Senegal er flatlent
land í stórri lægð, sem kallast Senegal-Máritaníulægðin. Hæstu staðir
landsins eru á Grænhöfða (>100m) og í suðausturhlutanum. Landinu má
skipta í vesturhlutann með Grænhöfða og nokkrum litlum hraunsléttum,
suðaustur- og austurhlutann með leifum forns fjallabálks tengdum
fjöllunum á Fouta Djallon á landamærunum að Gíneu (496m) og geysistóra,
en grunna lægð milli Grænhöfða í vestri og fjallaleifarnna í austri.
Úti fyrir sendum og brimrofnum ströndum Senegal leikur
Kanarístraumurinn. Strandhéruðin eru láglend nema Grænhöfði, sem
er vestasti hluti afríska
meginlandsins. Í
skjóli hans er Dakar, einhver bezta höfn Afríku. Sunnan höfðans er
brimasamt. Sunnan ósa Saloumárinnar eru svæði, sem kallast „rias”
(dalir fylltir árframburði) með fenjum og fenjatrjám.
Helztu ár landsins
eru Senegal, Saloum, Gambía og Casamance, sem eru allar mismiklar að
vöxtum eftir loftslaginu, regn- og þurrkatímabilum. Senegalfljótið, sem
á upptök sín á Fouta Djallon hálendinu í Gíneu, var löngum mikilvægust
þeirra, enda veitti fljótið aðgang að innlandinu. Eftir að það hefur
runnið um fornu fjallaleifarnar eykst fallið þar til það kemur inn á
senegalskt land. Við Dagana myndar það falska ósa og úr þeim rennur
vatn til Guiers-vatns á vinstri bakkanum. Handan ósanna er borgin
Richard-Toll (Garður Richards), sem var nefnd eftir frönskum
garðyrkjumanni á 19. öld. Halli landsins er svo lítill á þessum kafla
fljótsins, að saltur sjór streymir 206 km upp eftir ánni. Eyjan, sem
borgin St Louis stendur á í fölsku ósunum, er í u.þ.b. 275 m frá sjó en
aðalósarinir eru 17 km sunnar.
Tveir meginþættir
ráða loftslaginu í landinu: Lega þess í hitabeltinu og árstíðarbundin
hreyfing samrunabeltisins (ITCZ), lágþrýsingsmótum heits og þurrs lofts
frá meginlandinu og rakra úthafsmassa, sem valda mikilli úrkomu.
Staðvindarnir, sem einkennast af upprunasvæðum sínum, skiptast í tvo
flokka, þurra meginlandsvinda og raka vinda af hafi.
Þurru vindarnir koma úr norðaustri og eru kröftugastir á veturna og
vorin (harmattan). Þeim fylgir engin úrkoma nema smáúði, sem wolofmenn
kalla „heug”. Röku vindarnir koma aðallega úr vestri og norðvestri. Í
júní, þegar samrunabeltið er á norðurleið, koma þeir með sumarmonsúninn.
Þegar samrunabeltið færist hægt til suðurs á ný í sept., dregur úr
úrkomunni. Hin hægfara hreyfing þessa beltis milli norðurs og suðurs
veldur lengri og úrkomusamari regntíma í suðurhluta landsins en í
norðurhlutanum.
Þegar litið er á þessi veðrabrigði í heild, má glögglega sjá áhrif
þeirra á flóru landsins og hvernig hún skiptist milli landshluta. Á 17
km breiðu belti með ströndum fram milli St Louis og Dakar ríkir
Kanaríloftslag. Þar eru vetur svalir með 17°C lágmarkshita í janúar og
27°C hámarkshita í maí. Regntíminn hefst í júní, nær hámarki í ágúst og
lýkur í október. Meðalúrkoman er í kringum 500 mm.
Svokallað „Sahel-loftslag ríkir á svæði milli Senegalfljóts í norðri og
línu milli Thiés og Kayes (Mali) í suðri. Þar er janúar svalur, einkum
á morgnana fyrir sólaruppkomu, þegar hitinn fer niður í 14°C.
Síðdegishitinn fer upp í 35°C. Í maí fer lágmarkshitinn ekki niður
fyrir 22°C en hámarkshitinn fer oft upp í 40°C. Þurrkatíminn stendur
yfir frá nóvember til maí. Nokkrir staðir eru þekktir fyrir meiri
þurrka og hita en aðrir (Podor og Matam). Milli júlí og október er
meðalúrkoman í kringum 360 mm. Hún dregur nokkuð úr hitanum.
Hámarkshiti þessarar árstíðar er 35°C.
Súdanskt loftslag ríkir í öðrum hlutum landsins en staðbundin frávik
eiga sér stað. Það er víðast mjög heitt og óþægilegt. Í borginni
Kaolack er meðalhitinn síðdegis 38°C allt árið og verður enn
ókræsilegri, þegar saltir vindar blása. |