Skikda (áður
Philippeville) er hafnarborg við Miðjarðarhafið í norðausturhluta
Alsír við Storaflóa. Franski
marskálkurinn Sylvain-charles Valée stofnaði hana árið 1838 sem
hafnarborg Constantine. Skikda
stendur á grunni hinnar fornu hafnarborgar Rusicade (4. öld;
hafnarborg Cirta) og þar er stærsta rómverska hringleikahús í Alsír.
Það hefur óspart verið notað sem steinnáma, þannig að lítið
stendur eftir af því. Rómverskar
minjar eru sýndar í safni borgarinnar.
Borgin stendur við mynni Wadi Safsaf, á hrygg milli
Skikda-fjalls að austan og Bou Yala-fjalls að suðvestan.
Þarna endar gasleiðsla frá Hassi R’Mel, sem var tekin í
notkun 1970. Talsverður olíu-
og gasiðnaður hefur þróast í borginni.
Höfnin er nú notuð til útflutnings olíu frá Hassi
Messaoud-svæðinu, landbúnaðarafurða og jarðefna (járn, blý,
marmari og sement) frá Safsaf-dalnum og námum innar í landinu. Miklu er skipað upp af innfluttum vörum, sem er síðan
dreift víða. Talsverð
umferð ferðamanna er einnig um höfnina og talsverður fjöldi sardínubáta
notar hana ásamt úthöfninni Stora.
Mikið er soðið niður af sardínu.
Fyrrum bjuggu aðallega Ítalar og Maltverjar í borginni en
eftir að landið varð sjálfstætt 1962 flykktist þangað fjöldi
islamskra flóttamanna og Evrópumennirnir höfðu sig að mestu á
brott. Áætlaður íbúafjöldi
árið 1987 var í kringum 130 þúsund. |