Argentína sagan 4,
Flag of Argentina


ARGENTÍNA
SAGAN 4

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Endurkoma íhaldsmanna og „Concordancia” 1930-43.  
Næstu 13 árin, sem oft eru kölluð „illræmdi áratugurinn” , studdi herinn íhaldsama uppbyggingu.  José Félix Ufiburu, hershöfðingi, varð forseti (1930-32). Hann var kominn af gróinni íhaldsfjölskyldu I norðurhlutanum og hallaðist að fasisma.  Áhrif hans innan hersins voru ekki eins mikil og Agustín Pedro Justo, fyrrum hermálaráðherra, sem aðhylltist hægfara aðlögun í íhaldsátt.  Alvear stjórnaði endurskipulagningu meðal róttækra, sem unnu óvæntan sigur í tilraunakosningum í Buenos Aires í apríl 1931.  Starfsemi þeirra voru þá settar strangar skorður og sumir leiðtoga þeirra voru handteknir og sendir í útlegð.  Meðlimum flokka róttæklinga var síðan gert ókleift að kjósa í þingkosningunum 1931.  Justo hershöfðingi fékk stuðning Concorancia (samsteypuflokkur íhaldamanna, klofningshóps róttækra og óháðra sósíalista) og á þess að mikil brögð væru í tafli í kosningunum, vann hann yfirburðasigur.

Nýi forsetinn stóð frammi fyrir erfiðum efnahagsvandamálum og hleypti af stokkunum nokkrum mótsagnakenndum umbótum og aðgerðum.  Árið 1933 skrifaði hann undir Roca-Ruciman-samninginn við Bretland, sem tryggði Argentínu ákveðinn skerf af brezka kjötmarkaðnum og niðurfellingu tolla á argentínskar kornvörur.  Í staðinn samþykkti Argentína hömlur á viðskiptum og gjaldeyrisviðskiptum og að stuðla að viðskiptum við Breta í landinu.  Margir landsmenn litu á samninginn sem uppgjöf en Bretar álitu hann sérstæðan, því þeir veittu engu öðru landi utan samveldisins sams konar forréttindi.  Aðrar umbætur, s.s. endurskipulagning peningamála og eftirlit með útflutningi, voru líka óvinsælar.  Eftir 1935 fór efnahagurinn að rétta úr kútnum.

Stjórnin fékk umboð kjósenda í kosningunum 1937, sem voru markaðar svikum og óeirðum.  Næsti forseti, Roberto M. Ortiz gerði gangskör að upprætingu spillingaraflanna, m.a. með því að koma upp um slíka starfsemi íhaldsmanna í Buenos Aires.  Hann varð að segja af sér vegna slæms heilsufars árið 1940 og eftirmaður hans, Ramón S. Castillo, endurvakti íhaldssamsteypuna og ávann sér fylgi Justo hershöfðinga.

Argentína lýsti yfir hlutleysi í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar og hélt þeirri stefnu eftir að BNA hófu þátttöku í henni 1941.  Aðalástæðurnar voru efnahagslegs eðlis og landið hafði viðskipti við báða stríðsaðila.  Þessi stefna hafði ýmsar afleiðingar.  Argentína kepptist við að efla hernaðarmátt sinn á eigin spýtur samtímis því, að önnur lönd í Latnesku-Ameríku fengu ódýr eða ókeypis hergögn frá BNA.  Andstaða stuðningsmanna Bandamanna og öxulveldanna og gífurleg hervæðing Brasilíu með aðstoð BNA olli því, að Castillo lýsti yfir umsátursástandi í landinu.  Justo hershöfðingi dó í janúar 1943 og þar missti Castillo mikilvægasta stuðningsmann sinn.  Honum var velt úr stóli í júní sama ár.


Fyrra Peróntímabilið 1943-55.
Herstjórnin stóð frammi fyrir mörgum alvarlegum vandamálum, m.a. hvort landið ætti að halda hlutleysi sínu eða skipa sér í raðir annars hvors stríðsaðilans.  Þá var líka nauðsynlegt að ákveða, hvort endurreisa skyldi lýðræðið eða stefna að langvarandi herstjórn og einræði.  Arturo Rawson, hershöfðingi, var gerður að forseta en hann sagði af sér eftir tvo daga, þegar hann viðraði frjálslegar skoðanir og hélt uppi vörnum fyrir Sameinuðu þjóðirnar, sem voru þá í burðarliðnum, og fékk engan stuðing frá hernum.

Pedro P. Ramirez tók við forsetaembættinu.  Hann hélt hlutleysisstefnunni áfram og varð fyrir miklu aðkasti frá öllum pólitískum öflum í landinu nema hægri öfgasinnum og stuðningsmönnum fasista.  Stjórnin sýndi einræðisklærnar með ritskoðun og upplausn stjórnmálaflokka.  Þrýstingur frá BNA olli slitum á diplómatískum tengslum við Þýzkaland í óþökk fjölda yfirmanna í hernum, sem gerðu hallarbyltingu og ýttu Ramirez frá völdum.  Edelmiro J. Farrell, hershöfðingi og leiðtogi herstjórnarinnar, tók við embættinu (1944-46).  Stjórn hans hóf undirbúning að endurskipulagningu lýðræðis í landinu vegna hótana alþjóðasamfélagsins um aðgerðir gegn Argentínu.

Leit að lausn þessa máls endaði með skipun Juan Perón í embætti forseta.  Hann hafði verið leiðtogi leyinilegs hóps yfirmanna í hernum (Grupo de Oficiales Unidos, GOU), sem stóð að baki hallarbyltinunni 1943.  Í október 1943 tryggði hann sér sviplítið starf við verkalýðsmáladeild stjórnarinnar og náði góðum samböndum við verkalýðsleiðtoga.  Hann greiddi götu þeirra í kjarasamningum og innleiddi félagslegt kerfi, sem gerði ráð fyrir sumarfríum, eftirlaunum og atvinnuleysisbótum.  Árið 1945 var hann varaforseti og hermálaráðherra.  Hann kom til leiðar sjálfstæði háskóla, endurvakningu stjórnmálaflokka og sagði Þýzkalandi stríð á hendur, sem gerði Argentínu kleift að verða aðili að Sameinuðu þjóðunum  Stjórnmálafrelsið gerði andstöðuöflunum kleift að mótmæla löglega og mestu mótmælaaðgerðirnar fóru fram í Buenos Aires í september 1945.  Gripið var til neyðarráðstafana og andstæðingar Perón í sjóhernum gripu tækifærið og ýttu Perón frá völdum og handtóku hann 9. október.  Andstæðingum hans kom ekki saman um framhald aðgerða og fylgismenn hans efndu til verkfalla, sem áttu viðtækan hljómgrunn.  Perón var látinn laus 17. október, sem Perónistar halda enn þá hátíðlegar, og andstæðingar hans urðu að draga sig í hlé. 

Perón var í framboði til forseta í kosningunum 1946.  Hann stofnaði Verkamannaflokkin í andstöðu við alla hinaflokkana og hópa hagsmunaaðila..  Naumur sigur hans nægði til þess, að hann hafði meirihluta í báðum deildum þingsins og öllum fylkisstjórnum.  Pólitísk stefna hans og aðferðir voru í einræðisátt.  Hann kom á hreinstefnu í skólum og dómskerfinu og lýsti yfir innanlandsstríði til að auka vald sitt.  Hann endurskipulagði fjárlögin til hagsbóta fyrir verkamenn, þjóðnýtti þjónustu við almenning og gerði sveitunum og iðnaðarsvæðum hærra undir höfði en borgunum.  Hann launaði stuðning verkamanna með lögum, sem kváðu á um hækkun launa, bónusgreiðslu í desember bætt vinnuskilyrði og eftirlit með húsaleigu.  Perón var heillandi persona, sem talaði mál, sem verkamenn skildu.  Hann höfðaði skýrt til lágstéttanna og konan hans, Eva Duarte de Perón (Evita), var honum betri en engin á þessu sviði.  Hún annaðist félagsmálaráðuneytið og um hendur hennar fóru gífurlegar fjárhæðir, sem voru notaðar í félagslega kerfinu, og hafði til umráða mikið húsnæði fyrir verkamenn og vann líka að vinnumiðlun.

Efnahagsstefna Perón var árangursrík til ársins 1949, einkum vegna þess, hve útflutningur blómstaði í heimsstyrjöldinni og á eftirstríðsárunum.  Þegar verðbólgan fór að vaxa og dró úr verðmæti útflutningsins, varð stöðugt erfiðara að fjármagna innflutning nauðsynlegra hráefna til iðnaðarins.  Stjórnarskárbreytingarnar 1949 gerðu Perón kleift að ná kosningu aftur 1951.  Stjórn hans tók upp íhaldsamari stefnu og herti á henni eftir dauða Evitu 1952.  Hún var þá orðin mjög áhrifamikil á stjórnmálasviðinu og léði stjórninni lýðræðisímynd, þótt herinn hefði meinað henni að taka tilnefningu til varaforseta í kosningunum.  Eftir 1952 gætti vaxandi andúðar í hans garð frá kirkjunni og stúdentum.  Tilraunir hans til að draga úr pólitískum áhrifum kirkjunnar ollu óánægju meðal liðsforingja í hernum og í september 1955 steypti Eduardo Lonardi, hershöfðingi, honum af stóli og hann flúði úr landi.

Tilraunir til að koma stjórnarskránni í samband á ný 1955-66.  
Lonardi var ljós styrkleiki Perónista og leitaði málamiðlunar en var ýtt frá völdum í nóvember 1955 og Pedro Eugenio Aramburu, hershöfðingi tók við.  Nýja stjórnin var herstjórn og hún gerði tilraunir til að endurvekja stjórnarskrárbundið lýðræði.  Hún tók á Perónistum með hörku og bannaði flokk þeirra en engu að síður höfðu þeir veruleg áhrif á flokkana og hagsmunahópana, sem börðust um völdin.  Árið 1958 studdu þeir Arturo Frondizi, róttækan leiðtoga, sem lofaði að leyfa flokk þeirra fyrir stuðninginn.  Frondizi varð forseti og hafði meirihluta í báðum deildum þingsins.

Hann einbeitti sér að efnahagsmálunum og hafði mikinn áhuga á því, að endurvekja áhuga erlendra fjárfesta á landinu.  Hann felldi gengi gjaldmiðils landsins í þágu útflytjenda og erlendra fjárfesta.  Þessi ráðstöfum hafði þveröfug áhrif á mið- og lágstéttirnar.  Stöðut og hratt vaxandi verðbólga og baráttan gegn henni olli takmörkun lána, jók erfiðleika iðnaðarins og Frondizi varð að beita hernum til að halda áfram á þessari braut.

Í marz 1952 náðu endurskipulagðir Perónistar völdum í áhrifamiklum fylkjum, s.s. Buenos Aires.  Herinn hætti að styðja Frondizi, leysti upp þingið og kom á stjórn í forsvari José María Guido, forseta öldungadeildarinnar.  Hin 18 mánaða Langa stjórn Guido var ein allsherjaróreiða, því tveir klofningshópar hersins börðust um yfirráðin.  Hinir rauðu (Colorados) vildu koma á einræðisstjórn, sem tæki af hörku á Perónistum og vinstri harðlínumönnum.  Hinir bláu (Azules), sem urðu ofaná, vildu koma á þingbundinni stjórn með aðild Perónista, sem fengju mun minni áhrif en kosningafylgi þeirra segði til um.

Arturo Illia, frambjóðandi róttæka borgararlokksins, sigraði í kosningunum 1963.  Hann erfði efnahagsvandamál Frodizi, þótt efnahagslífið væri farið að rétta úr kútnum á ný.  Hann reyndi án árangurs að koma fleyg á milli Perónista, sem stórnuðu verkalýðshreyfingunni, og útlægs leiðtoga þeirra.  Þetta leiddi til þess, að Perónistar studdu hallarbyltingu í júní 1966, sem færði Juan Carlos Onganía, hershöfðingja, völdin.  Hann var stuðningsmaður Azul og æðsti maður herráðsins.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM