Grænlandsvetur fjórði kafli,

FIMMTI KAFLI

GRÆNLANDSVETUR
eftir Mattias Koglbauer
Á hundasleðum um heimsskautssvæði

FJÓRÐI KAFLI
STÓRHRÍÐ

.

.

Utanríkisrnt.


nat.is

Dögum saman hafði geisað stórviðri með hríð og ógurlegum verðurhljóðum.

Kristján, grænlenzkur vinur minn, og ég lágum á freðnu gólfi veiðikofa í Rathboneeyju fyrir strönd Liverpoollands.  Tveir veiðimenn frá Vonarhöfða (Cap Hope) sváfu í mjóum kojum, sem líktust einna helzt hreiðurkössum.  Eina birtan var af kertisstúf á grófgerðu borðinu.  Flöktandi ljósið speglaðist í ískristöllum á veggjunum og kastaði draugalegum skuggum á gólfið.  Leifar af þránuðum sel, sem við höfðum dregið fram lífið á, börðust stanzlaust við kofavegginn utanverðan.

Væri ekki betra að sækja skrokkinn áður en hann fyki burt?  Upphaflega var hann eingöngu ætlaður hundunum, en veðrir hafði neytt okkur til að leggja hann okkur til munns, því að við höfðum ekki komizt út fyrir dyr til að veiða okkur ti matar.  Þennan dag gáfum við hundunum smáskammt en daginn eftir áttu þeir að fasta samkvæmt venju.  En hvað bæri þarnæsti dagur í skauti sér?

„Imera.”  Grænlendingar búa yfir ótrúlegri sálarró og lífsspeki þeirra sló minni við í þessum þrengingum.  Þeir hugsuðu ekki um morgundaginn og því síður um þarnæsta dag.

„Imera.”  Ég reyndi að ýta þessum hugsunum frá mér en þær sóttu að mér aftur án afláts.  Hvað yrði um okkur, þegar selskjötið þryti og ekki brygði til betri tíðar?  Vafalaust myndu Grænlendingarnir yppa öxlum við þessari spurningu og svara þvi einu til, að við myndum koma nokkrum hundum fátækari til baka.

Mér féll ekki að hugsa til þess, þótt ég vissi, að margir pólfarar höfðu bjargað lífi sínu á þann hátt, ef þeir voru svo heppnir, að vera með velalda hunda.

Hvers vegna fóru Kristján eða hinir tvir ekki út að sækja skrokkinn?  Þeir hlutu að heyra gauraganginn jafnvel og ég.  Hvað var ég að hafa áhyggjur af því?  Hann hlaut að vera á sínum stað á meðan barsmíðinni linnti ekki.  Það yrði nú verri sagan, ef allt yrði hljótt.  Ég sá ekki fram á annað en ég yrði að skreiðast upp úr hlýjum svefnpokanum út í 40 gráðu frostið.  Vonandi yrðu hinir fyrri til  Átti ég e.t.v. að vekja þá?

Tíminn silaðist áfram við þessar vangaveltur og gaddfreðinn skrokkurinn linnti ekki látunum.  Að lokum stóðst ég ekki mátið lengur og skreið dræmt upp úr pokanum.  Ég opnaði dyrnar með gætni en rokið reif reif hurðina strax úr höndum mér upp á gátt og skellti henni í vegginn.  Snjórinn gusaðist inn, blindaði mig og slökkti á kertinu.  Það var eins og öllum djöflum vítis hefði verið sleppt lausum.  Ég greip dauðahaldi í dyrakarminn með annarri hendi, teygði mig í skrokkinn með hinni og losaði hann af króknum.  Skrambi var hann þungur.  Ég missti takið og komst ekki hjá því að fara út í gjörningaveðrið.  Ég barðist út um gættina.  Vit mín fylltust öll samstundis af snjó og ég náði ekki andanum.  Mér fannst ég vera að kafna en staulaðist samt að skrokknum.  Rétt hjá mér ýlfraði hundur, síðan tóku fleiri undir og lokst allur hópurinn.


Einn hundanna kom hoppandi á þremur fótum  og ég flýtti mér að draga selinn úr seiling frá honum niður snjótröppurnar að opnum dyrunum.  Þar tók Kristján við honum.  Banhungraður hundurinn elti enn þá og ég snéri mér að honum og lyfti fæti eins og ég ætlaði að sparka.  Þá fyrst hörfaði hann og lagðist í snjóinn.

Það er ekki skemmtileg sjón að sjá hunda hökta um á þremur fótum, en það er nauðsynlegt varúðarráðstöðfun í löngum ferðum að krækja öðrum framfæti þeirra í dráttarólarnar til að hindra strok.

Veðuröfsinn var svo mikill, að við gátum með naumindum lokað dyrunum aftur, þótt við legðumst allir á eitt.  Svo kveiktum við aftur á kertinu og börðum af okkur snjóinn.  Þegar ég var kominn í svefnpokann fór ég að hugleiða stöðuna á ný.
Skrambinn hirði þetta hundaveður.  Hér höfum við hafzt við dögum saman, sofið margar nætur á gólffreranum, skolfið af kulda og áttum afarótrygga framtíð fyrir höndum, ef veðrinu slotaði ekki fljótlega.  Alla vikuna áður hafði verið heiðskírt og kyrrt veður og við höfðum veitt vel við ísjaðarinn.  Góða veðrið hafði ýtt undir þá ákvörðun okkar að halda til Rathboneeyjar til að skjóta hvítabirni.

Ferðin var þegar orðin stórfengleg og ógleymanleg fyrir mig.  Ég minntist þess að hafa lesið um dýrafræðinginn og Grænlandskönnuðinn Alwin Pedersen, sem lýsti aðdáun sinni á þessu landsvæði, Liverpoolströndinni.  Í bók hans „Á veiðum í Grænlandi”, sem Ullsteinforlagið gaf út 1958, lýsir hann sleðaferð á þessum slóðum eftirfarandi orðum:  „Liverpoolland liggur norður af Scoresbysundi.  Það er eitt áhugaverðasta og ósnortnasta strandsvæði Norðaustur-Grænlands.  Gæfist mér annað tækifæri til Grænlandsferðar, færi ég aftur þangað.”

„Takmark ferðar okkar var fjöllótt Austurströndin, þar sem ótal dalir skerast inn í hálendið og skriðjöklar steypast í sjó fram.  Þar eru lítt kannaðar eyjar með ströndum fram.  Það var þetta landsvæði, sem flestir aðrir en frumbyggjar landsins höfðu aðeins séð úr fjarlægð frá skipum utan ísjaðarins í Dumbshafi.  Allar tilraunir til að nálgast ströndina úr þeirri átt hafði ísinn brotið á bak aftur, bæði vetur og sumar.  Enginn hafði haft erindi sem erfiði og fyrir kom, að fórna var krafizt.  Annað skipa annars þýzka Norðurpólsleiðangursins, Hansa, sökk hér nóttina 21.-22. október 1869.  Það brauzt langt inn í ísinn, sem síðan malaði það eins og eggjaskurn í u.þ.b. 11 km fjarlægð frá ströndinni.  Áhöfnin komst út á ísinn með einhverjar vistir og rak síðan á stórum ísfleka að suðurodda landsins, þar sem henni var bjargað.”


„Brönlund, leiðsögumaður okkar um þessar slóðir, þekkti svæðið vel eftir margar veiðiferðir þangað og fór með okkur norður eftir löngum dal frá Scoresbysundi.  Þegar þessi auðn og villt náttúra hennar blasti við augum, skildi ég betur, hvers vegna pólfarar höfðu fram að þessu lagt stóra lykkju á leið sína fram hjá.  Það var engu líkara en allt landið hefði nýlega umbylzt af jarðskjálftum.  Stór og smá björg lágu eins og hráviði um allt, þannig að við áttum það snjónum að þakka, að við komumst leiðar okkar, þótt erfiðlega gengi.”

Þetta hafði Alwon Pedersen að segja og meira til, en við látum þetta nægja.

Við höfðum einnig farið um framangreindan dal og upp í fjöllin, þegar hann þraut.  Þetta er seinfarin og afarlýjandi leið og mestan hluta hennar urðum við að hlaupa með sleðunum til að létta þá sem mest.  Ég gat með naumindum hangið á sleðanum, því að hraði hundanna var bæði mikill og ójafn.  Annaðhvort hlupu þeir eins og þeir ættu lífið að leysa eða löturhægt og köstuðu mæðinni.  Ég var vanari jöfnum hraða úr fjallgöngum mínum.  Þótt hundarnir þyrftu að draga þungan sleðann og okkur hangandi í honum, var þoli þeirra ekki saman að jafna við mitt og ég hljóp stynjandi og hóstandi með.


Uppi á fjalli skall á okkur þoka og það byrjaði að snjóa.  Okkur grunaði ekkert illt og héldum ótrauðir áfram.  Við vorum á leið út úr víðu skarði, þegar tók að hvessa og brátt skall á iðulaus stórhríð.  Okkur miðaði samt tiltölulega vel á meðan við vorum á fjalllendinu.  Færið varð betra, því að fannirnar voru vindbarðar og þéttar og við gátum jafnvel tyllt okkur á sleðann, þegar leiðin var ekki á fótinn.

Það var komið fram á kvöld, þegar fjallið var að baki.  Nú hallaði undan fæti til austurs í átt til Liverpoolstrandar.  Kristján sat fyrir framan mig á sleðanum og stýrði hundunum af mikilli leikni um völundarhús stórgrýtis og urðarhóla.  Ég kúrði bak við hann og leit pírðum augum út í hríðarsortann.  Við ókum niður efstu drög dals, sem var umgirtur flughömrum og klettum.


Kristján hafði spennt tvo aukahunda fyrir sleðann, þegar við lögðum af stað, þannig að við höfðum tólf sterk dráttardýr.  Hraðinn var líka í samræmi við það, þar sem færi var gott.  Skyggnið var stundum svo takmarkað, að við sáum varla meira en 50 m fram á veginn.  Eitt sinn við slíkar aðstæður, þegar hundarnir voru komnir á mikið skrið, opnaðist jörðin skyndilega framundan.  Kristján hrópaði einhverjar skipanir til hundanna, stökk af sleðanum og hékk í honum til að reyna að hindra, að hann lenti í miðri hundaþvögunni.

Ég hikaði eitt andartak en stökk svo af sleðanum, kútveltist og stóð upp svo skjótt sem mér var unnt.  Kristján og sleðinn voru horfnir út í sortann.  Ég staulaðist eftir ógreinilegri slóð fram af brúninni.  Brátt rakst ég á blóðflekki í snjónum og síða rauða blóðslóð niður bratta brekkuna.  Ekki vissi ég þá, hvort Kristján eða einhver hundanna höfðu orðið fyrir meiðslum.  Hann var við við brekkuræturnar og var að hagræða aktygjunum á ný og sýndi mér hund, sem hafði særzt á trýni, þegar sleðameiðurinn rann yfir hann á leiðinni niður.  Húðin á trýninu hafði flagnað af aftur fyrir munnvik öðrum megin, svo að skein í tennur hans.  Vesalings dýrið rótaði í snjónum með trýninu til að kæla sárið án þess að kveinka sér.

Hérna niðri var lygnara og minni snjókoma en það dimmdi fyrr vegna þess, að þar var alskýjað.  Við vorum enn þá hátt uppi í dalnum og sáum ísi lagðan fjörðinn langt fyrir neðan okkur.  Skyggnið var hins vegar ekki nógu gott til að við sæjum alla leið til Rathboneeyjar, sem var takmark okkar.

Við mynni dalsins, sem var reyndar hengidalur, komum við út á sléttan skriðjökul.  Hann lækkaði jafnt og þétt niður að firðinum.  Er neðar dró á jöklunum, varð hann brattari og ójafnari þar til hann endaði í krosssprungnu belti með húsháum íshryggjum, sem ollu okkur miklum erfiðleikum.  Hvað eftir annað urðum við að lyfta sleðanum upp úr sprungum og létta undir með hundunum en jafnframt að gæta þess að detta ekki sjálfir niðru í snævi hulin gímöldin.


Þegar við komumst loksins niður í fjöru, var orðið aldimmt.  Við settumst á sleðann og ókum áfram út í myrkrið.  Krisján hlaut að vita hvert hann var að fara, hugsaði ég.  Hann var sjálfsagt æfðari en ég að sjá í myrkri.  Mér fannst umhverfið vera lítið annað en snjór og myrkur og sjónvídd mín endaði í svörtum vegg nokkrum metrum framan við hundana.

Líklega höfðum við ekið í klukkutíma, þega ég hélt, að ég væri farinn að sjá ofsjónir.  Hvað var þetta eiginlega?  Ljós?  Hvaða sjónhverfingar voru þetta?  Nú sá ég það aftur á öðrum stað.  Ekki voru ljósbjöllur á Austur-Grænlandi?  Var ég orðinn alvarlega ruglaður?  Mér fannst ég vera alveg eðlilegur.  Þarna var það aftur, varð skærara, dofnaði og hvarf svo.  Þetta hlaut að vera draugagangur.  Mér datt í alvöru í hug, að það hefði verið einhver vottur af geðtruflun, sem olli því, að ég fór að vetrarlagi til Grænlands og nú hefði hún margfaldast.  Allt skynsamt, siðmenntað fólk hélt sig innan fjögurra veggja öruggs heimilis á þessum tíma dags á veturna.  Var það ekki bein ögrun við forlögin að vilja hafa vetursetu í Grænlandi?  Þá snéri kristján sér að mér:  „Inuit”, sagð hann og benti í áttina að ljósinu.


„Inuit?”  Menn, spurði ég gapandi gáttaður.
Þetta voru óvenjulegir samfundir á þessum slóðum.  Tvær verur birtust í myrkrinu og snjódrífunni.  Þær voru að spjalla saman og Reykja og það var glóðin í vindlingunum þeirra, sem ég hafði séð.  Þetta voru veiðimenn frá Vonarhöfða.  Þeir voru líka á leið til Rathboneeyjar sömu erinda og við.  Sleðar þeirra voru á milli íshrauka og hundarnir höfðu hringað sig niður og móktu.  Kristján stöðvaði sleðann okkar í hæfilegri fjarlægð, svo að ekki kæmi til áfloga milli hundahópanna.  Eftir að við höfðum reykt og rætt saman um stund og Grænlendingarnir orðnir ásáttir um stefnuna að áfangastað, var haldið af stað aftur.  Hundarnir voru mjög spenntir og kepptust um að verða fyrstir.

Ferðin yfir fjalllendið hafði ekki verið neitt sældarbrauð, en var samt hreinn barnaleikur miðað við það, sem nú tók við.  Sleðinn þaut eins og kólfi væri skotið yfir ísinn, fór í loftköstum yfir íshryggi og hrauka og vóg salt á öðrum hvorum meiðnum til skiptis og stóð sjalda á báðum.  Við Kristján þeyttumst til og frá en tókst á einhvern undraverðan hátt að hanga á sleðanum.

Yfirborð íssins var eins og apalhraun og við urðum oft að losa sleðann úr festum.  Jafnskjótt og hann var laus, urðum við að stökkva um borð aftur og liggja eins og við lentum, því að hundarnir brunuðu samstundis af stað á ný.  Vei hverjum þeim, sem dettur af sleða við slíkar aðstæður.


Einhvers staðar úti í myrkrinu heyrði ég annan hvorn veiðimannanna frá Vonarhöfða bolva hressilega.  Grænlendingar segja, að blótsyrði á hundasleða færist ekki á syndaskrá manna og reiknist þeim ekki til lasta á dómsdegi.  Skömmu síðar kom hundahópur og síðan sleði í ljós rétt við hlið okkar.  Ég sat utarlega á sleðanum og hefði getað teygt mig og snert hundana.  Þeir komu svo nálægt, að ég varð að draga að mér fæturna, svo að þeir træðu mér ekki um tær.  Kristján hvatti hunda sína óspart eins og hinn ekillinn.  Hvorugur vildi gefa sig.  Oft leit út fyrir, að þeim ætlaði að takast fram hjá okkur, en þeir drógust alltaf aftur úr og komu í slóð okkar.

Svona gekk þetta um langa hríð.  Skyndilega þutu þeir eins og eldibrandar upp að hlið okkar einu sinni enn og þá gerðist hið óbænta; bylmingshögg reið á sleðann okkar aftanverðan, nístandi sársauki færðist upp eftir hryggnum á mér og í sama vetfangi þrýstist járnbentur sleðameiður að bringu minni.

„Hvað var að gerast?”

Hundarnir höfðu dregið lítillega úr ferðinni, hinir svegt út af slóðinni og ætlað fram með okkur en drógu þá sinn sleða af miklu afli aftan á okkar.  Það varð harður árekstur og báðir meiðar hins sleðans lentu á mér.  Annar þeirra reif skinnúlpuna mina og rann eftir baki mínu.  Hinn lagðist á bringu mina og ég lá klemmdur á milli þeirra og gat mig ekki hrært.

Sleðarnir stöðvuðust og samstundis geisaði blóðugur bardagi milli hundahópanna.  Kristján og hinn veiðimaðurinn stukku inn í miðja þvöguna með spöörkum og formælingum, rifu sleðana sundur og á næsta andartaki hvarf hinn sleðinn út í myrkrið.
Ég lá hreyfingarlaus á okkar sleða og gat hvorki hrært legg né lið eftir áfallið.  Ég fann eitthvað volgt renna eftir bakinu og klístrast í nærfötin.  Það rann upp fyrir mér, að verr hefði getað farið, ef meiðarnir hefðu ekki lent nákvæmlega þar, sem þeir lentu.  Þeir hefðu líklegast hryggbrotið mig og stungizt milli rifjanna.  Þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum hérna úti á hjara veraldar.


Margir leyfa sér að líkja saman hundasleðaferðum og sleðaferðum á meginlandinu, þar sem hestar með klingjandi bjöllur eru dráttardýrin.  Hvílíkur reginmisskilningur!  Hundasleðaferðir eru jafnólíkar og þær eru margar.  Það er munur á dags- og næturferðum og á því, hvort ekið er eftir troðinni slóð á traustum ísi eða næfurþunnum ísi við ísröndina.  Auk þess er þetta stundum svo mikill þrældómur í botnlausu nýsnævi eða upphrúguðum lagnaðarís, að menn kófsvitna í 40° frosti.  Að degi til er oftast hægt að sjá, hvað framundan er, en næturakstur er ákaflega áhættusamur og allt gerist með eldingarhraða.  Sleðinn getur stungizt á fleygiferð í ísvegg og farþegar hans þeytzt af honum út á ísinn og stórslasast.  Stundum er ekið fram af ísbrúnum og sleðinn skellur svo hart niður hinum megin, að búast má við, að allt brotni í spón, ís, sleði og bein.  Oftast þolir þykkur ísinn höggið af mörg hundruð kílóa þungum sleðum, en oft fannst mér ekki miklu muna, að eitthvað léti undan í skrokk mínum.  Að kvöldi, eftir langan dag á sleða, var ég allur lurkum laminn, líkast því, að ég hefði setið ótemju allan daginn.  Mig verkjaði um allan líkamann, svo ekki sé minnst á mar- og kalbletti.

Hvað ætli klukkan sé orðin?  Ég var búinn að missa tímaskynið.  Ég vissi aðeins, að það var langt síðan dagsbirtan hvarf.  Veiðimennirenir frá Vonarhöfða voru löngu horfnir úr augsýn og við vorum aftur aleinir.  Ísinn var svo ójafn og erfiður, að hver varð að sjá um sig.  Það var engu líkara en sprengingar eða neðansjávareldgos hefði lyft ísbreiðunni og hún síðan hrunið niður í algerri óreiðu.  Líklega höfðu haustvindar þrýst lagnaðarísnum inn í fjörðinn og vetrarfrostið njörvað hann í þessar stellingar.

Hundarnir okkar voru greinilega orðnir þreyttir, því að þeir hlupu ekki líkt því eins hratt og fyrr, þótt færið væri orðið betra.  Kristján lét smella í 5 m langri svipu úr rostungshúð yfir hausum þeirra.  Svona svipu óttast allir hundar.  Hún getur orðið að hættulegu vopni í höndum Grænlendinga.


Sleðinn tók viðbragð og hraðinn jókst.  Hristingurinn byrjaði aftur og ég hélt mér dauðahaldi.  Hvað stoðaði það annars?  Á næsta andartaki rakst sleðinn á hindrun og meiðarnir stungust í ísinn.  Við Kristján flugum fram á við, ultum samhliða af sleðanum í snjónum og námum staðar á botni djúprar sprungu.  Sleðinn var skorðaður eins og brú yfir hana fyrir ofan okkur og þrír hundar dingluðu í lausu lofti í aktygjunum og ýlfruðu svo átakanlega, að það smaug gegnum merg og bein.  Við klöngruðumst upp úr sprungunni, drógum hundana upp, lyftum undir sleðann og fleygðum okkur þvert yfir hann, þegar hundarnir tóku sprettinn.

Ég lá kyrr og starði fram á veginn.  Mér fannst eitthvað vera ða taka á sig mynd í myrkrinu fram undan.  Hér voru líka sjávarfallahryggir og sprungur, sem myndast alltaf næst ströndinni.  Þetta hlaut að vera Rathboneeyja.  Við stigum af sleðanum og hjálpuðum hundunum upp bratta brekku, sem snjóinn hafði skafið af.

Kofinn var lítil og ókræsilegur.  Hann stóð við háa kletta.  Við afhlóðum sleðann og stungum annarri framloppu hvers hunds undir brjóstaktygin til að hindra strok.  Inni í kofanum ríkti góður andi.  Kertið logaði á borðinu og við hlið þess kraumaði í benzínsuðutæki.  Þetta minnti mig á eitt af neyðarskýlunum hátt upp í Ölpunum.  Tveir villimannslegir veiðimenn sátu á mjóum trébekk við vegginn og horfðu eftirvæntingaraugum á kjötpottinn.  Það hefði verið hægt að villast á þeim og fjallaflækingum í Ölpunum, þegar litið var á blettótta og kámuga anúraka þeirra, ef kinnbeinahá andlitin og skásettu augun hefðu ekki komið upp um þá.  Lokst var hér nokkrum hlutum ofaukið, sem varla var hægt að finna í Alpakofum, s.s. rifflar og sauðnautafeldir.

Það fór að sjóða í pottinum og indæll ilmur af kjöti barst að vitum okkar.  Hver okkar krækti sér í bita með vasahníf.  Kjötið var seigara en ég hafði búizt við.  Hvaða kjöt var þetta annars?  Það var grófara en selkjöt, magurra og seigara.  Var það af gömlum rostungi?


Grænlendingarnir borðuðu að sið lands sins og skáru bitana við munn sér en ég skar mina bita á borðinu, því að ég vildi ekki eiga á hættu að sneiða af mér nefbroddinn.  Við drukkum þykkt og dökkbrúnt soðið með kjötinu.  Það var mjög bragðsterkt og minnti helzt á óútþynnta súputeninga.  Mér tókst aldrei að venjast því, svo að mér þætti það gott.  Grænlendingarnir drukku reyndar líka ósköpin öll af bráðnu ísvatni með kjötinu, svo að ég var ekki einn um að finnast það sterkt.  Þegar potturinn var tómur, hallaði én mér aftur á bak og strauk magann:

„Mamaquoq”, pakksaddur, sagði ég og ropaði eins og rostungur.
„Mamaquoq”, tóku Grænlendingarnir undir og struku fituna af munni sér með handarbökunum.
Mér lék forvitni á að vita, hvaða kjöt við hefðum verið að borða:
„Piusse?”, selur, spurði ég og benti á pottinn.
„Ikke piusse, nanoq”, svaraði Kristján, sem hafði fyrstur áttað sig á spurningunni.
„I, I, nanoq”, tónuðu hinir.
Drottinn minn dýri!  Það var þá hvítabjarnarkjöt.  Ég ákvað samstundis, að ég legði mér það ekki til munns aftur.

Ég stóð á fætur, breiddu sauðnautsfeldinn á gólfið og skreið ofan í tvöfaldan dúnpokann minn.  Ég var dauðlúinn og ætlaði að fara að sofa, en tilhugsunin um kjötið lét mig ekki í friði.  Ég gat ekki gleymt fyrstu reynslunni af því sumarið 1967.


Finn Kristofersen hafði lagt gamlan bersa að velli á Stewarshöfða, þar sem hann var á ferð í bátnum sínum.  Hann kom honum ekki fyrir í bátnum og dró hann því alla leið til Scoresbysunds.  Þar var hann dreginn upp á stein, fleginn og gert að honum og allir unglingar í þorpinu tóku þátt í athöfninni.  Reyndar var allt ungviði þorpsins viðstatt, litlir snáðar með hortaumana niður á höku og eldri systkini.  Þau minnstu skriðu á fjórum fótum á klettunum í fjörunni en hin eldri stóðu upprétt á milli þeirra.  Þessi sjón minnti mig helzt á apabúr í dýragarði og ég var og ern enn þá hissa á því, að ekkert þeirra skyldi detta í sjóinn.

Þarna voru líka gamlir og reyndir veiðimenn.  Þeir vissu greinilega, hvað þera þurfti og fóru æfðum höndum um skrokkinn.  Elzti veiðimaðurinn brá hnífi sínum, reyndi bitið með þumalfingrinum og spretti á kvið bangsa.

Þetta var hálfgerð helgiathöfn.  Næsti maður skerpti bit hnífs sins og sneið hrammana af.  Að fláningu lokinni var bráðinni skipt bróðurlega milli vieðstaddra.  Ég fékk líka minn hlut og gekk hreykinn til tjalds míns með tveggja kólóa bita af hvítabjarnarkjöti.  Þessi biti var eins og af himni sendur, því að vistir mínar voru takmarkaðar.  Ég hafði ásett mér að lifa af gæðum landsins.

Það var áliðið dags og ég hafði ekkert borðað þann daginn.  Hungrið rak mig því til að sjóða bitann strax og á meðan hann var að soðna, sneiddi ég af honum bita eftir bita og borðaði með áfergju.  Ég vissi ekki þá, að flestir hvítabirnir eru sýktir aformum og að neyzla síiks kjöts var hættuleg mönnum.

Tveimur dögum síðar bauðst mér bátsferð inn í innsta Þeyfjörðinn.  Ég þá boðið með þökkum, þótt méer liði afleitlega.  Ég lagðist fyrir í lestinni á daunillar druslur, altekinn magaverkjum og skjálfandi af kulda í lekum bátnum.  Kölduköstin ágerðust stöðugt, þótt mér fyndist innyfli mín standa í ljósum logum.  Hvað eftir annað skreiddist ég upp á dekk og lagðist máttvana yfir borðstokkinn og færði Ægi kvalarfullar fórnir.

Vitaskuld hefði ég ekki átt að fara þessa ferð með „Entalik”.  Mér hefði örugglega liðið betur í tjaldinu mínu með fast undir fótum.  Auk þess hefði ég getað búizt við aðhlynningu ´þorpinu.  Ég vildi ekki missa af neinu og harkaði því af mér eins og mér var unnt.


Við vorum ekki komnir langt áleiðis, þegar mér elnaði sóttin og uppsölurnar jukust svo mjög, að ég fékk enga hvíld á milli.  Ýmist lá ég á maganum á borðstokknum eða á bakinu á lyftingunni.  Samt reyndi ég að borða til að halda kröftum og það kom áþreifanlega í ljós í maga mínum, að selir og hvítabirnir eru fornir erkifjendur.  Selruinn, sem ég borðaði, laut allavega í lgæra haldi og flúði nær samstundis út fyrir borðstokkinn.  Á þriðja degi var ég orðinn svo máttfarinn, að tveir menn urðu að styðja mig á píslargöngum mínum að borðstokknum, svo að ég félli ekki fyrir borð.

Mér hrakaði stöðugt og loksins lá ég í móki án þess að skynja umhverfi mitt.  Þannig á mig kominn kúrði ég nokkra daga í ískaldri bátslestinni, þar til Grænlendingarnir báru mig upp í káetu og lögðu mig í litla og þrönga koju, sem minnti helzt á líkkistu án loks.  Þannig varð ég að dúsa án þess að geta hreyft mig á milli vaktaskipta, því að Grænlendingarnir lögðu sig til skiptis við hliðina á mér.

Þrátt fyrir þessi óþægindi, var þetta hrein himnaríkisvist hjá dvölinni í lestinni og ég vandist brátt berum fótum áhafnarinnar rétt við andlit mitt.  Heilsan lagaðist til muna eftir að við höfðum fast land undir fótum á áfangastað en ég agat ekki teki þátt í veizluhöldum hinna grænlenzku vina minna, sem héldu upp á góða sjóferð með nýskotnum sel.  Ég hélt enn þá engu niðri, þótt ég væri fyrir löngu búinn að losa mig við sýkt bjarnarkjötið og væri banhungraður.

Það var ekki fyrr en lax og gæs komu á matseðilinn, að ég komst í sátt við galtómann magann og ég fór að styrkjast andlega og líkamlega.  Bjarnarkjöt kom ekki aftur inn fyrir varir mínar.


Ég hlýt að hafa sofnað út frá þessum hugleiðingum um fyrstu kynni mín af bjarnarkjöti og hörmulegum afleiðinum þess.  Þegar ég vaknaði nokkrum stundum síðar, sátu Grænlendingarnir enn þá við borðið, drukku bráðinn snjó, reyktu og skröfuðu saman.  Af svipbrigðum þeirra að dæma, ræddu þeir um veiðarnar.  Það hlaut að vera orðið allframorðið, því að kertisstúfurinn á borðinu var hér um bil útbrunninn.  Það var líka skollinn á stormur, sem hrist kofann okkar á leið sinni út á óravíddir íshafsins.  Raunarlegt ýlfur hundanna barst inn til okkar.  Þvílíkt hundalíf að vara hundur!

Ég var dauðþreyttur.  Það var kuldahrollur í mér og ég kúrði mig betur niður í dúnpokann.  Ég snéri mér til veggjar, svo að kertaljósið skini ekki í augu mér og hlustaði á öll þessi annarlegu hljóð, sem bárust til eyrna minna:  Kokhljóðið í Grænlendingunum, nístandi ýlfrið í hundunum og gnauðið í vindinum.

Þetta var ónæissöm nótt.  Ég hrökk oft upp af værum blundi við harmakvein hundanna og veðurgnýinn, sem magnaðist undir kofanum.  Hann stóð á eins metra háum stöplum, svo að það varngu líkara en ég svæfi yfir vindgöngum.

Undir morgun jókst kuldinn um allan helming og það hafði myndazt hrím á svefnpokaðum af andardrætti okkar og útgufun.  Ég bylti mér á glólfinu og beið óþolinmóður birtingarinnar, sem virstist óvenjuseint á ferðinni.


Eftir drykklanga stund rumskaði einn Grænlendinganna, teygði sig, geyspaði og rumdi eins og björn.  Hinir tveir vöknuðu við þessi kynjahljóð og risu upp.  Þá upphófst löng hóstakviða, sem helzt minnti á berklahæli.  Þegar þeir voru nokkurn veginn búnir að hreinsa lungnapípurnar, þrifu þeir pípustertana sína og ósuðu eins og þrautpíndar gufuvélar.  Krisján varð fyrstur á fætur og kveikti á suðuvélinni.  Loftmengunin, sem var ærin fyrir, magnaðist um allan helming og olli því, að ég fékk langvarandi hóstakast.  Annar hinna veiðimannanna fór út og sótti snjó til að bræða en hinn hjó nokkra bita úr freðnu selshræinu við dyrnar.  Við fengum neskaffi og soðin selsrif í morgunverð og drukkum síðan brunt og feitt kjötsoðið á eftir.

Það var komið fram yfir miðjan dag, þegar við vorum ferðbúnir og forum út úr kofanum.  Stormurinn geisaði enn þá og skóf snjóinn.  Það var líka ofanbylur og einstaka sinnum grillti í fjöllin umhverfis.  Nágrenni okkar líktist helzt landslaginu á tunglinu.  Hér stóðum við, einu mannverurnar í óbyggðunum, á þessum guðsvolaða stað.  Mér varð oft hugsað til þess við slíkar aðstæður, hvers vegna lifandi og hugsandi fólk hefði valið sér dvalarstað í þessari auðn.  Hvílík þrautseigja og nægjusemi.  Þessi kynstofn hefur búið hér í þúsundir ára og bjargað sér allt fram á þennan dag með frumstæðum verkfærum úr steini, beinum, sinum og húðum.  Timbur barst ekki til landsins fram á okkar daga nema helzt með Austur-Grænlandsstraumnum frá Síberíu.  Það var hreinasti hvalreki að finna rekavið á fjörum.  Þá var hægt að smíða tjaldsúlu, skutulskaft o.þ.h.


Hundarnir voru risnir á fætur í snjónum.  Þeir hristu sig kröftuglega, teygðu alla limi, góluðu, toguðu í höftin og snéru sér síðan að morgunverkunum.  Þeir voru óvenjufjörugir.  Líklega hlökkuðu þeir til erfiðisins, sem beið þeirra.  Voru þeir svona fegnir nærveru okkar eða héldu þeir, að þeirra biði ljúffengur kjötbiti?

Ég var allsendis óviss um, hvort við færum til veiða í þessu veðri og snéri mér því að Kristjáni og spurði stutt og laggott: „Nanoq?” og lét sem ég mundaði riffil.
„I, I, nanoq imera”, svaraði hann og benti út á fjörðinn.

Þá var það ákveðið.  Hvað sem veðrinu liði skyldi reynt að finna hvítavirni.  Já, mér var nær, hugsaði ég og dró hettuna yfir höfuðið.  Ég vissi fyrirfram að hverju ég gekk, þegar ég fékk leyfi til að fara með.  Þetta yrði engin skemmtiferð og veðrið yrði ekki látið skipta sköpum, ef hjá því yrði komizt.  Auk þess ætlaði ég ekki að missa af tækifærinu til að taka myndir af hvítabjarnarveiðum. 

Við gátum tæpast gert okkur vonir um, að birnirnir sýndu okkur þá tillitsemi að heimsækja okkur í kofann.  Við yrðum að hafa fyrir því að finna þá.

Skinnum, eldunaráhöldum og rifflum var komið fyrir á sleðanum auk stórrar ábreiðu úr samansaumuðum húðum, sem hægt var að nota sem stjald, ef í nauðirnar ræki.  Svo var haldið af stað.

Hundahóparnir kepptust við að ná forustunni og færið var gott í fyrstu.  Við héldum okkur sem næst ströndinni og þræddum hverja vík og fjörð í leit okkar að „hinum hvíta konungi norðursins”.  Skömmu áður en við héldum af stað höfðu veiðimenneirnir sleppt beztu veiðihundunum, einum úr hverjum hópi.  Þessir þrír hundar þutu fram og til baka yfir ísinn og voru sjaldnast í sjónmáli, nema þegar sást til þeirra uppi á mishæðum.


Á meðan hundarnir reyndu að finna bangsa með nefinu, skimuðum við í kringum okkur frá hæstu klettunum á ströndinni með hjálp sjónauka.  Það var ekkert kvikt að sjá, aðeins ísauðnina og skafrenninginn.  Við vorum víðsfjarri opnu hafi, þannig að líkurnar til að veiða sel til matar voru ákaflega litlar og veitti okkur þó ekki af að auka við litlar birgðir okkar.

Fram til þessa höfðum við haft vindinn í bakið, en nú vorum við á móti veðrinu heim á leið.  Það var erfitt og hungrið var farið að sverfa að okkur.  Ég fylltist einhverri uppgjafartilfinningu þar sem ég sat í hnipri fyrir aftan Kristján.  Mér fannst ég hafa sóað deginum.  Engar myndir, engir hvítabirnir, engin veiði.  Var það ekki vanþakklæti af minni hálfu að líta á daginn sem ónýtan?  Hafði það ekki alltaf verið draumur minn að fá tækifæri til að ferðast með Grænlendingum á hundasleða?  Nú, þegar þessi ósk hafði rætzt, bæði í góðu og vondu veðri, fór ég að setja það fyrir mig, að við höfðum ekki haft erindi sem erfiði.

Lærdómurinn, sem ég gat dregið af þessari ferð, var hluti erfiðrar tilveru íbúa þessa lands.  Hve oft urðu þeir að snúa möglunarlaust tómhentir heim eftir erfiðar og lífshættulegar veiðiferðir?

Þreyttir, hungraðir og skjálfandi af kulda komum við að kofanum aftur í síðustu dagsskímunni.

Um nóttina skall á fárviðrið, sem hafði haldið okkur föngnum í fimm sólarhringa, þegar hér var komið sögu.  Sauðnautsfeldurinn minn var fyrir löngu frosinn fastur við gólfið og allt húsið var brynjað klaka að innan.  Ég snéri mér til veggjar og reyndi að festa blund.  Það heppnaðist ekki, því að ég var löngu útsofinn.  Ég hafði kúrt óslitnar 36 klst. í pokanum, nema þegar sinna þurfti kalli náttúrunnar.  Það var beinlínis lífshættulegt að fara út til að gera þarfir sínar.  Þegar ég kom inn aftur nóttina áður, eftir viðureignina við veðrið og frernar buxur, og var að bursta af mér snjóinn, sagí Krisján:  „Nanoq?”, sástu nokkurn bangsa?

„Ikke nanoq.  Nanoq sove”, svaraði ég með uppgerðarfæð.

„Nanoq ikke sove”, mótmælti Kristján og brosti með öllu andlitinu.  Við höfum allt fram á þennan dag haldið upp á þessi orðaskipti og ég enda öll bréf og póstkort til Kristjáns með orðunum:  „Nanoq sove”, og hann svarar um hæl:  „Nanoq ikke sove”.

Það kemur sér vel við slíkar aðstæður, sem við bjuggum við dögum saman í kofanum, að geta látið hugann reika, því að ekki var aðra afþreyingu að hafa.  Hugurinn brúar bilið milli fortíðar, nútíðar og framtíðar og leysir okkur frá gráum veruleikanum í draumalandaferðum.  Hraði hans sigrast á tíma og rúmi án þess að vart verið við.  Líkt og hungraður maður hugsar ósjálfrátt um girnilegar kræsingar, hugsaði ég til suðrænna sólarstranda fjarri kuldanum.  Já, hugarflugið þekkir engin takmörk nema vitsmuni manns sjálfs.

Það er hryggilegt til þess að vita, hve staðbundinn líkaminn er í samanburði við hugann.  Hér lá ég bjargarlaus í daunillri húð í afskekktu hreysi á hjara veraldar og komst ekki út fyrir dyr, þar sem miskunnarlausir veðurguðirnir sýndu mátt sinn.

Eitthvert hljóð að utan truflaði hugrenningar mínar.  Það voru líklega bara hundarnir, sem lágu grafnir í fönn.  Þetta hrifsaði mig aftur til raunveruleikans og ég hjúfraði mig betur ofan í pokann.  Imera, upa.  Ég skyldi svo sannarlega halda þetta út með Grænlendingunum.

Hvað komu mér næstu dagar við?  Ég gat leikið mér í draumaheimi mínum eins og lítið barn leikur sér við bangsann sinn áður en það sofnar.  Minning um hlýtt sumarkvöld skauzt upp úr hugarfylgsnunum.  Ég lá í ilmandi gróandanum og horfði á góðviðrisskýin svífa hjá.  Það beygði ástrík vera sig yfir mig og þakti mig með kossum.  Ég fann ilminn af hári hennar, sem liðaðist yfir andlit mitt.  Það fór fiðringur um mig.


Það var engin sælutilfinning, heldur kuldahrollur.  Frostið, sem engu hlífði, smaug gegnum allar hlífðarflíkur.  Ég bylti mér á hina hliðina og strauk grútskítugt hárið á feldinum frá andliti mínu.  Þegar ég nuddaði handarbakinu við sprungnar varir mínar, fann ég bragðið af lýsi og selspiki, sem hafði festst í nokkurra daga gömlum skegghýjungi.
Hjá mér lágu hinir veiðimennirnir.  Þeir vour gallharðir og grófir náungar, sem ekki er hægt að leggja undir mælistiku siðmenningarinnar, en eru öllum færari að sjá sér farborða í þessu erfiða landi.  Andardráttur þeirra var hryglukenndur vegna mikilla reykinga.  Það var róandi fyrir mig að eiga þá að við þessar aðstæður og vita, að örlög okkar allra voru samtvinnuð.

Ég er þess fullviss, að ég hefði valið hlutskipti mitt í kofanum með þeim, ef mér hefði staðið til boða að velja á milli þess og dvalar á sólbakaðri strönd.  Vináttan þeirra og hið einfalda líf hér hefði ráðið úrslitum.  Ekki vil ég þó taka fyrir, að ævintýraþráin hefði átt sinn hlut í máli.

Fárviðrið hafmaðist úti og virtist fremur færast í aukana en hitt.  Hundarnir ýlfruðu.  Hvað skyldi þá dreyma?  Bjarnarveiðar eða sílspikaðan selskrokk til að rífa í sig?
Ég var orðinn þreyttur af hugrenningum mínum og velkominn svefninn frelsaði mig frá döprum raunveruleikanum um stund.

Sjötti dagur prísundarinnar rann upp með skaplegra veðri og við fylltumst bjartsýni um betri tíð.  Skyggni batnaði svo mikið, að við gátum séð til nærliggjandi eyja, sem stóðu upp úr kófinu.  Grænlendingarnir undirbjuggu sig til veiðiferðar.  Þeir ætluðu upp á eyna til að leita að einhverri bráð.

Það var tími til kominn!  Við höfðum dregið fram lífið á hundafóðri í sex daga og nú var selshræið uppétið.  Vistir okkar voru þrotnar utan neskaffis, nokkurra te- og sykurkorna og brúsa af eldsneyti á suðuvélina.

Kristján gerði mér skiljanlegt, að ég ætti að bíða þeirra í kofanum.  Vafalaust óttuðust þeir, að ég mundi fæla bráðina, ef þeir kæmust í færi.  Ti öryggis skildu þeir eftir byssu og tvo pakka af skothylkjum og sýndu mér fjóra hunda, sem ég átti að sleppa lausum, ef hnýsinn hvítabjörn birtist í grenndinni.  Það voru tveir af hundum Kristjáns og einn frá hvorum hinna.  Fjórir sterkustu hundarnir skyldu kljást við óboðna gesti.

Ég bjarnarbani!  Ég þyrfti líklega ekkert að gera, ef bjössi sýndi sig.  Hann mundi bara deyja úr hlátri.  Ekki þorði ég að treysta alveg á það, svo ég fór af og til út fyrir kofann og kannaði umhverfið með sjónaukanum og reyndi að bera mig mannalega, þótt sálartetrið væri afskaplega samanskroppið.


Grænlendingarnir komu til baka að áliðnum degi.  Þeir höfðu ekki haft mikið upp úr krafsinu, einn horaðan héra og eina rjúpu.  Við skriðum jafnhungraðir í pokana okkar og við skriðum úr þeim um morguninn og ætluðum varla að geta sofið fyrir garnagauli.  Núna varð horfna selshræðið að kræsingum í hugum okkar.

Þótt fóðrið, sem hafðist upp úr krafsinu þann daginn, væri létt í maga, kom Kristján heldur betur færandi hendi til baka.  Hann kom með fangið fullt af þurri sinu ofan af háeyjunni, þaðan sem vindurinn hafði feykt snjónum burt.  Nú gátum við endurnýjað heyið í skónum okkar.  Gamla heyið var orðið samanþjappað og einangraði illa.  Við tróðum og tróðum.  Það var ekki erfitt fyrir kristján, því hann var í góðum tvöfoldum kamikkum, sem hann tróð heyinu á milli.

Málið var ekki svona einfalt hjá mér.  Vikunni áður var ég svo óheppinn, að sólinn á öðru stígvélinu gliðnaði alveg aftur að hæl, svo að það líktist helzt krókódílskjafti, þegar ég lyfti fætinum.  Til að hindra frekari skaða og til að geta gengið óhindraður, límdi ég sólann fastan með límbandi og batt síðan reimar yfir ristina.  Þrátt fyrir þessar aðgerðir tróðust sokkarnir út í gegnum rifurnar.  Það var varla til eftirbreytni að fara svona búinn í langan leiðangur til Liverpoolstrandarinnar í 40 gráðu frosti.

En, hvað átti ég til bragðs að taka?  Hún Magdalena gamla, sem hafði lofað að sauma fyrir mig kamikkur, hafði alltaf einhverjar viðbárur á reiðum höndum, þegar ég spurðist fyrir um framvindu mála.  Hún skildi líklega ekki ágengni mina og óþolinmæði.  Veturinn er langur, hefur hún hugsað, og það kemur alveg örugglega annar vetur eftir þennan.  Imera.  Ég varð einfaldlega að bjargast sem bezt ég gat á meðan.  Allavega bjargaði það miklu að fá nýtt og óbælt hey ís skóna.


Núna var ekki um annað að ræða en að halda heimleiðis með morgninum.  Hundafóðrið var þrotið og veiðivonirnar brostnar.  Undir niðri var ég feginn að losna úr prísundinni á Rathboneeyju.  Óveðursöskrin voru farin að ganga nokkuð nærri taugum mínum.  Ég óskaði þess aðeins, að veðrið héldist þolanlegt næstu dagana, ef við kæmumst ekki heim í einum áfanga.  Þá yrðum við líklega að fórna nokkrum hundum, ef við hittum ekki á einhverja stóra bráð.

Þessi nótt var einnig köld og löng en þó dró úr storminum, þegar morgnaði.  Við gátum lagt af stað strax eftir morgunverð og það var eins og blessaðir hundarnir skynjuðu, að við máttum engan tíma missa.  Þeir ýlfruðu og toguðu í höftin eins og þeir gætu ekki beðið þess, að verða spenntir fyrir sleðana.  Það tík Skamma stund að koma hafurtaski okkar fyrir og byssurnar voru hafðar nærtækar.

Vertu sæll veiðikofi á Rathboneeyju.  Ég á varla eftir að sjá þig aftur.  Ég mun ekki gleyma þér og skjólinu, sem þú veittir okkur, þegar heimskautsveturinn sýndi okkur veldi sitt.  Aldrei fyrr hefur mér verið ljósari smæð mannsins gegn máttarvöldunum.  Innan veggja þinna kynntist ég gagnkvæmu trausti og skilyrðislausri og óeigingjarnri vináttu.  Hafi einhverjir kynþáttafordómar blundað með mér, tókst þér að reka þá á brott á þessari viku, sem þú hýstir okkur.  Þegar náttúruöflin knýja menn til að leita skjóls í svona litlum kofa og hýrast þar dögum saman, spyr enginn um uppruna, ætterni eða kynþátt þjáningarbræðra sinna.  Það, sem gildir, er þol, hjálpsemi, aðlögunarhæfni, tillitsemi og viljinn til að lifa.  Annað ekki.

Hundarnir voru ekki leystir fyrr en búið var að hlaða sleðana.  Aktygjunum var hagrætt og þeir spenntir fyrir.  Það er andstyggilegt og kalsasamt starf að hagræða aktygjunum, því að menn verða að vera berhentir.  Það þýða engin vettlingatök, þótt böndin séu frosin föst og þakin hundaskít og hlandi.  Ég verð að viðurkenna, að ég hef ekki getað unnið bug á andstyggðinni á þessu verki og því aldrei lagt lið við það.


Hundarnir hlupu með miklum eldmóði niður í fjöru, þar sem hvít ísbreiða fjarðarins blasti við okkur.  Það grisjaði í fjallarammann í fjarska.  Við vissum hvað beið okkar.  Snjóinn hafði skafið af fjöllunum niður á fjörðinn dögum saman.  Það kom brátt í ljós, að það var ekkert smáræði, því að hundarnir sukku á bólakaf í lausamjöllina, þegar þeir voru komnir yfir fyrsta íshrygginn.  Þeir voru óþreyttir og börðust um af miklum móði.  Ég leit á kristján og benti á snjóskaflana.  Hann yppti öxlum og ég las orðin „imera, upa” í augum hans.  Það var ekkert við þessu að gera, þetta var bara svona.

Var nokkuð vit í að reka hundana áfram?  Væri ekki betra að snúa við á meðan það var kleift?  En hvað yrði um okkur matar- og fóðurslausa á Rathboneeyju?  Það var óhugsandi að komast á veiðar í þessari færð.  Ég leit til hinna sleðanna og sá, að þeir áttu í sömu erfiðleikum og við.  Það hefði verið skömminni skárra, ef við hefðum getað farið í slóð hvers annars og nýtt betur orku hundanna, en þeir voru ekki á þeim buxunum.

Við lögðum af stað kl. 9 um morguninn og sjö stundum síðar var ástandið eins.  Kristján rak hundana miskunnarlaust áfram með formælingum og svipyhöggum.  Þeir voru í botnlausum snjó og sukku dýpra við hverja tilraun.  Það var enga fótfestu að finna og snjórinn luktist loks yfir höfðum þeirra.  Þeir gátu ekki hnikað sleðanum án viðspyrnu og við gátum ekki létt undir með því að stía af honum, því að þá sukkum við líka.  Við reyndum það og ég varð dauðskelkaður um að verða eftir á ísauðninni án þess að geta nokkra björg mér veitt.

Eitthvað urðum við til bragðs að taka.  Hundarnir gátu þetta ekki hjálparlaust.  Við spyrntum við öðrum fæti í takt við átök hundanna og mjökuðumst örlítið áfram.  Við þreyttumst fljótt og létum hundana um erfiðið á meðan við hvíldumst á milli.  Hvaða tilgangi þjónaði þessi þrælkun?  Mér fannst þetta álíka gáfulegt og að ætla sér að þurrausa leið yfir fjörðinn með niðursuðudós að sumarlagi.


Þremur stundum síðar komum við að höfða nokkrum, þar sem voru hættulegar sjávarfallasprungur.  Hundarnir duttu í þær hver um annan þveran.  Við urðum sífellt að draga þá upp og síðan hvorn annan, þegar við gættum okkar ekki nógu vel.  Þegar sprungusvæðið var að baki, hituðum við okkur kaffi og köstuðum mæðinni.  Við þurftum ekki heitt kaffi til að hlýja okkur, því að við vorum kófsveittir eftir átökin síðustu stundirnar.  Kaffisopinn var samt indæll, enda höfðum við einskis neytt frá brottför.  Þá borðuðum við morgunverð, sem við skírðum „Spaghetti al la Rathbone”.

Uppstkriftin var ekki merkileg, enda lítið til í búrinu.  Við létum eitt hnefastórt stykki af blóðfrosnu selkjöti í pott með heitu vatni og suðum það.  Síðan bættum við einum pakka af spaghetti út í brúnt soðið.  Þennan pakka fann ég fyrir tilviljun milli fataplagga í bakpokanum mínum.  Brátt líktust spaghettilengjurnar helzt dökkbrúnum regnormum.  Við höfðum engar skeiðar meðferðis og gátum ekki borðað það með hnífum. Því krökuðum við það úr pottinum og sötruðum það úr bollunum okkar með blóð- og lýsisseyðinu.  Þannig er þessi einfalda uppskrift.  Það er ekki hægt að mæla með þessu seyði fyrir þá, sem eru veikir í maga.  Á eftir gátum við ekki þvegið bollana og því var blóð- og lýsisbragð af kaffinu næstu skiptin.  Okkur var nokkuð sama um það.


Hundarnir lágu samanhnipraðir nærri okkur í snjónum og móktu.  Einstaka lyfti höfði og þefaði í átt til okkar.  Það var árangurslaust.  Fóðrið var þrotið og sjálfir áttum við ekkert annað en kaffi.  Þetta yrði löng og erfið nótt og það var alls ekki víst, að við næðum til Scoresbysunds fyrir morgun.  Bara að þessi botnlausi snjór niðri á firðinum væri að baki.  Það yrði strax snjóléttara á fjöllunum.

Um miðnættið varð mjög ójafnt ísbelti á leið okkar og handan þess ókum við upp í móti.  Við vorum komnir yfir fjörðinn og vonuðum, að færðin yrði nú léttari.  Leiðin lá upp eftir jöklinum til fjalla.  Á leiðinni til Rathboneeyjar fyrir viku hafði það tekið okkur 4 klst. að komast héðan til Eyjarinnar en núna vorum við búnir að berjast áfram í 15 klst. sömu leið.

Þetta voru þó smámunir miðað við mannraunirnar, sem Rasmussen og Freuchen rötuðu í.  Þá hlaut lífsbarátta steinaldareskimóanna að hafa verið erfiðari, því að þeir vörðu stórum hluta ævi sinnar til sleðaferða.  Þrátt fyrir allt amstrið og púlið, er ég glaður í hjarta mínu yfir því að hafa átt þess kost að kynnast slíkum ferðum af eigin raun áður en tæknin leggur þær að velli.

Það er sama sagan með sleðaferðir og annað, sem menn hafa áhuga á að kynnast:  Enginn verður óbarinn biskup, ella verður reynslan heldur léttvæg.  Ég held, að mér hafi tekizt að kynnast flestum hliðum þessa ferðaháttar tveimur mánuðum í Grænlandi þennan vetur.

Einn leikur var mér kær í þessum sleðaleiðöngrum.  Hann gaf mér meiri tilfinningu fyrir því, sem var að gerast.  Hvar, sem við áðum eða hafnvel oftar, reyndi ég að átta mig á staðháttum og verkefnið var að gizka , hvaða leið yrði fyrir valinu að settu marki eða til baka, ef við yrðum að snúa við.  Þetta var ekki erfitt, þegar við vorum við Ísjaðarinn.  Jafnvel í vondum veðrum hefði mér tekizt að komast hjálparlaust að ströndinni.  Um nóttina á leið frá Rathboneeyju brugðust allar mínar getgátur.  Ég gat ekki á nokkurn hátt áttað mig á leiðinni í gegnum þetta íslandslag, sem virtist alls staðar eins – ekkert nema skarpir hryggir og ávalar bungur.

Morguninn eftir, á skriðjöklinum, þutum við yfir ísilagt lón framan við hann í fyrstu dagskímunnni.  Þá skaut upp endurminningu frá sumrinu 1967.  Þá var ég einmitt staddur við svona jökullón og var að taka nær myndir af forkunnarfögrum eyrarrósum.  Ég lá á maganum og var svo niðursokkinn í verkefnið, að ég gleymdi stund og stað.

Skyndilega læddist að mér sú tilfinning, að einhver væri að kíkja yfir öxlina á mér.  Ég snéri mér við og sá það, sem olli þessu, við brekkuræturnar rétt hjá.  Þetta fyrirbæri dró næstum svartan og loðinn feldinn og niður undan honum stóðu fjórar, sterklegar lappir.  Þegar það beygði fram höfuðið, hrundu langar hárlufsur milli framsveigðra hornanna og yfir augun.  Reyndar hafði ég lengi vonað, að komast í tæri við sauðnaut en ekki í svona návígi og hefði fremur kosið að mega velja mótstaðinn sjálfur.  Þarna var ég aleinn og vopnlaus og auk þess bauð landslagið ekki upp á neitt skjól.  Ég átti því allt undir því, að egna dýrið ekki til árásar.

Þrátt fyrir taugaóstyrkinn, reyndi ég að vekja ekki árásarhneigð tarfsins, þegar ég pakkaði dótinu mínu ofan í bakpokann.  Ekkert var mér fjær huga þessa stundina en að ná góðri mynd af bola.  Ég hef séð eftir því æ síðan.  Ég axlaði bakpokann og flýtti mér af stað án óðagots með hjút í maganum og öran hjartslátt.

Boli rölti í rólegheitum eftir mér og stanzaði af og til og greip niður en kom svo hlaupandi aftur til að minnka bilið á milli okkar.  Þegar hann tók á rás, liðaðist síður feldurinn um skrokkinn eins og ofsprottið tún í sumargolu.  Þetta var greinilega einn gömlu tuddanna, sem bolað er í burtu úr hjörðunum vegna þess, hve stirfnir og geðstirðir þeir verða með aldrinum.  Grænlendingar segja, að bezt sé að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá þeim, ef ekki er hægt að verjast þeim.  Ég reyndi að krækja fyrir hvern stein, sem á milli bar, til að komast úr augsýn en hann birtist jafnóðum á hæla mér á ný.


Þessi feluleikur var árangurslaus.  Hvað átti ég að gera til að hann hætti eltingarleiknum?  Það hefði örugglega æst hann til árásar, ef ég hefði tekið til fótanna.  Ég leitaði fyrir mér í næsta nágrenni en fann enga undankomuleið.  Stórgrýtið var annaðhvort svo hátt og jökulnúið, að ég gat ekki klifrað upp, eða of lágt til að veita öruggt skjól.  Svona hélt ég áfram lengi vel með annað augað á ofsækjanda mínum og hitt á umhverfinu.  Það er hreint ótrúlegt, hve lengi 2 klst. eru að líða, þegar svona gripur er á hælum manns.

Loksins sá ég reykinn frá Scoresbysundi í fjarska og hugsaði með sjálfum mér, að nú myndi boli fara að snúa við.  Nei, það hvarflaði greinilega ekki að honum.  Honum fannst hann e.t.v. vera rétthæstur í þessu landi og treysti á mátt sinn og megin.

Þegar ég nálgaðist kofana, létti heldur á spennunni.  Brátt kæmu einhverjir auga á okkur og hundarnir kæmu þjótandi, hugsagði ég vongóður.  Það leið og beið og ekkert gerðist.  Hvað var eiginlega að hundunum?  Sváfu þeir um miðjan dag?  Loks heyrði ég illskulegt urr og það var eins og öllum hundum byggðarinnar hefði verið gefið merki og þeir ruku fram hjá mér að bola.  Næst komu börnin blaðskellandi og síðast hinir fullorðnu með Nielsen verzlunarstjóra í fararbroddi.

Hann róaði hundana og skaut nokkrum skotum við fætur tarfsins, svo að harðvegurinn þyrlaðist upp.  Þá fyrst virtist hann átta sig á alvöru lífsins og snéri við á stökki inn dalinn.  Hundarnir eltu hann geltandi í hæfilegri fjarlægð.

Það var talsverður fjöldi sauðnauta á ferli á þessum slóðum um sumarið.  Nokkrum dögum síðar ruddust tveir tarfar inn í þorpið á Vonarhöfða í 20 km fjarlægða frá Scoresbysundi.  Hundarnir hröktu þá inn á milli kofanna og einn þeirra frökkustu fékk að kenna á hvössum hornum annars tarfsins, sem tróð hann síðan til dauða.  Þessi atburður fyllti mælinn hjá íbúunum, sem felldu annan tarfinn, þótt dýrin séu friðuð á þessum árstíma, og ráku hinn burt.

Við vorum búnir að vera heilan sólarhring án umtalsverðrar áningar á leiðinni frá Rathboneeyju.  Ég sat þreyttur og sljór á sleðanum og átti aðeins þá ósk að fá að sofna.  Kuldinn virtist líka ná fastari tökum á mér svona lúnum og hungruðum.

Þegar frostið var meira en 40 gráður, olli það mér margs konar vandræðum.  Þá átti ég erfitt með að taka myndir og hver myndataka kostaði geysilegan sjálfsaga.  Ég varð að taka af mér vettlingana til að meðhöndla myndavélina og fingurnir urðu strax stífir og hvítir af kulda, svo að ég varð að stinga höndunum í vasana til að fá líf í þá aftur.  Næsta skrefið var að bera myndavélina upp að auganu til að stilla fjarlægð og ljósop.  Þá mátti þakka fyrir, ef málmhlutar myndavélarinnar festust ekki við aldlit eða fingur.  Stundum varð að skipta um linsur og ekkert var hægt að leggja frá sér í snjóinn á meðan.  Og fingurnir urðu aftur hvítir af kulda.  Í næstu atlögu var e.t.v. hægt að smella af.  Ég var oft heldur illa leikinn eftir slíkar myndatökur og óttaðist oft, að sárin, sem mynduðust, gréru ekki og ég myndi bera örin ævilangt.  Þó fannst mér þetta smávægilegt miðað við filmuvandann, sem ég varð að glíma við fyrstu vikurnar.  Í hvert skipti, sem ég reyndi að spóla átekinni filmu til baka, rifnaði út úr götunum á filmukantinum, þannig að færihjólið lék laust og náði ekki haldi til að færa filmuna til baka.  Filmuefnið þoldi ekki 46 gráðu frost, varð stökkt eins og gler og ég sat uppi með sárt ennið og 36 ónýtar myndir, sem ég hafði haft mikið fyrir að taka.  Hér var úr vöndu að ráða.  Myndirnar, sem ég ætlaði að taka með mér heim, voru höfuðstóllinn, sem ég hafði treyst á til að afla mér fjár með fyrirlestrum mínum til lækkunar ferðakostnaðarins.

Ég hafði margvelt hverjum eyri á meðan á undirbúningnum stóð til að þurfa ekki að vera öðrum háður fjárhagslega og komast hjá því, að fólk segði, að ég færi í orlof á annarra kostnað.


Ég bar myndavélina alltaf innanklæða en jafnskjótt og ég dró hana fram, kólnaði hún svo mjög, að filman rifnaði.  Þannig eyðilögðust í upphafi a.m.k. 12 filmur.  Til að reyna að bjarga þvli, sem bjargað varð, lét ég þekja mig með öllum tiltækum skinnum og fötum á sleðunum, opnaði myndavélina í þessum myrkraklefa, dró filmurnar út með fingrunum og pakkaði þeim inn í dagblöð.  Það er á engan hátt hægt að mæla með þessum vinnubrögðum en ég átti ekki margra kosta völ og vissi fyrirfram, að þessar filmur yrðu mér ekki til framdráttar.

Svo var það nefið á mér.  Á morgnana var það skraufaþurrt eins og eyðimörk en strax og ég fór að hreyfa mig utanhúss, rann úr því eins og óþéttum krana.  Það er augljós óskostur að vera með sultardropa í 46 stiga frosti.  Ég reyndi að draga úr kalhættunni með blæju, líkri þeim, sem austurlenzkar meyjar bera, en það dugði skammt, því að hún varð strax blaut í gegn og fraus föst við andlitið.  Mér varð ljóst af þessum vanda mínum, hvers vegna Grænlendingar hafa mongólskt yfirbragð en ekki grísk-rómverskt.  Það er vagna nefsins, sem liggur í skjóli framstæðra kinnbeina og verður því síður kuldanum að bráð.


Það var komið hádegi, þegar við náðum loks til byggða.  Kristján hefti hundana framan við kofann sinn.  Nokkrum mínútum síðar varð ég vitni að stórkostlegum sjónleik með 12 villltum, banhungruðum sleðahundum í aðalhlutverkum.  Ég hélt mig hafa kynnzt eðli þessara hunda í fjórum sleðaferðum og vissi við hverju mætti búast af þeim.  Þessu sinni gengu þeir alveg fram af mér með óhemjugangi og græðgi, sem endaði með hrikalegu blóðbaði.  Allt þetta gerðist, þegar Kristján kom með stóran útsel í eftirdragi inn í miðja hundaþvöguna.

Þeir ruku í einu stökki á hræið og voru fyrr búnir að læsa í það tönnunum en lentir úr stökkinu.  Blóðið skvettist og hárlufsur flugu í allar áttir, þegar langsoltnir hundarnir rifu, slitu og teygðu skrokkinn á milli sín.  Þeir átu sig ógnarhratt inn í selinn og einn þeirra var kominn hálfur inn, þegarhinir ráku hann alblóðugan í burtu.  Tveir hundar toguðust á um iðrin, sem tognaði vel úr, og hundaþvagan dreifðist í sama hlutaflli og teygðist úr görnunum.  Það var bókstaflega barizt um hvern bita og bein, sem hurfu líka eins og dögg fyrir sólu.

Snjórinn var orðinn blóði drifinn á stóru svæði umhverfis hræið.  Ég gekk inn í miðjan hópinn til að taka myndir af viðureigninni.  Það var ótrúlegt, að hér hefði legið stór selskrokkur fyrir örskammri stundu.  Hvað hafði orðið af honum?  Mér varð ósjálfrátt hugsað til þess, hve fljótir hundarnir yrðu að má mig af yfirborði jarðar og líklega yrði ekkert annað eftir af mér en myndavélin.

Slagurinn um ætið endaði jafnskyndilega og hann hófst og um leið og síðasti bitinn var horfinn, fóru hundarnir að sleikja af sér blóðið.  Síðan hringuðu þeir sig í snjónum og sofnuðu.  Það var langt síðan þeir höfðu fengið svona ærlega magafylli.  Skömmu síðar ætlaði ég að fara að dæmi þeirra og skreið dauðlúinn ofan í svefnpokann minn.

Ég gat ekki sofnað strax, þótt ég væri þreyttur.  Blóðbaðið og æðið í hundunum var of ferskt í huga mér.  Myndirnar af hasarnum dönsuðu fyrir augum mínum og héldu fyrir mér vöku lengi vel.  Þessu sinni hafði bráðin verið dauður selur en hafði það ekki gerzt, að glaðvært og gázkafullt barn hafði hnotið og dottið á hlaupum um þorpið og gráðugir hundarnir ráðist að því og étið upp til agna?  Það er alltaf hættulegt fyrir litlu angana að detta í augsýn hundanna, því að maðurinn, sem þeir bera virðingu fyrir, gengur uppréttur.  Vei þeim, sem skríða á fjórum fótum.  Þá líta hundarnir ekki sem hina mennsku drottnara sína, heldur sem bráð.  Oftast eru fórnarlömbunum allar bjargir bannaðar og öll hjálp kemur of seint.  Hið eina, sem hægt er að gera til að hindra endurtekningu, er að lóga öllum hundunum, sem taka þátt í slíkri aðför.

Það var þetta, sem hélt vöku fyrir mér, en smám saman róaðist ég við þá hugsun, að þetta hefði bara verið selur en ekki fallegt, búlduleitt barn, og ég sofnaði vært.

FIMMTI KAFLI


.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM