Grænland, stærsta eyja heimsins, 2.175.600
km². Íseyjan á norðurhjara. Takmark víkinga og
hvalaveiðara, landkönnuða og ævintýramanna. Eyja
andstæðnanna, þar sem radarskermar kanna himinhvolfið og
híbýli fólks eru neðanjarðar, þar er risaherstöðin Thule,
sem kostaði 1,3 milljarða dollara, þar er herstöðin Camp
Centruy, heil borg undir ísnum. Henni er séð fyrir orku til
ljósa, hita og annarra þarfa með kjarnakljúfi.
Ástandið er ólíkt á austurströndinni. Þar þykist fólk
hólpið, ef það finnur veiðikofa og kertisstúf, þegar það er
í veiðiferðum. Hún er oftast girt lagnaðarís, sem gerir
samgöngur á sjó oft erfiðar á sumrin og tekur alveg fyrir
þær á veturna. Þar eru margir lengstu fjarða heimsins og um
þá sigla risavaxnir borgarísjakar milli snarbrattra
granítfjalla.
Ég ætla að segja ykkur svolítið frá Austur-Grænlandi, sem
tiltölulega fáir Mið-Evrópubúar þekkja. Ég ætla ekki að
minnast á Vestur-Grænland, sem er svo auðvelt að nálgast með
reglubundnum áætlunarferðum. Þangað flykkjast líka
ferðalangar hvananæva að, stanza stutt og kynnast því lítt
hinu hefðbundna lífi íbúanna og óspilltri náttúru landsins.
Grænland er eyja hinnar miskunnarlausu og ósveigjanlegu
náttúru og hinna glaðværu og hjálpfúsu Grænlendinga, sem
tala enn þá mál inúíta og um æðar þeirra rennur enn þá lítt
eða ómengað blóð inúíta. Þeim er illa við að vera kallaðir
eskimóar. Það orð er komið úr indíánamáli og þýðir: „Sá,
sem borðar hrátt kjöt.” Grænlendingar hafa aldrei nefnt sig
þessu nafni, heldur: „Inuit”, sem þýðir maður. Ég ætla
líka að segja ykkur frá þeim - vinum mínum á
Austur-Grænlandi, sem nota enn þá húðkeipa og hundasleða til
að afla sér og sínum lífsviðurværis. Þar búa enn þá
hraustir veiðimenn, sem leggja á sig vosbúð, hættur og
hrakninga heimsskautsvetrarins til að ala önn fyrir sér og
sínum. Það hefur lítið verið skrifað um þá, ví að þeir eru
ekki innan þægilegrar seilingar fjölmiðla og rithöfunda, sem
eiga greiðan aðgang að Vesturstrendingum, sem búa við allt
öðruvísi og nútímalegri lífsskilyrði. Ég ætla ekki að segja
ykkur frá fólki, sem býr í nýtízkulegum fjölbýlishúsum,
vinnur færibandavinnu í verksmiðjum eða stundar nútíma
sauðfjárrækt eða annan búskap. Það liggur einhver dularfull
hula yfir Grænlandi, sem heyrir ísöldinni til. Þar hafa
ekki farið fram miklar rannsóknir á ísþekjunni, þótt vitað
sé að jökullinn sé allt að 3400 m hár og þessi firnastóra
ísauðn ræður miklu um veðurfar í Evrópu. Að öðru leyti
hefur fátt verið afhjúpað. Það er þetta Grænland, sem ég
ætla að heimsækja.
Svæfandi suðið í hreyflum flugvélarinnar (DC-3) barst inn í
farþegarýmið til okkar. Næstu tvo til þrjá klukkutímana var
ekkert markvert að sjá út um gluggana, því að Ísland var að
baki og Grænland langt framundan. Flugvélin sveif yfir
tilbreytingarlausri auðn íshafsins. Nokkrir borgarísjakar,
sem risu hátt upp úr haffletinum og vörpuðu löngum skuggum,
voru eina tilbreytingin. Flugvélin okkar var hin fyrsta í
langan tíma, sem rauf einangrun byggðarinnar á 71°N við
Scoresbysund. Þar er hvorki flugvöllur né flugöryggistæki,
enginn radar, enginn flugturn, aðeins óspillt náttúran.
Landslagið er ísi lagður fjörður með borgarísjökum,
íshryggjum og vindbarinn snjórinn. Þarna verða flugvélarnar
að lenda. Eitt var það þó, sem var mikils virði og sefaði
áhyggjurnar af lendingunni - íslenzka áhöfnin. Íslendingar
eru sérstaklega hlynntir flugi og eiga frábæra flugmenn.
Líklega er skýringarinnar að leita í því, að þeir hlupu yfir
járnbrautaþáttinn í samgönguþróuninni og stigu beint af
hestbaki um borð í flugvélarnar. Það voru þessi
flugvíkingar, sem önnuðust okkur nú. Þetta var þó ekki í
fyrsta skiptið, sem ég flaug með íslenzkri flugvél. Árið
1957 lentum við í katalínaflugbáti með íslenzkri áhöfn á
þröngum Alpafirði á Grænlandi eftir ævintýralegt og
hrikalegt aðflug úr 3000 m hæð. Ég fæ alltaf hjartslátt,
þegar ég hugsa til þess. Þá var nú lendingin á
malarvellinum á eyjunni Kulusuk barnaleikur hjá því. Mér
var líkt innan brjósts nú og þegar ég flaug til Grænlands í
fyrsta skiptið. Ég var geysispenntur. Þá var það vegna
alls hins nýja og óþekkta, en núna vaknaði uggur í brjósti
mér vegna búnaðarins, sem ég hafði meðferðis. Yrði hann
nægur til að halda líftórunni í mér um hávetur norðan
heimskautsbaugs?
Ég hallaði mér aftur í sætinu og hugsaði til alls
tilstandsins síðustu tvær vikurnar. Það voru fjórtán dagar
til undirbúnings og varð að útvega allt, sem til þurfti á
þeim tíma. Framar öllu varð ég að láta undirbúa myndavélina
mína fyrir allt að -50°C. Þetta gerði ég allt að venjulegum
vinnudegi loknum. Vegna hins stutta fyrirvara vissi varla
nokkur sála, hvað til stóð, svo að ég hringdi kvöldið fyrir
brottförina til nokkurra ættingja og vina:
„Halló. Sæll Hans. Ég ætla bara að segja þér, að ég er á
förum til Grænlands á morgun.”
„HVERT?”
„Til Grænlands.”
„Núna um hávetur?”
„Já.”
„Ertu snaróður?”
„Nei.”
„Hver fer með þér?”
„Ég fer einn.”
„Jæja, svo þú ert endanlega búinn að missa glóruna, þótt þú
viljir ekki viðurkenna það,” heyrðist lágt og mæðulega á
hinum endanum.
„Halló. Er þetta í keiluspilasalnum? Þetta er Hias. Þið
þurfið ekki að reikna með mér næstu tvo mánuði. Ég flýg til
Grænlands á morgun.”
„Það var leitt, en góða ferð samt.”
„Þakka þér fyrir.”
„Heyrðu annars, sagðirðu Grænland?”
„Já.”
„Hvað viltu þangað?”
„Ferðast á hundasleða.”
„Hvað segirðu? Það geturðu gert hérna. Ertu ekki bara að
fara í skíðafrí? Þetta er allt of hættulegt.” Síðan heyrði
ég hann muldra í barminn: „Hann fær sig örugglega
fullsaddan núna.”
Á meðan ég var að pakka niður hringdi síminn:
„Sæll Hias. Heyrðu, geturðu ekki komið og borðað með okkur
á sunnudaginn?”
„Nei, en kærar þakkir. Ég flýg til Grænlands á morgun.”
„Núna, í vetrarkuldanum? Aha, nú skil ég. Þú ert nú meiri
nautnabelgurinn. Þeir eru sagðir afburðagestrisnir,
Grænlendingarnir,” og hann smellti í góm.
„Hvaða hugarórar eru þetta? Ég er að fara í veiðiferð.”
„Láttu ekki svona. Ég hef séð myndirnar þínar af
kvenfólkinu þarna. Sætar stelpur. Þú verður að segja mér
alla ferðasöguna, þegar þú kemur aftur. Gangi þér allt í
haginn, bless.”
Ég snéri mér aftur að undirbúningnum. Það virtist harla
vonlítið að ætla sér að koma þessu öllu þannig fyrir, að
farangurinn yrði ekki þyngri en 20 kg. Myndavélarnar og
filmurnar einar vógu nálægt 5 kg og hvernig áttu hin 15
kílóin að duga mér til alls kyns útiveru í mismunandi veðrum
og hörkugaddi í tvo mánuði? Auk þess vissi ég alls ekki,
hvað beið mín. Það var heldur ekki hughreystandi að hlusta
á ráð vina minna um að láta af þessari þráhyggju og fara
hvergi.
Ég var búinn að ákveða að fara til Grænlands að vetri til,
hvað sem tautaði og raulaði, og ég mundi ekki losna við
þessa hugsun fyrr en að því afstöðnu. Ég lenti í sömu
aðstöðu, þegar ég var 15 ára, eftir að hafa séð kvikmynd Dr.
Franks, „Hið hvíta víti Piz Palu”. Fjallið Piz Palu lét mig
ekki í friði fyrr en ég var búinn að pakka niður og hjóla
til Pontresina til að klífa aleinn alla þrjá tinda þess.
Það var lán mitt, að hópur svissneskra fjallgöngumanna gekk
fram á mig á kolsprungnum Morteratschjöklinum og leyfði mér
að slást í hópinn. Það er oft skammt milli áræðis og
glapræðis. Þá vissi ég ekki, hvr mörkin lágu og á því
þessum svissnesku vinum mínum mikið að þakka. Ég held, að
ég þekki þessi mörk núna og hef ásett mér að virða þau.
Það er mér enn þá undrunarefni, hvernig mér tókst að troða
öllum útbúnaðnum í einn sjópoka og einn bakpoka. Hvað sem
því leið, stóð ég nú með þá báða í yfirhitaðri flugstöðinni
á Kastrúpflugvelli, klæddur öllum mínum fötum bæði yzt og
innst. Flugvélinni til Reykjavíkur hafði seinkað um eina
klukkustund vegna veðurs. Brátt leið mér sem ég væri á
efsta palli í gufubaði. Fyrst komu nokkrir svitadropar, sem
urðu smám saman að lækjum. Einhvern tíma las ég, að
mannslíkaminn væri meira en 70% vatn og trúði því tæpast þá,
en núna vissi ég, að það var satt. Svitinn bogaði af mér
eins og vatn úr hripi.
Loksins kom brottfarartilkynningin. Við áttum, samkvæmt
áætlun, að leggja af stað kl. 15:00, en nú var klukkan orðin
19:00. Ég dróst að hliðinu og sýndi farmiðann minn. „Vegabréfið
takk.” „Já, auðvitað - vegabréfið mitt.” Ég seildist ofan
í veskið. Þar vað það ekki. Ekki heldur í brjóstvörunum.
Rassvasarnir voru ekki bara tómir, heldur líka rakir af
svita. Ég rótaði í handfarangrinum, myndavélatöskunni og
öllum vörum, dró upp kynningarrit, minnisblöð, bréf,
heimilisföng, reikninga, allt annað en vegabréfið. Smám
saman urðu föggur mínar að óyfirstíganlegri hindrun í
hliðinu og löng biðröð myndaðist fyrir aftan mig.
Óánægjukliður á mörgum tungumálum magnaðist. Ég færði mig
til hliðar og byrjaði leitina á ný. Ég snéri öllum vörum
við. Ég gat ekki trúað því, að ég væri ekki með vegabréfið.
Að lokum sannfærðist ég um, að það væri hvorki í vösum mínum
né handfarangri. Það hlaut að vera annaðhvort í sjópokanum
eða bakpokanum. Ég tíndi allt upp úr þeim og það myndaðist
stór hrúga við hliðið. Fólkið hlýtur að hafa undrazt öll
þau ósköp, sem ég dró upp úr þeim. Vegabréfið mitt var ekki
heldur þar. Ég skildi hrúguna eftir og hljóp í
hendingskasti að næsta síma og hringdi til vinar míns, sem
ég hafði dvalizt hjá í Kaupmannahöfn. Síminn hringdi og
hringdi en enginn svaraði. Það leit út fyrir, að
Grænlandsferð mín mundi enda hér á Kastrúp, því að flugið
frá Reykjavík til Grænlands var áætlað daginn eftir. Ég
stóð þarna, alveg úrkula vonar og ráðalaus með símtólið í
hendinni, þegar skyndilega var svarað.
„Halló. Stelzer hér.”
„Wilfried, þetta er Hias. Ég er vegabréfslaus úti á
flugvelli. Athugaðu nú fyrir mig, hvort það er í jakkanum,
sem ég skildi eftir hjá þér.”
Sekúndurnar urðu að mínútum og spennan jókst.
„Því miður Hias
minn.
Það er ekki þar.”
„Ekki? Þá hlýtur það að vera í ferðatöskunni. Já, nú man
ég. Það er örugglega þar.”
Mínúturnar urðu að eilífð og taugarnar voru að bresta.
Farþegarnir undruðust óreiðuhrúguna við hliðið, sumir hristu
hausinn en aðrir gengu hjá með meðaumkunarsvip.
„Hias, ég verð að valda þér vonbrigðum. Það er ekki heldur
í töskunni.”
„Já, en einhvers staðar hlýtur það að vera. Ég hefði ekki
komizt til Danmerkur án þess. Kannski er það á milli bókanna
og dagblaðanna í gestaherberginu þínu, Wilfried.”
Tíminn og svitinn þreyttu kapp og málli ekki á milli sjá
hvor hefði betur. Geðshræringin hafði bætt nokkrum
teningssentimetrum við svitalækina, svo að þeir voru í
foráttuvexti. Loksins heyrðist rödd úr símtólinu aftur:
„Ég fann það. Ég kem strax á bílnum. Bíddu við
aðalinnganginn.”
Myndum við sigra í baráttunni við tímann? Ég tróð dótinu
aftur í pokana, lét vega þá inn og beið spenntur eftir
Wilfried. Nokkrir síðbúnir farþegar voru enn þá að tínast
um borð. Ég þóttist vita, að Wilfried mundi ekki slá af á
leiðinni, þótt hann ætti á hættu að fá sekt fyrir of hraðan
akstur. Því var hann þá svona lengi á leiðinni? Voru öll
umferðarljós rauð?
Loks sá ég rauðan bíl koma á tveimur hjólum fyrir horn, svo
að vældi í hjólbörðunum. Wilfried stökk út óg veifaði
vegabréfinu sigri hrósandi. Ég þreif það, kvaddi og þaut af
stað eins og hinn vondi væri á hælum mínum.
Við hliðið stóð hlaupahjól í viðbragðsstöðu fyrir mig og ég
renndi mér á methraða að dyrunum, snaraði mér um borð og
hurðinni var skellt á hæla mér.
Ég fór að velta fyrir mér, hversu miklir gallagrípir þessi
vegabréf eru í raun og veru. Ég hafði orðið fyrir barðinu á
þeim þreisvar áður. Fyrsta atvikið átti sér stað, þegar ég
var 14 ára snáði. Ég hafði strokið úr skóla með þeim
ásetningi að ferðast til Sviss. Á járnbrautarstöðinni í
Buchs við landamærin upphófust erfiðleikar mínir, eða öllu
heldur landamæravarðanna. Ég var bæði peninga- og
vegabréfslaus en hafði hins vegar nóg af framtakssemi og
bjartsýni æskunnar. Þegar ég stóð frammi fyrir
landamæraverðinum, setti ég upp slíkan sorgarsvip, að ég
hefði getað hrært stein til meðaumkunar, og gaf síðan svo
harmþrungna lýsingu á aðstæðum mínu, að ég fór næstum
sjálfur að gráta.
Aumingja frænka, sem bjó alein í Rapperswil, - þessi
hjartahlýja kona -, lá dauðsjúk og átti þá ósk heitasta að
fá að sjá mig áður en kallið kæmi. Ég veit ekki, hvort það
var af meðaumkun með frænku eða vegna eymdarsvipsins á mér,
að ég fékk bráðabirgðaheimild til að fara inn í landið, en
bersýnilega hafði ég slegið á rétta strengi.
Árið 1940 ætlaði ég til Noregs til að starfa þar sem
leiðsögumaður í fjallgöngum. Morgun nokkurn ók ég frá
Graz heim til Murzzuschlag, pakkaði niður í
töskurnar og fór áfram til Vínar eftir hádegið. Ég var að
kaupa mér lestrarefni til ferðarinnar á járnbrautarstöðinni
í Vín, þegar ég heyrði þessa tilkynningu í hátalarnum: „Vill
herra Matthia Koglbauer, farþegi í svefnvagni til Berlínar,
gjöra svo vel að koma strax að miðasölunni.”
Hvað var nú að? Ég óttaðist hið versta.
„Þér hafið gleymt vegabréfinu yðar heima. Hvert eigum við
að senda það?”
„Til hótels Excelsior í Berlín, kærar þakkir.”
Þetta kostaði þriggja daga bið í Berlín.
Framansagt er hreinn barnaleikur miðað við það, sem gerðist
1959. Þá var ég að koma frá Grænlandi til Íslands.
Vegabréfið mitt var útrunnið og þess vegna ógilt. Það olli
því, að útlendingaeftirlitið vildi ekki hleypa mér frá borði.
Nú vildi svo til, að skipið átti að fara í slipp í Reykjavík
til viðgerðar og þar mátti enginn vera um borð. Ég varð sem
sagt að fara frá borði en mátti ekki stíga á land. Hvað
átti að gera? Átti ég að láta mig hverfa? Þetta var
ótrúlegt ástand. Það var alveg rétt, passinn minn var ekki
lengur í gildi. Hann hafði þó verið fullgildur til aðgangs
að öllum heimsins löndum fyrir nokkrum vikum. Ég vissi svo
sem fyrir Grænlandsförina, að hann myndi renna út á meðan á
ferðinni stæði, en ég hafði bara ekki tíma til að láta
framlengja gildistímann fyrir brottför. Ég hugsaði þá, að
ég yrði bara að taka afleiðingunum og nú var komið að þeim.
Þetta voru grátbroslegar aðstæður. Ég held í fullri alvöru,
að mér hefði verið snúið aftur til Grænlands, ef fundizt
hefði skip á leið þangað.
Ég hlýt að hafa sofnað út frá þessum hugrenningum, því að ég
hrökk upp við tilkynningu um millilendingu í Glasgow, þar
sem tankar vélarinnar yrðu fylltir með eldsneyti og farþegar
gætu fengið sér hressingu í flugstöðinni.
Einhver bankaði á öxlina á mér: „Hello, old boy. How are
you?”
Ég snéri mér við og sá kunnuglegt andlit. Ég hafði séð
þennan mann einhvers staðar á Grænlandi, en hvar?
Áður en ég gæti komið upp orði, sagði þessi rauðskeggjaði
náungi: „Remember Angmagssalik?”
„Hello Niels, how are you?” sagði ég og sló hann kumpánlega
á öxlina. Nú mundi ég allt. Þær voru ófáar
ánægjustundirnar, sem við höfðum átt hjá honum árið 1959.
Þeir eru nú meiri gæðablóðin þessir Danir, sem hafa tengzt
Grænlandi.
Við rifjuðum upp endurminningar og skáluðum ósleitilega.
Niels sagði mér, að hann dveldi ekki lengur í Angmagssalik,
heldur í Jakobshavn á vesturströndinni, og að hann væri á
leið til Danmerkur í orlof.
Að lokum kvaddi ég Neils og fór í minjagripaverzlunina og
keypti nokkur póstkort. Að vernju skrifaði ég
heimilisföngin fyrst. ÉG var að ljúka við hið síðasta,
þegar aftur var klappað á öxlina á mér: „Won´t you go to
Reykjavik The plane is already starting up.”
Almáttugur! Flugvélin var að fara.
Ég fleygði kortunum og peningum fyrir frímerkjum á borðið og
tók svo til fótanna. Síðastur um borð aftur. Ég hlammaði
mér lafmóður í sætið mitt og hugsaði til vina minna heima,
sem fengju óskrifuð póstkort. Hvað myndu þeir halda?
Svitinn rann í stríðum straumum. Áður en ég lagði af stað
var ég búinn að setja mér eina reglu, sem ég ætlaði ekki að
brjóta, hvað sem á bjátaði. Ég ætlaði að hreyfa mig hægt og
lítið í öllum þessum fötum. Þess í stað varð ég að hlaupa
aftur og aftur eins og ég ætti lífið að leysa til að missa
ekki af flugvélinni. Nú var ekki þurr þráður á mér.
Mannskepnan er sannarlega að mestu leyti vatn!
Eini alþjóðlegi flugvöllurinn á Íslandi, Keflavík, var snævi
þakinn og ískaldur vindur næddi um mig svitastokkinn. Þessi
flugvöllur er einnig bandarísk herstöð. Við fórum með rútum
til Reykjavíkur og ókum í gegnum óteljandi snjóskafla. Upp
úr snævi þöktu umhverfinu trónuðu hraunhraukar. það var
óþægileg tilfinning að hugsa til þess, hvað gerast mundi, ef
bílstjórinn missti vald á bílnum í einhverjum skaflinum og
við höfnuðum úti í hrauni.
Klukkan var orðinn þrjú eftir miðnætti, þegar ég lagðist til
hvíldar á Hótel Sögu. Úti geisaði stórhríð, svo að ekki sá
út úr augum. Fjórum klukkustundum síðar vaknaði ég og leit
út um gluggann. Ég trúði varla mínum eigin augum. Það
hellirigndi og allur snjór var horfinn. Allt umhverfi
borgarinnar var hulið þykkum þokubökkum. Það leit
sannarlega ekki út fyrir, að flogið yrði til Grænlands á
næstunni.
Ég skreið upp í aftur, feginn hvíldinni og steinsofnaði. Ég
blessaði þokuskýin í huga mér. Þau framlengdu dvölina í
hlýju hótelherberginu að minnsta kosti um einn dag. Það
rigndi allan daginn. Ég hafði engin hlífðarföt fyrir svona
blauta úrkomu meðferðis og varð því að hírast innandyra.
Handan við torgið, sem blasti við hótelglugganum mínum, var
skóli. Börnin þar létu ausandi rigninguna ekki á sig fá og
komu út til leiks í alla vega litum regnfötum í hverjum
frímínútum. Þau voru svo litskrúðug, að ég gleymdi grámyglu
veðursins, þegar þau birtust. Svona er íslenzki veturinn.
Alveg eins og ég hafði gert mér í hugarlund. Nálægð
Grænlands og eyjaloftslagið valda vafalaust hinum öru
veðrabreytingum.
Næsta dag hafði stytt upp, en hvassviðri olli því, að allar
flugsamgöngur lágu niðri. Ég snæddi morgunverð í matsalnum
á efstu hæð hótelsins og hafði það á tilfinningunni, að
rokið mundi feykja okkur, sem þar vorum, út í hafsauga. það
voru harla litlar líkur til Grænlandsflugs í slíku veðri,
því að þær eru ærnar áhætturnar, sem teknar eru í slíkum
ferðum, þótt vont veður bætist ekki við. Þess vegna er
aldrei lagt af stað, nema veðurhorfur séu einsýnar.
Ég ók í leigubíl niður að höfn til að anda að mér fersku
sjávarlofti. Mér þykir alltaf gaman að virða fyrir mér
iðandi athafnalífið þar og ræða við sjómennina.
Ægisdætur börðu linnulaust á hafnargörðunum, svo að gusurnar
gengu yfir þá, og stormurinn dreifði úðanum yfir alla
höfnina. Ég tók nokkrar myndir og rölti síðan í átt að
miðbænum. Með saltbragð í munni gekk ég um
aðalverzlunargöturnar og leit í búðarglugga. Allt í einu
viju tveir menn sér að mér og ávörpuðu mig: „Amerikansk?”
Áfengisþefurinn sveif á mig. „Ikke amerikansk,” svaraði ég,
„Austria, Östrige,” bætti ég snarlega við. Þeir höfðu
greinilega ekki búizt við að hitta Austurríkismann hér um
hávetur. Þeir tóku mig á milli sín og annar seildist djúpt
niður í vasa sinn og dró upp flösku, sem hann skrúfaði
tappann af og rétti upp að nefi mínu.
„Skol,” sagði ég og saup rösklega á. Skrambi var þetta
sterkt, ég náði varla andanum. Auðvitað komst ég ekki hjá
að súpa nokkrum sinnum af flöskunni. Þeir töluðu tæpast
annað en móðurmál sitt, en okkur tókst samt að skilja hvern
annan. Við lukum úr flöskunni á stundarfjórðungi á miðri
gangstéttinni um hábjartan daginn. Við höfðum aldrei sézt
áður og litlar líkur á því, að leiðir okkar lægju saman
aftur. Þar sem þeir voru báðir undir áhrifum, fannst mér
þeir svolítið umkomulausir og gat því ekki reiðst þeim fyrir
að koma mér svona í opna skjöldu. Ég hafði meira að segja
svolítið gaman af þessu atviki.
Eftir hádegið heimsótti ég Háskóla Íslands til að kynna mér
betur frétt, sem hafði birzt í blöðunum stuttu fyrir
brottför mína að heiman. Þar var fjallað um óvenjumikinn
hafís milli Grænlands og Íslands. Í anddyri HÍ stóð margt
ungmenna. Þetta var allt myndarlegt og snyrtilegt fólk, sem
talaði íslenzku. Ég gekk eftir ganginum og vonaði, að ég
hitti einhvern, sem ég gæti spurt til vegar. Þá opnuðust
dyr og maður á fimmtugsaldri, klæddur frakka og með hatt,
kom í ljós. Ég ávarpaði hann og sagði honum erindi mitt. Í
stað þess að svara mér strax, bauð hann mér inn í skrifstofu
sína. Hann fór úr frakkanum, lagði frá sér hattinn og bauð
mér sæti í stórum leðurhægindum.
Það kom brátt í ljós, að hann var rektor háskólans. Hann
fræddi mig ítarlega um ástandið á Grænlandshafi. Það komu
enn þá þannig vetur, að ísinn rak alla leið að
Íslandsströndum og stundum slæddust hvítabirnir með honum.
Íslenzkar frásagnir af ævintýralegum bardögum við hvítabirni,
sem engu kviku eirðu, heyrðu ekki bara fortíðinni til.
Síðan árið 1890 hafði ekki mælzt svona mikill ís við
norðurströnd Íslands, á bilinu 4/10 - 6/10. Það var mikil
hætta á, að afskekkt byggðarlög yrðu samgöngulaus fram í maí
eða júní, og því var lögð mikil áherzla á að koma þangað
matvælum, lyfjum og brennsluolíu. Íslenzkir og bandarískir
veður-, jökla- og haffræðingar létu sig málið skipta og
fylgdust grannt með þróun þess.
Nú flugum við yfir hafísbreiðu, sem teygði arma sína alla
leið að norðurströnd Íslands. Við vorum á leið til
Grænlands. Í huga mínum var þetta flug út í óvissuna. Hvað
og hvar mundi ég borða í kvöld og næstu tvo mánuði? Hvar
fengi ég húsaskjól? Hafði ég þrek og þol til að bjóða
Grænlandsvetri birginn? Hvaða hitastig skyldi ríkja þarna á
þessum árstíma? Var útbúnaður minn nægilegur til að ég
stæðist kuldann? Hvernig skyldi mér verða tekið í byggðinni
á þessum árstíma? Hvernig fer, ef veiðin er rýr og einum
munni meira að fæða? Hvað um það, ég á marga góða vini þar
eins og Niels verzlunarstjóra, Hansen verkfræðing og síðast
en ekki sízt Christiansen póstmeistara, sem kann þýzku. Ég
kynntist þessum sómamönnum fyrir tveimur árum, þegar ég kom
fyrst til Scoresbysunds. Einhver þeirra mundi taka við mér.
Þrátt fyrir það var ótal spurningum og vafaatriðum ósvarað,
en eins og stóð, féll allt í skuggann fyrir aðalatriðinu:
Lendingunni!
Flugvélin lækkaði flugið smám saman. Framundan birtist
strandlína yfir sjóndeildarhringnum. Þegar ég skoðaði hana
í sjónauka, þóttist ég kenna fjöllin sunnan Scoresbysunds.
það kom líka heim og saman við flugtímann. Við vorum búnir
að vera u.þ.b. þrjá klukkutíma á lofti. Fjöllin urðu
greinilegri og ströndin færðist nær og brátt sást til
jökulsins handan fjallanna. Skömmu síðar strukum við yfir
fjallsbrúnir með risavöxnum snjóhengjum og á milli þeirra
voru djúpir, snævi þaktir einmanalegir dalir. Ósjálfrátt,
en án árangurs, leitaði augað að einhverjum merkjum um
mannabyggð. Það er varla hægt að trúa því, að hér geti
þrifizt dýr, enda eru suðurfjöll Scoresbysunds svo
gróðursnauð, að jafnvel sauðnaut, sem eru ekki vandlátar
skepnur, finnast þar ekki. Nú beygði vélin og hallaðist
nokkuð. Við það vöknuðu hinir fjórir farþegarnir og litu
svefndrukknum augum út um sjána. Það kviknaði blik í augum
þeirra. Þetta var Grænland, heimaland þeirra. maðurinn í
sætinu fyrir framan mig snéri sér við og augu okkar mættust.
Ég fann á mér, að hann vildi segja mér eitthvað.
„Dejligt, dejligt,” sagði gamli maðurinn ástúðlega, benti út
og brosti ánægjulega.
„Dejligt, dejligt,” sagði ég og kinkaði kolli. Ég veit ekki
enn þá hvað þetta orð þýðir, en gat mér þess til, að hann
væri að segja: „Sjáðu. Er Grænland ekki dásamlegt land? Og
er Scoresbysund ekki fallegasti blettur á jarðríki?” Ég fór
næstum hjá mér frammi fyrir svona mikilli átthagaást.
Nú lækkuðum við flugið inn Scoresbysund. Að sumarlagi sigla
stórfenglegir borgarísjakar um fjörðinn, en núna var hann í
freraböndum landa á milli og ekki sást á dökkan díl nema
nokkra punkta, sem hreyfðust og líktust helzt maurum.
Flugvélin okkar stefndi á þessar þústir og við spenntum
sætisólarnar. Nokkrum mínútum síðar, er við komum nær,
breyttust maurarnir í menn og hundasleða. Við flugum í
hring til að átta okkur á aðstæðum. Ég greip í sætisólarnar
til að ganga úr skugga um, að allt væri í lagi, því að þetta
yrði engin venjuleg lending. Það kæmi í ljós á næstu
mínútum, hvort allt gengi vel.
Flugstjórinn þrýsti á stjórnvölinn og við lækkuðum enn
flugið. Nú átti að lenda. Nei, ekki enn þá. Við yfirlugum.
Eitthvað var ekki á hreinu enn þá. Við þutum rétt yfir
höfðum þeirra, sem biðu á ísnum og hurfu í snjókófið í
kjölfar okkar. Við flugum í víðum hring til næsta aðflugs.
Spenningurinn jókst. Ég herti enn á sætisólunum. Nú dró
flugmaðurinn úr eldsneytisgjöfinni og við lækkuðum flugið
aftur. Brátt sá ég vel niður á ísinn og enn fórum við neðar.
Ég fann smáhnykk og svo hvarf öll sýn, þegar lausamjöllin
þyrlaðist upp og umlukti flugvélina, sem nam svo staðar.
Var þetta allt og sumt? Ég skammaðist mín fyrir kvíðann og
hjartsláttinn. Flugstjórinn hafði lent jafnmjúklega og
móðir leggur barn í vöggu. Lokum var skotið frá og dyrnar
opnuðust. Hundaýlfur og mannamál barst inn. Ég stökk út og
stóð í fimmta sinn á grænlenzkri „grund”. En ég var
óviðbúinn aðstæðunum, sem ríktu í þetta skipti. Kuldinn
nísti merg og bein og áður en ég hafði áttað mig voru fingur
mínir orðnir náhvítir. Ég leit niður á fætur mína. Var ég
berfættur í snjónum? Hafði ég gleymt að fara í skó? Ég
barði mér öllum og dansaði villtan stríðsdans.
Farangur og póstpokar flugu út um dyrnar og ég fann pokana
mína strax. Þæfðu belgvettlingarnir mínir voru í bakpokanum
og þá varð ég að finna strax. Áður en ég gat opnað pokann
voru fingur mínir orðnir hvítir af kulda á ný og ég steig
enn á ný villtan dans með hendurnar í vösum. Á að horfa
mátti halda, að ég hefði fengið vænan skammt af kláðadufti
niður um hálsmálið. Ég sá, að hvítir blettir voru farnir að
myndast á andlitum Grænlendinganna og benti þeim á það. Ég
gerði mér þá bezt grein fyrir, hve kalt var og ástandið
alvarlegt, ef full aðgát var ekki á höfð. Það er ekkert
grín að verða fyrir kali í þessum kulda. Oft gerist það án
þess að menn verði þess varir, einkum í andliti og á útlimum.
Ég var staðráðinn að láta það ekki henda mig. Hvernig mundi
mér reiða af næstu tvo mánuði, þegar fyrstu mínúturnar voru
svona erfiðar? Var þetta ekki glapræði? Það virti mig
enginn viðlits. Allir höfðu nóg að gera og virstust ekki
vita af mér. Ég hafði ekki búizt við lúðrasveit og rauðum
dregli, en þetta var þó önnur heimsókn mín til Scoresbysunds.
Samt virtist enginn þekkja mig. Þeir gerðu sér augljóslega
enga grein fyrir því, hversu stór stund það var fyrir mig að
koma í fyrsta sinn til Grænlands um hávetur. Lengi hafði ég
hlakkað til þessarar stundar. Enn þá komu póstpokar
fljúgandi út úr flugvélinni og þeim var jafnóðum hlaðið á
sleða. Ég stóð hjá og gat ekki varizt kuldanum. Ég fann,
hvernig viðnámsþróttur minn dvínaði smám saman. Nei, ég
mátti ekki gefast upp! Ég sveiflaði höndunum eins og
mylluvængjum, hoppaði og djöflaðist og nuddaði kinnar og nef.
Mér tókst loksins að ná í vettlingana og leið stórum betur.
Þó hafði ég alvarlegar áhyggjur af fótum mínum. Ég fann
ekki fyrir tánum lengur. Þetta var ógnvekjandi.
Það var liðin ein klukkustund frá lendingu og búið að
afferma „Þristinn”, sem var tilbúinn til flugtaks. Að
þremur stundum liðnum yrði hann aftur í Reykjavík. Ég gæti
farið með. Enginn mundi taka eftir því, þótt ég skutlaði
farangrinum mínum um borð og læddist sjálfur á eftir. Þetta
yrði þó allavega smáævintýri. Árdegisflug til Grænlands.
Flugvirkinn dró upp tröppuna, veifaði í kveðjuskyni og
lokaði dyrunum.
„Þetta er síðasta tækifærið! Vertu ekki heimskur - gríptu
það! Gerir þú það ekki, verður þú að hírast hér í tvo
mánuði! Vertu fljótur - hlauptu, hlauptu, annars verður það
of seint! Líklega er þetta eina tækifærið til að komast
heill heim!”
Hvers konar hugsanir voru þetta? Það lá við, að ég missti
allt álit á sjálfum mér. Hreyflarnir drundu, flugvélin rann
af stað, hóf sig til flugs og hvarf í víðum boga yfir
suðurfjöllin. Þegar hún var horfin úr augsýn, veittu
Grænlendingarnir mér athygli. Mér var komið fyrir á
hundasleða með farangri mínum. Áður en ég kom pokunum mínum
fyrir rétti ég Grænlendingnum höndina og reyndi að sjá dúðað
andlit hans. Ég þekkti hann, en mundi ekki hvaðan.
„Entalik?” spurði ég vongóður.
„I, I, Peter Brönlund,” sagði hann og brosti.
Peter Brönlund, skipstjórinn á vélbátnum Entalik, sem ég var
með í heila viku í innsta hluta Scoresbysunds fyrir tveimur
árum.
Á meðan ég batt pokana mína fasta á sleðann reyndi ég á átta
mig á umhverfinu. Upp úr kuldaþokunni, sem hafði lagzt yfir
fjörðinn, risu nokkrir kofar í nokkurra kílómetra fjarlægð.
Þetta gat ekki verið byggðin. Hvað gat þetta verið annað?
Við fjarðarmynnið var Cap Hope. Ja hérna, - ef svo var,
áttum við langa sleðaferð fyrir höndum. Það var ekkert
tilhlökkunarefni í þessum reginkulda og vindi. Brönlund gaf
mér merki um að setjast á sleðann, þegar hann hafði lokið
við að binda farangurinn. Þá hagræddi hann dráttartaumunum
og við brunuðum af stað. Hinir sleðarnir voru líka
ferðbúnir. Það var langt síðan ég hætti að finna til tánna
og var orðinn mjög áhyggjufullur vegna þess. Þá greip ég
til þess heimskulegasta, sem ég hefði getað látið mér detta
í hug. Ég fór úr öðrum skónum og sokknum. Tærnar voru
náhvítar og blóðlausar. Nú var það svart. Ég reyndi að
nudda lífi í þær aftur. En hvaða vit var í því að vera
berfættur við þessar aðstæður á fleygiferð á hundasleða? Ég
fór í sokkinn og skóinn aftur og til að varðveita síðasta
ylinn dró ég dúnbuxurnar niður yfir skóna.
Næstu klukkustundirnar barði ég fótunum stanzlaust saman og
reyndi af fremsta megni að hreyfa tærnar. Þetta var
örvæntingarfull barátta við kuldann og ég vissi ekki hverjar
afleiðingarnar yrðu fyrr en ég kæmist í húsaskjól. Það er
ótrúlegt, hve þrír klukkutímar líða seint í brunagaddi. Nokkrir
tómir sleðar fóru fram hjá okkur og ég velti fyrir mér,
hvort ég ætti að skipta og fara með hraðskreiðari sleða, svo
ég kæmist fyrr til þorpsins. Nei, ég gat ekki verið að særa
Brönlund með því. Þá var nú betra að skjálfa hálfri
klukkustund lengur. Loksins kom Scoresbysund í ljós.
Staðurinn leit allt öðruvísi út nú en að sumarlagi. Þó veit
ég ekki, hvort er ömurlegra, grá steinauðnin á sumrin eða
hvít vetrarhulan. Því er nú þannig farið með grjót og snjó,
sé of mikið af hvoru um sig, verða lífsskilyrði heldur rýr.
Peter Brönlund ók mér að húsi verzlunarstjórans. Mér var
orðið svo kalt, að ég varð að velta mér af sleðanum og
skríða á fjórum fótum inn í hlýja stofuna. Án þess að mæla
orð, reif ég af mér skóna og nuddaði tærnar af ofurkappi.
Þegar ég var viss um að fá líf í þær aftur, ávarpaði ég unga
manninn, sem var í herberginu.
„Ég heiti Koglbauer og er austurrískur. Ég vildi gjarnan fá
að tala við Nielsen verzlunarstjóra.”
„Sorry, Nielsen er í Danmörku.”
„En Hansen kennari?”
„Hann er líka í Danmörku.”
„En Nielsen verkfræðingur?”
„Þér hljótið að hafa hitt hann á leiðinni. Hann er á leið
til Danmerkur með flugvélinni, sem þér komuð með.”
Þá mundi ég eftir hundasleða, sem renndi að rétt áður en
flugvélin fór, og að einhver hafði hrópað eitthvað til mín.
Það hafði verið Nielsen verkfræðingur.
Nú var fokið í flest skjól. Póstmeistarinn var eftir.
„Hvað með Christiansen? Er hann líka í Danmörku?” spurði ég
og bjóst við sömu úrslitum.
Þess í stað benti undi maðurinn með vísifingri á gagnauga
sitt og sagði: „Christiansen skaut sig.”
Síðar frétti ég að þunglyndi hefði lagzt á Christiansen.
Hann hafði kveikt í húsinu sínu og skotið sig. Að baki
þessa voðaatburðar býr harmleikur, sem er síður en svo
einsdæmi hér um slóðir. Heimskautasvæðin krefjast fólks með
stáltaugar, annars fer illa. Hér er allt erfitt og
miskunnarlaust, veðrið, náttúran og einmanaleikinn. Verst
er þó þessi algera einangrun frá umheiminum mánuðum saman.
Hún veldur geysilegu sálarálagi.
Ástandið í sálarkirnunni minni var heldur ekki upp á marga
fiska eftir upplýsingar unga manssins. Hvað átti ég til
bragðs að taka, þega enginn gömlu vinanna var hér lengur?
Mundi ég eignast nýja?
Í miðjum þessum dapurlegu hugrenningum kom Dani á
fertugsaldri inn í stofuna og ég kynnti mig á ný.
„Glad to meet you. How about some coffee?”
Stundarfjórðungi síðar sátum við yfir kaffibollunum og
röbbuðum saman.
Elsner, nýi verzlunarstjórinn hafði mikinn áhuga á að heyra
ástæðuyrnar fyrir komu minni til Scoresbysunds að vetrarlagi.
„Hvað veldur komu þinni til Grænlands um hávetur?”
„Þetta var æskudraumur, sem hefur tekið svona mörg ár að
rætast.”
„Og þú valdir Scoresbysund, sem er einhver einmanalegasta og
afskekktasta byggðin á Grænlandi?”
„Já, ég vildi kynnast heimskautavetrinum í öllu sínu veldi.
Einmanaleikanum og erfiðleikunum. Auk þess þykir mér vænt
um Scoresbysund.”
„Hefur þú verið hér áður?”
„Já, en það var um sumar.”
„Svo þetta er önnur heimsókn þín til Grænlands?”
„Nei, hin fimmta,” svaraði ég og brosti í kampinn.
„Fimmta!” endurtók Elsner þrumulostinn og gat bersýnilega
ekki skilið þessa áráttu.
„Ég kom hingað með fjallgönguleiðangri árið 1957. Þá vorum
við í Stauningsölpunum. Árið 1959 stunduðum við fjallgöngur
í Landi Kristjáns konungs IX nærri Angmagssalik. Síðan fór
ég til Umanakhéraðs árið 1961 og fetaði í fótspor
Wegenerleiðangursins.”
„Var Alfred Wegener ekki líka austurrískur?” greip Elsner
fram í.
„Hann var austurrískur ríkisborgari, fæddur í Berlín. Hann
kom til Graz árið 1924 og kenndi veður- og jarðeðlisfræði
við háskólann þar. þaðan hóf hann Grænlandsleiðagur sinn,
sem hann átti ekki afturkvæmt úr árið 1930.”
„Já, ég hef lesið um það. Ég hef heyrt eitthvað um
minnisvarða um hann og félaga hans, sem var afhjúpaður
einhvers staðar. Hvar og hvenær veit ég ekki.”
„Það er alveg rétt. Það var 1961 innst í Qamarujukfirði,
þar sem leiðangurinn hófst.”
„Hvernig veizt þú það svona nákvæmlega?”
„Ég var viðstaddur athöfnina,” sagði ég brosandi og yljaði
mér á kaffibollanum. „Háskólinn í Graz gaf bronsskjöldinn.
Dr. Rotter, kona hans og ég komum honum fyrir á steini í
Quamarujukfirði. Allir embættismenn Umanakhéraðs voru
viðstaddir, og það sem vakti mestan fögnuð okkar var, að
þeir komu með síðasta eftirlifandi leiðangursmanninn,
Grænlendinginn Detlev Frederiksen frá Uvkussigssat, með sér.
Hann kunni frá ýmsu að segja um sorgleg endalok
leiðangursins.”
„Segðu mér,” sagði Elsner hugsandi, „hvað er það, sem dregur
þig aftur og aftur til Grænlands. Er það landið sjálft eða
fólkið?”
„Í mínum augum er Grænland hin týnda paradís. Ekki paradís
þeirra, sem vilja slappa af og hafa það gott, heldur hinna
athafnasömu. Paradís frelsis, þar sem menn geta fundið hvað
í þeim býr. Landið býr yfir sömu áskorun, sem við
fjallgöngumenn finnum í erfiðum fjallgöngum. Með öðrum
orðum: Hér finn ég þátt í lífinu, sem siðmenningin og
tæknivæðingin hafa kaffært annars staðar.”
Rétt í þessu birtist kona um þrítugt í dyrunum. Hún var
klædd buxum, skinnhosum, og loðfóðruðum anorak, andlitið
kringuleitt, kinnbeinin útstæð og augun kolsvört og
möndlulaga. Hún kastaði aftur höfðinu, strauk af sér
hettuna og renndi fingrunum gegnum kolsvart hárið.
Undrunarsvipurinn á andliti hennar leyndi sér ekki, þegar
hún horfði spurnaraugum á mig. Í augum hennar las ég
spurninguna: Hvaðan kemur þessi ókunni maður?
„Þetta er konan mín,” sagði Elsner stoltri röddu. „Hún er
að vestan.”
Hún gekk til mín og rétti mér höndina og sagði: „Velkominn
til Scoresbysunds,”svolítiði hikandi þó, því hún heyrði, að
við töluðum saman á ensku.
Elsner gat verið hreykinn af konunni sinni. Hún var
myndarleg og hlédrægnin gerði hana aðlaðandi.
„Hvernig fellur ykkur að búa hérna á Austurströndinni?”
spurði ég um leið og konan gekk fram í eldhúsið.
„Það er ágætt að vera hér um tíma, en fyrr eða síðar förum
við aftur til Vesturstrandarinnar. þar eru fleiri tækifæri
og siðmenningin býður meiri þægindi. Það er ótrúlegt, hver
framþróunin hefur verið ör þar eins og þér vitið.
Víst hafði Elsner rétt fyrir sér. Það var ekki einungis
jökullinn, sem aðskildi Austur- og Vesturstrendurnar. Þetta
voru tveir gjörólíkir heimar. Hérna verður tæpast vart
umbrotanna og breytinganna, sem verða á Vesturströndinni.
Tíminn hefur þó ekki staðið í stað hérna. Húsnæðismálin
hafa stórbatnað, heilsugæzla og skólamál hafa verið
skipulögð og vöruframboð í verzlunarholunum hefur aukizt.
Þrátt fyrir allt þetta, eru selveiðar við ísjaðarinn á
veturna og frá kæjökum á sumrin lífsafkoma þessa fólks.
Áhættan við veiðarnar er hin sama og áður, einkum á veturna,
þótt þær séu samt sem aður bæði rómantískar og ævintýralegar.
Slík ævintýri getur enginn vænzt að upplifa fyrir vestan
nema á mjög norðlægum slóðum. Vonandi eiga lífnaðarhættir
íbúanna fyrir austan ekki eftir að breytast svo mikið, að
veiðimannalífið líði undir lok. það er sannfæring mín, að
fólkinu við Scoresbysund líður miklu betur sem frjálsir
veiðimenn en að vera bundið við færibönd í fiskvinnu og það
kann miklu betur við sig í litlu timburkofunum sínum en í
stórum fjölbýlishúsum.
Auðvitað er líf hins frjálsa veiðimanns alltaf hættulegt og
óöruggt. Þar skiptast á skin og skúrir. En eru slíkir
áhættuþættir ekki óhjákvæmilegir á mörkum hins byggilega
heims? Grænlendingar eru því vanir frá blautu barnsbeini að
líta á framtíðina sem óumflýjanlega og alveg óútreiknanlega
staðreynd. Hvaða áhrif hefði tímabundin hækkun meðalhita
sjávar um 1°C á lífsafkomu íbúanna hérna? Sjávarsvifið
mundi breytast og það hefði áhrif á fiskistofna og önnur
sjávardýr, sem á því lifa, þannig að selirnir flyttu sig
norðar í kaldari sjó. Þá yrði lítið úr selveiðum á þessum
slóðum. Við getum tæplega búizt við því, að
Grænlendingarnir flyttu sig til eftir bráðinni og byggju í
skinntjöldum eða snjóhúsum eins og forfeður þeirra gerðu.
Íbúar Scoresbysunds eru þegar orðnir vanir fastri búsetu og
yrðu því að grípa til annarra veiða og fara að draga þorsk
úr sjó eins og samlandar þeirra fyrir vestan.
„Viltu meira kaffi?” spurði Elsner.
„Já takk.”
Hann stóð upp og fór fram í eldhús til að hella aftur upp á.
Indæll kaffiilmur barst að vitum mínum. Hvað skyldi ég vera
búinn að drekka marga kaffibolla? Ég hafði drukkið úr
hverjum bollanum eftir öðrum með áfergju, því að kaffið
virkaði á mig sem suðræn sól, sjóðandi heitt, þótt það sé
svart eins og heimskautsnóttin.
Ég fann til sterkrar hamingjutilfinningar, sem ég hafði ekki
fundið í svo ríkum mæli áður. Hún átti rætur að rekja til
fjörugra samræðna okkar Elsners, kappisopans, sem hleypti
slíku lífi í mig, að mig verkjaði í tærnar, og allra mest
vegna þeirrar staðreyndar, að ég var kominn aftur til
Grænlands.
Á meðan Elsner var frammi í eldhúsi með konu sinni hugsaði
ég, eins og svo oft áður, til framtíðar Austurstrandarinnar
og íbúa hennar. Það hvarflar alltaf að mér, þegar ég er að
hugsa um þessi mál, að það ætti að gera allan þennan
landshluta að náttúruverndarsvæði. Þá á ég ekki eingöngu
við verndarsvæði fyrir dýr, sem eru e.t.v. í útrýmingarhættu,
heldur fyrir alla, sem eru erfiði og þunga hlaðnir. Þótt
loftið sé hreint og tært herna, vona ég, að mengun þess og
umhverfisins í iðnríkjunum verði aldrei svo mikil, að fólk
verði að flýja hingað hennar vegna. Það má aldrei gerast,
að slík skömm falli á okkur. Eitt veit þó enginn: Hversu
lengi við munum njóta lítt eða óspilltra svæða í Ölpunum í
Mið-Evrópu áður en verksmiðjur og orkuver spilla þeim líka.
Jafnvel þótt þessar hugrenningar kunni ða virðast
fjarstæðukenndar, verður stöðugt brýnna að vega og meta hvað
glatast, þegar eitthvað ávinnst þá stundina og hafa góða
yfirsýn. Þetta á ekki sízt við, þegar menn hafa uppgötvað
hina köldu tofra Grænlands.
Hver gæti hugsað sér að svipta burtu töfrum hinna djúpbláu
fjarða og drifhvítra borgarísjaka? Hve margir hafa hugmynd
um blómaskrúðið og órofakyrrðina við jökulröndina? Þar
heyrist aðeins væl í langvíu, ropi rjúpunnar eða garg
villigæsarinnar.
Það er heldur engu öðru líkt að sigla um hina afskekktu og
óbyggðu firði. Hvílík ró! Hvílíkir möguleikar fyrir
sportveiðimenn!
Möguleikarnir eru líka óteljandi fyrir göngufólk og
fjallgöngumenn. Alls staðar er ósnortið land, alls staðar
eitthvað nýtt að sjá. Handan sérhvers fjallstinds bíður
einatt eitthvað óvænt og spennandi.
Grænland verður tæpast ferðamannaland í þess orðs fyllstu
merkingu. Þangað sækja og munu sækja einstaklingar, sem eru
reiðubúnir að leggja á sig líkamlegt erfiði til að auðga sál
og líkama. Það verður heldur ekki auðvelt að opna landið
ferðamönnum í nánustu framtíð, til þess skortir svo margt.
Nú birtist Elsneer með kaffið.
Það, sem hjartanu er kærast, er tungunni tamast. Þannig var
mér farið og ég sagði Elsner frá hugmyndum mínum og
hugrenningum.
„Til að byrja með verður að reisa vistlega gististaði, án
alls óhófs, á útvöldum stöðum og síðan keðju skála fyrir
styttri og lengri ferðir”, bætti ég við.
„Hvar finnst þér, að ætti að reisa fyrstu gististaðina?”,
spurði Elsner eftir nokkra umhugsun.
„Ég sting upp á Ammassalikhéraði, Scoresbysundi og svæðinu
við fjörð Óskars konungs og alltaf sem næst jöklinum, því að
samkvæmt minni reynslu er veðurfar betra inni í fjörðunum en
á annesjum”.
„Ég verð að játa, að þú þekkir Austurströndina betur en ég”,
sagði Elsner og fékk sér aftur í bollann.
Svona lét ég dæluna ganga, því aðþetta var eitthvert
hugstæðasta áhugamálið mitt, sem ég var búinn að velta
endalaust fyrir mér. Elsner var þögull um stund og
hugleiddi það, sem ér hafði romsað upp úr mér, og sagði svo
að lokum:
„Þetta eru djarfar hugmyndir og mér finnst þær þess virði,
að farið verði eftir þeim. Þú ættir að koma þeim á framfæri
við formann Landsráðsins, Erling Högh í Nuuk. Hann annast
skipulag ferðamála.”
Elsner stóð á fætur.
„Nú verð ég að biðja þig að hafa mig afsakaðan um stund.
Það eru sjö mánuðir síðan við fengum síðast post og þvi eru
mörg mál, sem bíða úrlausnar. Ég vona, að þér falli vistin
hér að vetrarlagi og auðvitað verður þú gestur okkar á meðan
þú dvelst í Scoresbysundi.” Hann rétti mér höndina: „Hafðu
það eins og heima hjá þér. Sleðaferðin í dag var forsmekkur
þess, sem bíður þín á næstunni.”
Frá þessari stundu var ég sem einn af fjölskyldunni. Þegar
ég var ekki í veiðiferðum, fór ég í smáskíðaferðir um
nágrennið með átta ára syni þeirra hjóna og þegar gázki
hljóp í okkur, lékum við knattspyrnu allir þrír í djúpum
snjónum. Til þess notuðum við ekta leðurbolta, sem ég gaf
syninum í afmælisgjöf.
Ég kom sem ókunnur maður til Elsners og fjölskyldu hans en
tengdist henni svo sterkum vinaböndum, að við urðum að taka
af okkur gleraugun á skilnaðarstundinni tveimur mánuðum
síðar, því að þau fylltust af móðu.
Einn hápunkta Grænlandsferðar minnar eru þessir dásamlegu,
mannlegu sambönd, sem hnýttust af hjartahlýju og góðvild. |