Grænlandsvetur sjötti kafli,

SJÖTTI KAFLI

GRÆNLANDSVETUR
eftir Mattias Koglbauer
Á hundasleðum um heimsskautssvæði

.

.

Utanríkisrnt.


nat.is

FIMMTI KAFLI
Í HELJARGREIPUM HAFSINS

Það var eins ekki ætlaði að birta þennan morgun.  Ég var útsofinn og snéri mér að glugganum.  Snjóskaflinn hlémegin hússins hafði vaxið verulega í óveðrinu og náði nú alveg upp undir þakskegg.  Grá dagsskíman þrengdi sér meðfram honum, inn um gluggaboruna.

Allt var hljótt í húsinu.  Ég heyrði ekkert í Elsnerhjónunum.  Þau sváfu vafalaust enn þá.  Ég smeygði mér hljóðlega úr svefnpokanum, klæddist dúngallanum og nýju skinnkamikkunum, sem hún Magdalena hafði komið með tveimur dögum áður, á meðan við vorum í Rathbone-leiðangrinum.  Þetta var nú aldeilis munur.  Ég gekk hljóðlega um herbergið á hælalausum kaminnunum og var stoltari en orð fá lýst.  Það væri gaman, ef vinir mínir gætu séð mig núna, hugsaði ég.

Á leiðinni út greip ég myndavélartöskuna.  Þegar ég steig út fyrir dyrnar, var sem jörðinni væri kippt undan fótum mér og allt snérist í hringi.  Ég skall svo harkalega á rassinn, að sól, tungl og stjörnur dönsuðu lengi fyrir augum mér.  Þegar ég áttaði mig aftur, sat ég eins og illa gerður hlutur fyrir framan húsið.  Innihald töskunnar minnar lá eins og hráviði út um all tog ég byrjaði að tína það saman.  Óskin um, að vinir mínir gætu séð mig, var líklega ekki tímabær.  Fyrst yrði ég að læra að ganga á kamikkum.

Ég nuddaði helauman afturendann og staulaðist af stað.  Það var farið að rjúka úr nokkrum strompum, en annars virtist allt lífvana.  Það var enginn á ferli, nema ég, enginn að flýta sér til vinnu, enginn að moka af tröppunum sínum.  Eitthvað hreyfðist í snjónum skammt frá mér.  Svart trýni kom í ljós og síðan heill hundur, sem hristi af sér snjóhulu næturinnar.  Það hafði verið mjög hvasst um nóttina, snjóinn skafið og langar snjóslæður staðið fram af húsþökunum út í heimsskautsnóttina.  Heima hefði folk sagt, að ekki væri hundi út sigandi.  Hérna höfðu menn ekki áhyggjur af því.  Hundarnir voru hvort sem er úti.  Það var nú líka óhugsandi, að 250 manna byggð gæti hýst 850 villta sleðahunda.  Ég er líka hræddur um, að Grænlendingar hefðu lítil not af ofdekruðum hundum eins og við þekkjum þá í heimkynnum okkar.

Hundurinn teygði sig og sveigði, lyfti höfði mót daufgráum himni og rak upp skerandi ýlfur.  Þetta var þjóðsöngur norðurhjarans.  Það væri tómlegt í svona þorpi, ef ekki heyrðist spangól sleðahunda.  Hvað var hann að gefa í skyn?  Var hann að fagna nýjum degi, sem færði honum ekkert annað en erfiði og ef til vill nokkra stolna bita af selkjöti?  Eða var hann bara að harma örlög sín?  Hvort sem var, heyrðu þessi hljóð þessum heimshluta jafnt til og kuldi, snjór og langar nætur.
Ég brá myndavélinni á loft og nálgaðist seppa hægum og öruggum skrefum, líkt og ég hefði aldrei gert annað en að umgangast sleðahunda.  Undir niðri var mér ekki jafnrótt.  Ég fann óþægilegan fiðring undir bringspölunum.  Ég vissi, að ég yrði að sýna hundinum, að ég væri sá, sem hann ætti að bera virðingu fyrir og bældi því niður óttann.  Ég mundaði myndavélina og rendi að sannfæra sjálfan mig um, að sleðahundar væru ragir í eðli sínu, en ég aftur á móti óttalaus ofurhugi.  Það var verst, að ég var þarna aleinn.  Það er auðveldara að sýnast hugaður fyrir framan fjölda folks.

Hundurinn hætti morgunsöngnum í miðjum klíðum og snéri sér að mér.  Hann urrðai illskulega.  Var þetta bara yfirskyn?  Hvor okkar var hræddari?  Ég stóð kyrr og beið.  Nær þorði ég ekki.  Við horfðumst í augu.  Mig langaði til að urra á móti, en vissi, að það væri bara hlægilegt og hverði ekki minnstu áhrif á hvutta.  Smám saman varð allt kvikt í kringum mig, þegar hundarnir risu á fætur hver af öðrum og hristu af sér snjóinn.  Svo virtist sem þeir væntu áfloga, sem þeir vildu ekki missa af.

Mér stóð ekki orðið á sama frammi fyrir öllum þessum hundum.  Ískaldur beygur læddist að mér og ég fékk kökk í hálsinn.  Ég vissi, hvað beið mín.  Það var ekki aftur snúið.  Helzt vildi ég taka til fótanna, en vissi, að við fyrsta skref fyndu þeir ótta minn á sér og réðust á mig.  Ég stóð því kyrr.  Ofurvarlega teygði ég annan fótinn aftur fyrir mig og setti mig í viðbragðsstöðu til að geta gefið þeim, sem réðist á mig duglegt spark.  Nú var um að gera að vera rólegur og missa ekki móðinn.  Ég stóð aleinn andspænis tólf villtum hundum.  Nú var að duga eða drepast, ella yrði ég að háði og spotti í þorpinu.  Ég hafði tíma til að bíða og hreyfði mig ekki til árásar að fyrra bragði.  Sá fyrsti, sem kæmi, fengi að kynnast nýju kamikkunum mínum.  Ég horfði stöðugt í augu hundsins án þess að hvika.  Hann urraði enn þá, en ekki eins ófriðlega og áður.  Var hann að láta undan?  Þá opnuðust skyndilega dyr, einhver hrópaði eitthvað og hundarnir þutu brott.  Ég leit í átt til kofans fyrir ofan mig í hlíðinni.  Þar stóð Jakob Sanimuinak með fullan stamp af kjöti í gættinni og fjögur lítil, hlæjandi andlit sáust bak við kámugar rúður í glugga við hliðina á dyrunum.

Enn þá hef ég ekki losnað við þann grun, að Jakob hafi á þennan nærgætna hátt bjargað mér úr klípunni.  Þegar hann hafði lagt frá sér kjötstampinn, sem hundarnir réðust á af miklu offorsi, kallaði hann til mín og bauð mér að ganga í bæinn.  Ég þáði boðið fyrir kurteisis sakir, þótt ég vissi, að það yrði lyktarskyni mínu ofraun.  Í bjartsýni minni bjóst ég við, að óloftið í kofanum yrði þó skömminni skárra en að standa andspænis hundahópnum.  Niðurstaðan varð sú, að ég veit ekki, hvorn kostinn ég tæki, ef ég ætti um þetta tvennt að velja aftur.

Það má ekki skilja þetta svo, að Jakob hafi gert þetta af illgirni.  Hér bjó ekkert annað en kurteisi og gestrisni að baki.  Fyrst sá ég aðeins klæðalítil börn skríðandi um hálfrökkvað herbergið.  Svo vandist ég rökkrinu og greindi umhverfið betur.  Í einu horninu lágu tvö hálfverkuð selahræ.  Lítill blóðlækur rann frá þeim og myndaði poll á miðju gólfi.  Eitt barnanna skreið að honum, buslaði með höndunum og teiknaði myndir á gólfið.  Ég laut niður að barninu og gat ekki varizt brosi, þegar ég leit framan í það.  Litla andlitið minnti helzt á stríðsmálaðan sioux-indíána.  Ung kona sat í rúmfatahrúgu á svefnstæðinu, ber að ofan með barn á brjósi.  Fyrir ofan rúmið hengu þessar venjulegu, litríku úrklippur úr myndablöðum af dönsku konungsfjölskyldunni.  Þar var líka mynd af sólbökuðu kaktuslandslagi í Mexíkó eða Arisóna, póstkort með myndum af dönskum borgum og fallegum, gráum stóðhesti í spænska reiðskólanum í Vínarborg.  Þetta kort þekkti ég strax, því ég hafði sent Jakobi það með jólakveðju árið 1967.  Framan við rúmið stóðu tvö barmafull náttgögn.  Stálpuð stúlka, sem var að sýsla við eldavélina, reiddi fram fyrir okkur fullan pott af kjöti.  Húðtægjur með burstum hengu á ólseigu kjötinu.  Þegar ég var að reyna að vinna á því, mundi ég allt í einu, að Jakob hafði fyrir skömmu lagt rostung að velli.  Ég gerði honum skiljanlegt á táknmáli, að mig fýsti að fara með honum í veiðiferð.  Mér til undrunar tók hann því mjög vel, meira að segja svo vel, að við ákváðum að halda strax af stað til Swainsonhöfða í vikuferð.

Á meðan á öllu þessu stóð, bauð ég hinum fullorðnu vindlinga oig börnin fengu munnfylli af sælgæti úr vasa mínum.  Áhugi þeirra á mér óx til muna við þetta og þau færðu sig þétt upp að mér í von um meira.  Næstur mér sat litli „sioux-indíáninn”.

Ferðin til Swainsonhöfða var viðburðalítil.  Jakob átti valda hunda og sleðinn var létt hlaðinn, aðeins við tveir, rifflarnir, eldunarbúnaðurinn, nokkur skinn og svefnpokarnir.  Við tókum hvorki nesti né hundafóður með, því við væntum góðra fanga.  Ég var forvitinn og fullur eftirvæntingar að komast til Swainsonhöfða, því ég hafði heyrt margar veiði sögur þaðan og þær fjölluðu nær allar um seli og hvítabirni.
Við brunuðum fyrst hálfa leiðina til Tóbínhöfða og tókum síðan norðlæga stefnu til fjalla.  Ég vissi ekki, hvers vegna Jakob valdi leiðina yfir fjöllin í stað þess að aka með fram ströndinni, en grunaði ástæðuna.  Tveimur dögum áður hafði sézt hvítabjörn í dalnum, sem við ókum um.  Hann hafði rölt óhræddur þvert yfir slóðina til Tóbínhöfða um hábjartan dag.  Þetta er fjölfarnasta leiðin í öllu héraðinu og Grænlendingunum fannst ekki við hæfi að nokkur hvítabjörn færi þar um án þess, að þeir næðu honum.

Vegir þessara frjálsu flakkara eru órannsakanlegir og sama má segja um þráhyggju mannanna, sem slást í för með þeim.  Vesalings Lars.  Ég fann til með honum.  Í gær, þegar hann sagði mér frá því, hvernig fundum hans og hvítabjarnarins lyktaði, náði hann ekki upp í nefið á sér fyrir vonbrigðum.  Undanfarin þrjú ár hafði hann verið loftskeytamaður við flestar veðurathugunarstöðvar á austurströndinni, í Meistaravík, Daneborg og jafnvel norður í Danmarkshavn.  Allan þennan tíma fór hann aldrei út úr húsi án myndavélar og riffils, sem er ekki óeðlilegt í svona landi, þar sem búast má við óvæntum gestum hvenær sem er.  Riffillinn var jafnvel förunautur hans, þegar hann fór á kamarinn.

Eina ástríða Lars var veiðimennska, og stærsti draumur hans var að leggja hvítabjörn að velli, að standa augliti til auglitis við konung ísbreiðunnar.  Svo rættist draumurinn í gær, en riffillinn og myndavélin voru heima, enda hafði hann aðeins ætlað að bregða sér í snögga ferð á snjóslaðanum til Scoresbysunds eftir tóbaki.

„Ég verð kominn aftur innan klukkutíma,” hrópaði hann til vina sinna.  Það var ekki til neins að taka með sér myndavél og byssu á þessum slóðum um hábjartan dag.
Það, sem gerðist síðan, er þegar komið fram:  Lars settist á sleðann og þaut af stað.  Á miðri leið birtist björninn fram undan kletti og þeir störðu undrandi hvor á annan úr 100 m fjarlægð.  Eins og forvitinna bjarna er vandi, lyfti hann sér upp á afturlappirnar og reyndi að fá veður af Lars, nuddaði trýnið með hrömmunum til að skýra sjónina eða verjast þessari andstyggilegu lykt af eimyrjunni úr vélsleðanum.
Lars er enginn draumóramaður.  Hann vissi, að vopnlaus maður mátti sín lítils gegn bjössa.  Það var ekkert hægt að gera tómhentur.  Ekki þjáðist hann heldur af lífsleiða og þekkti árásarhneigð soltinna hvítabjarna, svo hann forðaði sér hið snarasta og hafði auga á dýrinu eins lengi og hann sá til þess.

Rétt áður en hann kom til Scoresbysunds mætti hann Gerd Brönlund á hundasleða sínum, stöðvaði hann og sagði honum alla sólarsöguna.  Brönlund hikaði ekki eitt andartak, heldur leysti tvo sterkustu hundana frá ækinu og hóf eftirförina.  Hinir hundarnir hlupu eins og ærðir.  Þeir höfðu annaðhvort fengið veður af birninum eða smitast af æsingi mannanna.  Hvítabirnir eru náttúrulegir óvinir þeirra, en hundarnir gleyma því oft í hita leiksins, að þeir eru bæði minni og beikbyggðari en óvinurinn.  Þeir jafna leikinn þó með ofsa, hvatleika og árásarhneigð, en blint æði þeirra verður þeim oft að fjörtjóni.

Lars og Gerd óku til baka í átt til Tóbínhöfða til að reyna að koma í veg fyrir, að björninn tæki strikið til fjalla aftur.  Hann skyldi ekki komast undan.  Hundarnir myndu þefa hann uppi.
Og þeir fundu hann.

„Ég hefði getað tekið passamyndir af honum,” tautaði Lars, „ómetanlegar myndir af viðureigninni við hundana.  Svo var ég – fjandinn hafi það – ekki með myndavélina.  Svei!”  Svo brunaði hann af stað til Tóbínhöfða með byssu um öxl og myndavélina í farangursrýminu, en aðeins degi of seint.  Hvenær yrði næsti björn á vegi hans?

Mig grunaði, að framangreindur atburður væri ástæðan fyrir því, að Jakob valid leiðina um dalinn og yfir fjöllin.  „Imera – ef til vill”.  Jakob hlaut þó að vita, að þessi dýr eru óútreiknanleg og að hömlulaus ásókn stuðlar að útrýmingu þeirra.  Þetta er í raun og veru orðið alvarlegt mál.  Vísindamenn halda nefnilega, að þeir hafi tryggt viðgang stofnsins eftir að Kanada, Danmörk, Noregur, Sovétríkin og Bandaríkin samþykktu á fundi í Ósló árið 1973, að hvítabirnir skyldu alfriðaðir.

Er alveg víst, að tölur um stærð hvítabjarnarstofnsins séu réttar?  Ekki er víst, að svo sé, því að flökkuárátta dýranna er mikil.  Samkvæmt síðustu áætlunum er fjöldi þeirra á milli tíu og tuttugu þúsund.  Hvað, sem þessu öllu líður, yrði það óbætanlegt tjón og til ævarandi skammar fyrir núlifandi kynslóðir, ef þetta tignarlega dýr á eftir að deyja út sökum ofveiði.  Afkomendur okkar kynnu okkur litlar þakkir fyrir það.

Það eru alltaf fleiri en eitt sjónarmið í hverju máli.  Það má ekki gleyma, að veiðiástríða henna grænlenzku vina minna er þeim í blóð borin.  Margar ættkvíslir þeirra lifa enn þá af veiðum einum saman.  Ég get nefnt hér tvö dæmi þessu til staðfestingar og þar eru ef til vill táknrænt, að þar eiga börn hlut að máli:

Þetta gerðist sumarið 1967.
Dag nokkurn stóð ég aleinn niðri á strönd Tóbínhöfða og átti mér einskis ills von.  Ég var nýkominn frá meginlandi Evrópu og var alls ókunnugur landi og þjóð.  Ég þekkti engan, sem ég gat leitað til og vildi ekki troða mér upp á neinn.  Þar sem ég var eini Evrópubúinn í þorpinu, vakti ég óneitanlega athygli barnanna.  Þau hópuðust í kringum mig, skoðuðu mig í krók og kring, gerðu gys að nefinu á mér og stríddu mér á ýmsan hátt.  Þau urðu svo ágeng, að helzt vildi ég reka þau brott, en ég var gesture hér, svo að ég gekk brosandi til móts við þau.  Þegar ég var kominn alveg að þeim, kom upplausn í hópinn og þau þutu niður að ströndinni.  Hvað var á seyði?

Þá sá ég lítinn snjótittling á steini og börnin beindu allri athygli sinni að þvi að ofsækja hann.  Fuglstetrið forðaði sér hið skjótasta undan grjótkastinu.  Hvað olli þessu?  Gázki? Slæmt uppeldi?  Í augum fólks, sem þarf ekki annað en að bregða sér út í búð til að sækja lífsnauðsynjar, lítur slíkur leikur illa út.  Eftir nokkrar vangaveltur komst ég að þeirri niðurstöðu, að þetta væri arfgeng veiðináttúra, sem hefði geymzt teinöldum saman með fólkinu hér.

Hinn atburðurinn gerðist sama sumar.  Ég var á leiðinni á veiðar til innstu fjarða Scoresbysunds með nokkrum Grænlendingum.  Við lögðum bátnum okkar við Danmerkureyju, þar sem vinur minn, Erich Hintersteiner, byggði sér bækistöð, þegar hann vann þarna að málmleit.  Erich er frá Salzburg og stjórnaði jarðfræðirannsóknum Norræna námufélagsins á austurströndinni.  Hann var svo sannarlega verðugur fulltrúi heimalands sins á þessum slóðum.  Hann bjó yfir góðum stjórnunarhæfileikum og þekkingu á viðfangsefni sínu.  Hann skorti ekki áræði og vilja, þegar slíks var þörf, og var vel virtur.

Við vörpuðum akkeri og rérum allir til lands.  Við vorum sex saman, Peter Brönlund, tíu ára sonur hans og þrír aðrir.  Erich tók vel á móti okkur, sýndi okkur nýbyggt húsið sit tog bauð okkur inn í kaffi.  Það var vel þegin tilbreyting eftir að hafa snætt selkjöt dögum saman á bátnum.  Talstöðin bilaði á leiðinni, svo að Erich náði sambandi við Tóbínhöfða um sína til að tilkynna, að við værum hjá honum í góðu yfirlæti.

Að rösklega klukkutíma liðnum, þegar við tygjuðum okkur til farar, fannst Peter yngri hvergi.  Líklega hafði hann gert einhvern óskunda af sér og falið sig.

Svo var þó ekki.  Þegar hann sá fararsnið á okkur, kom hann hlaupandi niður hlíðina með nokkrar rjúpur dinglandi sér við hlið.  Ég leit spyrjandi á hann og lét sem ég mundaði riffil, þótt ég sæi, að hann bar engan slíkan.  Hann hristi höfuðið hlæjandi, beygði sig eftir hnefastórum steini, miðaði og hitti mark í 30 skrefa fjarlægð.  Eftir afla hans að dæma virtist nóg af rjúpum á eyjunni, þótt ég sæi engar aðrar en þær, sem hann kom með.

Þessi veiðiáhugi er hluti af sjálfsbjargareðli fólksins hér og á ekkert skylt við þjónkun við lægri hvatir.  Grænlendingarnir eru ekki að reyna að drepa tímann með veiðum, þeir eru að draga björg í bú.  Fyrir skinning kaupa þeir ýmislegt girnilegt í búðarholunum, eitthvað, sem þeir geta ekki aflað sér úti á ísnum.  Það eru enn þá til afskekktar ættkvíslir, sem hafa enga aðra björg en veiðarnar.

Því má ekki gleyma, að íbúarnir í héraðinu við Scoresbysund hafa sýnt lofsverða viðleitni til verndunar dýrastofnanna, þrátt fyrir veiðiástríðuna og nauðsyn viðhalds mannlegs lífs á þeim slóðum.

Sauðnaut voru orðin svo fá, að við auðn lá.  Það voru aðeins nokkur hundruð eftir  í kringum Scoresbysund og á eyjunum norður af.  Þetta voru síðustu villtu nautgripirnir í Grænlandi.  Árið 1950 gripu dönsk stjórnvöld til mikillar takmörkunar veiða með lögum.  Nú mega íbúar Scoresbysunds, Vonarhöfða og Tóbínhöfða aðeins fella svo mörg dýr, að hver íbúi fái sem svarar 30 kíló kjöts fyrir hver jól.  Þessar ráðstafanir hafa vafalaust bjargað stofninum.

Eigi maður leið meðfram ströndum Jamesonslands nú, er algengt að sjá tuttugu til þrjátíu dýra hjarðir sauðnauta á beit.  Árið 1974 var stofnaður þjóðgarður í Norðaustur-Grænlandi og öll dýr þar alfriðuð.  Þessi friðunaráhugi er stofninum geysileg lyftistöng, því að sauðnautin eiga sér enga aðra hættulega óvini en manninn.  Hvítabirnir forðast jafnvel að verða á vegi þeirra.  Þeir eru varnarlausir gegn heilli hjörð.  Verði hún fyrir áreitni, snýst hún öll til varnar, tarfarnir í fremstu víglínu en kýr og kálfar að baki þeirra.

Friðun þessara dýra er ekki einungis hugsjónalegs eðlis, heldur raunsönn.  Komi slík harðindi á þessum slóðum, að taki fyrir flutninga, á fólkið þarna víst forðabúr, sem getur bjargað lífi þess.  Árangur friðunarinnar hefur hvatt fólk víðar í Grænlandi til dáða.  Nú hafa til dæmis nokkur sauðnaut verið flutt til Syðri-Straumfjarðar á vesturströndinni, þar sem þau voru algerlega horfin vegna ofveiði.
Það er til fyrirmyndar, hve mikinn skilning veiðimennirnir við Scoresbysund hafa sýnt þessum aðgerðum.  Vonandi má vænta svipaðs árangurs af samkomulaginu í Ósló um friðun hvítabjarna.  Til frekara öryggis mætti koma í veg fyrir að feldir þeirra fengjust seldir á alþjóðlegum skinnamörkuðum og kæmust því ekki þannig á almennan markað.  Þetta ylli vafalaust nokkrum Grænlendingum búsifjum, en gæti komið í veg fyrir, að síðasta hvítabirninum yrði fórnað á altari mammons.

Veiðimenn, sem ég veit til að hafi fellt hvítabirni, hafa allir selt skinning og farið í baðmullarklæðum til veiða.  Þeim verðdur líka oftast kalt í þessum ferðum.  Það væri líklega skynsamlegra fyrir þá að sníða sér klæði úr skinnunum, þótt þeir fái vel borgað fyrir þau.

Allar þessar hugsanir flugu um huga mér, þegar við ókum um „Hvítabjarnardalinn”.  Slóð dýrsins var horfin eftir rokið síðustu daga og nætur og nú varð aftur orðið nístandi kalt.  Himinninn var skafheiður.  Það væri örlítl tilbreyting að sjá nokkrar skýjatjásur takast á við Kára á fjallatindum.

Jakob átti sannarlega afbragðshunda.  Það var gaman að sjá þá breiða úr sér eins og blævæng framan við sleðann.  Erinaq, forustuhundurinn, var alltaf skrokkslengd framar hinum.  Hann var stærri og sterkari en þeir og vissi, að hann var foringinn.  Hann var drottnari hópsins.  Þessa stöðu hafði hann áunnið sér með harðdrægni í blóðugum átökum og beitti henni miskunnarlaust.  Hann hafði stöðugt auga með hinum hundunum eins og hann vildi segja:  „Þið skuluð ekki voga ykkur að slaka á taumunum.”

Sem ég var að virða fyrir mér, hvernig hundarnir tólf liðuðust áfram í bylgjum, ropuðu rjúpur skammt frá okkur.  Ég skimaði í áttina til hljóðsins en sá ekkert kvikt.  Hvíti vetrarhamurinn þeirra er góður felubúningur í snjónum.  Jakob greip riffilinn og stökk af sleðanum.  Rjúpurnar styggðust og flugu upp, en þá heyrðust tveir skothvellir og kvöldverður okkar var tryggður.

Litli veiðikofinn á Swainsonhöfða var harla fábrotinn og líktist kofanum á Rathbone-eyju, sem við gistum fyrr.  Þessar bækistöðvar minntu mig alltaf á neyðarskýlin í ölpunum.  Við mokuðum frá innganginum, negldum pappaspjald fyrir gluggann, sem stormurinn eða hvítabjörn höfðu brotið, skófluðum snjónum af svefnstæðinu og breiddum úr skinnunum.

Það var kalt inni og daunn af reyk, storknuðu blóði, þvagi, saur og lýsi.  Þetta var sami fnykurinn og svífur yfir hverri grænlenzkri byggð og allir verða samdauna með tímanum.  Hérna var hann svo magnaður, að mér lá við öngviti.  Ekki bætti úr skák, að við kveiktum á prímusnum.  Tárin streymdu úr augum mér á meðan Jakop sauð rjúpurnar.  Ég hafði oft vorkennt hundunum að þurfa að liggja úti, hvernig sem viðraði, en ú sáröfundaði ég þá af hreina loftinu.

Jakob lét prímusinn loga hálfa nóttina til að ná upp smáhita í kofanum.  Það olli því, að mér kom ekki blunder á brá.  Hvert hóstakastið af öðru reið yfir mig alla nóttina.  Morguninn eftir þjáðist ég af vægri reykeitrun og fann til velgju.  Kverkarnar voru skraufaþurrar og mér leið sem ég væri þræltimbraður.  Heilsan kom smám saman aftur á leiðinni að ísjaðrinum.  Ég var hér um bil búinn að ná mér, þegar Jakob stöðvaði sleðann á ísnum eftir á að gizka klukkutíma ferð, greip skóflu og fór að grafa holu við hliðina á honum.

Hvað átti þetta að þýða?  Ég kom af fjöllum.  Var jakob ekki með öllu mjalla?  Ég þóttist viss um, að Elsner hefði aðvarað mig fyrir brottförina, ef svo hefði verið.  Þá hefði hann ekki viljað vita af mér einum með Jakobi.

„Hann er bezti veiðimaðurinn okkar,” hafði Elsner sagt, „en hann er líka áflogahundur og ofbeldisseggur, sem trúandi er til alls.  Þegar áfengið er skammtað, brýtur hann all tog bramlar og kúgar alla.  Jæja, svo hann ætlar með þig í veiðiferð núan.  Já, hann er slunginn.”  Elsner brosti eins oig hann vissi eitthvað, sem ég skildi ekki og ég horfði því spyrjandi á hann.

„Ég kallaði Jakob fyrir mig áðan og hótaði honum öllu illu, ef hann bætti ekki ráð sitt, og gekk svo langt að hóta honum að senda hann í steininn á vesturströndinni.”

Nú rann upp fyrir mér ljós.  Þarna var skýringin á því komin, hve Jakobi lá mikið á að komast með mig til Swainsonhöfða.

En, hvers vegna var hann að grafa í snjóinn?  Ætlaði hann að koma mér fyrir kattarnef?  Hvaða ástæðu hafði hann til þess?  Þurfa ofstopamenn nokkra ástæðu fyrir gerðum sínum?  Hvers vegna var hann að leggja á sig allan þennan mokstur hér, þegar allt var auðveldara við ísjaðarinn?  Þar þurfti aðeins smáhrindingu, auðvitað alveg óvart, og ég fengi að kynnast ísnum neðan frá.  Hann gat skirt það sem slys, að ég hefði verið svona óvarkár.

Þetta voru heimskulegar hugleiðingar.

Jakob hlaut að vita, hvað hann var að gera.

Forvitnin rak mig til að athuga, hvað um var að vera.  Holan var orðin næstum hálfur metri í þvermál og neðst í henni var krapaelgur.  Ég leit spryjandi á Jakob.  Hann skynjaði forvitni mina, hætti að moka, hallaði aftur höfðinu og dró andann kröftuglega.  „Piusse,” sagði hann.

Auðvitað.  Nú skildi ég.  Þetta var öndunarop.  Selirnir grafa sig í gegnum ísinn til að komast upp að anda og halda götunum síðan opnum allan veturinn.  Það er mér samt ráðgáta, hvernig Jakob vissi af þessu opi.  Það var ekki að ástæðulausu, að hann var viðurkenndur bezti veiðimaður Scoresbysunds.

Hann hélt áfram að moka.  Það varð að vera nóg pláss fyrir netið, sem smeygt er niður um ísinn til að veiða selina í.  Til þess þurfti að gera tvö aukaop, sitt hvorum megin við öndunaropið.  Þetta var þaulhugsuð veiðiaðferð, en ákaflega tímafrek og erfið.

Við fundum tvö önnur öndunarop á leiðinni að ísjaðrinum og höfðum því nóg að gera allan daginn.  Það var varla skotbjart, þegar við komum loks að ísbrúninni.

Já, dagarnir geta orðið langir úti á ísnum, sérstaklega, þegar hvorki er vott né þurrt meðferðis og frostið 40°C.  Auk þess urðum við að hafa vakandi auga á hverju spori.  Það er margt líkt með fjallaklifri og sleðaferðum á lagnaðarísnum.  Eitt ógætilegt spor getur leitt til ófarnaðar.

Jakob sýndi allar sínar beztu hliðar við veiðarnar, svaraði spurningum mínum greiðlega og lét mig taka til hendinni með sér.  Það gladdi mig mjög, að hann leit á mig sem fullgildan veiðifélaga, en ekki einhvern ónothæfan aðskotahlut.  Hann var varkár og alls trausts verður.  Í stuttu máli, sómadrengur.

Það var leiðinlegt til þess að hugsa, að hann var ekki með sjálfum sér þessa þrjá daga í mánuði, sem áfengið var skammtað.  Þetta var siðmenningarkvilli, sem Grænlendingar geta alveg verið án.  Áfengið er sannarlega bolvaldur margra í þessum heimi.  Það hefur eytt stórbrotnum menningum, úrkynjað og bundið heilu þjóðirnar við klafa.  Það hefur líka sett mark sitt á Grænland, en ekki svo alvarlegt, að óbætanlegt sé.  Það tekur tíma og vilja að bæta úr skák.

Bann hefur aldrei verið heillavænleg lausn.  Þess vegna var áfengið skammtað í Scoresbysundi.  Fólkið átti að kynnast því með tímanum.

Fyrsti miðvikudagur hvers mánaðar er skömmtunardagur.  Þá er skammtað magn hvers mánaðar og sumir hella því í sig á leiðinni heim.  Ástandið er verst á skömmtunardögum vegna þessa hátternis og þá er einna bezt að halda sig innan dyra, því þá ríkir styrjaldarástand á götum úti.

Næsta dag er ástandið betra, því flestir eru þá orðnir aðframkomnir og liggja í móki heima eða úti um grænar grundir.  Á þriðja degi fer lífið að fá eðlilegan svip aftur.

Jakobi vannst rétt tími til að skjóta lítinn sel fyrir okkur og hundana áður en myrkrið skall á.  Það var orðið svo dimmt á leiðinni til baka, að við fundum naumast sporin okkar aftur.

Ég reyndi að hjálpa til eins og ég gat í kofanum.  Jakob verkaði selinn, en ég sótti snjó í pott og annaðist prímusinn.  Við fengum beztu bitana, en hundarnir afganginn.  Þeir höfðu fengið veður af blóðinu og ýlfruðu og toguðu í höftin.  Þeir voru banhungraðir, þv´að þeir höfðu ekkert fengið að éta frá því að við fórum frá Scoresbysundi.  Við skiptum um haus á prímusnum til að koma í veg fyrir frekari reykeitrun og skriðum síðan mettir í svefnpokana.  Hundarnir voru líka gengnir til náða.

Ólgandi hafið var drepið í dróma íss og lét ekki á sér kræla.  Heimskautsþögnin var allsráðandi.  Timburkofinn okkar, upplýstur af einum kertisstúf, var eins og eyja í ginnugagapi næturinnar.

Jakob lá við hlið mér og reykti pípuna sína.  Að vísu var hann af öðrum kynþætti en ég, en það skipti ekki máli.  Allar aðstæður þessa einfalda og frumstæða lífs gerðu okkur jafnt undir höfði.

Þar sem við lágum þarna, fannst mér sem tíminn hefði hrokkið margar aldir aftur á bak.  Það var skrítið til þess að hugsa, að tuttugasta öldin með öllum sínum tækniafrekum og menningarviðburðum, alsæld og örbirgð, spillingu og ofbeldi, ríkti raunverulega um allan heim.

Jakob lagði frá sér pípuna, brosti breiðu, tannlausu brosi og tautaði eitthvað, sem efalaust þýddi „góða nótt”.

„Góða nótt Jakob.  Þú ert ljómandi náuingi.”  Hann vissi ekki, hvað orðin þýddu, en samt held ég, að hann hafi skilið mig.  Það væri leitt, ef hann yrði sendur í dýflissuna á vesturströndinni.  Austurströndin þarfnaðist svona manna.  Það mátti ekki dæma hann af hegðun hans á skömmtunardögum.  Hann var öðlingur inni við beinið.  Við eigum líka sök á þessu, því að við látum þennan görótta drygg af hendi og þiggjum meira að segja greiðslu fyrir.

Ég skreið aftur upp úr pokanum og fór út.  Það var stjörnubjart og bragandi norðurljósin loguðu.  Hundarnir vöknuðu við marrið í hurðinni, stóðu upp og hristu sig.  Ég færði mig nær þeim og talaði róandi við þá.  Þeir hvorki urruðu né sýndu tennurnar.  Við vorum orðnir góðir vinir.  Ég klappaði þeim hverjum af öðrum.  Þeir kunnu því bersýnilega vel og þrýstu sér að mér.  Þessi ánægjustund varð ekki löng, því kuldinn knúði mig í svefnpokann aftur.

Morguninn eftir stóð Jakob gleiðfættur yfir fyrsta öndunaropinu, sem hann hafði lagt net í deginum áður.  Hann hjó burtu nýja ísinn, gætti þess vel að höggva böndin ekki í sundur og mokaði honum úr holunni.

Mér lék forvitni á að vita, hvort nokkuð væri í netinu eða hvort erfiði gærdagsins væri unnið fyrir gíg.  Jakob tók af sér vettlingana og greip í efsta hluta netsins til að athuga, hvort nokkuð væri í því.  Svo leit hann á mig með bros á vör og lét það síga á ný.

Við tókum til við að draga fenginn upp úr vökinni og ég horfði eftirvæntingarfullur niður í hana milli fóta mér.  Þarna kom haus með burstum, augun brostin, og síðan búkurinn.  Vökin var of lítil, svo við létum hann síga aftur og stækkuðum gatið.  Svo reyndum við varlega aftur.  Við gætum misst þennan boldangsbrimil, ef netið rifnaði.  Allt gekk vel og brátt lá hann á skörinni hjá okkur.

Það hefði verið ærinn starfi fyrir einn manna ð hífa kobba upp úr vökinni, því hann hafði barizt svo um í netinu, að hann líktist helzt rúllupulsu.  Það var því vandaverk að losa hann án þess að skemma netið.  Vettlingatök dugðu ekki.  Við urðum að greiða stíffrosið netið með berum höndum.  Það kom í ljós, að Grænlendingar eru líka mannlegir, því Jakob þurfti ekki síður að berja sér til hita en ég.

Þegar við vorum búnir að skilja selinn og netið að, komum við því aftur fyrir í vökinni, sveifluðum selnum upp á sleðann og héldum að næstu vök.

Sagan endurtók sig tvisvar þann daginn, áður en við gætum haldið að ísjaðrinum.  Við gátum svo gott sem gengið að vísum afla í netunum á hverjum degi, en létum það ekki nægja og héldum að ísbrúninni til að freista þess að ná fleiri selum þar.  Við skildum aflann eftir við vakirnar og hlóðum honum á sleðann í bakaleiðinni til að vera ekki of þunghlaðnir á næfurþunnum ísnum.

Í þessum daglegu ferðum að ísjaðrinum sá ég bezt, hve breytilegur hann er.  Einn daginn var aðeins smárenna auð, en næsta dag gat að líta auðan sjó svo langt, sem augað eygði.  Stundum þurftum við að aka heila klukkustund frá síðustu vökinni okkar að ísbrúninni, en næsta dag gat allt verið breytt og við þurftum aðeins að aka í nokkrar mínútur.  Ísinn var á stöðugri hreyfingu með straumnum, sem sveigir milli Brewstershöfða og Tóbínhöfða.

Einn daginn urðum við að aka langar leiðir á veikum nýís.  Það tekur á taugarnar að aka á marrandi og brakandi skæninu og vita, að hvert andartak getur orðið hið síðasta.  Taugar mínar voru orðnar gatslitnar og mér brá í hvert skipti, sem heyrðist í ísnum.  Þessi dagur var engin undantekning.  Þar sem ég stóð nokkra metra frá ísjaðrinum, heyrði ég skyndilega ógnarhávaða og stóð stjarfur af hræðslu.  Það var engu líkara en ísinn væri að bresta undan fótum mínum.  Ég stóð eins og dæmdur og þorði hvorki að hreyfa legg né lið.  Ég þorði varla að anda.  Óttinn dvínaði lítið eitt, skynsemin náði yfirhendinni og ég færði mig á öruggari stað.

Jakob stóð í nokkurra metra fjarlægð.  Hann hlaut að hafa séð, hve mér var brugðið og lesið óttann í augum mér.  Hann var þó svo nærgætinn, að hann lét sem ekkert væri, kom til mín, lagði byssuna frá sér á sleðann og sagði:  „Uvdlume ikke piusse” – engir selir í dag.

Hann sagði þetta svo sakleysislega, að mér fannst allt snúast um selveiðarnar en ekki um sálarástand mitt.  Svo hagræddi hann aktygjunum og benti mér að setjast á sleðann.

Við tókum stefnuna á íshryggina í fjarska.  Jakob stanzaði gjarnan þarna á milli himinhárra jaka og hryggja til að skyggnast eftir hvítabjörnum.  Ég hafði líka áhuga á því að kynnast þessari dýrategund nánar í sínu náttúrulega umhverfi, en verð að viðurkenna, að ég hugsaði ekki mikið um það í þetta skiptið.  Ég var svo feginn að hafa ísskænið að baki og traustan ís undir fótum.

Jakob hélt ekki lengi kyrru fyrir á sama stað, hvort sem við vorum við ísjaðarinn eða milli ísjakanna.  Það átti ekki við hann að bíða lengi eftir bráðinni.  Hann ók frekar fram með ísröndinni og skaut af sleðanum eða leitaði hvítabjarna milli jaka og hryggja.

Framundan risu nú háir og illfærir hryggir og við stigum af sleðanum til að létta undir með hundunum.  Við lyftum honum ýmist að framan eða ýttum á hann af öllum kröftum.  Þegar hindrunin var að baki og sléttur ís tók við, máttum við ekki vera höndum seinni að stökkva upp á sleðann, ella hefðum við staðið á ísnum eins og strandaglópar.

Jakob hafði leyst tvo hunda til að leita bjarna.  Þeir snuðruðu af ákafa um allt, voru stundum lengi í hvarfi en birtust svo uppi á einhverjum jakanum og hurfu jafnskjótt aftur.

Við stefndum á himinháan ísjaka, sem trónaði upp úr ísbreiðunni.  Jakob stöðvaði sleðann, benti á hann og sagði:  „Nanoq – nanoq” og lét sem hann mundaði riffil.  Ég skildi ekki strax, hvað hann átti við, en áttaði mig fljótlega á því, að þarna hefði hann skotið hvítabjörn tveimur vikum áður.

Við ókum í kringum jakann, stönzuðum handan hans og Jakob fór að gramsa í hafurtaski sínu.  Ég notaði tímann til að taka nokkrar myndir.
Þegar ég kom aftur að sleðanum, var Jakob að meitla holu í ísinn af miklum móði.  Ég gekk frá myndavélinni og tók svo til við að hjálpa honum án þess að vita, hver tilgangurinn væri.  Ég hefði tæpast verið svona hjálpsamur, ef ég hefði fvitað, hvað kæmi upp úr holunni.  Hvílíkur viðbjóður!

Holan varð stöðugt dýpri.  Ísinn var að minnsta kosti eins metra þykkur.  Vuð hjuggum til skiptis og hinn mokaði ísmulningnum upp.  Eftir tveggja stunda erfiði, brutumst við loks í gegn.  Þarna var net með selshræi, sem við drógum á þurrt.
Það var ekki sjón að sjá selinn.  Hann var alsettur götum og út um þau gægðust stórir og feitir ormar og lirfur, sem höfðu greinilega ekki liðið skort.  Þessi lindýr voru fingurþykk og glær eins og hellaeðlur, sem hafa aldrei séð dagsins ljós.  Ég varð að líta undan.  Ég gat ekki afborið að horfa á þessi spikfeitu sníkjudýr, sem liðuðust ú tog inn um götin.  Samt var sem ég gæti ekki slitið augun af þessari viðurstyggð.

Jakob þrýsti meðberum höndum í kringum götin.  Ég var viss um, að hann myndi fleygja þessu öllu saman aftur ofan í vökina.  Mér skjátlaðist hrapallega.  Hann fór að greiða netdræsuna utan af hræinu og ég stóð hjá án þess að lyfta fingri til hjálpar.  Hann ætlaði greinilega ekki að skilja það eftir, því það kæmi að notum síðar.

Þegar hann var búinn að brjóta saman netið, greip hann í afturhreifarnar á selnum og gerði sig líklegan til að koma honum fyrir á sleðanum.  Þá var mér nóg boðið.  Ég hljóp til hans og reyndi með öllum ráðum að fá hann ofan af þessu.  Ég bauðst til að borga honum hvað sem hann setti upp,m ef hann skildi hræið eftir.  Hann skildi mig mæta vel og sá, hve mér bauð við þessu, en það var ekki tauti við hann komandi.  Hann dró skrokkinn nær sleðanum, þrýsti á húðina við eitt gatið, náði í feitan orm, sem hann skoðaði gaumgæfilega og fleygði honum svo til hundanna.
Ég sá fyrir mér, hvernig umhorfs væri inni í belgnum, þar sem þessi viðbjóðslegu kvikindi skriðu hvert um annað þvert, átu sig í gegnum iður og kjöt og holuðu skrokkinn þar til belgurinn og beinin urðu ein eftir.

Þessar ókræsilegu hugsanir urðu maga mínum ofraun.  Ég ældi eins og múkki og ætlaði aldrei að geta hætt, því að mér fannst ég vera með fullan munninn af ormum.  Ég hætti loks og herti upp hugann.  Það þýddi ekki að vera með múður.  Jakob var sterkari en ég og réði.  Hann hlaut að hafa sínar ástæður til að vilja hirða þennan ófögnuð.  Ég safnaði kjarki og tók um hausinn á selnum.  Þá losnuðu úr honum augun og tveir ormar birtust í tóftunum.  Með einni sveiflu fleygðum við honum upp á hina selina á sleðanum.

Ég reyndi að vera eins fjarri ormabelgnum og kostur var á bakaleiðinni, en þreytan gerði það að verkum, að hún varð viðbjóðnum yfirsterkari og ég hallaði mér stöðugt nær honum.

Um kvöldið sagði Jakob mér, að hann hefði lagt þetta net í fyrstu frostum í október og ekki komizt til að vitja þess fyrr en nú.  Hann var ekki svo vitlaus eftir allt saman.  Hann hafði beðið þess að fá einhvern einfeldning til að hjálpa sér við að grafa holuna í ísinn.  En hann gat ekki skilið, hvers vegna mér fannst ormarnir svo andstyggilegir.

Daginn eftir kom elzti sonur Jakobs með tóman sleða til að sækja veiðina og flytja hana heim.  Það leyndi sér ekki, að feðgarnir voru ánægðir með aflann.  Við höfðumst ekki annað þennan dag og tókum lífinu með ró til næsta dags.

þá fórum við aftur á stúfana, sóttum þrjá seli í netin og skutum hinn fjórða við ísjaðarinn.  Við létum fjóra seli á dag nægja og huguðum að hvítabjörnum, ef tími vannst til á bakaleiðinni.  Svo virtist sem draumur minn um að hvítabjörn ætlaði ekki að rætast.

Hins vegar átti ég eftir að kynnast enn annarri hlið hinnar ströngu heimsskautsnáttúru og má teljast heppinn að hafa sloppið með skrekkinn.

Þessi viðburðaríki dagur byrjaði ósköp venjulega.  Himinninn hvelfdist yfir okkur heiður og blár og frostið var í kringum 25°C.  Það var næstum logn og gott skyggni til landsins, en dökkur þokubakki grúfði yfir ísjaðrinum.
Við gerðum okkur klára og héldum af stað.

Þegar við vorum að huga að fyrsta netinu, leituðu augu mín ósjálfrátt og oftar en venjulega í átt að ísröndinni.  Það var sem ég skynjaði forboða mikillar og yfirvofandi hættu.

Ég reyndi að hrista þetta af mér.  Það var bara þokan, sem gerði allt svona drungalegt.  Þrátt fyrir þessar sjálfsfortölur varð mér ekki rótt.  Ég starði án afláts á þokuvegginn og beitti öllum skynfærum til hins ítrasta.

Var ekki einhver þytur í lofti, einhver lágur dynur, sem heyrðist varla?

Ég leit á Jakob og hundana.  Það var ekki að sjá, að þeir skynjuðu neitt óvenjulegt.  Líklega voru taugar mínar ofþandar af einverunni og ferðunum á næfurþunnum ísnum.  Hættan var þarna, en hver, hvar og hvenær?  Þokubakkinn var ískyggilegur.

Við komum fyrsta selnum fyrir á sleðanum og ókum að næstu vök.  Óöryggistilfinningin magnaðist, þegar dró nær þokunni og fjær ströndinni.  Ég þekkti þessa þoku.  Hún myndast þar sem skörp og mikil skil verða á hitastigi vatns og lofts og liggur oftast yfir auðum sjó nema einhver vindur sé.  Það er fremur fátítt, að þokubólstrarnir verði svo háreistir, að þeir skyggi á sólu.  Við stönzuðum við aðra vökina og fórum að losa netið.

Bíddu við!  Þarna heyrðust drunurnar aftur og miklu skýrar og nær en áður.  Þær voru líkastar fjarlægum dyn frá berghlaupi eða snjóflóði.  Ég leit á Jakob.  Nú hlaut hann að hafa heyrt þetta líka.  Líklega hafa augu mín endurspeglað óttann og óöryggið, sem menn finna, þegar þeir standa frammi fyrir hættu, sem þeir þekkja ekki

Jakob hætti að pjakka með ísmeitlinum og benti í átt til ísjaðarsins:  „Mange, mange is”, sagði hann og táknaði ölduhreyfingu með höndunum.  Þessar bylgjur voru á leið inn Scoresbysund utan af Dumbshafi.  Það var þá þetta, sem þokubakkinn hafði falið sjónum okkar.  Heilu ísbreiðurnar voru á leið inn sundið í átt til okkar.

Á þessari stundu var mér ómögulegt að gera mér grein fyrir því, sem var að gerast handan þokunnar.  Við drógum selinn á land og byrjuðum að losa hann úr netinu.
Þá buldið við brestur og ísþekjan lyftist og fell eins og í landskjálfta.  Jakob sleppti öllu og stökk á fætur.  Það gerðist allt í senn, að þokan sviptist frá og ógnarhár ísveggur byltist í átt til okkar.
Hjarta mitt barðist, en sjálfur stóð ég án þess að geta hrært legg eða lið og vissi ekki, hvað ég átti til bragðs að taka.

Dauði og tortíming vofðu yfir okkur í mynd þessarar sundurtættu ísbreiðu, sem nálgaðist með ógnarhraða.

Ísjakar lyftust, ultu hver um annan með brauki og bramli og ísinn í kringum okkur brast með háum hvelli.

Á sama andartaki stukkum við upp á sleðann og þutum af stað yfir bylgjandi ísinn.  Hundarnir voru óðir af skelfingu og létu illa að stjórn.  Sumir vildu hlaupa til vinstri, aðrir til hægri, en með harðfylgi og aðstoð svipunnar náði Jakob yfirráðunum og beindi þeim til strandar.  Rétt aftan við okkur lyftist stór ísjaki, hallaðist yfir okkur og sjórinn spýttist upp eftir honum.  Ísflekinn, sem við vorum á, hallaðist ískyggilega.  Selurinn þeyttist af sleðanum og hvarf í ólgandi ísmulninginn.

Mundi flekinn brestan undan okkur?

Sjórinn spýttist í strókum upp um sprungurnar í kringum okkur.  Voru þetta endalokin?  Átti fyrir okkur að liggja að hljóta kalda og vota gröf fyrir Grænlandsströndum?

Jakob barði hundana áfram og knúði þá til hins ítrasta.  Hann líktist helzt rómverskum stríðsekli.  Ég ríghélt mér í sleðann og starði stjarfur á ringulreiðina í kringum okkur.  Hvers vegna fórum við ekki hraðar?

Það var eins og þessi martröð ætlaði aldrei að taka enda og mér fannst sem við hlypum af öllum kröftum en kæmumst ekki úr sporunum.

Loksins komumst við á traustan ís og spennan rénaði.  Jakob snéri sér að mér og í augum hans las ég léttinn.  Það var sem hann vildi segja:  „Lánið hefur ekki yfirgefið mig.  Það tókst einu sinni enn þá.”

Já, ísinn hefur mörg andlit.  Eitt þeirra, og ekki hið vinalegasta, hafði birzt okkur í dag.  Eitt er víst, að ég mun aldrei gleyma því.  Í fjarska hélt hafið áfram að mala ísinn og drunurnar bárust til okkar.  Mín vegna máttu náttúruöflin halda leik sínum áfram svo lengi sem þau lysti.  Við vorum komnir í örugga höfn.  Ég minntist þess, að heima var alltaf haldið upp á svona atvik, þegar menn höfðu sloppið naumlega úr lífsháska í fjöllunum.

Við höfðum ekkert meðferðis til hátíðabrigða, svo að lífið gekk sinn vanagang í kofanum á Swainsonhöfða.  Jakob verkaði sel en ég sótti snjó og kveikti undir pottinum.  Svo settumst við að snæðingi við litla borðið.  Borðsiðirnir voru ekki eins og gerist á beztu veitingahúsum, en maturinn bragðaðist afbragðsvel.  Hnífapörin voru tveir vasahnífar og tuttugu fingur, sem lýsið draup af og við sleiktum.  Jakob rétti mér lungamjúk rifjastykki og ég sötraði feitt og brúnt seyðið með.  Eftir matinn fengum við okkur nokkra bolla af neskaffi og lukum þannig veizlunni.

Jakob gaf mér til kynna, þegar við vorum að drekka kaffið, að hann ætlaði til Scoresbysunds daginn eftir.  Ég verð að viðurkenna, að mér fannst það góðar fréttir.  Þessa tíu daga höfðum við ekki farið úr einni einustu spjör og vorum orðnir grútskítugir yzt sem innst.

Ég þráði að komast í snertingu við vatn og sápu, en samt var sú þrá sterkust, að losna undan þessum eilífa taugaspenningi í nokkra daga.

Línudansinn á ísjaðrinum og tilfinningin, að við næsta skref gæti maður kynnst ísnum neðanfrá, tekur á sterkustu taugar.

„Ég ætlaði að fara að senda einhvern til að huga að ykkur,” sagði Elsner, þegar hann tók á móti okkur í Scoresbysundi daginn eftir.

„Okkur leið vel.  Þetta voru dásamlegir dagar.”

„Komdu og fáðu þér kaffisopa með mér.”

„Já, þakka þér kærlega, en first ætla ég úr dúngallanum.  Það er hægt að finna af mér óþefinn í hundrað metra fjarlægð á móti vindi.”

Þegar ég hafð þvegið af mér yzta drullulagið, settist ég til borðs með Elsner í vistlegri stofunni, sem hefði sómt sér vel hvar sem var í Danmörku.  Á miðju gólfi stóð stórt borð, við langvegginn nokkrir samstæðir stólar og á veggjunum hengu olíumálverk af dönskum og grænlenzkum fyrirmyndum, fjölskyldumyndir og myndir af dönsku konungsfjölskyldunni.  Við suðurgluggann stóð stórt borð með blómstrandi blómum, greinilega stolti húsmóðurinnar.  Einna mest bar þó á stórum bókaskáp, fullum af bókum og nokkrum árgöngum af National Geographic Magasine.  Við þessa sjón duttu mér í hug gamlir íslenzkir málshættir:  „Betri eru bækur en skór,” og „Blindur er bókarlaus maður.”

Hér á Austur-Grænlandi er lítið annað við að vera í tómstundum en að lesa góðar bækur og auðga andann.

Þótt stofan bæri þægilegt, danskt yfirbragð, fannst mér mest koma til hinna mörgu og fágætu, grænlenzku gripa, sem var smekklega raðað.  Svartar, útskornar dansgrímur með tár úr sauðnautshári, tveggja metra löng og þrjátíu kílóa þung náhvalstönn, rostungstennur og „tubelaq”, sem voru skornir út í bein og sýndu dularfullar verur, hálfmenni eða hálfdýr, sem urðu til í hugarheimi forfeðranna.

„Hvernig hagaði Jakob sér?” var fyrsta spurning Elsners.

„Vel.  Hann er afbragðsnáungi.  Einn þeirra, sem ekki bregzt!”

„Já, mér datt svo sem í hug, að þú mundir taka málstað hans.”

„Ég er ekki að verja hann, en ég held, að enginn, sem hefur ekki farið með honum á veiðar, þekki hinn sanna Jakob.  Ég vona bara, að allar bollaleggingar um að senda hann í steinninn séu úr sögunni.”

„Að minnsta kosti fram að næstu skömmtun.”

„Ég geri mér grein fyrir því, að hann á við erfiðleika að stríða.  Ég veit líka, að hann er afbragðs veiðimaður.  Og hverjum er að kenna, að hann getur keypt þennan fjanda, sem gerir hann vitlausan?”

„Það er erfitt að svara þessum röksemdum.  Jakob er heppinn að hafa farið með þér á veiðar.  Ætli ég verði ekki að hlífa honum við steininum úr því að hann hefur eignast svona góðan málsvara.  En svo að ég víki að öðru,” sagði Elsner og horfði á mig rannsakandi augnaráði.  „Mér skilst, að þér falli vela ð lifa lífi Grænlendings.”

„Hvað áttu við með því, Elsner?”

„Kristján Sanimuinak sagði mér frá hundafóðrinu, sem þið lögðuð ykkur til munns.”

„Okkur stóð ekkert annað til boða.”

Elsner hafði rétt fyrir sér.  Mér féll vel félagsskapur hinna grænlenzku vina minna og lét ekki á mig fá, þótt veiðiferðirnar væru svaðilfarir, sem við komum grútskítugir og daunillir úr.

Vinir mínir heima hefðu fitjað upp á trýnin og konur þeirra jesúsað sig í bak og fyrir, ef þau hefðu séð útganginn á mér þá.  Sjálfum stóð mér ekki á sama, þegar ég leit í spegil:  Hárið úfið og klístrað, varirnar þurrar og sprungnar, andlitið frostbólgið og þakið skit og margra daga skegghýjungi.

Ég held, að ég láti þetta næga og minnist ekki á hendurnar.

Voru nokkrar líkur til þess, að ég losnaði við merkin, sem heimskautsveturinn hafði sett á mig?  Hendur félaga minna hérna voru grófar og grútskítugar en hjörtu þeirra hlý.  Ég vildi ekki skipta á þeim og einhverjum með þvottakonuhendur og ísklump í hjartastað.  Hinn siðmenntaði heimur var orðinn að fjarlægu hugtaki, sem mér stóð á sama um.

SJÖTTI KAFLI


.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM