Austur Grænland,

KULUSUK AMMASSALIK-TASIILAQ    

AUSTUR GRÆNLAND
.

.

Utanríkisrnt.

Austur-Grænland er ísaldarveröld.  Það er erfitt að sjá úr lofti, hvar mörk sjárvar- og landíss eru.  Í kringum árið 900 sá Gunnbjörn Úlfsson til lands þar og það var nefnt  Gunnbjarnarsker.  Nálægt þrjátíu árum síðar reyndu aðrir Íslendingar að setjast þar að en það tókst ekki.  Íslenzkir annálar segja frá Austur-Grænlandsísnum og skipum, sem töpuðust þar.  Hafi einhver komizt á land á Austur-Grænlandi, eru engar frásagnir til af því.  Frobisher, Richardson, Hudson, Carolus og nokkrir aðrir land-könnuðir sáu til lands úr fjarlægð á 16. og 17. öld en enginn lenti þar fyrr en 1884.  Snemma á 19. öld höfðu Danir, búsettir í Suður-Grænlandi, fregnir af mannabyggðum langt í norðri.  Margir leiðangrar voru sendir til að kanna málið, en þeir fundu bara óbyggðir.  Hungursneyð litlu ísaldarinnar frá 1600 til 1900 hafði höggvið stór skörð í raðir inúítanna á Austurströndinni.  Loks tókst dönskum leiðangri undir stjórn Gustavs Holm að komast til Ammagssalik árið 1884 og finna 416 inúíta, sem voru á steinaldarstigi.  Þeir voru leifar kynþáttar, sem hafði fyrrum búið vítt og breitt um Austurströndina, allt frá Pearylandi í norðri suður að Hvarfi.  Tíu árum síðar kom Konunglega Grænlandsverzlunin sér fyrir í Angmagssalik en þá var íbúafjöldinn 352, forfeður hinna 3500 íbúa, sem búa nú á Austurströndinni í tveimur stórum og níu litlum þorpum.  Aðalatvinna íbúanna er dýra- og fiskveiðar.  Einu áreiðanlegu samgöngutækin eru flugvélar og þyrlur.

Menning inúíta teygist allt frá Síberíu til Austur-Grænlands.  Hvert svæði hefur sín sérkenni bæði efnis- og andleg.  Hin andlega menning hefur flutzt milli kynslóðanna með sögnum og þjóðsögum.  Samkvæmt frumtrúnni var landið byggt grimmum skepnum, sem var aðeins hægt að halda í skefjum með því að fylgja ákveðnum reglum og siðum.  Þessi boð og bönn lifðu sem munnleg arfleifð.  Handiðnaður nútíma Austur-Grænlendinga úr beinum, hval- og rostungstönnum sýnir ljóslega, að þessi arfleifð lifir enn þá, þrátt fyrir að kristnin hafi tekið við af gömlu trúnni.  Hinir hefðbundnu trommudansar, sem notaðir voru til að jafna deilur meðal íbúanna, eru framdir enn þá við sérstök tækifæri.  Grænlenzki þjóðbúningurinn með glerperlunum og skinnskreytingunum er nauðsynlegur við allar hefðbundnar athafnir.

Loftslagið.  Ammassalik er hér um bil á heimskautsbaugnum.  Samt er loftslagið eitthvert hið bezta í landinu.  Sumrin eru hlý og sólrík og veturnir tiltölulega mildir.  Vorin eru afarstutt og björt.  Þá er hægt að fylgjast með hinum snöggu umskiptum milli vetrar og sumars sem gera loftslag Grænlands alveg sérstakt.  Hver árstíð hefur sín veðurfræðilegu einkenni.  Veðrið getur verið milt og gott eða harðneskjulegt og vont.  Veður geta skipast skjótt í lofti án nokkurs fyrirvara, þannig að bezt er að vera við öllu búinn, þegar landið er heimsótt, jafnvel á sumrin.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM