Annaba Alsír,
Flag of Algeria


ANNABA
ALSÍR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Annaba (fyrrum Bône eða Bona) er hafnarborg við Miðjarðarhafið í Norðaustur-Alsír.  Hún er í grennd við mynni Wadi Seybouse og landamæri Túnis.  Höfnin við Annabaflóa milli Garde- og Rosa-höfðanna er náttúruleg og skjólgóð og Fönikíumenn fengu snemma augastað á henni (12. öld f.Kr.).  Rómverjar kölluðu hana Hippo Regius, þegar hún var aðsetur númídakonunganna.  Borgin varð sjálfstæð eftir púnversku styrjaldirnar (264-146 f.Kr.).  Hippo Regius varð síðar miðstöð kristni, Hippo-ráðsins og biskupsdæmi hl. Ágústíns (396-430).  Vandalar eyðilögðu borgina árið 431.  Árið 533 réði býzantíski keisarinn, Justinian, henni og u.þ.b. tveimur öldum síðar (697) náðu arabar henni á sitt vald.  Borgin varð snemma miðstöð sjóræningja og Frakkar náðu henni á sitt vald 1832.  Árið 1848 var henni stjórnað frá París

Annaba stendur í lághlíðum Edough, sem eru vaxnar korkeik.  Gamla borgin með mjóum, hlykkjóttum götum er í miðri nýju borginni umhverfis 19. ágústtorgið og frönsku húsin og mosku Salah Bey (1787), sem standa við það.  Sidi Bou Merouan-moskan frá 11. öld var byggð með súlum úr rómverskum rústum.  Í nýju borginni, sem hefur verið að þróast síðan 1870 beggja vegna aðalgötunnar Cours de la Révolution, er m.a. dómkirkjan (1850) og basilica hl. Ágústíns (1881), allar helztu opinberar byggingar, skólar, Hipposafnið og almenningsgarðar.  Annaba er einnig setur háskóla (1975) og nærri henni er alþjóðaflugvöllur.

Um höfnina fer mestur hluti jarðefna, sem eru flutt úr landi (járngrýti og fosfat frá Tébessa-námunum suðaustan borgarinnar).  Umhverfis borgina eru frjósöm landbúnaðarsvæði (hveiti), skógar og námur.  Höfnin er líka fiskihöfn og við hana eru markaðir.  Frá borginni liggja járnbrautir til annarra borga í norðausturhluta Alsír og Algeirsborgar.  Stærstu iðnfyrirtæki borgarinnar eru stál- og járnver, áburðarverksmiðja, bíla- og járnbrautarverkstæði og álver.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1987 var rúmlega 220 þúsund.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Hverafold 48 - 112 Reykjavik - 567-6242 - info@nat.is - Heimildir                  HEIM