Algeirsborg er höfuð-
og aðalhafnarborg Alsír. Hún
er miðstöð stjórn-, efnahags- og menningarmála landsins.
Borgin stendur í hlíðum Sahel-hæða, sem liggja meðfram ströndinni,
á 16 km svæði meðfram Alsírflóa og snýr gegn austri og norðri.
Yfirbragð hennar er fagurt með hvítkölkuðum húsum og hún líkist
einna helzt skeifulaga hringleikahúsi.
Nafnið kemur úr arabísku og þýðir „Eyjan”, enda voru
nokkrar smáeyjar á flóanum fyrrum.
Aðeins ein þeirra er eftir sem slík, því að hinar hafa verið
tengdar landi eða horfið vegna hafnarframkvæmda.
Algeirsborg er ein margra borga, sem Fönikíumenn stofnuðu í nýlendum
sínum í Norður-Afríku. Karþagómenn
og Rómverjar þekktu hana sem Icosium.
Vandalar eyddu henni á 5. öld.
Hún var endurbyggð á valdatíma berba á 10. öld sem miðstöð
viðskipta við Miðjarðarhafið.
Snemma á 16. öld leituðu margir márar, sem voru hraktir frá
Spáni, hælis í borginni. Nokkrir
þeirra hófu sjórán, sem beindust gegn spænskum skipum og Spánverjar
komu sér upp virki á eyjunni Peñon í Alsírflóa til að verjast þeim.
Emírinn í Alsír leitaði til tyrkneskra sjóræningja um að
hrekja Spánverja á brott frá eyjunni og einn þeirra, Barbarossa (Khayr
ad-Din), lagði Algeirsborg undir sig árið 1529.
Hann hrakti Spánverja á brott og innlimaði Alsír í Ottómanaveldið.
Þessi þróun gerði Algeirsborg að aðalaðsetri tyrkneskra sjóræningja
næstu þrjár aldirnar. Evrópuveldin
reyndu margoft að brjóta þá á bak aftur.
Karl V, keisari Hins heilaga rómverska ríkis, sendi fjölda
herskipa gegn þeim árið 1541 og Bretar, Hollendingar og Bandaríkjamenn
gerðu hið sama snemma á 19. öld. Sjórán frá borginni héldu áfram, þótt úr þeim drægi,
þar til Frakkar lögðu hana undir sig árið 1830.
Þeir gerðu Algeirsborg að miðstöð hers og stjórnsýslu í
nýlendum sínum í Norður- og Vestur-Afríku.
Í síðari heimsstyrjöldinni varð Algeirsborg að höfuðstöðvum
bandamanna í Norður-Afríku og um tíma bráðabirgðahöfuðborg
Frakka. Á sjötta áratugnum,
þegar uppreisn Alsírbúa gegn Frökkum hófst, var höfuðborgin aðalbitbeinið.
Eftir að sjálfstæði var fengið 1962 voru gerðar gífurlegar
breytingar á borginni til að gera hana að nútímahöfuðborg sósíalísks
þjóðfélags. Stór hluti
evrópskra íbúa hennar hvarf á brott á fyrstu áratugum hins sjálfstæða
ríkis. Gömlu tyrknesku eða
múslimsku hlutar borgarinnar eru í efri hlíðum hæðanna og þar
gefur enn þá að líta gamla byggingarstílinn, há hús með svörtum
veggjum og mjóar og hlykkjóttar götur.
Yfir múslimahverfinu gnæfir virkið Kasbah (Qasbah), sem var bústaður
síðustu tyrknesku landstjóranna (deys) í Alsír.
Ketchaoua moskan er áberandi bygging í múslimahverfinu.
Hún var dómkirkja h. Filips til 1962 og var byggð á árunum
1845-60. Franski hluti
borgarinnar þróaðist neðar í hlíðunum, nær höfninni.
Þar er fjöldi torga og breið stræti.
Í miðri nútímaborginni eru Alsírháskóli (1879), fjöldi
erlendra sendiráða og nokkur háhýsi.
Annars staðar getur að líta Þjóðarbókhlöðuna, gömlu
erkibiskupahöllina, sem var fyrrum höll landstjóranna (deys), og
vetrarhöllina, sem var fyrrum aðsetur frönsku landstjóranna.
Algeirsborg hefur haldið áfram að vaxa til suðurs til að
taka við fólki úr ofsetnum miðbænum.
Höfn Algeirsborgar er aðallega nýtt til innflutnings hráefna, iðnaðarvöru
og neyzluvöru. Helztu útflutingsvörurnar
eru vín, grænmeti, glóaldin, járngrýti og fosfat.
Millilandaflugvöllurinn Dar el-Beïda er austan borgarinnar.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1987 var tæplaga 1,5 miljónir.
Árið 2008 gáfu Karl Smári Hreinsson, M.
Paed. og Adam Nichols, prófessor, út Reisubók Ólafs
Egilssonar á ensku, „The Travels of Reverend Ólafur
Egilsson”. Þar er lýsing á Algeirsborg frá fyrri hluta
17. aldar, þar sem Ólafur var meðal fanganna í
„Tyrkjaráninu” árið 1627. |