Nuuk Godthåb Grænland,


NUUK - GODTHÅB
MEIRA

.

.

Utanríkisrnt.

Nuuk er höfuðborg Grænlands.  Saga hennar tengist norska trúboðanum Hans Egede, sem kom til Grænlands 1721 til að svipast um eftir afkomendum hinna norrænu íbúa.  Skip hans lagði að Vonareyju, þar sem var smábyggð, sem var flutt og heitir nú Nuuk.  Því er Nuuk fyrsta þétta byggð Grænlands og elzta þorpið.  Gömlu nýlenduhúsin eru orðin fá og bærinn er nútímalegur með hótelum, veitingastöðum, verzlunarmiðstöðvum, íbúðarblokkum, strætó, ráðhúsi, menningarmiðstöð, landsþinginu og lystibátahöfn.  Bærinn skiptist í tvennt, eldri hlutann, Nesið (Nuuk), og Stóranesið (Nuussuaq), sem er yngri.  Íbúafjöldinn í báðum bæjarhlutunum er u.þ.b. 18.300.

Nuuk er fallega staðsett á nesinu, lítur út eins og stórborg, en litskrúðug einbýlishúsin setja hinn ótvíræða grænlenzka svip á staðinn.  Eitt kennimerkja Nuuk er hið 1210 m há fjall, Sermitsiaq (Söðullinn) og innan bæjarins er fjöldi djúpra fjarða, sem siglingafólk kann vel að meta, enda er fátt um báta í höfninni í Nuuk á fögrum sumarkvöldum og nóttum.

Þótt Hans Egede sé talinn faðir Godthåb, var hann ekki fyrsti hvíti maðurinn, sem settist þar að.  Íslenzku landnemarnir byggðu allt að 80 bæi við Godthåbfjörðinn, þegar flest var, og bjuggu þar fram undir aldamótin 1400.  Ekkert er vitað um afdrif afkomenda íslenzku landnemanna þar og annars staðar eftir þennan tíma.

Við Godthåbsfjörðinn og í Suður-Grænlandi er stundaður hreindýrabúskapur.  Á stóru svæði inni í firðinum eru 1400 hreindýr, þar sem óheimilt er að veiða.  Þessi búskapur byrjaði á 230 hreindýrum, sem voru flutt inn frá Lapplandi.  Listamaðurinn Jens Rosing hafði lært til þessa búskapar í eitt ár áður en hreindýrin voru flutt inn.  Nokkrir samar komu til landsins með þeim til að aðstoða við hann.  Fyrstu hugmyndir um hreindýrabúskap komu frá Friðþjófi Nansen, þegar hann stóð uppi á Grænlandsjökli 1888, leit yfir Godthåbssvæðið og sá, hve vel það var fallið til beitar.

Almennir ferðamenn heimsækja Nuuk sjaldnast.  Það er dýrt að ferðast þangað og fyrir sama verð má komast til Diskóflóa, þar sem nálægðin við jökulinn og hundasleðaferðir eru í boði.  Það er skemmtilegt að koma til Nuuk seinnipartinn í júní, þegar margir skrýðast þjóðbúningum í tengslum við þjóðhátíðardaginn 21. júní.  Á þessum tíma er líka algengt að sjá hvali (hnúfubaka o.fl. teg.), sem koma svo nærri ströndinni, að þeir virðast vera að synda í strand.  Þessir hvalir eru að elta loðnu, sem sækir upp á grunnsævi til að hrygna.

Skoðunarverðir staðir: Þjóðminja- og skjalasafnið, Nýlenduhöfnin, Aanaas torfhúsið, Hans Egede húsið og styttan, Frelsarakirkjan, Hans Egede kirkjan, Herrnhut trúboðsstöðin, ýmis minnismerki, ljósastaur Samuels Kleinschmidts, Sydtryk prentsmiðjan, pósthús jólasveinsins, Menningarhús Grænlands.

Uppákomur:
Nuukhátíðin (menningarhátíð fyrstu helgina í ágúst; first 1995), Nuukmaraþon í síðustu vikunni í júlí, snjóstyttuhátíðin þriðju hverja helgi í marz.

Skipulagðar ferðir:
Sumarskíðasvæði Nuuk eru í 45 mín. fjarlægð með bát (Kangerluarsunnguaq).  Mismunandi bátsferðir eftir árstíðum.  Rútuferðir.  Grænlenzk lautarferð (½ dagur).  Listaverkaskoðun. Þyrluferðir. Flugferðir.

Útivist:
Gönguferðír vetur og sumar.  Fjallaferðir.  Veiðiferðir.  Snjósleðaferðir.


.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM