  Hann var í mikilli andstöðu við ríkjandi stjórn og frambjóðandann, Luis Sánenz Pena,sem var stillt upp til málamiðlunar.  Mitre og hófsamari andstæðingar stjórnarinnar féllust á framboð hans 1892.  Sáenz sat í forsetastóli þar til José Evaristo Uriburu tók við 1895.  Roca varð aftur forseti 1898 og reyndi að fylkja hinum hófsamari armi róttæklinga með lausbundnu bandalagi annarra flokka, sem höfði staðið að baki stjórninni frá 1890.  Óbilgjörnustu róttæklingarnir undir forystu Hipólito Irigoven, síðar forseta, voru ófáanlegir til samvinnu.

Óánægjuólga jókst meðal almennings, þótt stjórnmálaleg andstaða minnkaði og ágreiningur var í ríkisstjórninni.  Roca sleit samstarfi við Pellegrini og Heimastjórnarflokkurinn hlaut skaða af.  Árið 1904 komst Roca naumlega hjá yfirtöku Pellegrini og frambjóðandinn, sem hann bauð fram til forsetakosninganna, Manuel Quintana,var ekki meðal hans dyggustu fylgismanna.  Quintana neyddist til að bæla niður byltingu róttækra 1905 og hann dó næsta ár.  Lát hans opnaði leið José Figueroa Alcorta frá Cordóba að forsetaembættinu og hans fyrsta verk var að losa sig við stjórnmálamaskínu Roca.  Árið 1910 setti Alcorta eftirmann sinn, Roque Sáenz Pena, aftbragðs stjórnmálamann, sem var reiðubúinn til að mynda samsteypustjórn á nýjum grundvelli, í embætti.

Stjórnmálastefnan á síðusta skeiði Roca sannfærði flesta áhrifamestu fylgismenn um nauðsyn bættra kosningaaðferða.  Umbæturnar komu mönnum ekki mjög hættulega fyrir sjónir, því að stuðningur við róttæka var takmarkaður.  Árið 1912 lét Pena þingið samþykkja kosningalög, sem kváðu svo á, að öllum karlmönnum bæri skylda til að greiða atkvæði í leynilegum kosningum.  Við dauða hans 1914 urðu landsfeðurnir leiðtogalausir og kosningalögin greiddu róttækum leiðina til valda.  Bráðabirgðasetu Victorino de la Plaza í forsetastóli lauk 1916 og við tók leiðtogi róttækra, Hipólito Irigoyen (1916-22).  Hann var fyrsti argentínski forsetinn, sem átti sigur sinn að þakka almennum kosningum og var ekki valinn af fámennisstjórn.

Róttæka stjórnin 1916-30.  Samsteypustjórn róttækra var sundurleit og það dró úr getu hennar til að bregðast skjótt við aðkallandi vandamálum á viðskipta- og félagslega sviðinu.  Irigoyen kaus að einbeita sér að taka fyrst á pólitísku graftarkýlunum, sem hann hafði erft í embætti.  Hann nýtti sér engu að síður verndarkerfi íhaldsmanna, sem þeir notuðu til að halda völdum og byggði það upp um allt land, þannig að róttækir urðu allsráðandi í flestum fylkjum landsins.  Stjórn róttækra reyndi líka að styrkja stöðu sína á öðrum sviðum.  Hún bætti tengslin við verkalýðsfélögin með umbótastefnu sinni.  Þessi tilraun varð að engu eftir átök í allsherjarverkfalli í höfuðborginni í janúar 1919.  Þá skipaði herinn sér í raðir íhaldsamra hagsmunahópa.  Stjórn Irigoyen studdi leiguliða í stofnun samtaka og setti fram áætlun um æðri menntun.  Áhrif forsetans voru afgerandi um val eftirmanns hans, Marcelo T. de Alvear (1922-28), sem virtist vera góður kostur.  Hann var samt ekki ánægður með takmarkanirnar, sem Irigoyen hafði sett honum og með tregðu tók hann að sér forystu íhaldsams hops, sem var andsnúinn Irigoyen.  Irigoyen bauð sig fram til annars kjörtímabils í kosningunum 1928 og sigraði með yfirburðum (2:1).

Irigoyen var ekki byltingarmaður en sigurinn skapaði honum fjandskap valdamikilla afla á sviði efnahagsmála, félagsmála og stjórnmála.  Þótt stjórnmálavefur hans væri vænlegur til að tryggja völdin, var hann lélegt verkfæri til að stjórna með á tímum efnahagslegra þrenginga, sem gengu yfir landið 1929.  Bretar og Bandaríkjamenn höfðu löngum verið aðalviðskiptalönd Argentínu og þaðan runnu fjárfúlgur inn í landið.  Bandaríkjamenn lánuðu Argentínu mikið fé en tóku svo upp á því, að leggja margs konar tolla á vörur frá Argengínu.  Þessi þróun olli því, að Irigoyen tók um stefnu gegn BNA og með Bretlandi.  Heimskreppan reið baggamuninn og herinn tók völdin í september 1930.  Þar með lauk 68 ára tímabili stjórnarskrárbundins lýðræðis og efnahagsþróunar byggðri á útflutningi hráefna.

SAGAN 4

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM