Senegal íbúarnir,


SENEGAL
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Ferlo er stórt svæði í miðhluta Senegal.  Þar er hálfeyðimörk og jarðvegur ófrjósamur, þannig að gróður þrífst einungis í suðurhluta þess en í norðurhlutanum eru Sahel-steppur milli Sahara og venjulegra steppna.  Þar er nægur gróður til beitar fyrir búsmala fulanihirðingjanna.

Fouta-Toro er við Senegalána á svæðinu milli Bakel í austri til Dagana í norðri.  Þar er landræma, sem er tiltölulega þéttbýl.  Þar eru notaðar áveitur á þurrkatímanum og land og gróður nýtt til hins ítrasta með nútímaaðferðum.  Þarna býr aðallega fulanimælandi (tukulor) fólk.  Vesturmörk Fouta-Toro eru við falska lónið (Qualo), sem eru byggð wolofmönnum, sem rækta hirsi og láta fulanihirðingja gæta búsmala sins.

Dianbour, Cayor, Djolof og Baol er fjölbreytt svæði milli Ferlo og Atlantshafs, allt frá Oualo í norðri að Grænhöfða í suðri.  Jarðvegur þess er sendinn, vetur svalir og aðaluppskeran er jarðhnetur.  Mannlífið er líka fjölskrúðugt, wolofmenn í norðri, serer á Thiés-svæðinu og lebu á Grænhöfða.

Súdansvæðið nær til Grænhöfða í norðvestri, Ferlo í norðri og neðri hluta Casamance-dals í suðvestri.  Því er skipt í héruðin Sine-Saloum (Litluströnd), Rip, Yacine, Niani, Boundou, Foulandou og dali Gambíuárinnar og Efri-Casamance-árinnar.  Víðast er nægileg úrkoma, sem er mest í suðurhlutanum.  Leirkenndur jarðvegurinn er hentugur til ræktunar, þannig að þessi landshluti er tiltölulega þéttbýll.  Vatnið í ósunum er gruggugt og ísalt.  Íbúarnir eru blanda allra þjóðflokka landsins en maninkemenn (mandingo) eru í meirihluta.

Svæðið við Neðri-Gasamanché-ána er lítið en hefur sterk séreinkenni.  Þar er mikill og þéttur gróður og mest ber á fenjatrjám, olíu- og raffíapálmum.  Mikil úrkoma er hentug til ræktunar hrísgrjóna.

Meirihluti íbúa landsins býr í sveitunum.  Þar er mikill fjöldi lítilla þorpa með nokkur hundruð íbúa hvert.  Í flestum þeirra eru samkomuskýli, moska og brunnar, lindir eða lækir.  Þau eru undir stjórn höfðingja, sem eru tilnefndir að gömlum hefðum eða stjórnskipaðir.  Trúariðkanir eru undir stjórn „marabout”, sem er læs á arabísku, eða töframanns.  Yfirbragð þorpanna fer eftir uppruna íbúanna.

Þorp wolofmanna eru lítil, hvort sem þau eru í Ferlo eða Cayor.  Í hverju þeirra búa í kringum 100 bændur.  Húsin eru úr byggingarefnum, sem eru aðgengileg á hverjum stað.  Fólkið á auðvelt með að flytja þorpin, því engar hindranir eru í landslaginu.  Uppskerugeymslurnar eru í öruggri fjarlægð frá þorpunum, svo þau verði ekki eldi að bráð.  Á Austur-Saloum-svæðinu eru þrjú sammiðja gróðursvæði umhverfis wolofþorpin.  Næst þeim eru akrar og grænmetisgarðar (Tol-keur).  Því næst kemur land í hvíld, sem þó er nýtt til jarðhneturæktunar (diatte).  Fjærst eru kornakrar (Gor).

Dæmigerð þorp á súdanska svæði Casamance-árinnar eru byggð malinkemönnum.  Þau standa í þyrpingu hvert innan um annað eins og á tímum yfirráða súdanskra þjóðflokka á svæðinu.  Í hverju þorpi búa 200-300 manns þröngt innan skíðisgarðs í ferhyrningslaga kofum.  Þorpsbúar stunda aðallega ræktun og kvikfjárrækt.  Höfðingi hvers þorps er víðast íhaldssamur „marabout”.

Sererþorpin eru öðruvísi útlits en þorp wolof- og malinkemanna hvað snerti fjölskylduhúsin, M’Binds, sem standa dreift, og hvert þeirra er sjálfstæð eining.  Á eyjunum í ósum Saloum-árinnar eru hús serer nyiominka-fólksins traustbyggð og snyrtileg.  Korngeymslurnar eru inni í þorpum þess.

Diolaþorpin standa í þyrpingum með allt að 5000 íbúum eða fleiri.  Víðast standa þessi þorp við jaðar hásléttna eða ofan hrísgrjónaakra diolamanna.  Líkt og í þorpum serermanna raðast fjölskyldur í hús eftir stöðu í samfélaginu.  Þessi þorp eru hin bezt byggðu og varanlegustu í landinu.  Stundum eru þau velvíggirt eins og á Thionck-Essyl og Oussouye svæðunum.  Þorpin í Essyl eru oft búin regnvatnsgeymum.  Þorpshöfðingjar diola- og serermanna eru mun valdaminni en í þorpum wolof- og malinkemanna
.

Borgin St Louis var stofnuð árið 1633 og Dakar 1857.  Aðrar borgir eru mun yngri og allar voru þær stofnaðar á nýlendutímanum.  Dakar er höfuðborgin en St Louis gegndi því hlutverki áður.  Hinar borginar byggðust á jarðhnetuframleiðslunni og járnbrautunum, sem tryggðu samgöngur og flutninga (Thiés, Tivaouane, Mékhé og Louga).  Nokkrir hafnarbæir uxu og urð borgir, s.s. Kaolack, foundiougne og Fatick við Sine-Saloum-árnar og Ziguinochor, Sédhiou og Kolda við Casamance-ána.  Allar borgir landsins, þ.m.t. St Louis, Rufisque og Gorée, sem voru mikilvægar fyrrum, byggja afkomu sína að meira eða minna leyti á Dakar, þar sem fimmtungur landsmanna býr.

Beztu ræktarlönd Senegal eru í vesturhlutanum og árdölunum.  Aðrir hlutar landsins eru hrjóstrugri og strjálbýlli, einkum til norðurs og austurs.

Tungumálarannsóknir í Senegal eru skammt á veg komnar, þannig að haldgóðar upplýsingar skortir.  Engu að síður verða sérfræðingar varir við mismun milli svæða, sem þeir kenna við Atlantahafið (wolof, lebu, serer, tenda og diola), Fulfulde (fulani), með fjölda sérkenna og mállýzkna og flókinni málfræði og Mande (bambara, dyula, malinke og soninke eða sarakole).

Í landinu búa sjö stórir þjóðflokkar og trúarhópar auk annarra minni.  Fjölmennustu hóparnir búa aðallega í Sahel og á steppusvæðunum, sem voru fyrrum bakbein fornu konungsdæmanna í Vestu-Súdan, s.s. Ghana, Mali og Songhai.  Þar til fyrir skömmu ríkti mikil stéttaskipting í þessum hópum (prinsar, aðalsmenn, frjálst fólk, lágstétt og þrælar).

Wolofmenn eru u.þ.b. þriðjungur landsmanna og tunga þeirra er útbreiddust.  Þeir eru í yfirgnæfandi meirihluta í vesturhlutanum.  Í Cayor-héraði voru þeir upphafsmenn Tijani-múslimabræðralagsins.  Muridiyah-bræðralagið er mjög áhrifaríkt og nær yfir ræktunarsvæði jarðhnetna í landinu í suðurátt.  Meðlimir þess eru strangtrúaðir bændur.

Þéttasta byggð serermanna er í suðvesturhluta Ferlo-héraðs.  Þeir eru reyndir bændur, sem stunda bæði ræktun og kvikfjárrækt.  Fyrrum voru þeir andatrúar en æ fleiri þeirra snúast til islam eða rómversk-katólsku.

Fulanimenn (peuls, foulah, fulbe og fellata) búa dreift um allt land.  Mest er um þá í Ferlo, við Efri-Casamance-ána og í Oualo-héraði, þar sem þeir búa í þéttum byggðum.  Upprunalega voru þeir hirðingjar en fjöldi þeirra hefur setzt að við búskap, einkum í fouta-Toro-héraði við landamærin að Gíneu.  Þeir eru múslimar.

Tukulormenn (touchouleur) líkjast wolof- og fulanimönnum, sem þeir hafa blandast með mægðum.  Nafn þessa þjóðflokks er afbökun íbúa Tekrur-ríkisins.  Þeir búa aðallega umhverfis miðbik Senegalfljótsins.  Dreifðir hópar þeirra búa einnig við árnar Gambíu og Saloum.  Þeir voru fyrstir Senegala til að taka islamska trú á 11. öld og margir þeirra lesa og tala arabísku.  Flestir þeirra eru bændur en æ fleiri streyma til borganna (Dakar og St Louis).

Diolamenn búa í neðri hluta Casamance-dalsins og í suðvesturhluta Gambíudals.  Þeir eru góðir bændur og einbeita sér að hrísgrjónarækt en snúa sér í auknum mæli að ræktun jarðhnetna og hrisis, er lengra dregur frá sjó.  Í Fogni-héraði eru þeir múslimar en langflestir eru þeir andatrúar.  Fáeinir hafa snúizt til krisni.

Malinkemenn komu upprunalega frá Nígerdalnum og hafa dreifzt vítt og breitt um landið en mest er um þá í dölum ánna Gambía, Efri-Casamance og Saloum.  Þeir eru bændur, kaupmenn og múslimar.

Soninkemenn eru minnihlutahópur, sem er kominn af berbum og afsprengi malinkefjölskyldna í Mali.  Nú hafa flestir þeirra yfirgefið ófrjósöm búsvæði sín og flutzt til borganna, þar sem þeir taka oftast upp kaupmennsku.  Þeir eru múslimar.

Hinn fámenni hópur, sem kalla má Senegala, nær m.a. til þjóðflokkanna mauri, sem búa aðallega í norðurhlutanum og stunda kvikfjárrækt og kaupmennsku, lebu á Grænhöfða, sem eru fiskimenn og sumir auðugir landeigendur, og basari, sem er forn þjóðflokkur á grýttri hásléttu Fouta Djallon.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM