Næróbí Kenja,

Fyrsti þjóðgarður Kenja      

NÆRÓBÍ
KENJA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Nairobi CityAÐVÖRUN Næróbí er hættuleg borg.  Svæðin kringum River Road og Uhuru-almenningsgarðinn eru fræg fyrir líkamsárásir, bæði dag og nótt.  Svipað gerist einnig í Mombasa, einkum á ströndunum þar.  Leiti fólk til lögreglunnar, gerist ekkert nema gegn mútugreiðslum.  Ferðamenn á leiðinni milli Isiolo í Kenja og Eþíópíu verða að ferðast í fjölmennum hópum undir vernd vopnaðra varða vegna hættu á árásum ræningja.  Ræningjahópar eru einnig að verki í grennd við Lamu og í norðvestur- og norðausturhlutum landsins.  Bezt er að leita upplýsinga á staðnum, því aðstæður eru síbreytilegar.

Árið 1896 hófu Bretar alvöruafskipti af innanríkismálum landsins með lagningu hinnar 1000 km löngu járnbrautar frá Mombasa til Viktoríuvatns.  Fyrri helmingur lagningarinnar gekk eðlilega í landslagi, sem hækkaði jafnt og þétt inn að rótum fjallgarðanna inni í miðju landi.  Einu erfiðleikarnir voru gífurlegur hiti í Tarueyðimörkinni og nokkur mannætuljón í Tsavo, sem voru með verkamennina á matseðlinum.  Eftir 327 mílna leiðarstikuna kom 48 km kafli upp brattar hlíðar og niður 600 m hæðarmun að botni og austurbarmi Misgengisdalsins mikla.  Þá var eftir að glíma við austurhlíðarnar og margsprungið svæðið milli hennar og vatnsins.

Aðalbirgðastöðvar verkefnisins voru í Mombasa, sem fjarlægðist óðum eftir því sem verkinu miðaði.  Aðalstjórnandi verksins, Sir George Whitehouse, ákvað að flytja stöðvarnar eins nærri vinnustaðnum og hægt var.  Þær áttu að rísa á beitilöndum maasaimanna nærri mýri og lítilli á, sem þeir nefndu „Enhare Nairobi” vegna þess, hve vatnið var kalt.  Árið 1899 var stöðin byggð og skírð maasainafni, sem varð síðar Næróbí.

Skúraþorp verður að borg.  Whitehouse og hinir verkfræðingarnir skipulögðu nýju búðirnar og starfsfólkið fékk bústaði á nærliggjandi hæðum.  Fæstir leiddu hugann að því, að jarðvegurinn var þykkur og næstum vatnsþéttur og þ.a.l. góður til stíflugerðar og miðlunarlóna.  Hann þenst út í vætutíð og dregst saman í þurrkum, þannig að tæpast er hægt að velja óheppilegri stað fyrir stórborg.  Hvað sem þessu leið, óx upp borg og setur ríkisstjórnarinnar var flutt að járnbrautarstöðinni.  Verzlanir og fyrirtæki fylgdu í kjölfarið og skúrabyggð reis allt um kring á þessum jarðvegi.  Það voru stöðug vandræði vegna þessa, erfitt að byggja varanleg hús á þessu undirlagi og enn þá eru sífelld vandamál í sambandi við framræslu og skolpleiðslur.

Rottur og farsóttir hefðu átt að vera næg vísbending um þessa óhæfu legu byggðarinnar en yfirvöld heilbrigðismála létu bara brenna lélegustu skúrahverfin, þegar allt virtist komið í óefni og einhvern veginn hélt þróunin áfram.  Það er erfitt að ímynda sér þetta erfiða og heilsuspillandi upphaf, þegar horft er yfir þessa nútímaborg á okkar dögum.

Járnbrautin kostaði Breta ríflega 5 milljónir punda og  mikil áherzla var lögð á að gera þetta dýra fyrirtæki arðbært.  Innfæddir stunduðu ekki framleiðslulandbúnað, þegar lagningu járnbrautarinna lauk, og ekki voru taldar líkur á, að þeir myndu söðla um.  Eina leiðin til þess virtist vera innflutningur fólks til að skipuleggja landbúnaðinn, svo að lestirnar hefðu eitthvað til að flytja.  Brezka stjórnin egndi fyrir hvíta bændur í samveldislöndunum með loforðum um ódýrt land í Kenja.

Þessi áætlun þótti góð á sínum tíma og var því hrundið í framkvæmd án frekari umhugsunar og undirbúnings.  Fjöldi bændafjölskyldna, sem streymdi til landsins, var miklu meiri en stjórnvöld höfðu gert sér í hugarlund.  Þetta fólk gerði kröfur til jarðnæðis, sem því hafði verið lofað en lá í raun og veru ekki á lausu.  Það var ekki hægt að reka þá stefnu að úthluta landi, sem ættflokkar innfæddra bjuggu á og nýttu til eigin þarfa.  Þrýstingur innflytjendanna var svo mikill, að ekki varð komizt hjá því, þ.m.t. svæði rétt norðan Næróbí.  Þessi úthlutun lands innfæddra varð upphafið að árekstrum milli hvítra og þeldökkra, sem linnti ekki fyrr nýlendukúguninni lauk.

Hvítu innflytjendurnir komu yfir sig þaki og það myndaðist hverfi, sem varð þekkt fyrir lauslæti.  Borgin laðaði til sín ríka veiðimenn hvaðanæva að.  Þeir komu og fóru og Næróbí varð að ferðamannaborg fyrir orð þeirra.  Þeir sögðu frá villtum og hömlulausum veizlum og teitum.  Götuljósin voru skotmörk ölóðra hestamanna og  byssumenn voru ósparir á skotfærin á barnum í Norfolkhótelinu.  Þar stóð stundum ekki steinn yfir steini eftir að gestirnir höfðu leikið ruðningsbolta.  Slarkararnir tóku öllum aðfinnslum illa og fleygðu jafnvel forstjóra hótelsins út, ef hann leyfði sér að blanda sér í málin.  Einu sinni var hesti riðið inn í matsal hótelsins og hann notaður til hindrunarhlaups.

Þróun borgarinnar var líka á alvarlegri nótum.  Margir íbúanna höfðu næma tilfinningu fyrir verzlun og viðskiptum, þannig að smám saman tók Næróbí við sem miðstöð viðskipta af Mombasa.  Margir indverjar, bæði fyrrum verkamenn við lagningu járnbrautarinnar og aðrir, komu efnahagslegum grunni borgarinnar á fót.  Aðrir innflytjendur, s.s. Allidina Visram fjölskyldan, stjórnaði viðskiptastórveldi, sem var svo voldugt, að það veitti nýstofnuðum ríkisstjórnum Austur-Afríkuríkja og stjórn járnbrautanna fjárhagslega aðstoð og ráðgjöf.

Pólitíkin í og umhverfis Næróbí mótaðist að miklu leyti af ákvörðun ríkisstjórnarinnar að laða að hvíta innflytjendur.  Indverjarnir og Evrópumenn kepptu hvorir við aðra og fylgdust ekki með stjórnmálalegum væntingum innfæddra.  Árið 1922, þegar þeir nutu forustu gáfaðs leiðtoga af ætt kikuyumanna, Harry Thuku, gerðu innfæddir íbúar borgarinnar kröfu til eignarhalds á borginni og landinu og linntu ekki látum.  Þessar raddir þögnuðu á meðan síðari heimsstyrjöldin og Mau Mau uppreisnin (1952-56) stóðu yfir en þessi stuttu hlé komu samt ekki í veg fyrir mjög hraða breytingu í valdajafnvæginu.  Stjórnmálaleg áhrif innfæddra urðu brátt meiri en innfluttra.

Þrátt fyrir þessa þróun, hélt Næróbí svip heimsborgar.  Borgin ber merki hinna ólíku menningaráhrifa á ýmsum sviðum, s.s. í byggingarlist, sem kemur meðal annars fram í fjölda moska, hofa, kirkna og sýnagóga.  Íbúarnir, sem eru af ýmsum uppruna, sómölskum, arabískum, kómorískum, núbískum, indverskum, pakistönskum, japönskum, evrópskum og norðuramerískum, lifa í sátt og samlyndi með innfædda meirihlutanum. 

Fjölmennasti hluti Afríkumanna í borginni (40%) er kikuyumenn, sem eiga forn heimalönd sín á fjallahryggjum Aberdaresfjallgarðsins í grennd við hana.  Borgarbúar eiga talsvert undir þeim, því að þaðan koma langar raðir af flutningabílum með ferskar landbúnaðarafurðir á nóttunni.

Áður en landið fékk sjálfstæði var borgin orðin að viðskiptamiðstöð Austur-Afríku, Tansaníu, Úganda, Rúanda, Búrúndí, Suður-Súdan og Austur-Saír.  Þessi staða borgarinnar olli ýfingum milli héraða fyrst í stað, en þróuninn var ekki snúið við og mikilvægi Næróbí óx stöðugt.

Viðskiptaþróunin leiddi til aukinnar þróunaraðstoðar og fjárfestingar útlendinga og lega borgarinnar við þjóðveginn mikla milli Höfðaborgar og Kæró hefur gert hana að stærstu miðstöð viðskipta og stjórnmála-samskipta í Afríku.  Þar eiga Sameinuðu þjóðirnar höfuðstöðvar sínar fyrir þróunaaðstoð í þriðja heiminum og umhverfismál (UNEP) auk annarra alþjóðastofnana, sem eru í stórri byggingu (US$ 30 milljónir) 8 km norðan miðborgarinnar.

Fjölgun íbúa borgarinnar hefur verið ótrúlega mikil frá fyrstu árum 20. aldar.  Nú býr ríflega ein milljón manna í Næróbí og búizt er við öngþveiti í þessum málum upp úr aldamótunum 2000, þegar íbúafjöldinn verður orðinn á fjórðu milljón.  Fjöldi fólks, sem streymir úr strjálbýlinu til borgarinnar eykst stöðugt og er mikið áhyggjuefni stjórnvalda.  Fólk er að leita að gulli og grænum skógum en finnur í langflestum tilfellum aðeins fátækt, atvinnu- og húsnæðisleysi.  Það er enginn vegur að koma öllu þessu fólki undir þak jafnóðum og það kemur til borgarinnar.

Þetta mun vafalítið leiða til algerrar óreiðu í nánustu framtíð.  Hvað sem því líður er miðborgin og næsta nágrenni hennar enn þá fallegt, þótt víða mætti sinna viðhaldi bygginga og umhverfis betur.  Trjágróðurinn er meira áberandi en háreistar glæsihallir.  Þegar járnbrautin var lögð í gegnum núverandi borgarstæði, var svæðið nánast trjálaust.  John Ainsworth, sem sá um stjórn borgarinnar, tók til hendinni við að leggja breiðgötur í stað moldargatna.  Honum var í mun að mynda skuggsæla staði með trjágróðri og var nokkuð sama um, hvaða tegundir trjáa voru gróðursettar.  Þekking manna á trjátegundum landsins var mjög takmörkuð og enginn vissi, hvaða tegundir voru hrað- eða hægvaxnar.  Samt sem áður döfnuðu gróðursett tré með ágætum og það er líkast því, að borgin hafi verið byggð í náttúrulegu skóglendi.  Flest trén eru af innfluttum tegundum, s.s. gúmmítré, silkieikur og tágatré frá Ástralíu.  Rósaviðurinn í vesturúthverfunum, sem veldur rauðblárri móðu í oktober ár hvert, og bougainvilleaviðurinn eru frá Suður-Ameríku.

Villidýr í steinsteypuskógi.  Í suðausturhluta borgarinnar er garður með upprunalegum skógi.  Ainsworth lét vernda hann til framtíðar á meðan hann var utan borgarmarkanna en það leið ekki á löngu þar til hann var umkringdur byggð, þegar borgin stækkaði til norðurs.  Nú er Borgargarðurinn í suðausturhlutanum.  Þar eru margar tegundir villtra dýra í náttúrulegu umhverfi.  Í upphafi byggðarinnar voru villt dýr allt um kring og næturverðir við aðalgötuna, Moi Avenue, urðu að vera í búrum til að vernda þá gegn árásum.  Richard Meinertzhagen ofursti, sem var hermaður í Næróbí um það leyti, minnist þess, að nashyrningar trufluðu a.m.k. tvær veðreiðar.

Íbúarnir voru ekki hrifnir af því að hafa villt dýr inni í borginni en þeir virðast hafa sætt sig við það.  Athislétturnar voru að mestu seldar undir byggð en stórt svæði suðvestan borgarinnar var tekið frá sem almenningur (Nairobi Commonage).  Þar var aðeins nokkrum útvöldum, sómölskum hermönnum, leyft að setjast að vegna framúrskarandi herþjónustu við brezku krúnuna.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM