Nuuk
er höfuðborg grænlands. Saga
hennar tengist trúboðanum Hans Egede, sem kom til Grænlands 1721 til að
svipast um eftir afkomendum hinna norrænu íbúa.
Skip hans lagði að Vonareyju, þar sem var smábyggð, sem var
flutt og heitir nú Nuuk. Því er Nuuk fyrsta þétta byggð Grænlands og elzta þorpið.
Gömlu nýlenduhúsin eru orðin fá og bærinn er nútímalegur með
hótelum, veitingastöðum, verzlunarmiðstöðvum, íbúðarblokkum, strætó,
ráðhúsi, menningarmiðstöð, landsþinginu og lystibátahöfn.
Bærinn skiptist í tvennt, eldri hlutann, Nesið (Nuuk), og Stóranesið
(Nuussuaq), sem er yngri. Íbúafjöldinn í báðum bæjarhlutunum er u.þ.b. 18.300.
Nuuk er fallega staðsett á nesinu, lítur út eins og stórborg, en
litskrúðug einbýlishúsin setja hinn ótvíræða grænlenzka svip á
staðinn. Eitt kennimerkja Nuuk er hið 1210 m há fjall, Sermitsiaq (Söðullinn)
og innan bæjarins er fjöldi djúpra fjarða, sem siglingafólk kann vel
að meta, enda er fátt um báta í höfninni í Nuuk á fögrum sumarkvöldum
og nóttum. Þótt
Hans Egede sé talinn faðir Godthåb, var hann ekki fyrsti hvíti maðurinn,
sem settist þar að.
Íslenzku landnemarnir byggðu allt að 80 bæi við Godthåbfjörðinn,
þegar flest var, og bjuggu þar fram undir aldamótin 1400.
Ekkert er vitað um afdrif afkomenda íslenzku landnemanna þar og
annars staðar eftir þennan tíma. |