Oran Alsír,
Flag of Algeria


ORAN
ALSÍR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Oran (Wahran á arabísku; Quahran á frönsku) er borg í norðvesturhluta landsins við opinn flóa við Miðjarðarhafið, u.þ.b. miðleiðis milli Tangier (Marokkó) og Algeirsborgar, þar sem stytzt er á milli Alsír og Spánar.  Nágrannaborgin Mers el-Kebir, er fiskibær við vestanverðan flóann innanverðan.  Oran er næststærsta hafnarborg Alsír.

Andalúsískir kaupmenn stofnuðu oran í upphafi 10. aldar sem miðstöð viðskipta við íbúa inlands Norður-Afríku  og borgin dafnaði vegna samgangna á sjó við Evrópu.  Hún varð hafnarborg konungsríkis Tlemcen árið 1437 og miðstöð viðskipta við Súdan.  Árið 1492 og 1502 þustu þangað hópar múslima vegna ágangs kristinna manna, sem ætluðu að neyða þá til trúarskipta.  Eftir það fór borginni að hraka og sjóræningjar settust þar að og í borginni Mers el-Kebir.  Þessi þróun neyddi Spánverja til að leggja borgina undir sig árið 1509.  Næstu tvær aldirnar var borgin bitbein margra ríkja við Miðjarðarhaf og Tyrkir urðu hlutskarpastir 1708.  Linnulausar árásir sjóræningja í Mers el-Kebir leiddu til endurkomu Spánverja, sem tóku Oran 1732.  Jarðskjálftar lögðu hana í eyði árið 1790.  Tyrkir komust aftur til valda 1792 og fluttu þangað fjölda gyðinga.  Frakkar tóku borgina árið 1831 og byggðu þar nýja höfn og gerðu Mers el-Kebir að stórri flotastöð.

Í júní 1940, þegar Frakkar og Þjóðverjar höfðu samið um vopnahlé, flykktist mestur hluti franska flotans til Mers el-Kebir.  Hinn 3. núlí sökkti og laskaði brezk flotadeild flest skip Frakka til að koma í veg fyrir, að þau féllu Þjóðverjum í hendur.  Oran var meðal mikilvægustu lendingarstaða bandamanna í Norður-Afríku og bandarískir herir tóku borgina 10. nóvember 1942.  Í Oran bjuggu fleiri Evrópumenn en í nokkurri annarri borg Norður-Afríku og talsverðar deilur urðu milli Frakka og arabískra múslima, þegar Alsír fékk sjálfstæði 1962.  Flestir Evrópumennirnir fluttust frá borginni og verzlun og viðskipti tóku smám saman við af hernaðarhlutverkinu.

Nútímaborgin skiptist í strandhlutann, gömlu og nýju borgina, sem stendur á hjöllum, sem voru aðskildir af gili, sem búið er að byggja yfir.  Gamla spænska-arabíska-tyrkneska borgin, La Blanca, er vestan gilsins uppi á hæð.  Nýja borgin, La Ville Nouvelle, sem Frakkar byggðu eftir 1831, er á hjöllunum vestan gilsins.  La Blanca er krýnd tyrkneska virkinu Santa Cruz, sem Spánverjar og Frakkar breyttu talsvert.  Í spænska hlutanum eru þröngar götur, fyrrum dómkirkjan Saint-Louis (Frakkar endurbyggðu hana 1838), höfnin Porte de Canastel (endurbyggð 1734), og gosbrunnurinn á Emerat-torgi (1789).  Í tyrkneska hlutanum gömlu borgarinnar er Stóra moskan, sem var byggð fyrir lausnargjald spænskra gísla.  Austar er Château Neuf, fyrrum setur borgarstjóra (beys) Orans og síðar höfuðstöðvar franska hersins.  Í grennd við Kasbah, umhverfis gamla, spænska kastalann, eru moskan Sidi el-Haowri, fyrrum svefnskálar lífvarða tyrknesku borgarstjóranna og kvennabúr arabísku borgarstjóranna.  Fyrrum franski borgarhlutinn teygist nú yfir gilið og langt út fyrir ytri borgarmúrana, sem voru byggðir 1866 en eru nú að mestu horfnir.  Í þessum borgarhluta eru opinberar byggingar og skrifstofuhúsnæði auk fjölda lágra fjölbýlishúsa.

Oranháskóli var stofnaður 1965 og Vísinda- og tækniháskólinn árið 1975.  Meðal áhugaverðra staða er Borgarsafnið (rómverskar og púnverskar minjar), Tlemcen-safnið (islömsk list) og Aubert-bókasafnið.  Borgin er vettvangur atburðarásar skáldsögu Albert Camus, La Peste (Plágan), sem var gefin út 1947.  Manngerð höfn borgarinnar var stækkuð verulega eftir 1848 og aðalbryggja hennar er rúmlega 2,7 km löng.  Járnbrautir tengja borgina við Algeirsborg, Marokkó og Béchar.  Alþjóðaflugvöllur hennar er utan þorpsins Es-Senia.  Iðnaðarhverfið er í utanverðum suðsuðausturhlutanum.  Þar eru hundruð lítilla mavælaframleiðenda og margs konar annar iðnaður.  Aðalútflutningsvörur borgarinnar eru vín, korn, grænmeti og ávextir.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1987 var í kringum 610 þúsund.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Hverafold 48 - 112 Reykjavik - 567-6242 - info@nat.is - Heimildir                  HEIM