Í upphafi vil ég gefa lesandanum kost á að kynnast
lítillega manninum, sem skrifaði þessa bók. Ég lít ekki mjög stórt á
mig. Þið getið svo sem sleppt því að lesa þessar fyrstu línur og
byrjað á aðalefninu. Þau ykkar, sem vilja kynnast þróun
Grænlandsáráttu minnar, ættu að staldra hér við. Strax í æsku las ég
frásagnir pólfaranna með miklu meiri áhuga en skemmtilegustu ævintýri.
Þau lóð, sem til þurfti í viðbót á vogarskálina, fékk ég í Noregi,
þegar ég var þar sem leiðsögumaður í fjalla- og skíðaferðum. Þar
kynntist ég pólförunum sjálfum og smitaðist af þeim. Ég veit ekki,
hvor það var, Trygve Gran, norski þátttakandinn í Scottleiðangrinum
1912 eða Ernst Sorge, þátttakandi í Grænlandsleiðangri Alfreds
Wegeners 1930-1931, sem réðu úrslitum. Líklega báðir. Þessum mönnum
kynntist ég á háfjöllum Noregs og batzt þeim tryggum vinaböndum.
Frásagnir þeirra heilluðu mig og þessir miklu könnuðir urðu
fyrirmyndir mínar.
Það eru víst engin ráð til gegn þessari áráttu og ég fór að undirbúa
mig til Grænlandsferðar, þótt ég vissi ekki, hvort ég kæmisti nokkurn
tíma þangað. Ég spennti hreindýr eða hunda fyrir pulkasleða og
ferðaðist þannig yfir norsku jöklana og væru engin dráttardýr tiltæk,
dró ég sleðann sjálfur. Ég lærði að byggja iglúsnjóhús. Í fyrstu las
ég mér til í byggingarlistinni, síðan byggði ég líkan úr plasti á
skrifborðinu mínu í norsku hótelherbergi og síðast úr raunverulegu
byggingarefni, snjó. Ég mun aldrei gleyma fyrstu nóttinni í snjóhúsi
í hvassviðri uppi við Harðangursjökul. Eftir einnar stundar strit
leit ég hreykinn býkúpulagað sköpunarverkið. Svo skreið ég inn og
lokaði á eftir mér með snjóköggli. Ég kveikti á kerti og festi það á
snjóhillu í höfuðhæð til að geta fylgzt með því, hvort súrefnið þryti.
Ég hélt mér vakandi við að mæla hitann og fylgjast með kertinu. Ég
vissi að loginn yrði daufari, ef súrefnið minnkaði. Það leið og beið
og ekkert gerðist.
Um miðnættið voru fætur mínir orðnir tilfinningarlausir af kulda. Ég
beygði mig niður til að losa reimarnar og valt umsvifalaust út af
meðvitundarlaus. Það er mér ráðgáta, hvernig ég gat gripið til
skóflunnar og borað henni í gegnum snjóvegginn. Þegar ég kom til
sjálfs mín á ný, lá ég á gólfinu og kalt og ferskt loft streymdi
gegnum gatið. Hvernig stóð eiginlega á þessu? Jú, koltvísýringurinn
er þyngri en andrúmsloftið og safnaðist því fyrir neðst í snjóhúsinu
og ég hafði beygt mig niður í þetta lag. Það sannaðist hér, að lífið
hangir oft á bláþræði.
Árin liðu og áhugi minn á Grænlandi dvínaði ekki. Ég var sendur með
háfjallaherfylki til Kákasus, særðist þar og var síðan sendur til
Afríku, þegar ég var gróinn sára minna. Þar var ég tekinn höndum og
fluttur sem stríðsfangi yfir hafið með Queen Mary. Í stað þess að
kynnast víðáttum Grænlands og fólkinu þar næstu þrjú árin, fékk ég
smjörþefinn af fangabúðalífi, gaddavír og varðturnum. Sem betur fer
er bara hægt að loka líkamann inni. Hugurinn getur eftir sem áður
ferðast óhindraður. Þessi þrjú ár vann ég á baðmullarekrum í
Nýja-Mexíkó og hlúði að Grænlandsdraumum mínum á meðan.
Það voru fleiri en ég, sem ólu sömu löngun í brjósti. Í Semriach, í
grennd við Graz, dreymdi Hans Gsellmann sömu drauma. hann var
þaulvanur skíðakennari og aðdáandi norðursins. Það lá því beint við,
að við leiddum saman hesta okkar. Við unnum saman að
ferðaundirbúningi í tvö ár áður en fyrsta Grænlandsleiðangri
Austurríska Alpaklúbbsins var hrundið af stokkunum 1957. Við leigðum
okkur katalínaflugbát í Reykjavík og flugum til innsta Alpafjarðarins
á austurströnd Grænlands. Þar, á 72°N, eyddum við sumrinu við
fjallgöngur. Aðalbúnaður okkar var tjald, ísaxir, skíði og fellibátur.
Aðalfæðan var maísgrautur, spik og mjölfæða. Eftirmatinn, ferskt þang,
sóttum við út á firðina. Við klifum 19 tinda, sem enginn hafði stigið
fæti áður. Þetta var dálítið djarfur leikur, því að við höfðum ekki
minnstu hugmynd um, hvernig við kæmumst til Meistaravíkur um haustið.
Þaðan var eina vonin að fá skipsferð heim. Þegar neyðin er stærst, er
hjálpin næst. Danski útgerðarmaðurinn, Knud Lauritzen, kom og sótti
okkur á snekkju sinni „Vippa Dan”, flutti okkur til Meistaravíkur og
leysti þann vanda.
Nú hafði Grænland náð tökum á mér svo um munaði. það er ekki ofsögum
sagt, að hver sá, sem ber ævintýraneista í brjósti og er ódeigur,
heillast af töfrum norðurhjarans, þegar hann kynnist honum af eigin
raun. það héldu okkur engin bönd og tveimur árum síðar stóðum við
aftur á grænlenzkri grund. Þessu sinni á Landi Kristjáns konungs IX.
Þar komumst við fyrst í snertingu við innfædda, þegar við réðum okkur
tvo Grænlendinga með hundasleða og héldum inn í land með allt okkar
hafurtask.
Dag nokkurn affermdu Grænlendingarnir sleðana í geysistórri jökuldæld
og ætluðu að snúa heim. Hvern fjárann voru þeir að gera hér uppi á
fjöllum, þar sem hvorki var hægt að veiða sel né fisk? Það var bezt
að Austríkismennirnir héldu áfram á eigin spýtur. Og við héldum áfram
með föggur okkar á einum sleða. áður höfðu þær verið á tveimur sleðum
með tuttugu hundum fyrir. Hansl lækkaði okkur í tign og gerði okkur
að dráttardýrum. Hann rétti hverjum okkar aktygi, sem voru bundin í
hálfs tonns þungan sleðann. Við lékum hlutverkið líka vel, því að
lítill munur var á hljóðunum og stimpingunum í okkur og hundunum,
þegar tekið var á. Þótt Grænlendingarnir tveir yfirgæfu okkur, tókst
þeim ekki að spilla góða skapinu og ásetningnum. Við drógum hlassið
u.þ.b. 200 km vegalengd og urðu þó á vegi okkar þverhníptir íshryggir
og jökulöldur.
Árið 1961 flaug ég með Dr. Kurt Rotter og konu hans til
Quamarujukfjarðar á vesturströnd Grænlands til að setja upp og afhjúpa
minnismerki frá háskólanum í Graz um Dr. Alfred Wegener. Við fórum
upp á jökul, fylgdum slóð hins nafntogaða Wegenerleiðangurs og fundum
tvö skrúfusleða hans, Snjótittlinginn og Ísbjörninn. Viðstaddir
afhjúpunina voru allir mætustu Danir í Umanakhéraði. Það staðfesti,
að nafn Wegeners lifði enn þá í hugum manna. Einkum gladdi það okkur,
að Detlef Frederiksen kom með síðasta eftirlifandi þátttakanda
leiðangursins frá Uvkussigssat. Hann var ekill á á hundasleða. Hann
og kona hans önnuðust vísindamennina í Vesturstöð og í Quamarujukfirði
veturinn 1930-1931. Detlev Frederiksen afhjúpaði blómum skreyttan
minnisvarðann og minntist Wegeners og leiðangursmanna fáum orðum.
Að þessari ferð lokinni liðu nokkur viðburðarlaus ár. þau notaði ég
m.a. til að semja frásagnir um Grænlandi í 50 þáttum, sem var útvarpað
um útvarpsstöðina í Graz við góðan róm. Það kom alloft fyrir, að fólk
ávarpaði mig ásökunarrómi á eftirfarandi hátt: „Ég kem of seint til
vinnu á hverjum morgni, því að ég vil ekki missa af erindi yðar.” Ég
færðist allur í aukana við þessi fyrstu viðbrögð og sat næstu tvö árin
á hverju kvöldi til kl. 1 eftir miðnætti við ritvélaina mína. Hver
blaðsíðan af annarri hafnaði í ruslafötunni, þar til ég varð ánægður
með útkomuna. Það, sem lifði þessa ströngu ritskoðun af, var
handritið að fyrstu Grænlandsbókinni „Fjöll og ís”, sem Keykam
forlagið í Graz gaf út 1965. Hún hlaut bærilega viðtökur í
þýzkumælandi löndum.
Árið 1967 varð ég að láta undan löngun minni og sigldi aleinn til
nyrztu byggðar Grænlands á austurströndinni, Scoresbysunds. Þessu
sinni vildi ég sérstaklega kynnast fólkinu í landinu, afkomendum
örfárra sálna (u.þ.b. 420), sem Daninn Gustaf Holm fann á þessum
slóðum árið 1884. Það er undarlegt til þess að hugsa, að á sama tíma
og vísindamenn gátu horft hundruð þúsunda ljósára út í geiminn og ótal
tækniundur blöstu við, lifði þetta fólk steinaldarlífi. Það þekkti
hvorki brons né járn, veiddi með áhöldum úr steini eða beinum og
sútaði skinn með keytu. Ég dvaldi vikum saman með beinum afkomendum
þessa fólks, sem býr við einn lengsta fjörð jarðar inni af
Scoresbysundi. Við veiddum seli við Suðurhöfða, lax í Þeyfirði og
skutum grágæs í Norðausturflóa. Þegar ég veiktist hastarlega af
ormasýktu ísbjarnarkjöti, var annast um mig af stakri alúð og þess
vandlega gætt, að ég ylti ekki útbyrðis, þegar ég færði Scoresbysundi
fórnir mínar. Þetta voru allt sumarferðalög og ég þekkti ekki hina
hliðina, Grænlandsvetur.
Nokkrum árum síðar varð ég fyrir alvarlegu áfalli. Konan mín, minn
tryggi og ástkæri lífsförunautur, veiktist af ólæknandi sjúkdómi, sem
dró hana hægt og kvalarfullt til dauða. Þar kom, að hún komst ekki
ferða sinna nema í hjólastól og ég ók henni daglega um spítalagarðinn.
Í trjánum kvökuðu lífsglaðir fuglar, skordýrin suðuðu og blóm og
runnar ilmuðu. Þrátt fyrir sumarhitann var henni alltaf kalt. Hún
hreyfði höfuðið þreytulega, eins og hún vildi segja: „Sjáðu, hve
heimurinn er fagur og brátt verð ég að hverfa héðan.” Tárin runnu
hægt niður föla vanga hennar og ég kyssti þau burtu, eins og ég hafði
svo oft ert áður. Ég reyndi að hugga hana, en vissi, að nærvera mín
var eina fróun hennar. Í huga mér gat ég ekki fallizt á þessi
ósanngjörnu örlög. Ég hefði getað æpt af sálarkvöl og hataði allt,
lífið og heiminn. Hvers vegna varð einmitt hún fyrir þessu? Hún, sem
hafði aldrei nema gott gert og rétt náunganum hjálparhönd, þegar þess
var þörf. Eftir margra mánaða erfiða baráttu slökknaði loks síðasti
lífsneisti augna hennar og tárin urðu ekki fleiri. Með aðstoð
hjúkrunarkonu bar ég hana úr líkhvelfingu spítalans um göng til
kirkjunnar handan götunnar. Göngin voru dauft lýst og saggalyktin og
rakt loftið gerðu mér erfitt um andardrátt. Við gengum fram á nokkra
múrara, sem voru þar að verki og horfðu berhöfðaðir og þögulir á eftir
okkur. Mér virtist þessi síðasta samleið okkar óendanlega löng.
Þegar við höfðum gengi frá henni í kirkjunni og lagt blóm við hendur
hennar, varð hugur minn eitt svartnætti. þetta var hinzta
kveðjustundin eftir allar ánægjustundirnar okkar saman.
Í þessu sálarmyrkri og tómi, sem mér fannst umlykja mig, leitaði ég
huggunar til Grænlands. Ekki þess Grænlands, sem ég þekkti, heldur
til vetrarmyrkurs, baráttunnar við kulda, ís og óblíð náttúruöfl. Ég
flaug í fyrsta skipti að vetrarlagi til Grænlands, alla leið til
Scoresbysunds, sem er einmanalegasta og afskekktasta byggðin á
austurströndinni, - og aftur aleinn. Skíðaflugvélin frá Flugfélagi
Íslands lenti á ísilögðum firðinum, skammt frá ströndinni.
Í sleðaferðum á heimskautanóttum og við selveiðar við ísjaðarinn
öðlaðist ég smám saman aftur sálarró og jafnvægi. Meðal þessa
einfalda og góða fólks tók ég gleði mína á ný. Þannig kynntist ég
þeirri hlið Grænlendinga, sem svo fáir Evrópubúar þekkja en reyna með
misjöfnum árangri að gera sér í hugarlund. Ég ók undir bragandi
norðurljósum yfir marrandi hjarn og lá á skinnum við hlið hinna
grænlenzku vina minna við flöktandi kertaljós í veiðikofum úr torfi og
grjóti. Var ég e.t.v. einungis að ögra forlögunum, sem mér fannst
hafa leikið mig svo grátt? Eitt er víst: Það er dýrlegt að losna
öðru hverju undan oki siðmenningarinnar og lifa einföldu og óbreyttu
lífi með hundasleða, nokkra skinnfeldi og heyra fulla potta af
selkjöti krauma.
Með fimm Grænlandsleiðangra að baki svara ég spuriningunni um það,
hvort mér falli Grænland betur að sumar- eða vetrarlagi, með orðum
Knud Rasmussen: „Má ég biðja um vetur, má ég biðja um hundasleða, -allt
hitt megið þið eiga.”
|