Grænlandsvetur þriðji kafli,

FJÓRÐI KAFLI

GRÆNLANDSVETUR
eftir Mattias Koglbauer
Á hundasleðum um heimsskautssvæði

ÞRIÐJI KAFLI
SELVEIÐAR Í 45° FROSTI

.

.

Utanríkisrnt.


nat.is

Ég kom til Scoresbysunds í kuldakasti og varð svo sannarlega var við það.  Fyrsta daginn sýndi mælirinn  -45°C og næstu daga kólnaði enn.  Hinn 8. marz, kl. 18:00, var frostið komið í –46,1°C.  Tölur þessar fékk ég frá veðurathugunarstöðinni á Tobinhöfða og þetta reyndist mesta frostið, sem mældist um veturinn.

Það kom í ljós fyrstu stundirnar eftir komu mina, að gönguskórnir mínir voru ekki þessum fimbulkulda vaxnir.  Ég gat ekki veriðlengur en hálftíma í einu í þeim úti við.  Hvar fengi ég með stuttum fyrirvara skinnstígvél (kamikkur)?  Eina von mín var, að vinir mínir frá 1967 gætu hjálpað mér, svo áð ég fór á stúfana snemma næsta morgun til að reyna ða verða mér úti um skinnkamikkur.  Mér var alls staðar tekið með kostum og kynjum, boðið kaffi og selkjöt, en þegar ég minntist á kamikkur, hristi fólkið dapurlega höfuðið:  „Ikke kamikker.”

Nokkrir áttu gamlar og nagaðar kamikkur, sem var búið að leggja á hilluna, en þær voru allar of litlar.  Þetta var ekki eins einfalt og ég hafði haldið í byrjun.  Í ráðleysi mínu fór ég til Elsners og rakti raunir mínar fyrir honum.  Viti menn, hann sagðist einhvers staðar hafa séð gömul, loðfóðruð flugmannastígvél númer 48 uppi á háalofti hjá sér.  Þau voru nokkrum númerum of stór, svo að ég fór í tvenna ullarsokka, fékk vænan vöndul af þurrkuðu heyi hjá Brönlund og tróð svo öllu í stígvélin.  Nú var ég fær í flestan sjó.

Annar búnaður var angóranærföt, þykkar, dúnfóðraðar buxur, jakki og Hetta.  Þessi fatnaður var skærrauður í þeim tilgangi, að auðveldara yrði að finna mig, ef ég týndist.  Þegar þessi klæðnaður nægði ekki, fór ég í loðfóðraða kuldaúlpu utan yfir.  Í fyrsta skiptið, sem ég gekk um þorpið í rauða gallanum, hljóp lítil, dönsk stúlka heim til sín frá sér numin af fögnuði og hrópaði:  „Mamma, mamma, jólasveinninn er kominn!”  Móðir hennar reyndi að útskýra málið en sú stutta var viss í sinni sök og sagði:  „Ég sá hann vel.  Hann er í fallegum, rauðum fötum með rauða hettu og í stórum stígvélum.  Hann er núna hjá Brönlund.”

Stígvélin, sem ég fékk hjá Elsner, leystu vanda minn aðeins um stundarsakir, svo að ég lagði með lagni að henni Magdalenu, gamalli, grænlenzkri konu í þorpinu, að sauma nú fyrir mig kamikkur.  Hún lofaði því, sagðist mundu
gera það mjög fljótlega og tók mót af fótum mínum á pappaspjald.  Nú gat ég í alvöru farið að hugsa til þess, að fara með einhverjum Grænlendingnum á selveiðar.

Það var auðveldara að segja en að gera.  Hver mundi vilja taka mig með sér?  Hver vildi auka byrði sína og leyfa mér að koma með út á næfurþunnan ísjaðarinn?  Ísinn þar er nýmyndaður og hvert óhugsað og óvarkárt skref þar getur orðið hið síðasta.  Grænlendingarnir í þorpinu vildu alla vega engu lofa þann daginn.
„Upa”, ef til vill, „Imera”, ég veit ekki, sögðu þeir, þegar ég spurði þá, hvort þeir færu aftur daginn eftir að ísjaðrinum.

Líklega braut það í bága við venjur hins frjálsa veiðimanns að binda sig við ákveðin loforð að þessu leyti.  Hann fór, þegar honum sjálfum hentaði, hvort sem það var kl. fjögur að nóttu, tólf á hádegi eða alls ekki.  Það skerti frelsi hans að binda sig.
Ég varð að komast að ísröndinni, hvernig sem ég færi að, og þar sem ég er barn siðmenningarinnar, skorti mig þolinmæði til að bíða þess lengi að fá þessari þrá minni fullnægt.  Það var vegna þessarar óeirðar, að ég var kominn á stúfana kl. átta morguninn eftir.  Ég gekk niður á ísinn að sleðaslóðinni, sem lá fram hjá Kap Tobin að ísröndinni.
Veðrið var gott, logn og heiðskírt, en grimmdarfrost.  Sólin skein í heiði og ég fékk glýju í augun.  Geislarnir vermdu ekki.  Það brakaði og marraði í snjónum við hvert fótmál og rakinn í nefi mínu fraus, þegar ég andaði að mér.

Ég var staðráðinn að komast með fyrsta hundasleðanum, sem fram hjá færi.  Mér yfðri ekki skotaskuld úr því að stöðva einn hundasleða.  Ég hafði stöðvað hesta og naut, bíla og bifhjól og heilt fraktskip í Dumbshafi.  Hálftími leið án þess, að nokkuð gerðist.  Þá sá ég hundaæki þjóta í gegnum þorpið, konur og born forða sér úr vegi og heyrði hrópin í eklinum.  Hundarnir þutu niður á fjörðinn og andardráttur þeirra skildi eftir sig gufuslóð.
Þeir stefndu beint á mig.

Ég veifaði öllum öngum og hrópaði.  Grænlendingurinn hlaut að hafa séð mig.  Hvers vegna stanzaði hann ekki?  Hundarnir þutu áfram með sama hraða og snjórinn þyrlaðist upp í kjölfar þeirra og sleðans.  Ég varð að hörfa til hliðar, svo að hundarnir hlypu mig ekki um koll.  Þegar þeir voru komnir alvag að mér viku þeir til hliðar í stórum sveig út í ótroðinn snjórinn.  Þetta hægði á þeim og ég tók undir mig geysilegt stökk og lenti á sleðanum við fætur veiðimannsins.

Hann sagði eitthvað, sem ég skildi ekki.  Ég hélt mér dauðahaldi í fætur hans og þvertré sleðans, því að fætur mínir drógust í snjónum við hlið hans.  Átti ég að sleppa tökunum og reyna að komast óskaddaður frá þessu?  Nei, ég skyldi hanga, hvað sem það kostaði.  Ég reyndi veikum burðum að ná traustu haldi en fann þá, að ég var tekinn traustu taki og kippt upp á sleðann.

„Kujanak, kujanak”, takk, takk, sagði ég á grænlenzku, settist upp og tók af mér bakpokann.

Ég gaf eklinum til kynna á táknmáli, að ég ætlaði með honum út að ísröndinni.
„Piusse”, selir?, spurði ég og hermdi eftir manni að skjóta bráð.
„Upa”, ef til vill, sagði hann og yppti öxlum.
„Mikill veiðimaður – margir selir”, sagði ég á blandaðri grænlenzku og dönsku og lagði höndina á öxl hans.

Við horfðum hvor á annan og hlógum hjartanlega.  Svo rétti ég honum pakka af vindlingum og hannd dró upp kveikjara og rauðan vasahníf.  Hann rak hvort tveggja upp að nefinu á mér eins og hann vildi segja:  „Þekkir þú þetta?”
Já, ég kannaðist við gripina.  Hvernig hafði hann komizt yfir þá?  Árið 1967 gaf ég Grænlendingunum, sem ég kynntist, svona vasahnífa og kveikjara.  Samkvæmt því höfðu leiðir okkar legið saman einhvers staðar – en hvar?

Auðvitað þekkti hann mig.  Hver þekkti ekki Austurríkismanninn?  Smáfólkið í þorpinu hrópaði alltaf:  „Östriger!, Östriger!”, þega ég gekk í gegnum byggðina og fullorðna fólkið var alltaf að reyna að tala við mig með misjöfnum árangri þó.  Honum reyndist áreiðanlega auðveldara að þekkja einn Austurríkismann aftur en mér 250 Grænlendinga.  Auk þess var hettan hans svo samanreimuð, að mjög lítið sást faman í hann.

Ég byrjaði að þreifa fyrir mér  meðal áhafna bátanna, sem hföður siglt með okkur og spurði stutt og laggot:  „Entalik?”
Hann hristi höfuðið:  „Dorthe.”

Já, Dorthe var lítill kútter, sem Grænlandsverzlunin átti.  Við höfðum farið saman til Bjarnareyjar við Innra-Scoresbysund, veitt seli við Suðurhöfða og skotið fjöldan allan af gæsum í Norðausturflóa.

„Björneö og Sydkap”, sagði ég, hreyfði hendurnar upp og niður og líkti síðan eftir manni með riffil.  Hann hló og kinkaði kolli til samþykkis.

Þá urðum við fyrir því óhappi, að vél bátsins bilaði og við lágum í tvo daga og tvær nætur fyrir mynni árinnar Scurchart án talstöðvar.  Tignarlegir borgarísjakar sigldu umhverfis okkur og af og til brotnuðu stór flykki úr þeim, svo að báturinn hoppaði og skoppaði  eins og ótemja og við urðum að ríghalda okkur til að hrökkva ekki útbyrðis.  Þegar við vorum á heimleið að viðgerð lokinni, skall á okkur ofsarok og himinháar öldur kaffærðu bátinn hvað eftir annað en alltaf skaut honum upp aftur.

„Dorthe Ajungilak”, dorthe er góður bátur, sagði ég.  Það kom ánægjublik í augu hans og hann brosti.  Eftir þessa sameiginlegu reynslu fyrir tveimur arum vorum við ekki ókunnugir hvorum öðrum.

Það var sama, hvort ferðast var með Grænlendingum á bát að sumri eða á hundasleða að vetri, alltaf voru þeir glaðværir og félagslyndir.  Hann tók veru minni á sleðanum vel, andstætt því, sem ég hafði búizt við, og reyndi að halda uppi samræðum við mig.  Samtal okkar var hálfgerður látbragðsleikur en samt skildum við hvorn annan furðuvel.

Slóðin milli þorpsins og vetðurathugunarstöðvarinnnar á Tobinhöfða var vel troðin og greinileg, hundarnir voru óþreyttir og kappsmiklir, næstum um of, því aðþeir voru líka áflogagjarnir.  Andgufur þeirra frusu jafnótt, svo að við sátum í hrímþoku á sleðanum fyrir aftan þá.  Fyrstu stundina höfðu þeir fleiru að sinna en dráttarhlutverkinu einu.  Það hafði ekki unnizt tími til stóru og smáu morgunverkanna fyrr, svo að þeir urðu að gera þau á hlaupum.  Við þessar athafnir hægja þeir ferðina lítið eitt og verða þá að gata sín vel á sleðanum.  Það var oft furðulegt, hversu litlu munaði og hve fimlega þeir viku sér frá eða komu sér aftur á fæturna, þegar þeir lentu aftur fyrir sleðann og drógust með.

Eftir klukkutímaferð komum við til Tobinhöfða.  Þar stóðu nokkur hús innan um alls konar stangir og möstur.  Þar bjuggu einnig nokkrir Grænlendingar í öllu lakara húsnæði en starfsmenn stöðvarinnar.

Ekillinn minn, Edward, stöðvaði sleðann fyrir utabn einn kofaræfilinn og  fór inn til að hlýja sér.  Mér fannst líka gott að fá að teygja úr mér og gekk hálffrosnum fótum að veðurstöðinni.  Vélamaður stöðvarinnar, Jimmi Karlson, em ég hafði kynnzt fyrir tveimur arum, kom út úr vélahúsinu.  Hann rak upp stór augu.

„Halló Matthias.  Þú ert kominn til Grænlands aftur.  Getur þú ekki gleymt Scoresbysundi og Tobinhöfða?”
„Sennilega ekki Jimmi.  Ég vildi líka sjá, hvernig þyð byggjuð að vetrarlagi.”
„Eru þetta hundarnir hans Edwards?  Eruð þið á leiðinni að ísröndinni?  Komdu inn fyrir og fáðu þér smáyl í kroppinn.”
„Þú þarft ekki að bjóða mér tvisvar.  Þetta er nú meiri fimbulkuldinn.  Það liggur við, að myndavélin frjósi föst við nefið á manni.”

Það var notalega hlýtt í hreinlegu og nútímalegu stöðvarhúsinu.  Veðurfræðingarnir voru að ljúka undirbúningi við að senda athugunarbleg (radiosonde) á loft.  Það var þegar búið að fylla belginn og tækjakassinn var hengdur neðan í hann.  Í honum eru ýmiss konar veðurathugunartæki og senditæki.  Þeir opnuðu allstórar dyr, fóru út með belginn og slepptu honum lausum.  Litli sendirinn í kassanum sendir uppl´syingar um loftþrýsting, rakastig og hita í mismunandi hæðum til stöðva á jörðu niðri.  Fylgzt er með belgjunum á radarskermi og reiknuð út vindátt eftir stefnu þeirra og reki.

Belgurinn var varla horfinn úr sjónmáli, þegar Edward birtist.  Hann greiddi úr aktygjaflækjuynni og svo héldum við af stað aftur.
„Bless, bless”, hrópuðum við.

Í stað þess, að tekið væri beint undir kveðjur okkar, heyrðum vi hrópað á eftir okkur:  „Farið þið varlega.  Gætið ykkar á vökunum!”

Getur það verið, að selveiðar við ísröndina séu svona hættulegar?  Var öll þessi hræðsla réttlætanleg?  Það kæmi allt saman í ljós.

Hundarnir voru greinilega úthvíldir, því að þeir tóku duglega á út eftir endulöngum höfðanum.  Þar kom brött brekka niður á fjörðinn og Edward hrópaði á hundana til að draga úr ferðinni, en þeir létu sér ekki segjast.  Sleðinn steyptist fram af brekkubrúninni og mér fannst ég sjá beint niður á fjörðinn.

Edward stökk aftur fyrir sleðann, hélt sér dauðahaldi og reyndi að draga úr hraðanum.  Hundarnir gerðu sér ljósa hættuna á því að fá þungan sleðann yfir sig undan brekkunni og hlupu eins og þeir ættu lífið að leysa, nokkrir hægra megin við miðja slóð, hinir vinstra megin.  Allt kom fyrir ekki.  Sleðinn dró þá uppi og rann yfir aktygin og hundarnir drógust á eftir honum.  Þeir ýlfruðu ámátlega og reyndu án árangurs að koma fótunum fyrir sig.

Ég sat stjarfur á sleðanum og vissi ekki, hvað ég ætti að gera.  Það var orðið of seint að stökkva af.  Ég hefði brotið í mér hvert bein, því að hraðinn var orðinn svo mikill.  Hið eina, sem ég gat gert og gerði, var að ríghalda mér og bíða þess, sem verða vildi.  Sleðinn steypti stömpum og endasentist sitt á hvað.  Ég varð að vera viðbúinn að stökkva af, ef honum hvolfdi, því ég hlyti örugglega verri útreið, ef ég yrði undir honum, en af stökkinu.

Hraðinn jókst enn.  Mér fannst ég vera að liðast í sundur og hryggjarlengjan væri að klofna.  Við nálguðumst gapandi sjávarfallasprungurnar í fjörunni.  Vonandi stæðist sleðinn þessa síðustu þolraun áður en hann rynni út á sléttan ísinn.  Ég setti mig í stellingar til að taka við lokahögginu.  Þá gerðist kraftaverkið.  Sleðinn stöðvaðist.  Ég staulaðist á fætur, leit á Edward hálfringlaður, svo brosti ég til hans eins og ég hefði aldrei á ævinni skemmt mér betur.

Hundarnir ýlfruðu enn þá og voru hálfskömmustulegir með lafandi skott og tungur.  Edward dró þá í aktygjunum fram fyrir sleðann og sparkaði í rassinn á hverjum fyrir sig.  Síðan hagræddi hann aktygjunum, settist á sleðann og ég fyrir framan hann og við brunuðum aftur af stað.  Við skröngluðumst yfir sprungurnar og síðan á slóðina milli íshraukanna rétt við ströndina, þar til við komum aftur á sléttan ís.

Næstu kílómetrana var ísinn öldóttur eins og þvottabretti.  Það var engu öðru líkt en að sjórin hefði frosið í hvassviðri og öldugangurinn hefði stirðnað.  Öldurnar voru svo háar, að viðlá, að við yrðum sjóveikir.  Mikið urðum við fegnir, þegar ójöfnurnar voru að baki.
Þarna úti á ísnum næddi um okkur nístingskaldur vindur, sem var reyndar algengt, en í 45 gráðu frosti afber enginn að snúa andlitinu í hann.  Það var því ekki annað að gera en að hylja aldlitið eins vel og hægt var og að lokum gat ég aðeins kíkt út um örlítið gat á samanreimaðri hettunni.  Langt úti á ísnum sá ég einhverjar dökkar þústir og þegar nær kom, sá ég að þetta voru kajakar og gróft samanreknar flatbytnur úr tré.  Bátarnir lágu á hvolfi við sleðaslóðina.

Edward gaf hundunum merki um að stanza og við tókum einn kajakinn og lögðum hann þvert yfir sleðann.

Framundan okkur var nú u.þ.b. þriggja metra hár íshryggur, sem hafði birgt okkur sýn fram á við.  Edward beindi hundunum beint á hann og þeir tóku undir sig geysilegt stökk til að komast yfir hindrunina.  Hóstandi og ýlfrandi klóruðu þeir sig upp brattann en tókst ekki að komast yfir toppinn.

Þá ærðist forystuhundurinn og beit óþyrmilega í makkann á hundinum, sem næstir voru, þannig að hárlufsurnar flugu í allar áttir.  Því næst lögðust þeir aftur í aktygin og reyndu á ný.  Hann var sá, sem réði.  Hann leið ekkert hálfkák.  Vesalings hundarnir klóruðu og kröfsuðu, runnu aftur á bak og reyndu aftur.

Ég vildi hjálpa hundunum og leit á Edward.  Hann bölvaði og lét svipuna ganga á hundunum, sem báru sig aumlega undan höggunum.

Skyndilega tókst þeim með undraverðu, sameiginlegu átaki og kröftum að krafsa sig yfir.
Nú blasti við okkur rennisléttur og glær nýís.

Það var eins og við fykjum yfir þessa spegilsléttu auðn.  Mér fór brátt að líða heldur illa, þegar ég sá hvernig ísinn gekk í bylgjum undan þunga sleðans.  Þó vissi ég, að lagnaðarís er geysilega seigur og getur bori meiri þunga en hann lítur út fyrir.  Þrátt fyrir það, fannst mér þetta líkt og að sitja á trjátoppi, sem sveiflast til og frá í stormi og enginn vissi hvenær brotnaði.

Sleðahundarnir, sem eru svo villtir, að erfitt er að hemja þá á landi eða þykkum ís, voru skyndilega orðnir svo leiðitamir, að þeir hlýddu hverri skipun húsbónda sins samstundis.
„Iji, iji”, til hægri, „ijo, ijo”, til vinstri.  Edward þurfti ekki annað en að hvísla þessi orð.  Hundarnir höfðu tekið algerum sinnaskiptum.  Þeir höfðu vafalaust veður af opnu hafi við ísröndina og gerðu sér líka grein fyrir því, að ísskænið undir fótum þeirra var örþunnt.

Eðlishvöt þeirra skynjaði hættuna, sem þeir gátu ekki yfirunnið með kröftunum einum saman, heldur urðu þeir skilyrðislaust að treysta á dómgreind mannsins á sleðanum.
Ég var hættur að gera mér grein fyrir því, hvert við stefndum, því að hér var engin slóð lengur og enginn sjóndeildarhringur.  Það sást ekkert annað en ísauðnin og nokkrir hrímþokubakkar, sem við brunuðum í gegnum.  Fjarlægðirnar týndust í þokunni.  Hundarnir voru orðnir hrímgráir.  Skyndilega heyrðum við skothvell.

Þrír skothvellir fylgdu strax á eftir.  Ég nuddaði hrímið af andlitinu til að geta séð betur.  Þá sá ég skugga birtast í þokunni, hunda og menn, og
handan þeirra auðan sjó í miðri ísauðninni.  Við vorum komnir að ísröndinni.  Á þessum síbreytilegu slóðum öfluðu Grænlendingarnir sér lífsviðurværis.  Sjávarspendýr, selir og stundum rostungar, koma hér upp á yfirborðið til að anda.  Hérna hittast líka veiðimennirnir frá Scoresbysundi og Tobinhöfða.  Hingað koma hvorki konur né born, því að þetta er ríki karlmanna og karlmannsverk að vinna.

Edward kallaði eitthvað til þeirra, sem næst stóðu, e.t.v. var það kveðja eða ósk um góða veiði.  Einn þeirra tróð sér ofan í kajak og réri af stað til að slkja skotinn sel.  Veiðin virtist ganga þokkalega, því að ég sá nokkra seli, sem var búið að draga upp á ísinn.  Edward hélt áfram meðfram ísröndinni.  Hann vildi greinilega ekki veiða í margmenni.  Að hálftíma liðnum sáum við fleiri hundasleða og veiðimenn framundan í þokunni og Edward tók stefnuna á þá.

Þetta virtist góður veiðistaður.  Ótal blóðslóðir lituðu ísinn og selir lágu eins og hráviði um allt.  Þarna lá líka flatbytna, hálf uppi á ísnum og hálf í sjó.  Við staðnæmdumst skamman spöl frá mönnunum og gengum varlega í átt til þeirra.  Ég gekk nokkrum skrefum á eftir Edward til að ekki yrði of mikill þungi á ísnum á einum stað og fylgdist vel með, hvar hann steig niður.  Ég skiðaði ísinn líka gaumgæfilega til að reyna að læra sjálfur, hvar væri óhætt að setja niður fót og hvað bæri að forðast.  Mér leið eins og ég væri að paufast einn og óbundinn yfir kolsprunginn skriðjökul.  Hér eins og þar getur næsta skref orðið hið síðasta og reynslan og athyglisgáfan geta bjargað lífi manns.  Það er þó langt í frá, að það dugi hérna á næfurþunnum ísnum.  Grænlendingarnir virðast einnig hafa eitthvert sjötta skilningarvit eða eðlisávísun á ísnum.

Það er erfitt að lýsa tilfinningunni, sem grípur mann, þegar staðið er á ísröndinni og ísinn gengur í bylgjum undir fótum.  Það er líka ógnþrungið að horfa ofan í djúpið í gegnum glaran ísinn.  Það er engu líkara en að standa þyngdarlaus á sjónum.  Það er óhætt að fullyrða, að við vorum miklu nær íbúum sjávarins en fólkinu á ströndinni, sem lá svo órafjarri.  Það er skrítið, að vatnið og ísinn skuli vera sama efnið, aðeins á mismunandi storknunarstigi.

Við komum okkur fyrir í u.þ.b. 100 m fjarlægð frá hinum veiðimönnunum við litla vík í ísnum.  Kveðjurnar voru stuttar og þeir gáfu mér, aðskotadýrinu, naumast gaum.  Veiðarnar áttu hugi þeirra alla og þeir horfðu spenntir út á hafflötinn.  Við ísjaðarinn var alltaf þokuslæðingur vegna hins mikla hitamunar sjávar og lofts.  Sjórinn er lítið eitt neðan frostmarks en miklu meira frost í lofti á þessum árstíma.

Næstu stundirnar liðu án þess, að nokkuð gerðist.  Það sást ekkert lífsmark á haffletinum.  Veiðimennirnir gengu af og til að sleðum sínum og hlupu fram og aftur til að halda á sér hita.  Mér varð líka kalt, svo að ég gekk að sleðanum okkar, kveikti á prímusnum og bræddi ís í kaffi fyrir okkur.  Suðið í honum vakti endurminningar um fyrri ævintýri okkar saman.  Þau voru ófá skiptin, sem hann hafði verið miðpunktur athygli minnar og kunningjanna í fjallgöngum, þegar við biðum með eftirvæntingu eftir heitu kaffi eða einhverju bitastæðara.

Ég yljaði mér á höndunum á meðan ég beið eftir því, að ísinn bráðnaði.  Þá birstist allt í einu einn veiðimannanna og reif mig upp úr draumum mínum.  Hann leit fyrst á pottinn með ísnum og síðan á mig sagði:  „Ikke is!”  Hann þreif pottinn og skvetti innihaldinu í stórum boga út á ísinn.  Ég horfði á hann furðulostinn.

Hvern fjandann átti þetta að þýða?  Í stað þess að gleðjast yfir því að eiga að fá heitan kaffisopa, hellti hann vatninu.  Hann sá, hvernig mér var innanbrjósts, brosti róandi til mín og fór með pottinn,  Skömmu síðar kom hann til baka með pottinn sneisafullan af snjó í annarri hendi og ísmola í hinni.  Hann hélt ísmolanum upp að vörum mínum.  Ja, svei, hvílíkt saltbragð.  Nú rann upp fyrir mér ljós.  Það var ekki hægt að nota sjávarís í kaffi.  Hann var allt of saltur.  Ég hefði heldur betur orðið að athlægi, ef ég hefði boðið salt kaffi.  Þess í stað urðu þeir allir yfir sig hrifnir, þegar ég bauð þeim sjóðandi vatn í kaffið.

Það kom brátt í ljós, að þetta var einhver bezta hugmynd, sem hugsast gat fyrir þá.  Þeir gerðu sér skyndilega ljóst, þegar þeir sötruðu kaffið með sýnilegri ánægju, að prímus, álpottur, sykur og neskaffi voru ómissandi hluti útbúnaðar veiðimannsins.  Til að auka enn á ángæjuna lét ég tvo vindlingapakka ganga manna á milli.  Það má segja, að ég hafi á þennan hátt keypt mér aðgang að veiðimannasamfélaginu.  Nú var ég orðinn einn þeirra.  Heitur sopinn kom öllum í gott skap og þeir hlógu og mösuðu og tókust á í gamni.

Einn þeirra fann tómt skothylki, stillti því upp í u.þ.b. 30 m fjarlægð og fékk mér riffilinn sinn.  Þótt ég hefði ekki snert skotvopn síðan í stríðinu, varð ég nú að verja heiður minn.  Ég lagðist endilangur á ísinn, miðaði og hleypti af.  Afturkastið af rifflinum var svo mikið, að ég missti næstum húfuna.  Fyrsta skotið geigaði.  Næsta skot fór of neðarlega.  Í þriðja skoti fell hylkið.  Ég hæfði snjóköggulinn, sem það stóð á.

Edward og annar til voru hinir einu, sem hæfðu hylkið.  Þeim finnst gaman að reyna með sér á þennan hátt og gera það oft.  Þetta er líka góð æfing fyrir selveiðar, því að selurinn rekur oftast aðeins upp glátrýnið og stundum er færið langt.  Það er áríðandi fyrir þessa menn að nýta hvert tækifæri, sem býðst til að skjóta sel og missi ekki marks.  Biðin er oft löng.

Þannig var það í þetta skiptið.  Síðan við komum hafði enginn selur sézt.  Hinir veiðimennirnir fóru að tygja sig til heimferðar og smátíndust brott.  Loks vorum við Edward einir eftir.  Sólin gekk til viðar og þokan eyddist.  Svo langt sem augað eygði sáum við ekkert kvikt á ísnum.  Allir voru farnir heim.

Við höfðum ekkert borðað allan daginn og mér leið orðið bölvanlega af hungry og kulda.  Það þýddi ekkert að barma sér.  Var þetta ekki aðalástæðan fyrir Grænlandsför minni?

Skyndilega birtist dökkleitur hvirfill á haffletinum og jafnskjótt rauf skothvellur þögnina.  Skotið hæfði og selurinn maraði í hálfu kafi.  Edward tróð sér í kajakinn og réri af stað til að sækja hann.  Ég fylgdist spenntur með honum í sjónaukanum.  Hann réri með vélrænum takti þar til hann kom að selnum.  Þá krækti hann í belginn með agnhaldi og batt hann fastan við kajakinn.  Nú var hann búinn að tryggja sér bráðina og þurfti ekki að flýta sér eins mikið til baka.  Þegar hann kom nær, réri hann af öllum kröftum, þannig að kajakinn rann að mestu upp á ísinn.  Ég fetaði mig varlega nær og greip í stefnið til að aftra því, að hann rynni aftur á bak eða ylti á hliðina.  Edward mjakaði sér upp úr bátnum og steig út á ísinn, sem brast undan honum og hann sökk upp að mitti.

Það lá við að hjarta mitt stöðvaðist.  Hann hélt sér dauðahaldi í bátinn og spriklaði með fótunum.  Vatnið flæddi upp úr vökinni og alla leið til mín.  Hvað átti ég að gera?  Hvernig gat ég hjálpað Edward?  Ég vissi, að hver sekúnda var dýrmæt, því að ofkæling var yfirvofandi.  Edward reyndi í örvæntingu sinni að koma fótunum upp á skörina, en því meir, sem hann barðist um, þeim mun stærri varð vökin.  Lokst hætti hann að brjótast um og var að þrotum kominn.  Ég gat ekki látið hann drukkna þarna án þess að hreyfa fingur til bjargar.  Á meðan þessar hugsanir flugu um huga mér, skauzt hann eins og tappi úr flösku upp úr vökinni, reif gain úr nöndum mér og lagðist yfir hann.  Bátnum hvolfdi yfir hann og hann hvarf allur undir yfirborðið.  Þegar honum skaut upp aftur, blés hann eins og rostungur.  Hann ríghélt sér enn þá í bátinn, ískalt vatnið rann um andlit hans og í augum hans skein óttinn.

Ég lét alla varúð lönd og leið, fikraði mig meðfram kajaknum að vökinni og kom honum á réttan kjöl með líkamsþunga mínum.  Á þennan hátt dróst Edward svo hátt upp úr vökinni, að hann gat skreiðst upp á mannheldan ís.  Hægt og rólega mjakaði hann sér eins og selur á maganum og hélt annarri hendi í kajakinn.

Selskinnsstígvélin hans, bjarnarskinnsbuxurnar og fitukámugur anúrakurinn höfðu greinilega dregið minna vatn í sig en ég hafði búizt við.  Við máttum samt engan tíma missa og flýttum okkur að koma selnum og kajaknum fyrir á sleðanum og brunuðum síðan af stað heim á leið – heim í hlýja stofuna, sem var því miður allt of fjarri.

Hraði hundanna var hreint ógnvekjandi.  Það var eins og blessaðar skepnurnar skynjuðu, hvað var í húfi.  Til þess að skýla Edward fyrir nöprum næðingnum sat ég fyrir framan hann og hann hjúfraði sig upp að baki mínu, vafinn inn í sauðnautsfeld.  Samt leið ekki á löngu, að kuldinn varð honum ofraun.  Hann vissi, að eini möguleikinn til að yfirvinna hann, var að vera á hreyfingu.  Hann stökk aftur fyrir sleðann, greip í höldin og hljóp með.  Þegar hraðinn var orðinn of mikill fyrir hann til að hlaupa, lét hann sig dragast með og þegar hann var orðinn örmagna af þreytu, stökk  hann upp á sleðann fyrir aftan mig.

Eitt sinn, er hann stökk upp á sleðann til að hvíla sig, heryði ég að eitthvað datt á ísinn.  Við stöðvuðum hundana og ég fann riffilinn nokkra tugi metra fyrir aftan sleðann.  Ólin hafði slitnað.

Heimskautsnóttin hafði verið að smáfærast yfir okkur á meðan á öllu þessu stóð.  Svo virtist sem snæbreiðan kæmi í veg fyrir, að aldimmt yrði.  Það var eins og eitthvert endurskin frá horfinni sól ljómaði yfir storknuðu Dumbshafinu.  Sleðinn leið yfir ísinn umlukinn þessari ólýsanlegu dýrð.  Marrið og brakið í snjónum undan sleðameiðunum minnti á grát og gnístan tanna fordæmdra sálna.

Ég húkti á sleðanum og reyndi að hreyfa mig lítið til að skýla Edward sem bezt.  Kuldinn var farinn að ganga anzi nærri mér sjálfum og ég var orðinn allstirður.
Við skildum kajakinn eftir landmenginn við íshrygginn, sem hundarnir hföðu haft sem mest fyrir að komast yfir.  Mér fannst þungu fargi af mér létt að hafa næfurþunnan ísinn að baki og vera kominn á þykkan og traustan ís, þar sem við gátum auk þess fylgt greinilegri slóð.  Örþreyttir renndum við upp brattan Tobinhöfðann.  Á brekkubrúninni urðum við sammála um, að við kæmumst ekki við svo búið til Scoresbysunds og yrðum að fá hlýju í kroppinn áður.

Edward fór til vinas sinna og ég til Jimmi Karlsons og þangað ætlaði Edward að sækja mig, þegar hann var tilbúinn til að halda áfram heim á leið.  Í myrkrinu fann ég enga troðna slóð að húsi Jummis og óð því djúpan snjóinn með talsverðum erfiðismunum.  Allt í einu steig ég á einhverja ójörnu undir snjónum.  Hún ýlfraði, þeyttist upp, urraði að mér og stökk síðan á mig.  Ég brá fætinum eldsnöggt gegn árásinni og náði að spyrna hundinum frá mér, svo að hann flaug í loftköstum aftur fyrir sig.

Nú lifnaði heldur betur yfir umhverfinu.  Ekki færri en 20 hundar, sem voru bundnir við Langa keðju risu upp úr snjónum og brátt breyttist næturkyrrðin í eitt allsherjar hundagól.  Hárin risu á höfðinu á mér.  Hvílíkur gauragangur!  Bara vegna þess, að ég hafði stigið á einn hund.

Ég flýtti mér frá hundunum að húsinu og opnaði dyrnar.  Mér brá í brún, þegar ég leit í spegilinn í anddyrinu og sá sjálfan mig.  Þessi skrítni fugl, sem ég sá, var svo dúðaður, að ekkert sást af andlitinu annað en hrímaðar augnabrúnir  og augu.

„Sæll aftur Jimmi.  Bannsettur kuldi er þetta.  Má ég ylja mér hjá þer”
„Gakktu í bæinn.  Þú ert alltaf velkominn.  Veidduð þið eitthvað?”
„Bara einn sel.  Hann er á sleðanum.”

Jimmi er einn þeirra Dana, sem hefur tekið ástfóstri við Grænland.  Honum finnst frelsið og fjarlægðin frá þvingunum siðmenningarinnar vega þyngra en harðræðið og skorturinn hér.  Hann er vélstjóri veðurstöðvarinnar og notar allar frístundir sínar til veiða.  Hann átti hundana, sem ég hafði hnotið um í snjónum fyrir utan.

Ég var að afklæðast yfirhöfnunum og stígvélunum, þegar dyr opnuðust hljóðlega fram á ganginn og ég fann tvo mjúka handleggi vefjast um háls minn.

„Aníta!”

Þetta var litla, fallega stúlkan hans Jimmis með ljósu lokkana sín, litla kartöflunefið og saklausu, djúpbláu augun, sem horfðu spyrjandi á mig.

„Viltu leika við mig núna?”

Hún hélt um háls minn og litli náttkjóllinn lyftist, svo að ég sá, að hún var berfætt.  Forvitnin hafði verið svo sterk, að hún hafði rokið beint fram úr rúminu og gleymt að fara í skóna sína.  Hún átti reyndar að vera steinsofandi þessi tveggja ára hnáta.  Ég tók hana í fangið og settist í djúpan hægindastól í stofunni.

Þessi heimilislegi og hlýlegi griðastaður á 71°N var eins og smækkuð mynd af Danmörku.  Ýmis nútímaþægindi, s.s. olíukynding, bað og teppi út í horn auk glymskratta, segulbands og nútímahúsgagna, gerðu lífið bærilegt á þessum árstíma.

Þrátt fyrir allt þetta og kaffi og smurt brauð, sem ég úðaði í mig, hvarf ekki ísköld norðurhjaranóttin með öllum sínum hættum úr huga mér.  Hún beið fyrir utan.  Það er furðulegt, að þunnir húsveggir geti skilið á milli svona ólíkra heima.

Þegar ég sagði Jimmi frá óhappi Edwards, gerði ég mér fyrst ljóst, hve hurð hafði skolli nærri hælum.  Ég lyfti kaffibollanum og sagði.  „Skál, Jimmi.  Mikið er lífið dásamlegt.”  Oft hef ég hugleitt, hvers vegna lífið virðist fegurra og eftirsóknarverðara, þegar yfirvofandi lífsháski er að baki.  Þetta er sama líftóran og okkur er gefin í vöggugjöf og því skyldi hún meira metin eftir að farið hefur verið gáleysislega með hana og menn hafa sloppið með skrekkinn?

Móðir Anitu varð að bera hana tvisvar inn í rúm áður en hún sætti sig við að verða að yfirgefa okkur og sofnaði.  Heimsókn mín virtist vera velkomin í fremur tilbreytingarlausri tilveru hjónanna.  Jimmi sagði mér frá starfi sínu, húsinu í Danmörku og framtíðardraumum þeirra.

Ég hugsaði með söknuði til hlýjunnar í stofunni hans Jimmis, þegar við Edward þutum aftur af stað út í dimma og kalda nóttina.  Ég sat á loðnum sauðnautsfeldinum og hallaði mér upp að gaddfreðnum selnum og fötunum hans Edwards.  Hann lá fyrir mig í þurrum lánsfötum og tottaði pípustertinn sinn.  Hundarnir fengu laustan tauminn og þeir virstust draga sleðann fyrirhafnarlaust eftir troðinn slóðinni.  Bragandi norðurljósin loguðu á himinhvolfinu.  Það var undursamlegur sjónleikur.  Grænar geislarákir liðuðust  upp frá sjóndeildarhringnum að hvirfilpunkt, leystust upp í óteljandi þætti, hurfu og birstust aftur annars staðar, þéttust í gormlaga hringi og tóku á sig furðulegustu myndir.  Það er ekki hægt að slíta sig frá slíkum undrum.  Þau hertaka sálina með törfum sínum.  Skrautblæjur fíngerðs, ljósrauðs ljóss breiddust tignarlega yfir sjónarröndina, stigu og véllu, bylgjuðust og ófust saman eins og þeim væri stjórnað af þúsundum limamjúkra slæðudansmeyja.

Þegar máttarvöldin setja slíka sýningar á svið, hverfur þreyta og kuldi og allt heimsins böl eins og dögg fyrir sólu.  Ég skimaði eftir sjörnumerkjum, sem ég þekkti, eins og ég var vanur að gera á heiðskírum kvöldum.  Fyrst kom ég auga á Karlsvagninn og fann Pólstjörnuna í beinu framhaldi af afturhjóli hans.  Hvernig gat þetta verið Pólstjarnan?  Við voru aðeins staddir á 71°N og þar átti hún ekki að vera í hvirfilpunkti.  Þetta var einhver vitleysa, því að þessi stjarna var þráðbeint yfir okkur.  Ég reyndi aftur og tók mið af Kassiópeiu, því að Pólstjarnan á að vera mitt á milli hennar og Karlsvagnsins.  Þetta staðfesti aðeins fyrri niðurstöðu.  Ég varð að sætta mig við, að alit mitt á stöðu hennar á þessari breiddargráðu væri rangt.  Þá vaknaði spurningin um stöðu hennar, ef ég stæði á sjólfum pólnum.  Tæpast gat hún líka verið lóðrétt yfir höfði manns þar?  Þá rann upp fyrir mér, að það er ekki hægt að skynja svona lítið horn með berum augum.  Stjarnan virðist aðeins standa í hvirfilpunkti, þar sem við vorum.

Hundarnir voru ekki eins kappsamir og um daginn.  Ljósaspilið á festingunni hafði engin áhrif á þá og enginn annar hundasleði var til að keppa við.  Mér virtist Edward vera jafnhugfanginn af ljósadýrðinni og ég.  Það var löngu dautt í pípunni hans.  Við höfðum ekki yrt hvor á annan frá því að við lögðum af stað frá Tobinhöfða.  Rétt eftir að við renndum úr hlaði benti hann mér nokkrum sinnum á afarskær norðurljós, en síðan sökkti hann sér niður í eigin hugsanir.

Þótt það sé einstæður atburður að þjóta um ísinn á hundasleða að degi til, er tæplega hægt að bera það saman við ferð okkar þessa nótt.  Það var engu líkara en við værum komnir til annars heims, heims, sem fáum hlotnaðst að kynnast en margir vildu gefa mikið fyrir að kynnast.  Nú fóru útlínur fjallanna handan byggðarinnar við Scoresbysund að bera við stjörnubjartan himin og ég þóttist einnig sjá móa fyrir kofunum við rætur þeirra.

Því þurfti þessi dýrðarferð að taka enda?  Ég var svo hugfanginn af þessum ljósaleik, að ég hefði getað setið á sleðanum fram í andlátið og hefði þá, samkvæmt goðsögnum Grænlendinga, sameinast sálum framliðinna, sem liðast um himingeiminn sem norðurljós.

Hungur, kuldi og þreyta hurfu gjörsamlega í skuggann.  Þessar lítilmótlegu jarðnesku tilfinningar er ekki hægt að bera saman við vökudrauminn, sem birtist mér þessa ógleymanlegu nótt.

FJÓRÐI KAFLI


.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM