Alsír íbúarnir,
Flag of Algeria

Tungumál Trúarbrögð Lýðfræði  

ALSÍR
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Búseta.  Mesta þéttbýli í Alsír er á sléttunum og í og við strandfjöllin á Norður-Tell-svæðinu, enda er þar mest og árvissust úrkoma.  Sunnar verður æ strjálbýlla, þannig að suðurhluti Hásléttunnar og Sahara-Atlasfjöll eru mjög strjálbýl og víðast óbyggð allrasyðst.  Hefðbundin alsírsk þorp eru mjög dreifð og einangruð og í Saharaeyðimörkinni og við jaðra hennar hafast hirðingjar við.  Þorp og byggðir voru stundum víða í vinjum og fjallasvæðum, líkt og í Aurêsfjöllum og á Stóra-Kabylie-svæðinu, þar sem berbar bjuggu í víggirtum þorpum á hæðatoppum. Franskir landnemar, sem settust að á síðari hluta 19. aldar, byggðu nokkur hundruð landnemaþorpa.  Þau voru skipulögð eins og frönsk sveitaþorp og húsagerðin hin sama.  Þau voru mikilvægar þjónustumiðstöðvar á dreifbýlissvæðum.

Í sjálfstæðisstríði Alsíringa 1954-62 voru næstum 8000 slík þorp jöfnuð við jörðu og þrjár miljónir manna fóru á vergang.  Margt þessa flóttafólks fékk húsaskjól á ný í flóttamannaþorpum og margt  í borgum.  Flest þessara nýju þorpa fengu varanlegt hlutverk og héldust í byggð eftir átökin.  Á áttunda áratugnum efndu stjórnvöld til uppbyggingar u.þ.b. 400 félagslegra þorpa en áætlunin virkaði ekki sem skyldi og á níunda áratugnum var fallið frá henni og einkaframtakið látið ráða för.

Á franska nýlendutímanum voru stofnaðar þjónustumiðstöðvar í sveitunum og evrópsk úthverfi og stjórnarbyggingar bættust við hinnar stærri borgir.  Athafnalíf við hafnir og iðnaður jukust og stuðluðu að þróun og vexti nokkurra hafnarborga eins og Annaba (Bône), Skikda (Philippeville) og Mostaganem.  Í og eftir síðari heimsstyrjöldina fluttist slíkur fjöldi sveitafólks til margra borga landsins, að þær hættu vera evrópskar og urðu ofsetnar alsírskar borgir.  Talsvert húsnæði losnaði, þegar næstum ein miljón Evrópumanna fluttist brott og mikill fjöldi íbúða var byggður að auki.  Þetta dugði ekki til að leysa húsnæðisvandann, því stöðugt bættust fleiri „flóttamenn” úr dreifbýlinu.  Síðla á 20. öld bjó helmingur landsmanna í borgum landsins.

Þjóðerni.  Næstum 80% íbúanna telja sig af arabískum uppruna, þótt flestir landsmanna séu afkomendur fornra berbaættkvísla, sem blönduðust mörgum kynstofnum innrásarliða frá Miðausturlöndum, Suður-Evrópu og löndum sunnan Sahara.  Innrásir araba á 8. ög 11. öld ollu takmörkuðu aðstreymi en breyttu lífsháttum og trúarbrögðum hinna innfæddu berba varanlega.  Berbar eru nú í kringum 20% þjóðarinnar.  Stærsti hópur þeirra, Kabyle-berbar, býr í fjalllendinu austan Algeirsborgar.  Aðrir berbahópar eru shawia, sem búa við frumstæðar aðstæður í Aurésfjöllum, m’zabitar, sem hafa haft fasta búsetu síðan á 19. öld og eru fylgjendur ibadite ‘Abd ar-Rahman ibn Rustam (búa við norðurjaðar Sahara), og tuareg-hirðingjarnir á Sahara-Ahggar-svæðinu.  Næstur allir evrópskir landnemar, flestir franskir, ítalskir og maltneskir, sem voru fjölmennur minnihlutahópur, eru fluttir úr landi.

Tungumál.  Arabíska er tunga langflestra Alsíringa og allir skilja hana.  Hún er líka opinbert tungumál landsins.  Tungur og mállýzkur berba eru einnig töluð á nokkrum svæðum en þeir eru flestir mælandi á arabísku líka.  Síðan landið fékk sjálfstæði hefur stefna stjórnvalda verið að gera landið arabískt og styðja við islamska menningu, þannig að franska vék fyrir arabísku sem aðaltunga landsmanna.  Andstaðan gegn þessari þróun hefur verið kröftug meðal margra hópa berba, sem óttast ofríki hins arabískumælandi meirihluta.

Trúarbrögð.  Flestir Alsíringar, bæði arabar og berbar, eru sunnítamúslimar af Malikite-bræðralagi (Maliki).  Islam tengir þá öðrum þjóðum múslima sterkum böndum.  Í baráttunni gegn nýlendustjórn Frakka varð islam að kjarna alsírskrar þjóðernishyggju.  Sérstök norðurafrísk grein þessara trúarbragða undir áhrifum fyrri trúarbrögðum berba hefur þróast undir forystu heilagra manna (marabouts), sem eru álitnir hafa sérstaka andlega hæfileika.  Þeir eru í heiðri hafðir sem töframenn og lærifeður og mynda eigin bræðralög, sem fylgja kenningum þeirra og helgisiðum.  Helztu fylgjendur þeirra voru og eru ómenntað sveitafólk, sem er ekki með kóraninn á hreinu.  Þessir helgu menn og fylgjendur þeirra hafa löngum verið andstæð löglegum yfirvöldum, þannig að stjórnvöld og rétttrúaðir múslimar hafa reynt að halda aftur af þessum bræðralögum og stemma stigu við viðgangi þeirra

Stjórnvöld í landinu hafa viðurkennt islamska arfleifð þjóðarinnar á borði en stefna þeirra hefur oftast verið meira á veraldlegum nótum.  Islömskum bókstafstrúar- og öfgamönnum hefur vaxið fiskur um hrygg síðan seint á áttunda áratugnum.  Róttækir múslimar hafa stundum lent í átökum við vinstrisinnaða stúdenta og kvenréttindahópa og siðameistarar (imam) öfgamanna hafa hreiðrað um sig í mörgum aðalmoskum landsins.

Lýðfræði.  Árleg íbúafjölgun var mikil, oft yfir 3% á síðari hluta 20. aldar, en síðla á níunda áratugnum fór að draga úr henni, einkum vegna lækkandi fæðingatíðni í kjölfar aðgerða stjórnvalda tengdum fjölskylduáætlanakerfi þeirra.  Um aldamótin 2000 var u.þ.b. helmingur þjóðarinnar yngri en 18 ára og dregið hefur úr barnadauða og dánartíðni almennt.  Samdrætti í íbúafjölgun hefur gætt mest í borgum landsins, þar sem aðaláherzlan hefur verið lögð á stefnu stjórnvalda.  Lífslíkur karla voru 65 ár og kvenna 67 ár um aldamótin 2000.

Brottflutningur Alsíringa til Evrópu, sem var oft góður kostur fyrir atvinnulausa, minnkaði verulega í lok 20. aldar, því Frakkar settu strangar lög og reglur um innflytjendur.  Á meðan aðgangurinn að Evrópu var auðveldari komu stórir hópar Alsíringa sér fyrir í ýmsum borgum Frakklands, Belgíu og annarra Evrópulanda.  Á eyðimerkursvæðum Alsír hafa áhrif þurrka og fastbúsetustefna stjórnvalda valdið verulegri fækkun hirðingja.  Æ fleiri tuaregmenn setjast að í vinjunum, t.d. í Djanet og tamanghasset, en sumir þrjózkast við og vilja ekki hverfa frá hirðingjalífinu.

Efst á síðu

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Hverafold 48 - 112 Reykjavik - 567-6242 - info@nat.is - Heimildir                  HEIM