Kenja fyrsti þjóðgarðurinn,


KENJA
Fyrsti þjóðgarðurinn

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

RhinoBáðar heimsstyrjaldirnar kostuðu Næróbí næstum almenninginn, sem var notaður sem skotæfingasvæði í bæði skiptin.  Villtu dýrin urðu illa úti og svæðið var lýst fyrsti þjóðgarður landsins árið 1945.  Síðan hafa stór landssvæði verið friðlýst og gerð að þjóðgörðum, þannig að heildarflötur þeirra er stærri en Sviss.  Buffalar og nashyrningar voru fluttir til Næróbíþjóðgarðsins í stað þeirra, sem hurfu, til að fána yrði eins og hún var fyrrum á Athisléttunni.  Ljósmyndarar taka myndir af hnusandi nashyrningum og blettatígrum með bráð og háhýsi borgarinnar í baksýn.

Þetta nábýli borgar og hinnar villtu náttúru tókst ekki átakalaust.  Árið 1980 gerðu nokkur ljón sig heimakomin í úthverfinu Langata.  Þau átu kú og nokkra hesta og drógu talsvert úr vinsældum hlaupa til heilsubótar um róleg úthverfin.  Það kemur enn þá fyrir að fólk hittir hlébarða í görðum sínum og að gíraffar festist í götuniðurföllum, svo dæmi séu nefnd, en sambúð borgarbúa og þjóðgarðsbúa er að mest hnökralaus.

Flestir ferðamenn í Næróbí heimsækja þjóðgarðinn.  Það væsir ekki um þá í borginni, enda löng hefð fyrir ferðaþjónustu, allt frá því Norfolkhótelið var byggt árið 1904.  Jafnvel áður en Bretar tóku stjórn landsins í sínar hendur voru veiðimenn og náttúruskoðarar farnir að venja komur sínar þangað og eyða peningum.  Safariferðir og sala fílabeins skömmu fyrir og eftir lagningu járnbrautarinnar öfluðu meira en helmings tekna þjóðarinnar.  Á þessum árum þróuðust hinar sérstöku hefðir ferðaþjónustunnar.  Í fyrstu var ferðamönnum tekið eins og konungsbornu fólki eins og lesa má um í verkum Hemingways, Ruarks og Karenar Blixen.  Það leið ekki á löngu þar til veiðimenn urðu færri en ljósmyndarar og náttúruunnendur. 

Ferðaþjónustan lagaði sig strax að þessari breytingu eins og sjá má á okkar dögum.  Næróbí hefur fylgt þróuninni líkt og nokkrar aðrar borgir í Afríku, s.s. Kæró, Tangier og Marrakesh, sem eru taldar ferðamannavænustu borgir álfunnar.  Þrjátíu alþjóðleg flugfélög fljúga til Næróbí alls staðar að úr heiminum nema Suður-Afríku.  Jomo Kenyattaflugvöllur, 13 km frá borginni, er meðal nýtízkulegustur flugvalla heims.

Gistiaðstaðan, sem er í boði í Næróbí, nær frá einföldustu og ódýrustu farfuglaheimilum til dýrustu fimm stjörnu hótela.  Norfolk hótelið lifir á fornri frægð, en það skemmdist illa í sprengingu eftir að Ísraelar höfðu bjargað gíslum á Entebbeflugvelli í Úganda árið 1980.  Sprengjan sprakk í nýársfagnaði á hótelinu og margir létust og slösuðust.  Hlutinn, sem skemmdist, var endurbyggður í gamla tudorstílnum.  Annað sögufrægt hótel, New Stanley, hefur margoft verið endurbyggt frá því að það var í húsi við aðalgötuna í skúrabænum á annarri hæð yfir verzlun.  Veitingastaðurinn Thorn Tree, sem kenndur er við timburgólfið, hefur verið og er enn þá aðalsamkomustaður borgarinnar.  Bæði Norfolk og New Stanley eru hótel í alþjóðaflokki eins og Hilton, Intercontinental, Serena, Pan-Afric og Six-Eighty.  Nairobi Safari Club er eitt nýjustu lúxushótelanna og býður gestum sínum, sem gjarnan eru konungbornir eða frægir kvikmyndaleikarar, íburðarmiklar svítur.

Flestir ferðamenn, sem koma til Næróbí, stanza þar stutt, því að þeir eru á leiðinni í safariferðir.  Það er engu að síður hægt að eyða nokkrum dögum í borginni án þess að láta sér leiðast og skoða:

Náttúrugripasafnið, sem er rétt utan við miðborgarsvæðið.  Þar er eitt stærsta safn dýrategunda og yfirlit yfir þróun mannsins vegna sambands safnsins við Leakeyfjölskylduna.  Morgunstund er ekki illa varið við heimsókn í safnið og snákagarðurinn hinum megin við götuna er líka skoðunarverður. 

Bomas of Kenya er nokkurs konar útisafn nálægt innkeyrslu Næróbíþjóðgarðsins.  Þar fara fram danssýningar ýmissa ættflokka og byggingarstíll híbýla þeirra er líka til sýnis.

Það er líka hægt að fylgjast með alls konar íþróttaviðburðum, s.s. póló, veðreiðum, hestastökkkeppnum, hnefaleikum og krikket.  Svo er hægt að fá hressandi hreyfingu við sund, tennis, veggjabolta eða golf (9 golfvellir).

Matur og ráðstefnur.  Matur er venjulega góður og mismunandi eftir menningarheimum í veitingastöðum borgarinnar en næturlíf er fremur takmarkað.  Það er hægt að fara í bíó, leikhús, spilavíti, diskótek og nokkra næturklúbba.

Kenyatta ráðstefnumiðstöðin er 27 hæða kennimerki Næróbí með snúningsveitingahúsi efst.  Byggingarstíllinn er nútímalegur, einfaldur og svolítið afrískur.  Þar er mikið um blóm og runna og útileikhús, sem er byggt eins og hefðbundinn íbúðarkofi.  Ýmsar athyglisverðar uppákomur eiga sér stað í þessu gler- og steypuháhýsi og rauðklæddir maasaistríðsmenn virðast ekki passa vel inni í þetta nútímalega umhverfi, þótt aðeins sé liðin tæp öld síðan þeir voru í sínu rétta umhverfi, þar sem borgin stendur nú.  Spurningin er, hvort er tímaskekkjan?

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM