Constantine Alsír,
Flag of Algeria


CONSTANTINE
ALSÍR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Constantine (líka kölluð Qacentina eftir 1981; Blad el-Hawa á arabísku) er borg í norðausturhluta landsins.  Fönikíumenn kölluðu hana Cirta.  Borgin er á klettóttri sléttu, umkringd klettum eins og náttúrulegt virki nema til auðvesturs.  Rhumel-ánin streymir um þennan klettasal austanverðan.  Sléttan er í 650 m hæð yfir sjó og 150-300 m ofan árinnar.  Þar sem árgilið er mjóst eru aðeins 4½ m milli brúna en breiðast er það 365 m.  El-Kantara-brúin liggur yfir gljúfrið norðaustan borgarinnar.  Þetta er 130 m löng nútímabrú, sem var byggð á stæði eldri brúa.  Norðan borgarinnar er hengibrú en sunnan hennar er dalbrú.  Í hellum í gljúfurveggjunum eru merki um forsögulegar mannvistir.  Á þriðju öld f.Kr. var Cirta (Kirtha) ein mikilvægustu borga Númidíu og setur konunga Massyli.  Á valdatíma Micipsa á 2. öld f.Kr. reis hagur hennar hæst.  Þá var hægt að kalla sama 10.000 manna riddaralið og 20.000 fótgönguliða til hernaðar.  Júlíus Sesar, Rómarkeisari, kom þar upp rómverskri byggð og síðar varð Cirta höfuðborg rómversku nýlendnanna í Norður-Afríku.  Þegar Maxentíus Rómarkeisari barðist við Alexander, númidíska valdaræningjann, var borgin lögð í rústir og eftir að hún var endurreist árið 313 e.Kr., var hún nefnd eftir verndara sínum, Konstantín mikla.  Vandalar náðu ekki tökum á henni en hún féll fyrir árásum araba á 7. öld.

Á 13. öld dafnaði borgin, þrátt fyrir árásir ræningja, og viðskiptin svo blómleg, að þau löðuðu að kaupmenn frá Pisa, Genúa og Feneyjum.  Tyrkjum tókst að ná borginni undir sig nokkrum sinnum en töpuðu henni ævinlega aftur.  Hún varð setur borgarstjóra (bey), sem var fulltrúi konungs Alsír (dey).  Salah Bey, sem réði Constantine frá 1770 til 1792, skreytti borgina verulega og byggði flestar múslimskar byggingar, sem standa enn þá.  Að honum látnum 1792 hafa konur í borginni og nágrenni hennar klæðzt svörtum sorgarklæðum (haik) ólíkt konum annars staðar í landinu, sem klæðast hvítum sorgarklæðum.  Árið 1826 varð borgin sjálfstæð og árið 1836 gerðu Frakkar misheppnaða tilraun til að leggja borgina undir sig og urðu fyrir miklu mannfalli.  Næsta ár tókst þeim ætlunarverk sitt.  Í síðari heimsstyrjöldinni (1942-43), þegar bandamenn börðust í Norður-Afríku, voru Constantine og nágrannabærinn Sétif mikilvægar stjórnstöðvar herja þeirra.

Umhverfis gömlu borgina eru borgarmúrar frá miðöldum, sem voru að mestu byggðir úr tilhöggnu grjóti úr rómverskum rústum.  Didouche Moutad-stræti, sem liggur niður af sléttunni, skiptir borginni í tvennt.  Að vestanverðu er Kasbah, gamla virkið, sem er að hluta frá dögum Rómverja, Souk el-Ghezel-moskan, sem Frakkar breyttu í dómkirjuna Notre-Dame de Sept-Douleurs, márísk höll Ahmad Bey (1830-35), sem herinn hefur núna til afnota, og stjórnar- og verzlunarhúsnæði.  Breið strætin og stór torg í vesturhlutanum bera vott um frönsk áhrif.  Austur- og suðausturhlutinn eru miklar andstæður með hlykkjóttum götum og islömskum byggingarstíl, þ.á.m. 18. aldar moskurnar Salah Bey og Sidi Lakhdar.  Í þessum borgarhlutum skiptast göturnar eftir atvinnugreinum.  Háskóli borgarinnar var stofnaður 1969.  Mælt er með innliti í Cirta-safnið og margir leggja leið sína í Borgarbókasafnið.

Suðvestan borgarinnar hafa þróast úthverfi og nýrri hverfi eru að rísa til austurs, handan Rhumel-gljúfursins.  Nærri borginni er alþjóðaflugvöllur.  Iðnaðurinn er aðallega bundinn gerð leðurvöru og ullardúks en einnig eru smíðaðar dráttarvélar og dílelvélar.  Talsverð verzlun er með landbúnaðarafurðir, einkum kornvöru, sem er seld íbúum hásléttunnar og þurrkasvæðanna í suðri.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1987 var í kringum 450 þúsund.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Hverafold 48 - 112 Reykjavik - 567-6242 - info@nat.is - Heimildir                  HEIM