Argentína sagan 2,
Flag of Argentina

SAGAN 3      

ARGENTÍNA
SAGAN 2

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Enduruppbyggingin 1820-29.
Árið 1820 voru aðallega tvö stjórnmálaöfl ráðandi í landinu, byltingarstjórnin í Buenos Aires og Sjálfstæðisflokkurinn undir stjórn José Gervasio Artigas, sem fékk mestan stuðning á Río de la Plata-svæðinu.  Báðir þessir flokkar sundruðust samt á þessu ári og Buenos Aires virtist vera að missa höfuðborgarhlutverkið en  hlutverk borgarinnar í utanríkismálum fór vaxandi og allt bjargaðist fyrir horn.

Yfirráð Buenos Aires
Um þær mundir hafði stjórn hersins náð völdum víðast um landið.  Hvert hérað tók á sig ákveðinn stjórnmálalegan blæ í samræmi við styrk hersins á svæðinu og stjórnmálalega hagsmuni.  Þetta ósamræmi olli ekki ýfingum milli héraða, miklu fremur mismunandi efnahagsástand og landfræðileg lega.  Stjórnvöld í Buenos Aires nýttu sér samkeppnina milli héraðanna borginni til framdráttar.

Borgarstjórnin stóð fyrir almennum umbótum og gerði herinn valdaminni á stjórnmálasviðinu.  Hann var sendur til að vernda landnemana, sem sóttu æ lengra inn á óbyggð svæði.  Þessar skynsamlegu ráðstafanir tryggðu stuðning landeigenda og fjármálamanna í borginni við stjórn hennar.

Stjórnmálleg regla, sem virtist vera að komast á, fékkst með því að sópa ýmsum grundvallarvandamálum undir teppið í stað þess taka á þeim.  Þessi staðreynd átti sérstaklega við um framkvæmd þjóðskipulagsins og ekkert var gert í málum Banda Oriental, austurbakka Úrúgvæárinnar, sem portúgalskar og síðar brasilískar hersveitir lögðu undir sig.  Bæði þessi vandamál voru orðin aðkallandi árið 1824.  Bretar voru fúsir til að viðurkenna sjálfstæði Argentínu, ef landsmenn kæmu á fót ríkisstjórn, sem dygði fyrir allt landið.  Föðurlandsvinir í Banda Oriental höfðu náð tökum á stórum landsvæðum og ráku áróður fyrir endurinngöngu þeirra í Héraðabandalag Rio de la Plata.  Þetta neyddi ríkisstjórnina í Buenos Aires til að horfast í augu við mögulegt stríð við Brasilíu.


Forsetatíð Rivadavia.
Samtímis ofangreindum atburðum var reynt að mynda þjóðstjórn á fulltrúaþingi í desember 1824.  Þingið fór út fyrir valdsvið sitt í febrúar 1826 með því að stofna embætti forseta lýðveldisins og setti Buenos Aires-búann Bernardino Rivadavia í embætti.  Borgarastríð brauzt út í innhéruðunum, sem Facundo Quiroga náði brátt á sitt vald.  Hann var „caudillo” frá La Rioja, sem var mótfallinn miðstjórn.  Meirihluti landsmanna hafnaði stjórnarskránni, sem þingið hafði gert uppkast að eftir mikið málaþras.

Stríð við Brasilíu brauzt út árið 1825.  Argentínski herinn sigraði Brasilíumenn á sléttum Úrúgvæ en sjóher Brasilíu lokaði aðgangi frá sjó að Río de la Plata og tókst að rústa viðskiptalífi landsins.  Rivadavia, sem tókst ekki komizt að samkomulagi við Brasilíumenn, sagði af sér í júlí 1827 og ríkisstjórnin var leyst upp.  Manuel Dorrego ofursta voru falin völdin í Buenos Aires með stuðningi sérhagsmunahópa með landeigandann Juan Manuel de Roses, leiðtoga hersveitanna á landsbyggðinni, í fararbroddi.  Dorrego samdi um frið við Brasilíu og árið 1828 var landsvæðið, sem deilt var um, gert að sjálfstæðu ríki, Úrúgvæ.  Rivadavia hafði lagt áherzlu á, að þessi hluti Argentínu væri ómissandi og óaðskiljanlegur hluti landsins.  Hersveitirnar, sem snéru heim að stríðinu loknu, veltu Dorrega úr sessi og settu Juan Lavalle, hershöfðingja, í forsetastól.  Dorrega var líflátinn.

Andstaða gegn nýja landstjóranum var lítil í borginni en uppreisn blossaði upp á fjarlægari hlutum héraðsins.  Fulltrúar héraðanna hittust í Santa Fe.  Þar voru sameiningarsinnar undir forystu Rosas í miklum meirihluta, sem fólu landstjóranum í Santa Fe að grípa til aðgerða gegn Lavalle-stjórninni.  Lavalle komst að lokum að samkomulagi við Rosas og ákveðið var að efna til kosninga í Buenos Aires til nýs þings héraðanna.  Málamiðlun Lavalle og Rosas fól í sér útnefningu hófsams sameiningarsinna í borgarstjóraembættið, en stjórnmálaástandið var of eldfimt til að það tækist.  Rosas kallaði saman gamla þingið, sem Lavalle hafði leyst upp, þegar hann komst til valda.  Þetta þing kaus Rosas til embættis landstjóra með öllum atkvæðum 5. desember 1829.


Fylkjaskipting í tíð Rosas, 1829-52.
Stjórn Rosas í Buenos Aires naut mun meiri stuðnings en forverar hennar höfðu notið.  Sérhagsmunahópar, landeigendur og kaupmenn stóðu að baki nýja landstjóranum.  Næstum allir áhrifahópar í héraðinu töldu sér bezt borgið með Rosas í fararbroddi.

Stjórnmál innanlands.
Nýi landstjórinn gerði sér strax grein fyrir áhættunni samfara þessum mikla stuðningi.  Hann var yfirlýstur sameiningarmaður en stjórnaði í anda miðstjórnar í krafti valda sinna í Buenos Aires.  Hann vafði félögum verkamanna, kúreka og yfirstéttarinnar um fingur sér og tókst að halda viðkvæmu jafnvæginu milli þeirra og almennings.

Andstaðan gegn sameiningu var að mestu horfin um allt land árið 1832 og Rosas vék fyrir löglega kjörnum eftirmanni sínum, Juan Ramón Balcarce hershöfðingja.  Valdataka Balcarce olli uppþotum meðal sambandssinna og honum var velt úr sessi.  Eftirmaður hans átti allt sitt undir ríkisstjórn, sem var á bandi Rosas.  Hún lagði engu að síður áherzlu á stöðugleika í stjórn- og efnahagsmálum, nokkuð, sem Rosas óttaðist, því að það dró verulega úr fylgi Rosas.  Þingið í Buenos Aires lét til leiðast að gera Rosas að landstjóra héraðsins við aðstæður, sem Rosas nýtti sér til hins ítrasta.  Hann fékk takamarkalítinn aðgang að fjármunum, alræðisvald og fimm ára valdatíma í stað þriggja samkvæmt lögum.  Þessi völd leiddu til hræðilegrar einræðisstjórnar, sem sveifst einskis í útrymingu raunverulegra og ímyndaðra óvina með aðstoð hinnar óttalegu leynilögreglu Mazorca, sem var hópur óþokka og vígamanna.  Borgarnir urðu að bera rauða borða til að sýna hollustu sína við Rosas og prestar urðu að hafa mynd af honum á altarinu í kirkjum sínum.


Utanríkisstefnan
Utanríkisstefna Rosas var öfgakennd og erfiðleikar á alþjóðavettvangi uxu í samræmi við ólguna innanlands.  Bretar áréttuðu yfirráð sín yfir Falklandseyjum (Islas Malvinas) í janúar 1833 með því að senda herskip þangað.  Aukið sjálfstæði nágrannaríkjanna Bólivíu, Paragvæ og Úrúgvæ og stefna þeirra að verða óháð sambandssjórninni í Buenos Aires olli erfiðleikum.  Andrés de Santa Cruz, hershöfðingi, sem hafði komið á fót ríkjasambandi Perú og Bólivíu, studdi andstæðinga Rosas í Argentínu og Rosas studdi hinn áhrifaríka landstjóra í norðuhéraðinu Tucumán með ráðum og dáð, þegar hann afréð að lýsa yfir stríði gegn sambandsríki Santa Cruz.  Árið 1839 var her norðurhlutans sigursæll með stuðningi uppreisnarmanna í Síle og Perú.

Rosas varð aðili að viðskiptastríði við Úrúgvæ, sem varð honum dýrkeypt og fór út um þúfur.  Það olli fyrstu opinberu árekstrunum við Frakka, sem sendu herskip til að loka höfninni í Buenos Aires árið 1838 og ollu mikilli ólgu í strandhéruðunum, sem byggðu mestan hluta afkomu sinnar á útflutningi.  Argentínskir útlagar í Montevideo og Úrúgvæ nutu stuðnings Frakka til að koma Rosas frá völdum og nokkur héruð í norðurhlutanum sameinuðust í andstöðunni gegn stjórninni.

Samtök andstæðinga Rosas misstu fljótlega móðinn.  Frakkar urðu að beita kröftum sínum annars staðar og hurfu af vettvangi.  Í Buenos Aires var stofnaður her undir stjórn Manuel oribe, fyrrum forseta Úrúgvæ, sem var hrakinn frá völdum.  Þessum her varð vel ágengt við að ná yfirráðum á ný í innanlandshéruðunum.  Herjum höfuðborgarinnar hafði ekki tekizt að komast alla leið að landamærum Bólivíu og Síle síðan 1820.  Svo virtist sem forystuhlutverki Buenos Aires undir stjórn Rosas yrði ekki ógnað frekar.  Oribe lagði undir sig meginhluta Úrúgvæ og herir hans, sem voru að mestu skipaðir Argentínumönnum, hófu níu ára umsátur Montevideo í febrúar 1843.  Brezk herskip sáu borgarbúum fyrir vistum og nauðsynjum og árið 1845 girtu ensk og frönsk herskip höfnina í Buenos Aires af.  Samtímis sigldi brezkur floti upp Paraná-ána.  Síðarmeir drógu Bretar og Frakkar sig út úr deilunum og hættu að angra Rosas.

Ein ástæðnanna fyrir velgengni Rosas í utanríkismálum var veikleiki eins aðalkeppinautarins á viðskiptasviðinu.  Brasilíumenn höfðu borizt á banaspjótum í blóðugri borgarastyrjöld (1835-45) á Río Grande do Sul-svæðinu.  Strax eftir að tekizt hafði að bæla uppreisnina niður fór áhrifa Brasilíu að gæta aftur á Río de la Plata-svæðinu.  Staða Rosas varð veikari og þá þróun nýtti sér Justo José de urguiza, hershöfðigi og landstjóri í Entre Ríos-héraði, þegar hann gerði uppreisn gegn honum.  Urguiza gerði bandalag við Brasilíu og Úrúgvæ 1851 og argentínski herinn, sem sat um Montevideo, varð að hverfa heim til að stemma stigu við framgangi uppreisnarmanna, en beið ósigur gegn Urguiza við Caseros, rétt utan Buenos Aires, 3. febrúar 1852.  Rosas stóð einn og fylgislaus uppi og flúði til Bretlands, þar sem hann dó árið 1877.

SAGAN 3

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM