Afghanistan efnahagsmál,
Flag of Afghanistan


AFGHANISTAN
EFNAHAGSMÁL

.

.

Utanríkisrnt.

 

Afghanistan er eitthvert fátækasta land heims.  Árstekjur einstaklinga eru að meðaltali US$ 220.-og efnahagslífið byggist á einstaklingsframtaki í umhverfi takmarkaðs sósíalisma.  Fjöldi svokallaðra 5 ára áætlana í tengslum við þróun iðnaðar, landbúnaðar, námugraftar, samgöngur og félagslega þjónustu hafa litið dagsins ljós síðan 1962.  Námuréttindi eru eign ríkisins.  Á síðari hluta áttunda áratugar 20. aldar setti sovézkt hernám efnahaginn úr skorðum.  Um miðjan níunda áratuginn voru fjárlög landsins áætluð 650 milljónir US$ og Sovétríkin lögðu til u.þ.b. 40% þeirrar upphæðar.  Á tíunda áratugnum ollu stöðugar innanlandsóeirðir mikilli óvissu og glundroða í efnahagsmálum.

Nærri 80% þjóðarinnar eru bundin við landbúnaðarstörf.  Atvinnuleysi eru gífurlegt og mikill skortur er á faglærðu fólki og menntuðum stjórnendum.

Landbúnaður.  Landbúnaðurinn er aðaltekjulind þjóðarinnar og landið getur verið sjálfu sér nægt með matvæli við eðlilegar aðstæður og jafnvel flutt út umframframleiðslu.  Stríðsreksturinn olli gífurlegu tjóni í landinu og árið 1989 var u.þ.b. þriðjungur ræktaðs lands orðin auðnin ein.  Helztu afurðir landsins eru hveiti, maís, hrísgrjón, bygg, grænmeti, ávextir og hnetur.  Fullvinsluafurðir eru helztar kastorbaunir, litunarjurtir, trjákvoða til lyfjagerðar, tóbak, baðmull og sykurrófur.  Afghanistan er aðaluppspretta ópíums í heiminum.  Bændur hafa stöðugt leiðzt lengra út í þessa framleiðslu vegna stríðsástandsins í landinu til að framfleyta sér og sínum.  Sauðfjárrækt er mikilvæg grein til framleiðslu kjöts, fitu og ullar fyrir innanlandsmarkaðinn og útflutning ullar og gæra.  Sauðfjárstofninn var talinn vera u.þ.b. 13,5 milljónir dýra í upphafi tíunda áratugarins.  Gærur karakúlfjárins, sem er uppistaðan í ræktuninni í norðurhlutanum, eru mjög verðmætar.  Einnig er mikið rækað af drómedörum, kameldýrum, hestum, ösnum, nautgripum, geitum og alifuglum.

Námugröftur.  Frá örófi alda hafa birgðir gulls, sulfurs, kopars, beryl og lapis verið grafnar úr jörðu í smáum stíl í fjöllum landsins.  Saltnám hefur aukizt og nægir nú þörfum innanlandsmarkaðarins.  Kolabirgðir í jörðu voru nýttar fyrrum en framleiðslan hrapaði niður í 8.000 tonn árið 1992.  Sovétríkin lögðu til mikla fjármuni til nýtingar gasbirgða í norðurhluta landsins.  Önnur verðmæti í jörðu, m.a. járngrýti, brennisteinn, króm, sink og úraníum, eru lítt eða ekki nýtt.

Iðnaður.  Á sjöunda og áttunda áratugi 20. aldar jókst framleiðsla í landinu verulega.  Árið 1965 var opnuð stór ullarverksmiðja, sem Þjóðverjar byggðu, og framleiðsla vefnaðarvöru tvöfaldaðist og rúmlega það.  Flestar aðrar verksmiðjur eru í Kabul eða nágrenni, s.s. á sviði vefnaðar, skógerðar, sementframleiðslu (ríkið), ávaxtavinnslu, framleiðslu pressaðra kola og hreinsunar baðmullar.  Þessi atvinnugrein hefur vitaskuld orðið fyrir margs konar áföllum vegna stríðsreksturs í landinu.  Heimilisiðnaðurinn byggist aðallega á teppavefnaði og gerð skartgripa úr eðalmálmum og steinum.

Orkubúskapur.  Nærri 60% rafmagns kemur frá vatnsorkuverum og afgangurinn að mestu frá kola- eða olíuorkuverum.  Flest vatnsorkuverin eru við Helmand- og Kabulárnar.  Árið 1989 framleiddu orkuver landsins u.þ.b. 1,1 milljarð kílóvattstunda.

Gjaldeyrismál.  Gjaldmiðill Afghanistan er afghani = 100 puls.  Seðlabanki landsins gefur út seðla og smápeninga, annast lán ríkisins og lánar borgum og öðrum bönkum fé.  Allir einkabankar voru þjóðnýttir árið 1975.

Verzlun og viðskipti.  Viðskipti við útlönd eru að mestu í höndum ríkisins eða stofnana þess.  Viðskiptin frá 21. marz 1990 til 20 marz 1991 námu:  útflutningur US$ 235 milljónir; innflutningur US$ 884 milljónir.  Sovétríkin voru aðalviðskiptalandið á þessu tímabili.  Áreiðanlegar upplýsingar fyrir hin síðari ár eru vandfundnar vegna ástandsins í landinu.  Útflutningurinn byggist aðallega á náttúrulegu gasi, þurrkuðum ávöxtum og hnetum (26%), baðmull, teppum og karakúlgærum.  Auk Rússa teljast Pakistan, Bretland, Þýzkaland og Indland meðal mikilvægra viðskiptalanda.  Mest er flutt inn af vefnaðarvörum, byggingarvörum, eldsneyti, velum, tölvum, te og sykri.

Samgöngur.  Ferðalög um landið eru erfiðleikum bundin vegna landslags og vegleysu.  Þarna eru engar járnbrautir og mjóar og straumharðar árnar eru ekki skipgengar, þótt timbri sé fleytt um þær.  Drómedarar og önnur burðardýr eru mikið notuð til vöruflutninga.  Vegakerfið er u.þ.b. 22.000 langt og að mestu malarvegir.  Aðalvegirnir tengja Kabul við héraðshöfuðborgirnar.  Vegir, sem liggja um Khyber-skarðið opna leiðina til Pakistan.  Viðhald vegakerfisins er eilífðarvandamál, m.a. vegna vorflóða og stríðsástandsins.  Bakhtar Afghan flugfélagið annast innan- og millilandaflug.

Fjarskipti og blaðaútgáfa.  Ríkið rekur símaþjónustu, sem nær til allra aðalborga og flestra hinna minni.  Símasamband er milli aðalborga og til Peshawar.  Um miðjan níunda áratug 20. aldar voru u.þ.b. 32.000 símar í notkun í landinu.  Sex dagblöð voru gefin út regluelga í lok níunda áratugarins.  Ríkisútvarpið náði til u.þ.b. 1,5 milljóna útvarpshlustenda og 100.000 sjónvarpsáhorfenda.

 TIL BAKA           Ferðaheimur - Hverafold 48 - 112 Reykjavik - 567-6242 - info@nat.is - Heimildir                  HEIM